Nýtt blóð í Njálurannsóknir

Laugardaginn 15. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 052 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Í verkefninu Breytileiki Njáls sögu sem styrkt er af Rannís hafa Njálutextar í handritabrotum frá miðöldum verið skrifaðar upp og settir í stafrænt form (xml). Í málstofunni verður fjallað um hvaða möguleika þetta gefur til frekari rannsókna. Í fyrsta lagi mun Ludger Zeevaert fjalla um forrit sem gefur möguleika á að rannsaka orðaröð og stíl í textunum. Í öðru lagi mun Alaric Hall fjalla um hvernig unnt er að nota ákveðin forrit sem hingað til hafa einkum verið notuð í raunvísindum til að kanna tengsl milli handrita og til að draga upp nýstárlega gerð af stemma (ættartré handrita). Þá verður fjallað um rafrænt sagnakort með notendaviðmót sem tengir saman alla staði sem koma fyrir í texta Njáls sögu við staðsetningu þeirra á landakorti. Emily Lethbridge mun kynna kortið og sýna fram á hvernig það getur verið öflugt tæki fyrir fræðimenn, nemendur, ferðamenn og aðra áhugasama.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Ludger Zeevaert, fræðimaður á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Að marka Gullskinnu. Málfræðilegar rannsóknir á Njáluhandritum frá 17. öld
  • Alaric Hall, lektor við Háskólann í Leeds og gestafræðimaður á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Reikult og rótlaust stemma
  • Emily Lethbridge, nýdoktorsstyrkþegi hjá miðaldastofu: Sagnakort sem Njálu-gögn

Málstofustjóri: Margrét Eggertsdóttir rannsóknarprófessor

Útdrættir:

Ludger Zeevaert, fræðimaður á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Að marka Gullskinnu. Málfræðilegar rannsóknir á Njáluhandritum frá 17. öld

Skinnhandrit Njálu er búið að skoða nokkuð vel, en það sama er ekki hægt að segja um pappírshandritin. Með rannsókn sem byggð er á einum kafla sögunnar tókst að fjölga hóp þekktra Gullskinnuhandrita úr 7 upp í 26 (sbr. erindi Alaric Hall). Aðferðin sem var notuð til að bera saman handritin byggir á uppskriftum handritanna sem gætu komið að gagni líka í öðru samhengi. Markmiðið er að skapa gagnagrunn sem væri hægt að nota fyrir allar hugsanlegar rannsóknarspurningar í sambandi við Njálu, en Gullskinnuverkefnið er gott tækifæri til að nota reynsluna frá Njáluverkefninu til að betrumbæta aðferðina þar sem uppskriftarvinnan er enn á byrjunarstigi. Í erindi mínu ætla ég aðallega að segja frá tilraunum sem voru gerðar í samvinnu við orðfræðisvið Árnastofnunar. Reynt var að nota máltækni sem var upprunalega þróuð fyrir nútimaíslensku til að marka Njáluhandrit frá 17. öld málfræðilega, en málfræðileg mörkun myndi auka notkunarsvið textanna töluvert. Auðvitað má búast við að ýmis vandamál komi upp þegar reynt er að búa til gagnagrunn fyrir textafræðilega útgáfu og rannsóknir um setningafræði og tengsl á milli handrita, en ég vonast samt til að geta lýst í stórum dráttum hvernig hægt væri að ná þessu markmiði. 

Alaric Hall, lektor við Háskólann í Leeds og gestafræðimaður á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Reikult og rótlaust stemma

Hver Íslendingasaga er varðveitt í mörgum handritum, og afritin eru nánast aldrei samhljóða; í hverju handriti er einstök gerð af sögunni. Það hefur lengi tíðkast að sérfræðingar geri 'ættartré' yfir söguhandrit? myndrænar uppsetningar sem kortleggja hvaða handrit er skrifað upp eftir hverju? til að komast að raun um upprunalegasta texta sögunnar. En eins og Deleuze og Guattari skrifuðu: „við erum orðnir leiðir á trjám“. Hvað gerist þegar maður hættir að leita að upprunalegu sögunni, og byrjar að túlka hvað hver einstök gerð af Njálu merkti þegar hún var skrifuð?

Emily Lethbridge, nýdoktorsstyrkþegi hjá miðaldastofu: Sagnakort sem Njálu-gögn

Rafræn gögn eru mikilvægur hluti af rannsóknaraðferðum í Rannísverkefninu ‘Breytileiki Njáls sögu‘. Eins og hefur komið fram, hafa Njálutextarnir í handritabrotum frá miðöldum þegar verið skrifaðir upp í XML-kóðun af Ludger Zeevaert og öðrum þátttakendum verkefnisins. Áætlunin er sú, að þessi skjöl verða notuð sem grunnur í nýja rafræna útgáfu af Njálu í framtíðinni. Í erindi mínu mun ég fjalla um enn önnur rafræn gögn sem ég hef verið að hanna á vegum verkefnisins og Miðaldastofu við Háskóla Íslands. Þetta er rafrænt sagnakort með notendaviðmót sem tengir saman alla staði sem koma fyrir í texta Njáls sögu við staðsetningu þeirra á landakorti. Hugmyndin að baki kortsins er að notandinn geti annaðhvort lesið textann og smellt á örnefni þegar þau eru nefnd til að fylgjast með hvar á landinu atburðir gerast, eða skoðað kortið og með því að smella á örnefni á kortinu, séð í hvaða kafla/köflum þau örnefni koma fyrir. Þá eru einnig myndir af stöðunum, og upplýsingar um örnefnin – hvort skiptar skoðanir hafi verið um þau og staðsetningu þeirra, heimildir o.s.frv. Njáluhandrit eru meira að segja merkt inn á kortið – og það er áhugavert að hugsa um hvaða stöðum handritin hafa tengjast og hvar þau hafa verið lesin.  Ég ætla að kynna kortið og segja frá hvernig það gæti verið öflugt tæki fyrir fræðimenn, nemendur, ferðamenn og aðra áhugasama. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is