Okkar innri unglingur...

Föstudaginn 14. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 52 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Málstofan fjallar um unglingabókmenntir, einkum fantasíur fyrir unglinga en þær hafa notið mikilla vinsælda bæði barna og fullorðinna síðustu ár. Spurt verður hvers vegna þessi bókmenntagrein nær svo vel til fólks í dag?  Er svaranna að leita í blöndun bókmenntagreina, listforma og lesendahópa?

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum: Tímakistan og krosslestur yfir kynslóðabil
  • Hildur Ýr Ísberg, doktorsnemi: Katniss á klakanum. Um Múrinn eftir Sif Sigmarsdóttur og Hungurleikana eftir Suzanne Collins
  • Anna Heiða Pálsdóttir, rithöfundur og kennari: Fantasía í kolsvörtum íslenskum sandi: Sverðberinn eftir Ragnheiði Gestsdóttur

Málstofustjóri: Helga Birgisdóttir, doktorsnemi

Útdrættir:

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum: Tímakistan og krosslestur yfir kynslóðabil

Það hefur varla farið fram hjá neinum að bækur fyrir unga lesendur og kvikmyndir, byggðar á þeim, hafa slegið öll vinsældamet síðustu tvo áratugi eða svo og nægir að benda á Harry Potter, Ljósaskiptabækurnar og Hungurleikana.  Margvíslegar kenningar eru á lofti um þá blöndun á lesendahópum sem nú á sér stað; ein segir að börn séu fyrr fullorðin nú en áður, séu þjálfaðri í að taka á móti flóknum samhliða frásögnum og engin ástæða til að segja þeim ekki sannleikann um tilveruna. Höfundar unglingabóka hika því ekki við að blanda bókmenntagreinum, nota margröddun og sögusagnir (metafiction) um leið og bækurnar verða að hafa skýran söguþráð og halda lesendum við efnið. Höfundar unglingabóka skrifa þannig vandasama frásögn á mörgum plönum og allt þetta má sjá í Tímakistu Anda Snæs Magnasonar (2013)  sem er bæði lofuð fyrir bókmenntalega verðleika sína og metsölubók sem börn og unglingar kunna að meta. Í fyrirlestrinum verða frásagnaraðferð og textatengsl þessar bókar rædd frá völdum sjónarhornum. 

Hildur Ýr Ísberg, doktorsnemi: Katniss á klakanum. Um Múrinn eftir Sif Sigmarsdóttur og Hungurleikana eftir Suzanne Collins

Múrinn er fyrsta bókin í sagnabálknum Freyju sögu, eftir Sif Sigmarsdóttur. Höfundur og fjölmiðlar hafa talað um bókina sem „hina íslensku Hungurleika“ og henni þar með líkt við Hungurleikana eftir Suzanne Collins. Í þessum fyrirlestri verður skoðað hvað átt er við með þessum samanburði og að hversu miklu leyti hann á við rök að styðjast.

Anna Heiða Pálsdóttir, rithöfundur og kennari: Fantasía í kolsvörtum íslenskum sandi: Sverðberinn eftir Ragnheiði Gestsdóttur.

Í samanburði Peter Hunts á amerísku hefðinni fyrir ferðalög í fantasíum og þeirri bresku, bendir hann á að sú ameríska leiti út og í vestur – hún er línuleg – en enskir fantasíuhöfundar eru hins vegar að troða slóðir forfeðranna og skoða um leið þjóðarsálina. Skírskotun þeirra byggir á hlutstæðari menningartáknum með djúpar rætur sem virðast liggja (stundum bókstaflega) undir fótum þeirra. Í þessum fyrirlestri er landslagið í nokkrum íslenskum fantasíum fyrir börn og unglinga, aðallega í fantasíu Ragnheiðar Gestsdóttur, Sverðberanum (2004), skoðað með tilliti til hins séríslenska landslags sem endurspeglast í verkum höfunda, m.a. í ljósi kenninga Peters Hunt og annarra um tengsl manns og landslags.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is