Ritið 2/16

Ritið 2. hefti, 16. árgangur

Þorsteinn Vilhjálmsson: Þrjú skref í átt að tilurð klámsins

Í greininni er bent á þrjú söguleg skref í átt að tilurð hins nútímalega klámhugtaks sem öll tengjast hinni grísk-rómversku fornöld. Kristni guðfræðingurinn Klemens frá Alexandríu (2. öld e. Kr.) tók í fyrsta sinn kynferðislega framsetningu út fyrir ramma og fordæmdi sem slíka. Fyrir daga Klemensar var þekking og framsetning á kynferði og kynlífi allstaðar aðgengileg en var ekki flokkuð eða talin mynda sérstakan sess í karakter hvers manns. Þennan kynferðisskilning kallaði Foucault ars erotica, í andstöðu við hina nútímalegu flokkunar- og skilgreiningarþörf, scientia sexualis. En með risi kristninnar var kynferðislegri framsetningu fornaldar eytt úr almannarýminu og einkenni hennar gleymdust. Þegar rústir rómverska bæjarins Pompeii voru grafnar upp á 18. öld enduruppgötvaðist því framandleiki ars erotica. Sérflokkur Klemensar var fundinn upp á ný og fékk í þetta sinn nafnið pornographia. En jafnframt er hægt að finna vísi að fordæmdum sérflokki kynferðislegrar framsetningar innan hins heiðna samfélags fornaldar: Kynlífshjálparbækurnar, sérstaklega bók Fílænisar frá Samos. Þessi verk voru fordæmd í fornöld þótt listaverkin í Pompeii þættu sjálfsögð. Ástæður þessa kunna að liggja í því að kynlífshjálparbækurnar buðu upp á annan skilning á kynlífi og kynferði en var almennur til forna; með kerfisbundinni umfjöllun sinni minna þær á hið nútímalega scientia sexualis frekar en ars erotica. út frá þessu má álykta að fordæmdur sérflokkur kynferðislegrar framsetningar – sem er grunnurinn að klámhugtakinu – eigi rætur sínar í hugmyndafræðilegum ágreiningi tveggja ósamrýmanlegra þekkingarkerfa hvað varðar kynlíf og kynferði.
 
Lykilorð: Klám, kynlíf, kynlífshjálparbækur, Pompeii, fornfræði, Fílænis frá Samos, Klemens frá Alexandríu, Michel Foucault, ars erotica, scientia sexualis
 
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is