Minningar: Af kreppum og uppgjöri við fortíðina

Föstudaginn 14. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 225 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Rannsóknastofa í minni og bókmenntum við Háskóla Íslands stendur fyrir málstofu sem mun fjalla um tengsl umdeildrar fortíðar og deiluefna í samtímanum, meðal annars hvernig slíkt getur birst í bókmenntum og á ýmsum öðrum vettvangi. Skoðað verður hvernig uppgjör við liðna tíma getur skotið upp kollinum á ólíkum tímum í ólíkum löndum. Kreppur af ýmsum toga, efnahagslegar og pólitískar, geta kallað fram í þjóðarvitundinni fyrri kreppur og átök og kannað verður hvernig draugar úr óuppgerðri fortíð hafa áhrif á minni þjóðar og sjálfsskilning. Þá verður litið til líkinga og þáttar þeirra í orðræðunni um langvinn deiluefni.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi í íslensku: „Það þarf samskonar neista til þess að vera betlari og listamaður“ eða „hvernig væri að liðið fengi sér vinnu“: Af betlara Halldórs Stefánssonar og fáeinum „afætum“
  • Irma Erlingsdóttir, dósent í frönskum samtímabókmenntum: Vofur í pólitík: Saga, minni og Sihanouk prins
  • Gunnþórunn Guðmundsdóttir, dósent í almennri bókmenntafræði: Minnismerki og kreppur: Svarta keilan og minnisvandinn

Málstofustjóri: Svavar Steinarr Guðmundsson, bókmenntafræðingur og verkefnisstjóri

Útdrættir:

Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi í íslensku: „Það þarf samskonar neista til þess að vera betlari og listamaður“ eða „hvernig væri að liðið fengi sér vinnu“: Af betlara Halldórs Stefánssonar og fáeinum „afætum“

Fyrir skömmu var listamannalaunum úthlutað, eins og gert hefur verið reglulega um áratugaskeið. Sem fyrr mátti greina óánægjukurr frá hópi fólks, en að þessu sinni barst kurrið ekki síst úr athugasemdakerfum vefmiðla. Umræðan var ekki alltaf málefnaleg, þar sem listamönnum var jafnvel líkt við afætur og betlara. Í fyrirlestrinum verður gerð tilraun til að greina umræðuna, til dæmis með tilliti til líkinga. Þá verður vikið að smásögunni „Betlarinn“ eftir Halldór Stefánsson, sem kom út í miðri kreppu árið 1935. Í sögunni eru dregnar upp ýmsar hliðstæður með listamanninum og betlaranum, sem forvitnilegt er að skoða með tilliti til samtímaumræðu um kjör listamanna.

Irma Erlingsdóttir, dósent í frönskum samtímabókmenntum: Vofur í pólitík: Saga, minni og Sihanouk prins. 

Norodom Sihanouk, leiðtogi Kambódíu, var tæplega níræður þegar hann hann lést 13. ágúst 2013. Hann var fórnarlamb og þjóðartákn í þeim örlögum sem Kambódía þurfti að þola í einum versta hildarleik tuttugustu aldar. Prins, forsætisráðherra, forseti, konungur: Hann var ávallt í lykilhlutverki í stjórnmálalífi Kambódíu og lét þær holskeflur sem dundu á landið yfir sig ganga. Í fyrirlestrinum verður fjallað um sviðsetningu þeirra Hélène Cixous og Ariane Mnouchkine á sögu Sihanouks, leikritið L´Histoire terrible mais „inachevée“ de Norodom Sihanouk roi du Cambodge (Hrottaleg en „ólokin“ saga Norodom Sihianouk konungs Kambodíu). Þegar leikritið var sett upp blöstu við afleiðingar stríðs og þjóðarmorðs í Kambódíu. Unnt er að túlka það sem siðferðilega og pólitíska dæmisögu um mannlega þjáningu og eymd. Þessi samtímalegu myndhvörf um mannlegt hlutskipti eiga eins mikið erindi nú og árið 1985 þegar leikritið var frumsýnt.  Uppsetning þeirra Cixous og Mnouchkine er pólitísk og er sagan notuð í þágu minninga og réttlætis. Markmiðið er að ljá þjáningu Kambódíu merkingu í samtímanum og forða reynslunni frá því að falla í gleymsku. Að auki snýst leikritið um ábyrgð sem felst í því að virkja og halda á lofti sameiginlegum minningum – kambódískum, bandarískum, kínverskum, víennömsku – auk minninga einstaklinga sem lentu í harmleiknum miðjum. Í fyrirlestrinum verður lögð áhersla á hlutverk Sihanouks í leikritinu, en þar birtist hann sem gæslumaður stjórnmálavona og menningararfs Kambódíu og sem konungur allra kynslóða, dauðra og komandi.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, dósent í almennri bókmenntafræði: Minnismerki og kreppur: Svarta keilan og minnisvandinn

Hvernig geta samfélög minnst átakatíma og erfiðleika úr nýliðinni fortíð? Hvers konar ‚minnisvinnu‘ þarf til að sátt geti verið um slíka fortíð – eða er það ávallt raunin að sýn ráðandi afla verði ofan á? Hvaða hlutverki gegna minnismerki í slíku starfi? ‚Svarta keilan: minnismerki um borgaralega óhlýðni‘ eftir Santiego Sierra stendur nú um stundir á Austurvelli sem minnismerki um atburðina í búsáhaldabyltingunni 2008-2009. Engin sátt ríkir hins vegar um það verk og þá ekki um atburðina sem því er ætlað að minna á. Hér verður litið til deilnanna sem staðið hafa um verkið og kannað hvaða ljósi slíkar deilur varpa á hlutverk minnismerkja í minni þjóða um trámatíska tíma.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is