Rannsóknir á íslenska táknmálinu: Hvar stöndum við og hvert viljum við fara?

Laugardagurinn 14. mars kl. 10.00-14.30, með hádegishléi.

Í málstofunni verður farið yfir stöðu táknmálsrannsókna á Íslandi. Fyrirlesarar gefa yfirlit yfir ólík svið málvísinda og rannsóknir á íslenska táknmálinu sem falla undir viðkomandi svið en einnig verður sjónum beint að orðræðu um heyrnarleysi. Fjallað verður um nokkur meginsvið málvísinda, hljóðkerfisfræði, orðhlutafræði, setningafræði og merkingarfræði, sagt frá málþroskarannsóknum sem eru marga hluta vegna ólíkar málþroskarannsóknum á raddmálum og litið á táknmál út frá sjónarhorni mannfræðilegra málvísinda. Þá verður talað um hagnýtingu þeirra rannsókna sem unnar hafa verið hingað til og framtíðarverkefni á sviðinu sem og greiningu á ævisögum heyrnarlausra barna og fjölskyldna þeirra út frá skilgreiningu á „identity“.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði: „Frá VHS til Wiki.“ Hagnýting rannsókna á íslenska táknmálinu
  • Kristín Lena Þorvaldsdóttir, málfræðingur á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra: Hvað eru hljóð, orð og beygingar í íslensku táknmáli?
  • Jóhannes Gísli Jónsson, lektor í íslenskri málfræði og Elísa G. Brynjólfsdóttir, táknmálsfræðingur: Setningafræði íslensks táknmáls
  • Þórhalla Guðmundsdóttir Beck, sjálfstætt starfandi málfræðingur: Merkingarfræði íslensks táknmáls

​Hádegishlé

  • Nedelina Ivanova, málfræðingur á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra: „Ertu búinn að hreinsa tennurnar í fiskinum?“ Um leiðangur rannsakanda við gerð stöðumats á færni í ÍTM
  • Valgerður Stefánsdóttir, forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og doktorsnemi í málvísindalegri mannfræði: Málvísindaleg mannfræði
  • Stefan Hardonk nýdoktor: Heyrnarleysi og auðkenni: kenningar frá póststrúkturalisma

Málstofustjórar: Rannveig Sverrisdóttir lektor og Elísa G. Brynjólfsdóttir táknmálsfræðingur

Útdrættir:

Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði: „Frá VHS til Wiki.“ Hagnýting rannsókna á íslenska táknmálinu

Rannsóknarsaga íslenska táknmálsins spannar nú u.þ.b. 25 ár og hafa rannsóknir á málinu aukist stig af stigi. Á sama tíma hafa átt sér stað miklar tæknilegar breytingar sem hafa haft áhrif á aðgengi rannsóknargagna og úrvinnslu þeirra. Í stað þess að sitja með VHS myndband og sjónvarp geta rannsakendur nú leitað í rafrænar orðabækur eða „wiki“ síður og sent myndefni sín á milli til að skoða dæmi. Þessi tækni hefur ekki síður áhrif á birtingu allra rannsókna, miðlun þeirra og hagnýtingu. Í erindinu verður sagt frá því hverju rannsóknir síðustu 25 ára hafa skilað táknmálssamfélaginu og hvernig miðlun þeirra getur aukist í náinni framtíð.

Kristín Lena Þorvaldsdóttir, málfræðingur á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra: Hvað eru hljóð, orð og beygingar í íslensku táknmáli?

Táknmál eru byggð úr sams konar formeiningum og raddmál eins og fyrst kom fram í rannsóknum bandaríska málfræðingsins William Stokoe á bandaríska táknmálinu (ASL). Tákn í íslensku táknmáli (ÍTM) eru sett saman úr smærri einingum og byggist hljóðkerfi þess á fimm grunnbreytum, líkt og hljóðkerfi annarra táknmála. Hver grunnbreyta hefur ákveðinn fjölda gilda og er þessi fjöldi misjafn milli táknmála. Í erindinu verður fjallað um þekkt gildi á grunnbreytum ÍTM og hvaða vandamálum rannsakendur standa frammi fyrir við greiningu þeirra.

ÍTM hefur, líkt og önnur rannsökuð táknmál, formdeildirnar persónu, tölu, horf og hátt. Fjallað verður um þá beygingu sem best er rannsökuð í ÍTM, þ.e. samræmisbeygingu og fleirtölu nafnorða. Þá verður einnig fjallað um orðmyndun í ÍTM. Engar formlegar rannsóknir hafi verið gerðar á orðmyndun í ÍTM en ljóst er að henni svipar um margt til orðmyndunar bæði í íslensku og öðrum táknmálum. Þar sem aðeins lítil málheild fyrir ÍTM hefur verið kóðuð hefur það hingað til reynst rannsakendum erfitt að safna dæmum um ólíkar orðmyndunaraðferðir í ÍTM. Af viðtölum við málhafa og yfirferð á ólíkum gögnum er þó ljóst að samsetningar eru algeng leið til orðmyndunar í ÍTM en afleiðsla er sjaldgæf. 

