Laugardagur 10. mars kl. 15-16.30
Stofa 231 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Í málstofunni verður fjallað um menningarlega úrvinnslu á trámatískri fortíð eins og hún birtist í bókmenntatextum af ýmsu tagi. Litið verður til þeirra aðferða sem rithöfundar og/eða þeir sem lifað hafa af hörmungar beita til að koma til skila fortíðinni, og kannað hver þáttur minnis og gleymsku er í slíkum textum.
Fyrirlesarar:
- Gunnþórunn Guðmundsdóttir dósent og Daisy Neijmann, stundakennari og rannsakandi hjá Eddu-öndvegissetri: Skrif, minni, tráma
- Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Listaháskóla Íslands: Bergmál: meðvitaðar og ómeðvitaðar minningar í íslenskri samtímaljósmyndun
- Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku: Mundu mig og ég man þig
Málstofustjóri: Gunnar T. Eggertsson, doktorsnemi
Útdrættir:
Gunnþórunn Guðmundsdóttir dósent í bókmenntafræði og Daisy Neijmann rannsakandi hjá Eddu-öndvegissetri
Skrif, minni, tráma
Í trámafræðum er oft rætt um hver hafi rétt á að fjalla um tráma og hvernig mögulegt sé að tjá það í frásögn og texta. Því hefur verið haldið fram að eðli tráma felist einmitt í því að það er handan skilnings og hefðbundinnar frásagnar. Í þessum fyrirlestri verða skoðuð sérstaklega tengsl tráma og skrifa, erfiðleikarnir við tjáningu trámatískra atburða úr fortíð og trámatískra minninga í texta. Hér verður skoðað hvert hlutverk skáldskaparins getur verið í þessum efnum og kannað hvernig trámatískar minningar birtast í Snöru Jakobínu Sigurðardóttur.
Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Listaháskóla Íslands
Bergmál: meðvitaðar og ómeðvitaðar minningar í íslenskri samtímaljósmyndun
Í ljósmyndum skarast víddir tímans, hið liðna mætir líðandi stund og rennur saman við hana, horfin augnablik eru endurvakin og öðlast nýja merkingu. Verk samtímaljósmyndara fjalla enda oft á tíðum um möguleika og ómöguleika þess að endurheimta hið liðna, varðveita minningar og gefa horfnum stundum þess kost á að endurfæðast.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um hvernig íslenskir og erlendir samtímaljósmyndarar hafa unnið minningar og ómarkvissar upplifanir úr fortíðinni í verkum sínum. Verk þeirra Charlottu Maríu Hauksdóttur og Sonju Thomsen munu í þessu samhengi fá nokkra athygli en sýning á verkum þeirra opnaði í Ljósmyndasafni Reykavíkur í janúar síðastliðnum. Í fyrirlestrinum verður notast við kenningar og hugmyndir sem sóttar eru til fræðimanna á borð við Paul Ricoeur, Cathy Caruth og Roland Barthes.
Rebekka Þráinsdóttir aðjunkt í rússnesku
Mundu mig og ég man þig
Í tregaljóði frá 1816 segir rússneska ljóðskáldið Konstantín Batjúshkov eitthvað á leið að minni hjartans sé öflugra hinu raunalega minni skynseminnar. Í erindinu verður rýnt í merkingu þessa og spurt hvort og hvernig hjarta og skynsemi takast á þegar kemur að minni. Í þessu sambandi verður litið til verka fjögurra ólíkra rússneskra kvenna; Önnu Akhmatovu, Marínu Tsvetajevu, Ljúdmílu Petrúshevskjau og Ljúdmílu Úlitskaju og skoðað hvernig þetta birtist í einstökum verkum þeirra í tengslum við minni og gleymsku einstaklings og þjóðar.