Menntun og skemmtun: Sagnadansar, rímur og ævintýri

 

Í málstofunni verður fengist við alþýðlegar bókmenntir og kveðskap frá síðmiðöldum og fram á síðari aldir, einkum sagnadansa, rímur og ævintýrasögur. Að auki verður fjallað um ævintýri úr munnlegri geymd, söfnun þeirra og útgáfu. Að lokum verður rætt um gagnagrunn sem nær yfir rúmlega 550 útgefin ævintýri. Gagnagrunninum verður lýst og greint verður frá tilurð hans og tilgangi, auk þess sem aðgangur að honum verður formlega opnaður. 

 

 

Málstofustjóri: Aðalheiður Guðmundsdóttir   

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Föstudagur 11. mars kl. 15.15-17.15 (stofa 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Ingibjörg Eyþórsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Hvað syrgir þig sætan mín? Sagnadansar, ást og ofbeldi
  • Teresa Dröfn Njarðvík, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Úr dæmisögu yfir í ævintýri – þróun og tilfærsla Gorms sögu gamla
  • Romina Werth, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Sögukarl og sögukerling? Um aldur sagnamanna við söfnun þjóðsagna og ævintýra á Íslandi
  • Aðalheiður Guðmundsdóttir, dósent í íslenskum bókmenntum fyrri alda: Opinn aðgangur að kóngshöll og koti: Gagnagrunnur um íslensk ævintýri

Fundarstjóri: Guðrún Ingólfsdóttir íslenskufræðingur

​Útdrættir:

Ingibjörg Eyþórsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Hvað syrgir þig sætan mín? Sagnadansar, ást og ofbeldi

Sagnadansar voru sungnir og dansaðir á Íslandi frá því á miðöldum og fram á 18. öld. Þeir voru fyrirferðarmiklir um öll Norðurlönd og oft voru sömu kvæðin sungin. Þó er nokkur munur á efnisvali á milli landa, og athyglisvert er að skoða þennan mun. Í Færeyjum voru mjög löng kappakvæði vinsælust, en hér var sambærilegum efnivið gerð skil í rímum. Þeir sagnadansar sem varðveittust hér á landi segja langflestir frá riddurum og frúm, ástum þeirra og hjúskaparraunum, en furðuoft er einhvers konar kynferðislegt ofbeldi og nauðung hluti af sögunni. Í fyrirlestrinum verður einkum lögð áhersla á sagnadansa um ástir og ofbeldi og þeir skoðaðir út frá ýmsum sjónarhornum.

Teresa Dröfn Njarðvík, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Úr dæmisögu yfir í ævintýri – þróun og tilfærsla Gorms sögu gamla

Gorms saga gamla, einnig nefnd Þorkels saga aðalfara, er varðveitt í alls tíu íslenskum handritum frá 17. öld og síðar. Sagan var einnig þekkt á miðöldum í Gesta Danorum, riti Saxa málspaka frá 12. öld, en tilfærsla sögunnar frá Danmörku til Íslands virðist háð siðbreytingunni árið 1550. Frásögn Saxa var fyrst þýdd yfir á íslensku á 17. öld og er varðveitt í þremur gerðum. A-gerð samanstendur af þremur textavitnum, sem öll eru að vísu sjálfstæðar þýðingar á frásögninni, en fylgja engu að síður frumheimild sinni dyggilega auk þess sem þau nafngreina Saxa málspaka sem heimildarmann. B-gerð textans, sem er jafnframt sú elsta sem varðveitt er í íslenskum handritum, fylgir A-gerðinni náið en skrifari hefur þó aukið lítillega við textann. A- og B-gerðir sagnanna einkennast af miklum lærdómi, þar sem boðskapur sögunnar er í fyrirrúmi. Að lokum er það C-gerð, sem hefur einangrast sýnilega frá frásögn Saxa og líkist mun fremur ævintýrasögu, þar sem skemmtanagildi hennar vegur þyngra en boðskapur og lærdómur er ekki jafn áberandi. Sagnagerðirnar virðast hafa þróast í takt við samfélagslegar breytingar sem hafa knúið áfram yfirfærslu þeirra úr rými lærðra skrifara, sem lögðu ríka áherslu á kristilegan lærdóm, yfir í rými alþýðlegra skrifara, sem lögðu áhersluþungann á sagnaskemmtunina.

Romina Werth, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Sögukarl og sögukerling? Um aldur sagnamanna við söfnun þjóðsagna og ævintýra á Íslandi

Fyrirlesturinn mun greina frá einni af meginhugmyndum í þjóðsagnafræði sem gengur út á að yfirleitt hafi gamalt, fátækt og ómenntað alþýðufólk sagt þjóðsögur og ævintýri; það efni sem síðan var safnað og gefið út í þjóðsagnasöfnum í Evrópu og víðar. Rót hugmyndarinnar má reka til þýsku bræðranna Jakobs og Wilhelms Grimm sem settu fram fyrirmyndardæmi um sagnaþul sem þekkt var undir heitinu „Märchenfrau“ og lýsir gamalli og ólæsri sagnakonu sem segir börnum ævintýri. Á teikningum birtist hún oft alvarleg á svip og með uppréttan vísifingur, eins og til að benda á mikilvægi siðferðislegs boðskaps í sögunum. Þessi hugmynd hefur lifað góðu lífi meðal fræðimanna síðan þá og ekki síst á Íslandi. Einar Ól. Sveinsson taldi m.a. að sagnafólkið hafi yfirleitt verið gamalt, þar sem orðin sögukarl og sögukerling væru alkunnug í íslensku máli. Þegar aldur heimildarmanna við þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri, verður kannað kemur þó í ljós að stór hluti þess sagnafólks sem lagði sögur sínar til safnsins hefur verið ungt að árum. Niðurstöðurnar tengjast fyrst og fremst söfnunaraðferðum samstarfsmanna Jóns Árnasonar en standa þar að auki í nánu sambandi við sívaxandi skriftarkunnáttu barna og unglinga um miðbik 19. aldar á Íslandi.

Aðalheiður Guðmundsdóttir, dósent í íslenskum bókmenntum fyrri alda: Opinn aðgangur að kóngshöll og koti: Gagnagrunnur um íslensk ævintýri

Ævintýri eru þjóðsögur sem hafa gengið í munnmælum þjóða og manna á milli um langa hríð, kynslóð fram af kynslóð, og lagað sig að hverju samfélagi fyrir sig, bæði í tíma og rúmi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um íslensk ævintýri, helstu einkenni þeirra og þær rannsóknir sem unnar hafa verið á ævintýrum síðastliðin ár. Þá verður fjallað um nemendaverkefni, þar sem nemendur við Háskóla Íslands tóku þátt í að byggja upp gagnagrunn, þar sem finna má ítarlegar upplýsingar um öll íslensk ævintýri sem gefin hafa verið út, u.þ.b. 550 talsins. Gagngagrunnur ævintýra hefur nú að hluta til verið sameinaður gagnagrunni yfir íslenskar sagnir, sagnagrunnur.com, og við lok fyrirlestursins verður hann opnaður almenningi, og notkunarmöguleikar hans sýndir. Gagnagrunnurinn kemur til með að nýtast kennurum, fræðimönnum og öðrum áhugamönnum um íslenska sagnamenningu.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is