Menningarvegir heims

Föstudagur 25. mars kl. 15.00-16.30 í stofu 218 í Aðalbyggingu Háskólans

Þessi málstofa skoðar miðlunarþræði bókmenntanna frá ýmsum sjónarhornum. Hugsunin er að varpa ljósi á hvernig veruleika heims og bóka er miðlað í nýjum textum og hvernig sú miðlun brýtur stundum nýja vegi. Dæmin koma víðs vegar að og gera áheyrendum vonandi kleift að búa sér til ný kort af heiminum eða fara á kunnuga staði og kynnast þeim að nýju á nýjan hátt. Samtímis hinu víða sjónarhorni heimsins er augað einnig á eyjum, þremur í Norður-Atlantshafi, Hjaltlandi, Færeyjum og vitanlega Íslandi. Það eru ekki síst eyjaskeggjar sem þurfa sífellt á nýjum menningarvegum að halda.

Málstofustjóri:

Fyrirlesarar:

  • Rúnar Helgi Vignisson, lektor í ritlist: Það sem sannara reynist – Matreiðsla á sannsögulegu efni
  • Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, rithöfundur: Málamiðlun á ljóðaslóð
  • Gauti Kristmannsson, dósent í þýðingafræði: Miðlun heimsins bókmennta: er hún upprunnin á Íslandi?

 

Útdrættir:

 

Rúnar Helgi Vignisson, lektor í ritlist
Það sem sannara reynist – Matreiðsla á sannsögulegu efni

Hvernig miðlar maður sannleikanum í rituðu máli og heldur lesandanum um leið við efnið? Í leit sinni að svari mun Rúnar Helgi m.a. leggja út af bókunum Færeyskur dansur eftir Huldar Breiðfjörð og Mynd af Ragnari í Smára eftir Jón Karl Helgason. Báðir fara höfundarnir í ferðalag með lesandann og í báðum tilfellum er óljóst hvort eða að hve miklu leyti ferðin var farin. Spurt verður hve mikið skáldaleyfi höfundur getur tekið sér, hvar mörk lífs og listar liggja og hvað sannara reynist þegar upp er staðið.

 

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, rithöfundur
Málamiðlun á ljóðaslóð

Stundum er því haldið fram að það sé nánast ógjörningur að miðla bókmenntum, ekki síst ljóðum, óbrengluðum af einu tungumáli á annað. Í erindi sínu fjallar Aðalsteinn Ásberg um þessi alkunnu vandkvæði og leggur til grundvallar þýðingar sínar á ljóðum úr hjaltlensku. Undir yfirborði textans leynast margir ósýnilegir þræðir sem tengja saman tungumál og hugsun.

 

Gauti Kristmannsson, dósent í þýðingafræði
Miðlun heimsins bókmennta: er hún upprunnin á Íslandi?

Hugmyndin um heimsbókmenntir er oft talin vera komin frá þýska skáldinu Goethe, en í þessu erindi verða borin fram ný sönnunargögn þar sem fram kemur að svo er alls ekki og raunar tengist hugmyndin sterklega íslenskum bókmenntum. Hér verður farið yfir heimsbókmenntahugtakið, meinta tilurð þess og raunverulega.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is