Margt smátt ...: Rannsóknir á jöðrum smásögunnar

 

Í málstofunni verða kannaðir snertifletir smásögunnar við aðrar skyldar bókmenntagreinar, svo sem örsögur, þjóðsögur, nóvellur og skáldsögur. Rúnar Helgi Vignisson fjallar um breytileg birtingarform smásagna, meðal annars í dagblöðum og safnritum, Ástráður Eysteinsson ræðir um sagnaheim Franz Kafka, Kristín Guðrún Jónsdóttir varpar ljósi á bókmenntahugtökin örsaga, smáprósi og prósaljóð og Jón Karl Helgason kannar tengsl Sögu Ólafs Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal við íslenska þjóðsagnahefð.

Málstofustjóri: Jón Karl Helgason

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Föstudagur 11. mars kl. 15.15-17.15 (stofa 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Rúnar Helgi Vignisson dósent: Félagslíf smásögunnar
  • Ástráður Eysteinsson prófessor: Frásagnarleit. Stór brot og smá í sagnaveröld Franz Kafka
  • Kristín Guðrún Jónsdóttir lektor: Örsagan og skyldmenni hennar. Vangaveltur um hugtakanotkun og skilgreiningar
  • Jón Karl Helgason prófessor: Listasmiðurinn Eiríkur Laxdal. Frásagnarrammar og þjóðsögur í Sögu Ólafs Þórhallasonar
Útdrættir:

Rúnar Helgi Vignisson dósent: Félagslíf smásögunnar

Smásagan er að því leyti sérstök að hún birtist sjaldnast ein og sér heldur er hún í slagtogi við aðra texta, stundum aðrar smásögur, stundum efni af ýmsu tagi, hvort sem er í blöðum, tímaritum eða safnritum. Hvaða áhrif hefur þetta á upplifun lesandans af smásögum? Draga þær dám af sínum sessunaut? Hér verður fjallað um þetta félagslíf smásögunnar með hliðsjón af safnriti um erlendar smásögur sem fyrirlesari tekur þátt í að ritstýra. Rædd verða ýmis álitamál sem komu upp við val á sögum í ritið, s.s. hvað varðar fjölbreytni sagna, aldur þeirra, uppruna höfunda og hefðarveldi bókmenntanna. Í leiðinni verður sjónum beint að eðli safnrita almennt.

Ástráður Eysteinsson prófessor: Frásagnarleit. Stór brot og smá í sagnaveröld Franz Kafka

Sagnalist Kafka birtist í ótal myndum: í hinni fægðu smáeiningu kjarnyrðanna – sem samt eru full af leik og undanbrögðum – í örsögum hans, smásögum og nóvellum, allt til skáldsagnanna sem aldrei var lokið við og eru í einhverjum skilningi vonlausar stærðir. Ýmis frásagnarbrot má einnig sjá í dagbókum höfundarins. Fjallað verður um víddirnar í þessum heimi og vöngum velt yfir þeirri leit að frásögn sem þar má finna, sem er jöfnum höndum leit með frásögn.

Kristín Guðrún Jónsdóttir lektor: Örsagan og skyldmenni hennar. Vangaveltur um hugtakanotkun og skilgreiningar

Þegar hugtök sem hafa verið notuð fyrir stutta prósa á íslensku (örsaga, smáprósi, prósaljóð) eru skoðuð kemur fljótlega í ljós að notkun þeirra hefur verið nokkuð á reiki. Í erindinu verður sjónum beint að þessum hugtökum og hvað býr að baki þeim. Auk þess verður skoðað hvaða hugtök hafa verið notuð í öðrum heimshlutum fyrir örstutta texta, svo sem löndum Rómönsku Ameríku þar sem örsagnaformið á sér langa sögu, en einnig verður litið til engilsaxneskrar hefðar.

Jón Karl Helgason prófessor: Listasmiðurinn Eiríkur Laxdal. Frásagnarrammar og þjóðsögur í Sögu Ólafs Þórhallasonar

Þjóðsagan „Selmatseljan“, sem birtist í þjóðsagansafni Jóns Árnasonar árið 1862, er sannkölluð rammafrásögn: Ein þjóðsaga er þar greipt inn í aðra með þeim hætti að þjóðsagnagerð og sagnaflutningur verða höfuðviðfangsefni textans. Í fyrirlestrinum verður kannað að hvaða marki þessi saga byggir á tilteknum kafla í Sögu Ólafs Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal (1743–1816). Um er að ræða tímamótaverk í íslenskri bókmenntasögu sem varðveittist lengi aðeins í frumriti höfundar og tveimur afritum og kom ekki fyrir almenningssjónir fyrr en árið 1987, í útgáfu Þorsteins Antonssonar og Maríu Önnu Þorsteinsdóttur. Í verki Eiríks má finna einhvers konar frumdrög „Selmatseljunnar“, magnaða frásögn þar sem sögð er saga inni í sögu inni í sögu. Dæmið sem hér um ræðir varpar skýru ljósi á listræn tök Eiríks á því flókna frásagnarformi sem hann velur sögu sinni.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is