Náttúra og trú — Umhverfisguðfræði og forsendur hennar

 

Umhverfisvá er eitt helsta vandamál sem mannkyn stendur frammi fyrir nú á dögum eins og hvað gleggst kemur í ljós í loftslagsbreytingum og hnattrænum, náttúrufræðilegum og félagslegum afleiðingum hennar. Mikilvægt er að hugvísindi þar á meðal guðfræðin leggi sitt af mörkum til að greina þann vanda og takast á við að leysa hann. Í umhverfisguðfræði kemur fram viðleitni guðfræðinga í þá veru.

Því fer þó fjarri að það sé eitthvað nýtt að guðfræðingar láti sig varða um náttúruna og umhverfi mannsins í þessum heimi. Allt frá upphafi hefur náttúran og umhverfið gegnt mikilvægu hlutverki í gyðing-kristinni trúarhefð. Það kemur hvað skýrast fram í kristinni sköpunarguðfræði sem felst ekki í tilraunum til að skýra upphaf alheimsins eða lífins á jörðinni heldur að leiða í ljós í hverju ábyrg afstaða og umgengni mannsins við umhverfi sitt, náttúruna og samfélagið felist. Á síðustu áratugum hefur umræða um umhverfið og yfirvofandi hættur sem að því steðja þó kallað á sterkari viðbrögð guðfræðinga en oft hefur verið raun á.

Á málstofunni verður fengist við umhverfisguðfræði frá ýmsum tímum. Varpað verður ljósi á forsendur hennar í frumkristni eins og þær koma fram í bréfum Páls postula í Nýja testamentinu, rakið hvernig umhverfisguðfræði kemur fram í viðbrögðum Jóns Steingrímssonar eldklerks við einum mestu náttúruhamförum sem yfir Ísland hafa gengið og dregin fram helstu áhersluatriði í guðfræðilegri orðræðu um umhverfisvanda við upphaf 21. aldar. 

 

 

Málstofustjóri: Hjalti Hugason

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Föstudagur 11. mars kl. 15.15-16.45 (stofa 222 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Rúnar M. Þorsteinsson, prófessor í nýjatestamentisfræðum: Páll og pan(en)teismi: Guð og náttúran í bréfum postulans
  • Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu: Umhverfisguðfræði á árnýöld — Jón Steingrímsson og Skaftáreldar
  • Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í trúfræði: Af hverju umhverfisguðfræði? Guðfræðileg orðræða og umhverfisvandinn

Fundarstjóri: María Ágústsdóttir doktorsnemi

Útdrættir:

Rúnar M. Þorsteinsson, prófessor í nýjatestamentisfræðum: Páll og pan(en)teismi: Guð og náttúran í bréfum postulans

Það leikur enginn vafi á því að guðfræði Páls postula var (mono)teistísk. Hann lýsir Guði sem persónulegri veru, veru sem stendur fyrir utan sköpunarverkið en er á sama tíma innan þess sem guðlegt afl sem lætur sér annt um stöðu og þróun sköpunarverksins. Að því leyti var skilningur Páls á Guði hefðbundinn gyðinglegur skilningur. En það eru fáeinir staðir í bréfum Páls sem kunna að innihalda pan(en)teistískan og stóískan skilning á guðdóminum, þ.e.a.s. að Guð, heimurinn og náttúran séu einn og sami hlutur (panteismi) og/eða að Guð sé í öllu og allt sé í Guði, þar sem Guð er stærri en allt (panenteismi). Þessir staðir hjá Páli eru Rómverjabréfið 11.36, Fyrra Korintubréf 15.28 og Rómverjabréfið 8.9–11. Greining á þessum textabrotum bendir til þess að guðfræði Páls hafi verið nokkuð sveigjanleg: jafnvel þótt Páll hafi verið guðhræddur gyðingur og (mono)teisti er vottur af pan(en)teisma í bréfum hans. Þessi niðurstaða felur í sér að guðfræði Páls hafi að einhverju leyti staðið stóískri guðfræði nærri og þar af leiðandi að Guð og náttúran hafi staðið í mun nánara sambandi hjá þessum lykilmanni kristninnar en hingað til hefur verið talið.

Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu: Umhverfisguðfræði á árnýöld — Jón Steingrímsson og Skaftáreldar

Gengið verður út frá þeim skilningi að umhverfisguðfræði felist hvers konar guðfræðilegum viðbrögðum við náttúrulegu umhverfi mannsins og guðfræðilegri umræðu um stöðu hans sem tegundar í lífheiminum. Ennfremur nær umhverfisguðfræði til umhverfisvár og náttúruhamfara.

Náttúruhamfarir eru bæði náttúrufræðileg fyrirbæri og félagsleg. Samfélagsgerð og félagslegar aðstæður ráða m.a. miklu um hversu vel samfélagið er í stakk búið til að mæta náttúruhamförum. Einnig valda samfélags- og menningarlegar aðstæður miklu um hvernig fólk bregst við hamförum, skilur og skynjar þær og túlkar eða tjáir reynslu sína af þeim. Þetta veldur því að umhverfisguðfræði er ekki einangrað fyrirbæri heldur mikilvægt stef í allri guðfræðilegri vinnu sem fjallar um stöðu og hlutverk mannsins í heiminum.

Skaftáreldar á ofanverðri 18. öld voru náttúruhamfarir af jarðsögulegri stærðargráðu sem skóku íslenskt samfélag og höfðu áhrif langt út fyrir landssteinana þá eru til um það einstæðar heimildir þar sem eru rit Jóns Steingrímssonar eldklerks. Þar er að finna lýsingar á atburðunum, náttúrufæðilegar skýringar á ýmsum þáttum þeirra en jafnframt umhverfisguðfræðilega túlkun á þeim. Allt var þetta mótað af hugarheimi 18. aldar.

Gerð verður grein fyrir umhverfisguðfræði eldklerksins og varpað fram spurningum um hvort hún hafi merkingu nú á dögum.

Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í trúfræði: Af hverju umhverfisguðfræði? Guðfræðileg orðræða og umhverfisvandinn

Guðfræðileg orðræða um umhverfið og umhverfisvandann er tilkomin vegna þess að kristin trú lætur sig varða um hinn efnislega veruleika en ekki bara andleg málefni og það sem tekur við þegar jarðlífinu lýkur. Þetta áréttar kristin kirkja með því að játa trú á Guð sem er „skapari himins og jarðar.“ Að játa trú á skapara efnisheimsins felur jafnframt í sér staðfestingu á því að efnið er gott. Guðfræðingar fjalla einnig um afleiðingar af vanrækslu og misnotkun á umönnunarhlutverkinu sem okkur hefur verið úthlutað. Af því að sköpunin hefur verið svívirt með illri umgengni og ofnýtingu stöndum við frammi fyrir þeim mikla vanda sem raun ber vitni. Ábyrgð okkar allra er mikil, ekki aðeins gagnvart skapara okkar og sköpunarverkinu, heldur einnig kynslóðum framtíðarinnar og möguleikum þeirra til þess að byggja þessa jörð.

Í þessum fyrirlestri verða gefin dæmi af guðfræðilegri orðræðu um umhverfisvandann í upphafi 21. aldar. Staldrað verður sérstaklega við innlegg tveggja guðfræðinga. Í fyrsta lagi er um að ræða femíniska guðfræðinginn Sally McFague sem leggur áherslu á guðsmyndina og hvernig hún mótar afstöðu okkar til umhverfsins. Í öðru lagi er það páfabréf Frans páfa frá síðasta ári sem fjallar um umhverfisvandann og jörðina sem hið sameiginlega heimili okkar. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is