Jóhannes Gísli Jónsson, lektor í íslenskri málfræði og Elísa G. Brynjólfsdóttir, táknmálsfræðingur: Setningafræði íslensk táknmáls

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um það helsta sem vitað er um setningafræði íslensks táknmáls (ÍTM), einkum þó orðaröð í fullyrðingasetningum og hv-spurningum, en það er nær eingöngu afrakstur rannsókna sem eru ekki nema nokkurra ára gamlar. Einnig verður hugað að þeim setningafræðirannsóknum sem beinast að ÍTM og standa enn yfir en þar ber hæst rannsóknir á neitandi setningum í ÍTM og dularfullu sögnunum BIDD og LALLA. Að lokum verður leitað svara við þeirri spurningu hvað framtíðin muni bera í skauti sér varðandi rannsóknir á setningafræði ÍTM og hvernig best megi tryggja að fræðileg þekking á þessu áhugaverða sviði haldi áfram að vaxa.

Þórhalla Guðmundsdóttir Beck, sjálfstætt starfandi málfræðingur: Merkingarfræði íslensks táknmáls

Í þessu erindi verður farið í þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á íslenska táknmálinu með hliðsjón af klassískum merkingarfræðum, og tengsl þeirra við aðrar rannsóknir á íslensku og öðrum málum. Fljótt á litið er hægt að gefa sér ýmislegt er varðar merkingafræði táknmálsins, að minnsta kosti til að byrja með, en annað sem lýtur að sérhæfðari sviðum verður að rannsaka, því það er mismunandi frá máli til máls, svo sem þegar kemur að merkingarflokkum. Einnig verður farið í það hvert er stefnt í þessum málum og hvað er á dagskrá í rannsóknum á merkingarfræði táknmáls. 

Nedelina Ivanova, málfræðingur á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra: „Ertu búinn að hreinsa tennurnar í fiskinum?“ Um leiðangur rannsakanda við gerð stöðumats á færni í ÍTM

Í erindinu verður fjallað um áskoranirnar við gerð stöðumats í færni í ÍTM og leiðangur rannsakanda við greiningu gagna út frá ýmsum sjónarhornum málvísindanna. Enginn staðall fyrir málþroska á ÍTM er til í dag og ekki heldur stöðluð próf. Þess vegna er talað um stöðumat á færni í ÍTM en ekki málþroskapróf.  Til þess að varpa ljósi á ferlið annars vegar við gerð og framkvæmd stöðumatsins, og hins vegar við úrvinnslu gagna verður rætt um breyturnar sem rannsakandinn þarf að taka mið af í vinnu sinni, s.s. bakgrunnsupplýsingar tengdar barnahópnum, tengsl barnahópsins við málumhverfið og hvernig málumhverfið hefur mótandi áhrif á færni barnanna í ÍTM og verður starf rannsakandans skoðað í því ljósi. Sjónum verður líka beint að inntaki stöðumatsins.

Valgerður Stefánsdóttir, forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og doktorsnemi í málvísindalegri mannfræði: Málvísindaleg mannfræði

Í umfjöllun um íslenskt táknmál (ÍTM) og íslensku birtast ólík viðhorf og gildismat döff fólks og heyrandi. Lausnir á viðfangsefnunum í lífinu eru ólíkar eftir því hvort horft er af döff eða heyrandi sjónarhóli. Heyrandi fólk stýrir menningarlega forræðinu og döff fólk upplifir oft valdbeitingu í tengslum við ákvarðanir sem teknar eru. Ólík viðhorf og gildismat birtust til dæmis í deilu sem spannst vegna þeirrar ákvörðunar nokkurra döff foreldra að fá ekki kuðungsígræðslu fyrir döff börn sín. Í fyrirlestrinum verður varpað ljósi á ólík viðhorf döff og heyrandi fólks til heyrnarleysis, döffernis, íslensks táknmáls og döff menningar. 

Stefan Hardonk nýdoktor: Heyrnarleysi og auðkenni: kenningar frá póststrúkturalisma

Ég mun fjalla í fyrirlestrinum um hvernig við getum notað kenningar um auðkenni (identity) sem ganga út frá sveigjanlegum og staðbundnum skilningi á auðkenni til að greina ævisögur heyrnarlausra barna og fjölskyldna þeirra. Innan fötlunarfræða hafa vísindamenn í auknu mæli sýnt áhuga á póststrúkturalisma og möguleika sem þetta sjónarmið býður upp á. Svokölluð gagnrýn fötlunarfræði („Critical Disability Studies“) leggur mikla áherslu á afbyggingu og ekki síst varðandi tvíhyggjuna ó/fatlaður. Rannsóknir um heyrnarleysi og þá sérstaklega um auðkenni heyrnarlausra hafa hingað til oftast verið byggðar á föstum flokkum og er heyrnarlaust fólk skilgreint sem döff, heyrnarlaust eða tvímenningarlegt. Meðal annars Davis og McIlroy hafa bent á mikilvægi þess að skoða myndun auðkennis í félagslegu samhengi og leggja þeir til að opnað verði fyrir sveigjanleika og þær fjölbreyttu stöður sem heyrnarlaust fólk getur verið í. Ég mun kynna þetta sjónarmið og bæta hugtökunum „atbeini“ og „orðræðu“ við til að setja upp ramma fyrir rannsókn um hvernig heyrnarlaus börn búa til auðkenni sem gerir þeim kleift að taka þátt í samfélaginu – t.d. í menntun og tómstundum. Auk þess verður fjallað um orðræðu og valdatengsl með áherslu á það hvernig börn og fjölskyldur þeirra andæfa gegn orðræðu sem skilgreina heyrnarleysi og félagslega stöðu barna.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is