Máltileinkun og tungumálakennsla

Laugardaginn 15. mars kl. 13.00-16.30 í stofu 69 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Undir merkjum RÍM – Rannsóknastofu í máltileinkun verður fjallað um máltileinkun og kennslu í tungumálum frá ýmsum hliðum. Fyrirlestrarnir fjalla m.a. um málnemana sjálfa og sjónum beint að sálfræðilegum þáttum tileinkunar, jafnt fræðikenningum um aðferðir í tungumálanámi sem og reynslu og upplifun málnemanna sjálfra af glímunni við tungumálið. Þá verður fjallað um kennsluhætti; kynntar nýjungar í kennsluaðferðum og rýnt í samskipti nemenda og kennara. Loks er þeirri spurningu velt upp hvort sú danska, sem Íslendingar læra hér, sé lykill að norrænu málsamfélagi.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Sigríður Þorvaldsdóttir og María Garðarsdóttir, aðjunktar í íslensku sem öðru máli: Fall eða setningarstaða? Þróun fallaúthlutunar í máltileinkun
  • Guðrún Theodórsdóttir, lektor í íslensku sem öðru máli: Fráblástur í íslensku; Endurskoðun á aðblæstri, afröddun og fráblæstri í framburðarkennslu
  • Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Not margmiðlunarefnis við tileinkun orðaforða og lesskilnings
  • Þóra Björk Hjartardóttir, dósent í íslensku sem öðru máli: Litið um öxl: Fyrstu kynni danskra innflytjenda af íslensku
  • Pernille Folkmann, lektor í dönskum málvísindum: Er dansk nøglen til det nordiske sprogfællesskab??
  • Ásta Ingibjartsdóttir, aðjunkt í frönsku: Leiklist í tungumálanámi og nýjar leiðir í samskiptum nemenda og kennara

Málstofustjóri: Daisy Neijmann, aðjunkt í íslensku sem öðru máli

Útdrættir:

Sigríður Þorvaldsdóttir og María Garðarsdóttir, aðjunktar í íslensku sem öðru máli: Fall eða setningarstaða? Þróun fallaúthlutunar í máltileinkun

Í nýlegum rannsóknum á þróun fallaúthlutunar í máltileinkun er gert ráð fyrir því að málnemar reiði sig á stöðu liðanna í setningunni í byrjun máltileinkunar til að tjá hver geri hvað við hvern í setningunni. Með því er átt við að málnemar túlki alla liði fremst í setningu sem frumlag sem fær nefnifall og liði sem standa á eftir sögn sem „ekki-frumlag“ sem fær „ekki-nefnifall“. Síðar fara málnemar að tengja málfræðihlutverk við setningastöðuna og geta þá komið auga á og merkt frumlög og andlög sem eru ekki á sínum hlutlausa stað í setningunni. Í fyrirlestrinum verður sagt frá niðurstöðum rannsóknar okkar á þróun fallaúthlutunar hjá málnemum í íslensku sem öðru máli og þær ræddar í ljósi erlendra rannsókna.

Guðrún Theodórsdóttir, lektor í annarsmálsfræðum við íslensku- og menningardeild: Fráblástur í íslensku: Endurskoðun á afröddun, aðblæstri og fráblæstri

Í hefðbundinni hljóðfræði íslensku er sagt frá fyrirbærum eins og afröddun, aðblæstri og fráblæstri og þau talin vera ólík. Afröddun verður á samhljóðum þegar þau standa á undan p, t, k og s í orðum eins og vanta, oft og bjartur. Gert er ráð fyrir hljóðapörum þar sem annað hljóðið er raddað en hitt óraddað: v/f, n/hn, l/hl, r/hr, þ/ð, o.fl.

Aðblástur verður á undan –kk, -pp, -tt í orðum eins og ekki, uppi og þetta og á undan –tn, -kn, -pn í orðum eins og teikna og opna og loks á undan -tl, -kl, -pl í orðum eins og Hekla og epli.

Fráblástur verður á k-, p-, og t- í upphafi orða: kaka, pabbi, taka.

Í fyrirlestrinum verður sýnt fram á að hægt er að einfalda þessa lýsingu; öllum þessum fyrirbærum er hægt að lýsa sem fráblæstri sem einfaldar framburðarkennslu fyrir erlenda stúdenta. Þannig yrði gert ráð fyrir að sérhljóð séu fráblásin á undan –pp, -tt, og –kk: ah, oh, ih o.s.frv., að í staðinn fyrir að lýsa pörunum n/hn, l/hl og r/hr sem rödduðu og órödduðu hljóði að nota  aðgreininguna ófráblásið og fráblásið. 

Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Not margmiðlunarefnis í tileinkun orðaforða og lesskilnings

Orðaforði og lesskilningur eru meðal grundvallarþátta í tileinkun annars máls. Margmiðlunarefni býður upp á ómæld tækifæri til tungumálakennslu og -náms og nýtur netstudd kennsla (CALL) víða vaxandi fylgis. En hvernig bera málnemar sig að í námi á netinu? Mörgum spurningum er ósvarað um atferli nemanna; hvernig þeir nálgast texta og hvaða aðferðum þeir beita við að þróa lesfærni og kunnáttu í orðaforða. 

Í erindinu verður fjallað um rannsókn á nemum í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands sem nota vefnámskeiðið Icelandic Online við tileinkun orðaforða og lesskilnings. Rætt verður um það hvernig þeir nýta þennan miðil, námsaðferðir og viðhorf þeirra til slíks námsumhverfis. Niðurstöðurnar sýna m.a. fram á kosti margmiðlunar í íslenskunámi og að málnemarnir nota innbyggða stuðningsmiðla á annan hátt en spáð hafði verið.

Þóra Björk Hjartardóttir, dósent í íslensku sem öðru máli: Litið um öxl: Fyrstu kynni danskra innflytjenda af íslensku

Hvati, kennsla og tækifæri til tjáningar eru þættir sem taldir eru vega þungt við tileinkun nýs máls á fullorðinsárum.  Hvernig horfir þetta við innflytjendum  þegar þeir líta til baka löngu liðna tíð til frumbýlingsára sinna á Íslandi? Reynsla gamalla Dana eins og hún er í minningunni eftir hálfrar aldar búsetu hér á landi verður skoðuð í þessu ljósi út frá ummælum þeirra um máltileinkun sína á íslensku og þær aðferðir sem þeir beittu í glímunni við að ná tökum á málinu.

Pernille Folkmann, lektor í dönskum málvísindum: Er dansk nøglen til det nordiske sprogfællesskab?

Dansk undervises som fremmedsprog i de islandske folkeskoler og gymnasier, og i læreplanen for dansk i gymnasiet står:
"Dönskukunnátta er lykill að Norðurlöndum fyrir Íslendinga. Þeir sem lært hafa dönsku eiga tiltölulega auðvelt með að tileinka sér norsku eða sænsku" (Aðalnámskrá framhaldsskóla : erlend tungumál 1999, s. 43)
Her står det klart og tydeligt at danskundervisningen i Island opfattes som nøglen til det nordiske sprogfællesskab, men hvilke oplevelser har de islændinge der flytter til Norge eller Sverige for at arbejde eller studere, når de skal begå sig på norsk eller svensk?
I oplægget vil der være fokus på islændinges oplevelser af mødet mellem dansk på den ene side og sprogene svensk og norsk på den anden side. Jeg vil præsentere tidligere forskning i forståelse af de nordiske sprog dansk, svensk og norsk i Norden og give mit bud på hvilke spørgsmål der er relevante at besvare.

Ásta Ingibjartsdóttir, aðjunkt í frönsku: Leiklist í tungumálanámi og nýjar leiðir í samskiptum nemenda og kennara. Persónur og leikendur.

Á hverju byggja samskipti á milli kennara og nemanda í kennslustofu? Hver eru hlutverk hvers og eins í því ferli sem máltileinkun er? Hvert er samband nemandans og viðfangsefnis hans: markmálið? Í þessum fyrirlestri mun ég beina athyglinni að því umhverfi sem kennslustofan er og þeim aðalpersónum sem taka þátt í kennslustundinni. Í stefnu Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda er lögð áhersla á fjölbreytta kennsluhætti. Leiklist og leiklistartækni hafa lengi verið notuð í tungumálakennslu. Frönsk fræði bjóða upp á námskeið sem nefnist leiklist og hefur að markmiði að auka færni/tjáskipti á erlenda tungumálinu. Ég mun lýsa þessu námskeiði og markmiðum þess, reynslu minni sem leiðbeinanda, sem og reynslu nemenda sem hafa tekið þátt í námskeiðinu.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is