Nú þykir mér tíra: Húsa- og mannlýsingar

Föstudagurinn 13. mars kl. 15.00-16.30.

Í málstofunni er farið frá víkingum fortíðar til víkinga nútímans í fjarlægum löndum, með viðkomu í bæjarhúsum sem skiluðu sér undan sandi og sífrera Grænlands og rökkvuðum húsakynnum Íslendinga eins og þau birtast í umfjöllun um ljósgjafa sem finna má í dánarbúum frá 18. öld.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Már Jónsson, prófessor í sagnfræði: Kolur, lampar, pönnur, söx. Ljósfæri í bæjarhúsum á 18. öld
  • Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur hjá Þjóðminjasafni Íslands: Þróun grænlenska torfbæjarins
  • Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði: Hvað er svona merkilegt við það að vera víkingur?

MálstofustjóriSigurður Gylfi Magnússon, prófessor í sagnfræði 

Útdrættir:

Már Jónsson, prófessor í sagnfræði: Kolur, lampar, pönnur, söx. Ljósfæri í bæjarhúsum á 18. öld

Áreiðanlegt er að mjög dimmt hefur verið innan dyra fyrr á öldum miðað við það sem nú tíðkast og fólk hefur vanist. Gluggar voru litlir og fáir, þannig að dagsbirta rétt náði inn. Ljósfæri voru frumstæð og ljósmeti af skornum skammti, en tryggðu þó lýsingu sem dugði til vinnu og upplesturs hollra bóka um vetur. Frá 18. öld eru varðveitt á annað þúsund dánarbú, sem mörg hver tilgreina kolur, ljósapönnur, ljósapípur og lampa. Í erindinu verður vitnisburður þessar heimilda, sem oft eru ónákvæmar og sjaldan tæmandi, nýttur til að varpa ljósi á birtustig í bæjarhúsum á tímabilinu.

Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur hjá Þjóðminjasafni Íslands: Þróun grænlenska torfbæjarins

Á árunum frá 1991 til 1996 fór fram fjölþjóðlegur fornleifauppgröftur í Vestribyggð á Grænlandi. Við uppgröftinn, sem þekktur er undir heitinu Bærinn undir sandinum (Gården under sandet – GUS), kom í ljós bæjarstæði sem hafði horfið undir rúmlega meters þykku lag af sandi og varðveist þar í sífera. Uppgröfturinn sýndi fram á að þarna höfðu norrænir menn búið frá því um miðja elleftu öld og langt fram á þá fjórtándu. Þessi fornleifafundur er talinn einn sá merkasti á Grænlandi, einkum og sér í lagi fyrir það að varpa ljósi á afar flókna þróun grænlenska torfbæjarins. Hér verða kynntar helstu niðurstöður þeirrar greiningar.

Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði: Hvað er svona merkilegt við það að vera víkingur?

Þegar Íslendingar vinna sigra af einhverju tagi eða bara gera það gott í útlöndum þá er þeim gjarnan líkt við víkinga. En hvað er svo merkilegt við það að vera víkingur? Í fyrirlestrinum verður gerð tilraun til þess að svara þessari spurningu með hliðsjón af fornleifafræðilegum heimildum og miðaldatextum en einnig með því að bera saman víkinga víkingaaldar við víkinga nútímans, eins og t.d. liðsmenn samtaka á borð við Boko Haram. Stuðst verður við greiningu á markmiðum og sjálfsmynd þessara hópa, klæðnaði, vopnaburði, kyni, aldri og fjölda liðsmanna.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is