Njálustofa: Konur, kyn og karlmennska

 

Í Brennu-Njáls sögu er undirliggjandi umræða um kynferði. Hún birtist m.a. í lýsingunni á hjónunum á Bergþórshvoli sem ekki falla að öllu leyti að staðalmyndum kynjanna. Einnig brýst þessi umræða fram þegar persónur sögunnar fara að skattyrðast, sem oftar en ekki leiðir til vígaferla. Þrír fræðimenn munu nálgast þessa umræðu frá ólíkum sjónarhornum. Gunnar Karlsson, sagnfræðingur, spyr hvort samfélag þar sem konur hafa tileinkað sér blóðhefndarsiðfræði sé í raun feðraveldi. Helga Kress, bókmenntafræðingur, fjallar um samband karnivals og kynferðis í sögunni og athugar sérstaklega sviðsetningar á borðhaldi og bardögum. Torfi H. Tulinius, bókmenntafræðingur, segir frá áföllum í samfélagi 13. aldar og hvernig þau kunna að hafa haft áhrif á form sögunnar og þá mynd sem dregin er upp af karlmennsku í ofbeldisfullu samfélagi.

 

 

Málstofustjóri: Torfi Tulinius prófessor

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Föstudagur 11. mars kl. 13.15-14.45 (stofa 225 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Gunnar Karlsson, prófessor emeritus í sagnfræði: Njála og feðraveldið - í tilefni af leiksýningu
  • Helga Kress, prófessor emeritus í bókmenntafræði: Karnival kynjanna í Njálu: Átök og afbygging
  • Torfi Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum: „Sætasta ljós augna minna“: Karlmenn í áfalli og bókmenntasköpun í Njálu

Fundarstjóri: Jón Karl Helgason prófessor

Útdrættir:

Gunnar Karlsson, prófessor emeritus í sagnfræði: Njála og feðraveldið - í tilefni af leiksýningu

Fyrirlesari mun ganga út frá ummælum Þorleifs Arnarssonar vegna leiksýningar hans á Njálu í Borgarleikhúsinu: „Þetta er heimur sem er gegnsýrður af sturluðu feðraveldi.“ Rætt verður hvort og þá í hvaða skilningi þetta er rétt, hvers konar feðraveldi Njála lýsir og hvernig sú lýsing kemur heim við það sem aðrar heimildir, lög og sögur, segja um stöðu feðra, dætra og sona á þjóðveldisöld. Lýsa má atburðarás Njálu þannig að konur ráði mestu um framvindu sögunnar með kröfum sínum um hefndir. En í framhaldi af því má spyrja hvort það sé í raun formlegt feðraveldi sem knýi konur til að tileinka sér blóðhefndarsiðferði.

Helga Kress, prófessor emeritus í bókmenntafræði: Karnival kynjanna í Njálu: Átök og afbygging

Fjallað verður um nokkrar helstu sviðsetningar sögunnar á borðhaldi og bardögum með sérstöku tilliti til sambands karnivals og kynferðis, karlmennsku og kvenleika, og hvernig hún tematíserar sjálfa sig sem frásögn og sögu.

Torfi Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum: „Sætasta ljós augna minna“: Karlmenn í áfalli og bókmenntasköpun í Njálu

Fjallað verður um ástvinamissi af völdum ofbeldis í samfélagi Sturlungaaldar, ekki síst með tilliti til kyngervis. Hugað verður að þvi hvernig slíkum áföllum eru gerð skil í Brennu-Njáls sögu og sett fram tilgáta um að ýmislegt í sögunni megi skýra með hliðsjón af áfallafræðum nútímans.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is