Ritið 1/17

Ritið 1. hefti, 17. árgangur - 2017

Sólveig Guðmundsdóttir: Ósiðlegir gjörningar og róttækar launhelgar. Um klám, sataníska tilbeiðslu og lífhyggju í Abreaktionsspiel Hermanns Nitsch

Í greininni er gjörningur aksjónistans Hermanns Nitsch, Abreaktionsspiel, greindur í þeim tilgangi að rannsaka birtingarmyndir kláms og dulspeki innan verksins og þá margslungnu orðræðuþræði sem liggja þar á milli. Aðgerð Nitsch er lýsandi dæmi um mikilvægt hlutverk orðræðu klámsins innan listarinnar, en með því að grannskoða klámið samhliða orðræðu dulspekinnar opnast nýtt sjónarhorn á verkið. Jafnframt er rýnt í orðræður kaþólsks helgihalds, menningarlegs andófs, sálgreiningar og lífhyggju eins og þær birtast í Abreaktionsspiel og kannað hvaða hlutverki þær gegna innan fagurfræðilegs verkefnis og menningarlegs andófs aksjónismans. Notast er við aðferðir sögulegrar orðræðugreiningar og gjörningurinn settur í menningarlegt samhengi austurrísks samfélags á eftirstríðsárunum, einkum með það í huga að sýna í hverju ögrun aksjónistanna gagnvart ríkjandi gildum var fólgin. Aðgerðin dregur fram þann margbrotna og fjölþætta orðræðuvef sem er að finna í verkum aksjónistanna og þau ólíku hlutverk sem orðræðurnar leika innan andófs þeirra og fagurfræði.

Lykilorð: Nýframúrstefna, dulspeki, klám, aksjónismi, söguleg orðræðugreining

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is