Nítjánda öldin og stafrænn nútími

 

Í málstofunni verða fluttir tveir fyrirlestrar sem báðir fjalla um menningarstarf á 19. öld, bæði nýsköpun og varðveislu, og stafræna miðlun þess nú á 21. öldinni.

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 15-16 (stofa 069 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Rósa Þorsteinsdóttir, rannsóknarlektor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Þjóðsagnasöfnun Jóns Árnasonar á 19. öld: Tilurð, samhengi og stafræn miðlun á 21. öld
  • Olga Holownia, vefstjóri við sigurdurmalari.hi.is: Menningarsköpun á netinu: Stafrænt safn um Sigurð Guðmundsson málara og Kveldfélagið
Útdrættir:

Rósa Þorsteinsdóttir, rannsóknarlektor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Þjóðsagnasöfnun Jóns Árnasonar á 19. öld: Tilurð, samhengi og stafræn miðlun á 21. öld

Sagt verður frá rannsóknaverkefni sem snýst um söfnun og útgáfu þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1862-1864). Búið verður til ítarlegt, aðgengilegt og notendavænt stafrænt gagnasafn með fræðilegri umfjöllun og beinum tengingum við önnur skyld gagnasöfn, stafræn handrita- og bókasöfn, gagnagrunna og vefsíður. Árið 2014 voru 150 ár liðin frá því að lokabindi frumútgáfu þjóðsagnasafnsins kom út og 2019 verða liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Árnasonar. Tilefni gefst til að fagna þeim tímamótum með slíkri rannsókn og birtingum á niðurstöðum hennar. Lögð verður áhersla á að athuga samband Jóns við samstarfsfólk hans og í því samhengi skoðuð bréfaskipti hans við fólk sem skráði og sendi honum sögur og þá sem komu að útgáfu þeirra. Ekki er síður mikilvægt að setja þjóðsagnasöfnunina í alþjóðlegt samhengi með því að skoða hana í tengslum við það sem gerðist hjá nágrannaþjóðunum þar sem söfnun þjóðsagna hófst fyrr en hér á landi. Verkefnið er styrkt af Rannís.

Olga Holownia, vefstjóri við sigurdurmalari.hi.isMenningarsköpun á netinu: Stafrænt safn um Sigurð Guðmundsson málara og Kveldfélagið

Menningarsköpun: Fræðilegir áhrifavaldar, uppsprettur, innblástur og langtímaáhrif menningarsköpunar Sigurðar málara og Kvöldfélagsmanna 1857 – 1874 er þverfaglegt verkefni sem fræðimenn á ýmsum sviðum komu saman að, m.a. úr bókmenntum, þjóðfræði, leiklist, safnafræði, sagnfræði og hönnun. Afrakstur verkefnisins er umfangsmikið stafrænt safn þar sem hugmyndafræðilegur uppruni menningarsköpunar Kvöldfélagsmanna er kortlagður sem og langtímaáhrif á íslenska menningu greind, með víðfeðm áhrif og fjölbreytt störf Sigurðar „málara“ Guðmundssonar (1833–1874) í forgrunni.

Verkefnið, styrkt af Rannís, var einstakt samstarf íslenskra fræðimanna heima og erlendis, unnið í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðminjasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands. Kynntir verða helstu þættir hins yfirgripsmikla stafræna skjalasafns. Meðal annars verður sýnt fram á mikilvægi þess að beina sjónum að alþjóðlegu samhengi hinnar rómantísku þjóðernisstefnu og áhrifum á íslenska menningarsögu þess tíma. Einnig verður velt upp þeim fræðilegu- og hagnýtu sjónarmiðum sem hafa þarf í huga þegar unnið er að eins viðamiklu stafrænu verkefni innan hugvísinda og um ræðir.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is