Náttúra

Laugardagur 26. mars kl. 10.30-12.00 í stofu 50 í Aðalbyggingu Háskólans

Þema 23. árgangs Hugar – tímarits um heimspeki er hið margræða náttúruhugtak. Jónas Hallgrímsson taldi það hafa þrjár merkingar sem vísuðu til „eðlis skapaðra hluta“, „heimsaflanna sem ráða mynd og eðli hlutanna“ og „hinnar sýnilegu veraldar, það er að skilja allt hið líkamlega með öflum sínum og eðli“. Í málstofunni flytja núverandi ritstjóri og tveir fyrrverandi ritstjórar Hugar erindi sem varpa ljósi á þá frumspekilegu heimsmynd sem náttúruhugtakið er órjúfanlegur hluti af.

Málstofustjóri: Jakob Rúnarsson, doktorsnemi í heimspeki

 

Fyrirlesarar:

  • Henry Alexander Henrysson, nýdoktor við Heimspekistofnun Háskóla Íslands: „Natura docet: Náttúruhugleiðingar á nýöld“
  • Björn Þorsteinsson, nýdoktor við Heimspekistofnun Háskóla Íslands: „Náttúran, raunin og veran“
  • Eyja M. Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun Háskóla Íslands: „Að skoða náttúru til að skoða náttúru“

 

Útdrættir:

 

Henry Alexander Henrysson, nýdoktor við Heimspekistofnun Háskóla Íslands
Natura docet: Náttúruhugleiðingar á nýöld

Hugmyndin um að við lærum fyrst og fremst af reynslunni er að vissu leyti sprottin úr hinni fornu hugmynd um náttúruna sem kennara. Á sautjándu og átjándu öld áttu margir heimspekingar erfitt með að aðlaga þá hugmynd nýrri heimsmynd. Raunhyggjumenn gátu vissulega skipt út ,náttúru‘ fyrir ,reynslu‘, en heimspekingar sem flokkaðir eru til rökhyggju urðu að nýta náttúruhugtakið á meira skapandi hátt. Í þessu erindi verða dregin fram nokkur rök fyrir því hvers vegna hið gildishlaðna náttúrhugtak lék þrátt fyrir allt svo stórt hlutverk við upphaf heimsmyndar nútímans og hvernig hugmyndin um náttúru sem kennara getur átt erindi við samtímann.

 

Björn Þorsteinsson, nýdoktor við Heimspekistofnun Háskóla Íslands
Náttúran, raunin og veran

Í Hugleiðingum við Öskju dregur Páll Skúlason upp mynd af náttúrunni sem framandi, yfirþyrmandi og máttugri stærð sem mannverur reyna sífellt að ná tökum á, og ljá merkingu, með táknum sínum og tækni. Þessi viðleitni manna er að sögn Páls því aðeins möguleg að þeir standi allt frá upphafi í ákveðnu trúnaðarsambandi við náttúruna, og í raun er náttúran ekki einungis ytri veruleiki andspænis innra lífi manna, heldur fléttast hið innra og hið ytra saman í djúpum skilningi. Í erindinu verður þessi greining Páls á sambandi manns og náttúru tengd við samsvarandi kenningar Hegels, Freuds, Lacans og Deleuze um samband merkingar, mannveru og hins raunverulega.

 

Eyja M. Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun Háskóla Íslands
Að skoða náttúru til að skoða náttúru

Frumspeki er samkvæmt skilgreiningu rannsókn á því sem er handan reynslu okkar. Meðal þess sem hún fæst við er eðli hlutanna, eða „náttúra“. Hugmyndin er þá sú að hlutir séu á einhvern tiltekinn hátt í eðli sínu, að það sé eitthvað sem gerir viðkomandi hlut að því sem hann er. Þetta fellur undir þá gerð frumspeki sem kölluð er verufræði. Eins og við vitum er orðið ‚náttúra‘ margrætt en oft er það notað um það sem umlykur okkur og við höfum ekki skapað. Það er út frá þessum skilningi sem talað er um náttúruvísindi og í þeim er gjarnan notast við reynslu, enda náttúruvísindi líka kölluð reynsluvísindi eða raunvísindi. Í þessum fyrirlestri velti ég því fyrir mér hvort hægt sé að nota gögn úr reynslubundnum rannsóknum í sálfræði til að varpa ljósi á verufræðilegt eðli. Annars vegar skoða ég hvort rannsóknir á hegðun og afstöðu fólks til peninga geti gefið okkur vísbendingar um eðli peninga og hins vegar hvort rannsóknir á skynjun fólks á formi geti sagt okkur eitthvað um form sem eiginleika.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is