Rannsóknasjóður Hugvísindastofnunar: reglur

I. Markmið

Markmið sjóðsins er að efla rannsóknir og rannsóknatengda starfsemi innan Hugvísindasviðs með styrkveitingum. Sjóðurinn er fjármagnaður með hluta af þeim mótframlögum sem Hugvísindastofnun fær frá Hugvísindasviði.

II. Umsóknarfrestur, úthlutun og ráðstöfun

Úthlutað er úr sjóðnum tvisvar á ári, 15. apríl (umsóknarfrestur til 1. apríl) og 15. desember (umsóknarfrestur 1. desember).

Umsóknir eru metnar af stjórn Hugvísindastofnunar, eða starfsmönnum og stjórnarformanni í umboði hennar. Leitast er við að styrkja sem flest verkefni sem uppfylla skilyrði sjóðsins, en fjöldi styrkja og upphæðir ráðast þó af fjárhagsstöðu sjóðsins.

Styrkur er lagður inn á viðkomandi viðfangsnúmer innan Hugvísindasviðs.

Styrkir eru að jafnaði greiddir þegar kostnaður liggur fyrir.

III. Sjóðurinn veitir styrki:

 1. til ráðstefnuhalds,
 2. til ýmissa viðburða sem ekki falla undir 1. lið,
 3. vegna erlendra boðsgesta,
 4. til útgáfu á vegum stofnana,
 5. upp í kostnað við þýðingu eða til málfarslegrar aðstoðar vegna birtingar vísindagreina,
 6. til að ráða sérfræðinga tímabundið við stofnanir sviðsins,
 7. til að þróa styrkumsóknir í stærri sjóði,
 8. til annars sem eflir rannsóknir og rannsóknatengda starfsemi innan Hugvísindasviðs að mati stjórnar.

Nánar um styrki

1. Styrkir til ráðstefnuhalds

Stofnanir og stofur sviðsins geta sótt um þessa styrki, einnig deildir og greinar en eindregið er hvatt til samstarfs við rannsóknastofnanir og  -stofur sviðsins.

Viðmiðunarreglur:

 1. Ráðstefnan skal haldin á vegum Hugvísindasviðs eða stofnunar/stofu/deildar/greinar innan Hugvísindasviðs og skal það koma skýrt fram í kynningum allra styrktra ráðstefna. Ráðstefnuhaldið getur verið í samvinnu við aðra en unnið skal að undirbúningi og framkvæmd innan sviðsins að einhverju marki. Dagskrá skal að lágmarki vera 2,5 klukkustundir (3-4 erindi) og skilyrði er að fastir starfsmenn sviðsins, nýdoktorar eða doktorsnemar sem eru virkir í námi haldi erindi (undanþága möguleg fyrir ráðstefnur á sviði þverfaglegu stofnananna).
 2. Styrkur er byggður á ráðstefnukostnaði skv. eftirfarandi viðmiðunum:
  • Undirbúningskostnaður á hvern skráðan þátttakanda 2500 kr., en ef ekki er skráning 1000 kr. á þátttakanda.
  • Kostnaður vegna boðsfyrirlesara, húsnæðis og veitinga, aðstoðar á ráðstefnunni eða annars sem fella má undir grunnkostnað við ráðstefnuhald (annað en en undirbúning) samkvæmt reikningum eða sannanlega greiddur af samstarfs- eða styrktaraðilum.
  • Styrkur er veittur fyrir helmingnum af ofangreindum kostnaði, þó er hámarksstyrkur 125.000 fyrir innlenda ráðstefnu, en 300.000 fyrir alþjóðlega ráðstefnu. Þóknun til fyrirlesara er undanskilin í útreikningi á ráðstefnukostnaði.
 3. Styrkirnir ná einnig til ráðstefna sem eru fullfjármagnaðar með öðrum styrkjum en þá er tekið mið af aðstoð Hugvísindastofnunar. Hafi hún verið umtalsverð er styrkur lækkaður um allt að helming.

Þeir sem halda ráðstefnur skulu að jafnaði sækjast eftir öðrum styrkjum til ráðstefnuhaldsins.

2. Styrkir til ýmissa viðburða sem ekki uppfylla skilyrði í 1. lið

Stofnanir og stofur geta sótt um þessa styrki, einnig greinar og deildir en þær eru hvattar til að vera í samstarfi við stofnanir.

Viðmiðunarreglur:

 1. Skilyrði er að umsækjandi standi að viðburðinum, einn eða með öðrum. Ekki er nóg að umsækjandi teljist til styrktaraðila.
 2. Í kynningum viðburðarins skal koma fram að Hugvísindasvið eða stofnun/stofa/deild/grein innan Hugvísindasviðs haldi hann (hvort sem er eitt/ein eða í samvinnu við aðra).
 3. Sjóðurinn veitir styrki: A) til viðburða sem ekki fela í sér erindi fastra starfsmanna sviðsins, t.d. fyrirlestraraða, nemendaþinga á vegum námsgreina og menningarhátíða; B) til styttri viðburða, t.d. málþinga sem eru styttri en 2,5 stundir; C) til fundahalda hér á landi með erlendu samstarfsfólki í rannsóknarverkefnum eða samstarfsnetum.
 4. Hver styrkur er allt að 50.000 kr.
 5. Fjöldi styrkja er takmarkaður. Við úthlutun er tekið mið af stærð og virkni stofnana (eða annarra umsækjenda).

