Ritið 1/17

Ritið 1. hefti, 17. árgangur - 2017

Benedikt Hjartarson: „Magnan af annarlegu viti“. Um strangvísindalega dulspeki Helga Pjeturss

Jafnan er litið svo á að afdráttarlaus skil verði á höfundarferli Helga Pjeturss um 1910, þegar hann segi skilið við rannsóknir á sviði náttúruvísinda og helgi krafta sína dulrænum efnum. Við nánari athugun má greina samfellu í höfundarverkinu, sem teygir sig frá fyrstu ritgerðum Helga á sviði líffræði til lýsinga hans á alheimi sem er byggður framandi verum og þrunginn annarlegum kröftum. Í greininni er leitað svara við áleitnum spurningum um samband vísindahyggju og andlegra strauma í menningu nútímans sem vakna við lestur Nýals, fyrsta lykilrits Helga á sviði heimsmyndafræði, sem kom út í þremur bindum á árunum 1919–1922 og var ætlað að leiða mannkynið inn í nýja heimsmynd þar sem átrúnaður og vísindi yrðu eitt. Sjónum er beint að tilkalli Nýals til vísindalegs þekkingargildis og rótum hinnar nýju heimsmyndafræði í kenningum um ljósvakann og þróun lífsins, sem nú eru gleymdar en gegndu mikilvægu hlutverki í alþýðlegri vísindaumræðu í upphafi tuttugustu aldar.

Lykilorð: dulspeki, Helgi Pjeturss, vísindasaga, ljósvakafræði, þróunarkenningar

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is