Orð úr ýmsum áttum: Merkingarfræði, orðtök og frasar

Laugardaginn 15. mars kl. 15.00-16.30 í stofu 222 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Í málstofunni verður fjallað um merkingarfræði og fraseológíu. Til umfjöllunar eru kenningar Gustave Guillaume (1883-1960) á sviði merkingarfræði sagnorða með áherslu á hugmyndir fræðimannsins um tíma. Í annan stað verður sjónum beint að rannsóknum í fraseológíu, annars vegar samanburði á spænskum og íslenskum orðtökum og frösum og hins vegar notkun og tíðni orðataka í þýsku og íslensku íþróttamáli.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Francois Frans Heenen, aðjunkt í frönsku: Kenningar Gustaves Guillaumes (1883-1960) á sviði merkingarfræði sagnorða
  • Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku: Með hjartað í buxunum eða lúkunum. Um myndhverfingar í spænskum og íslenskum orðtökum og frösum
  • Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor í þýsku: Hvernig  leggja menn skóna á hilluna í þýsku? Notkun orðataka í þýsku og íslensku.

Málstofustjóri: Rósa Elín Davíðsdóttir, doktorsnemi

Útdrættir:

Francois Frans Heenen, aðjunkt í frönsku: Kenningar Gustaves Guillaumes (1883-1960) á sviði merkingarfræði sagnorða

Fyrsta rit Gustaves Guillaumes kom út árið 1911, stuttu áður en Cours de linguistique générale eftir Saussure var gefin út, og það síðasta árið 1958, stuttu eftir að bók Chomskys, Syntactic Structures, kom út. Ferill hans byrjaði sem sagt hjá samanburðarmálfræðingum, eins og til dæmis Antoine Meillet, og endaði þegar kenningar generatífrar málfræði voru að líta dagsins ljós. Aðalviðfangsefni Guillaumes snerist um það hvernig langue, ‘málkerfi’, verður að langage, ‘tali’. Hann leitaði svara við spurningunni: Hvað gerist á þessum sekúndubrotum á meðan orðin verða að veruleika? Út frá þessari grundvallarspurningu þróaði hann nýja málvísindagrein, psychoméchanique. Í fyrirlestrinum verður megináhersla lögð á hugmyndir Guillaumes varðandi hugtakið tími. Hvernig mynd tímans verður til í huganum og hvernig hún endurspeglast í mismunandi sagnbeygingarmyndum. 

Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku: Með hjartað í buxunum eða lúkunum. Um myndhverfingar í spænskum og íslenskum orðtökum og frösum

Undanfarin ár og áratugi hafa fræðimenn um víða veröld ritað fjölda bóka og greina í anda hinna svokölluðu hugrænu fræða (estudios cognitivos). Mörgum hefur orðið tíðrætt um myndhvörf í tungumáli og hugsun í skrifum sínum en meðal þeirra sem hafa beint sjónum að myndhvörfum í tungumálinu eru Lakoff og Johnson (1980). Sporgöngumenn þeirra á Spáni eru ýmsir fræðimenn við háskólana í Granada, Barcelona, Almería ofl. Þeir fræðimenn sem einkum hafa skoðað spænsk orðasambönd frá sjónarhóli hugrænna málvísinda eru Pamies og Iñesta (2000, 2002). Þau hafa smíðað líkan til að flokka orðtök sem og bera saman myndhvörf í orðtökum ólíkra tungumála með það fyrir augum að greina hvort þau séu algild, eða ekki. Líkanið byggir meðal annars á hugmyndum Lakoffs og Johnsons um hugtaksmyndhvörf (metáforas conceptuales) en einnig er leitað í smiðju ýmissa annarra kennimanna í hugrænni merkingarfræði (semántica cognitiva).

Í rannsókn sem byggir á áðurnefdu líkani bera Penas Ibañez, Autónoma-háskólanum í Madríd, og Erlendsdóttir saman orðtök og frasa í spænsku, annars vegar, og íslensku, hins vegar. Í erindinu er ætlunin að gera grein fyrir rannsókninni og helstu niðurstöðum hennar.

Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor í þýsku: Hvernig leggja menn skóna á hilluna í þýsku?

Í erindinu mun ég fjalla um rannsóknar á notkun og tíðni orðtaka (Frequenzvor¬kommensanalyse) í íþróttafréttum þýskra og íslenskra dagblaða. Með því að orðtaka blaðatexta sem spanna ákveðið tímabil og safna kerfisbundið öllum orðtökum og afbrigðum þeirra sem þar koma hefur orðið til gagnagrunn sem annars vegar gefur mikilvægar upplýsingar um notkun og tíðni orðtakanna og hins vegar um í hvaða formi þau eru notuð, þ.e.a.s. er um afbrigði, tilbrigði, afbökun eða ef um „ranga“ notkun að ræða. Áhugavert getur verið að kanna hvort fyrir kemur samsláttur tveggja orðtaka í slíkum rauntextum. Með orðtíðnirannsókninni sem ég greini frá fást mikilvægar upplýsingar um það hvaða orðtök eru notuð og hvort þau koma fyrir sem afbrigði eða í því formi sem þau eru gefin upp í uppflettiritum. Og væntanlega fæst svar við því hvort menn leggi skóna á hilluna í þýsku.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is