3. Styrkir vegna erlendra boðsgesta

Einungis stofnanir geta sótt um þessa styrki.

Viðmiðunarreglur:

 1. Sjóðurinn veitir stofnunum fjárstuðning til að bjóða viðurkenndum fræðimönnum sem starfa erlendis að halda erindi og taka þátt í öðru rannsókna- eða kennslutengdu starfi á vegum stofnunar (t.d. með þátttöku í seminar með framhaldsnemum).
 2. Sjóðurinn greiðir allt að 2/3 af útlögðum kostnaði við komu gestsins, þó ekki meira en 100.000 kr..
 3. Skilyrði er að viðkomandi stofnun leggi sjálf fram fé sem nemur hálfum styrk Hugvísindastofnunar (vinnuframlag telst ekki til slíks mótframlags).
 4. Fjöldi styrkja á ári er takmarkaður og því um samkeppnisstyrki að ræða. Stjórn Hugvísindastofnunar metur umsóknir og tekur þá tillit til vægis viðkomandi fræðimanns innan sinnar greinar og mikilvægis heimsóknar hans fyrir Hugvísindasvið eða tiltekin fræðasvið innan þess. Einnig er horft til dreifingar styrkja milli fræðasviða til lengri tíma litið.

4. Styrkir til útgáfu á vegum stofnana

Stofnanir geta sótt um þessa styrki. Umsóknir skulu berast frá forstöðumanni, stjórnarformanni eða verkefnisstjóra í umboði þeirra. Umsóknir skulu berast í desember fyrir þær bækur sem hafa komið út það ár.

Viðmiðunarreglur:

 1. Hver stofnun getur fengið tvo styrki á ári vegna bóka sem hafa komið út það ár.
 2. Styrkur sjóðsins fyrir hverja bók nemur að hámarki fastagjaldi Háskólaútgáfunnar.
 3. Komi engin bók út í eitt ár hjá stofnun getur hún fengið einn aukastyrk árið eftir (þ.e. alls þrjá styrki).
 4. Mikilvægt er að stofnanir sæki eftir sem áður um styrki til Bókmenntasjóðs, kennslumálasjóðs eða annarra viðeigandi sjóða.

5. Styrkir upp í kostnað við þýðingu eða til málfarslegrar aðstoðar vegna birtingar vísindagreina

Einstaklingar (prófessorar, dósentar, lektorar, aðjunktar og aðrir starfsmenn sem eru í akademískum stöðum) geta sótt um þessa styrki.

Viðmiðunarreglur:

 1. Greinin er á tungumáli sem er ekki móðurmál höfundar.
 2. Greinin er ætluð til birtingar í ritrýndu tímariti (þ.e. greinin verði metin til 10, 15 eða 20 stiga í stigakerfi HÍ).
 3. Hver starfsmaður getur aðeins fengið einn slíkan styrk á fimm ára fresti.
 4. Hver styrkur er að hámarki kr. 50.000. Sýna þarf fram á kostnað við aðkeypta aðstoð.

6. Styrkir til að ráða sérfræðinga tímabundið við stofnanir sviðsins

Styrkirnir eru veittir í samræmi við sérstakar reglur þar að lútandi og ekki er um eiginlega umsókn að ræða.

7. Styrkir til að þróa styrkumsóknir í stærri sjóði

Einstaklingar geta sótt um þessa styrki. Markmið styrkjanna er að auðvelda umsækjendum sem hafa sótt um rannsóknastyrk úr stærri samkeppnissjóði utan Háskóla Íslands án þess að fá styrk að þróa umsóknina áfram til að senda aftur í sama sjóð eða í aðra sjóði.

Viðmiðunarreglur:

 1. Skilyrði er að umsóknin hafi fengið faglegt mat í jafningjamati og hafi verið metin sem ein af bestu umsóknunum í þeirri umferð.
 2. Einungis umsóknir til rannsóknaverkefna með skilgreindum verkþáttum upp á 5.000.000 króna eða meira á ári koma til greina.
 3. Styrkina má nota til að halda verkefnisfund eða til að ráða aðstoðarmann í allt að einn mánuð til að afla gagna eða vinna aðra vinnu sem talin er nauðsynleg til að bæta umsóknina.
 4. Til að styrkveiting komi til greina þarf að senda upphaflega styrkumsókn og mat á henni, þar sem kemur fram hvar umsóknin raðaðist miðað við aðrar umsóknir, ásamt rökstuðningi fyrir þörf á styrknum og greinargerð fyrir því hvernig á að nota hann.
 5. Einungis er hægt að fá einn svona styrk fyrir hvert verkefni.
 6. Alla jafna er ekki gert ráð fyrir styrkjum upp á meira en 250.000 kr. Hámarksstyrkupphæð er 400.000 kr.

8. Styrkir til annars sem eflir rannsóknir og rannsóknatengda starfsemi innan Hugvísindasviðs að mati stjórnar

Að jafnaði er um tiltölulega lága styrki að ræða og ekki til verkefna sem falla undir verksvið og markmið helstu samkeppnissjóða innan og utan Háskólans.

Umsóknum skal skilað á sérstökum eyðublöðum sem send eru sem viðhengi með tölvupósti til verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar.

Samþykktar á fundi stjórnar Hugvísindastofnunar 24. nóvember 2015.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is