Mannslíkaminn

Laugardaginn 15. mars kl. 15.00-16.30 í stofu 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Líkaminn hefur löngum verið okkur hugleikinn á marga vegu. Við ýmist upphefjum hann eða fordæmum, streitumst við að fullkomna eigin líkama, bölvum þörfum hans og erum upptekin af því sem fer ofan í hann og utan á hann. Mannslíkaminn hefur í senn verið meðhöndlaður sem illnauðsynlegt hylki utan um sálina, sem eitthvað sem við skömmumst okkar fyrir, sem verkfæri listrænnar tjáningar og viðfang aðdáunar. Í þessari málstofu verður mannslíkaminn tekinn fyrir og birtingarmyndir hans, þarfir, hugmyndir um líkamann og önnur þau málefni sem hann varða.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Björn Þór Vilhjálmsson, aðjunkt í almennri bókmenntafræði: „Sjúkleg vergirni eða bara eðlileg kynhvöt? Af sálgreiningu, nútíma og Straumrofi Halldórs Laxness
  • Alda Björk Valdimarsdóttir, aðjunkt í almennri bókmenntafræði: Líkami Jane Austen
  • Anna Jóhannsdóttir, stundakennari í listfræði: Staðinn að verki. Snertifletir málverksins

Málstofustjóri: Kjartan Már Ómarsson, MA-nemi í almennri bókmenntafræði og aðstoðarkennari.

Útdrættir:

Björn Þór Vilhjálmssonaðjunkt í almennri bókmenntafræði: „Sjúkleg vergirni“ eða bara eðlileg kynhvöt? Af sálgreiningu, nútíma og Straumrofi Halldórs Laxness

Lítt hefur verið fjallað um leikrit Halldórs Laxness í fræðilegri umræðu en jafnvel í því ljósi verður fyrsta leikverk hans, Straumrof, sem frumsýnt var 1934 af Leikfélagi Reykjavíkur, að teljast hornreka. Þegar hugað er að samtímaviðtökunum blasir hins vegar við önnur mynd og auðvelt er að ímynda sér að leikhúsáhugamanni í Reykjavík á fjórða áratugnum kæmi á óvart að heyra að verkið yrði síðar umvafið eins konar þagnarhjúpi, því hart var tekist á um það á sínum tíma, og vakti leikritið hneykslan. Kemur þar til ósiðleg kynferðishegðun aðalpersónu verksins, Gæu Kaldan. Gagnrýnendur settu líkama hennar og „stjórnlausa“ kynhvöt í forgrunn og læknisfræðileg orðræða sem snerist um „kvennasjúkdóma“ á borð við vergirni og móðursýki var notuð til að fella siðferðisdóma um verkið og persónur þess. Í erindinu verður hugað að þessum viðtökum, þeim menningarsögulega bakgrunni og menningarlegu orðræðu sem skilgreindi kynhvöt kvenna sem „ónáttúrulega“ og að lokum hvað það er í verki Halldórs sem kallaði fram þessi viðbrögð.

Alda Björk Valdimarsdóttiraðjunkt í almennri bókmenntafræði: Líkami Jane Austen

Grosvenor Myer byrjar ævisögu sína um Jane Austen á kaflanum „Hvernig leit hún út?“ Umræða um útlit skáldkonunnar Jane Austen hefur verið fyrirferðarmikil í ævisögum um hana, í fjölmiðlum og á netinu og sumir telja að hún hljóti að hafa verið ófríð vegna þess að hún giftist aldrei. Þá er útlit hennar lesið í samhengi við skáldskaparstíl hennar og íróníska meðhöndlun á persónum sínum. Umræðan vekur óneitanlega upp spurningar um stöðu listarinnar í ímyndarsamfélögum nútímans. Skiptir útlit rithöfunda t.d. máli þegar breyta á hugverkum þeirra í söluvöru? Er hægt að draga ályktanir um stílbrögð, hamingju, lífshlaup og persónuleika með því að rýna í líkamann.

Anna Jóhannsdóttirstundakennari í listfræði: Staðinn að verki. Snertifletir málverksins

Listfræðileg umræða hefur á síðustu áratugum beinst að endurmati á fortíðinni – á listasögunni og hefðarveldinu. Rannsóknir listfræðinga hafa af þeim sökum hverfst um greiningu og túlkun á forsendum samtímans en jafnframt er grafist fyrir um félagssögulegt samhengi fortíðar og vanrækta, gleymda eða bælda merkingarþætti. Í þessu erindi er þess freistað að skoða og rekja saman þræði í fræðiskrifum sem fela í sér slíkt endurmat í tengslum við tæknilega útfærslu í málverki, og þá einkum í landslags- og náttúrutengdum verkum er kennd hafa verið við módernisma. Vikið verður að umræðu nokkurra höfunda sem fjallað hafa um sjónarhorn viðtakandans og mögulegar leiðir hans að málverkinu sem athafnasvæði í tíma og rúmi. Allir hafa þeir einnig að leiðarljósi hugmyndir um samspil líkama og hugar, og hvernig reynsla og skilningur á heiminum mótast í senn af huglægri skynjun og af skynrænum viðbrögðum og hreyfingu líkamans í afstöðu við umhverfið. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is