Ritið 2/16

Ritið 2. hefti, 16. árgangur - 2016

Sólveig Anna Bóasdóttir: Hlutgerving, kynlíf og klám

Á 8. og 9. áratug síðustu aldar voru harðar deilur meðal femínista þegar róttækir femínistar gagnrýndu kynferðislega hlutgervingu í klámi og héldu því fram að klám væri birtingarmynd kynlífsnauðungar, iðkun kynjapólitíkur og stofnun sem byggði á ranglæti. Frjálslyndir femínistar andmæltu þeirri túlkun og sögðu hana ótrúverðuga og öfgafulla. Heimspekingurinn Martha Nussbaum sem skoðað hefur þessa umræðu varpar ljósi á margræðni hlutgervingarhugtaksins og setur fram þá kenningu að hlutgerving sé forsenda unaðslegs kynlífs. Í greininni er spurt hvort hlutgerving sé ætíð af hinu illa eða hvort megi réttlæta hana í vissu samhengi. Rýnt er í skoðanir bæði róttækra og frjálslyndra femínista frá þessum tíma og skoðunum hinna fyrrnefndu hafnað á grundvelli þess að þær alhæfi um of og byggi ekki á gagnreyndri þekkingu. Því er haldið fram að enn eimi eftir af neikvæðum viðhorfum til kynlífs meðal femínista, svipuðum þeim sem litað hafa vestræna, kristna menningu um aldir. Kynlífssviðið er talið hættulegt konum og kynlíf sérstaklega skaðlegt. Þessari afstöðu er hafnað en tekið undir með frjálslyndari femínistum sem benda á mikilvægi þess að fjalla um kynlíf kvenna í jákvæðara ljósi og undirstrika sjálfræði og frelsi þeirra til að hlutast til um eigin líf, einnig á vettvangi kynlífs.
 
Lykilorð: kynferðisleg hlutgerving, klám, immanúel Kant, róttækir femínistar, frjálslyndir femínistar
 
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is