„Samlíðunin er uppspretta hins æðsta saungs“

Laugardaginn 15. mars kl. 13.00-16.30 í stofu 225 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Samlíðan (e. empathy) – að finna til þess sem aðrir finna til − hefur verið ofarlega á baugi í alþjóðlegri fræðiumræðu síðustu áratuga enda líta ýmsir svo á að hún skipti miklu í sambýli manns og náttúru, svo ekki sé talað um sambýli manns við mann. Nýlegar rannsóknir í lífvísindum og ný tækni hefur aukið skilning manna á samlíðan en enn er þó margt ókannað sem að henni snýr og margar hugmyndir um hana umdeildar, t.d. að bókmenntalestur efli samlíðan fólks með öðrum. Í málstofunni mætast fræðimenn úr ólíkum greinum. Þar verður fjallað um samlíðan af sjónarhóli málvísinda, bókmenntafræði, sálfræði og félagsvísinda. Sagt verður frá rannsóknum og könnunum – stórum og smáum − og viðbrögðum fólks við ýmiss konar efni sem fyrir það er lagt. Jafnframt verður hugað að afmörkuðum fræðilegum úrlausnarefnum á hinum ólíku fræðasviðum og fjallað almennt um samlíðan með dæmum af bókmenntum.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum: „þetta taugahnútakerfi samlíðunartaugakerfið“: um samlíðan og bókmenntir
  • Þórhallur Eyþórsson, dósent í ensku: Grettir og Glámur: sjónarhorn í fornum texta og samlíðan nútímalesanda
  • Guðrún Steinþórsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum: Samlíðan og sérfræðingar: eigindlegar rannsóknir á viðbrögðum fólks við brotum úr sögum Vigdísar Grímsdóttur
  • Hulda Þórisdóttir, sálfræðingur, lektor í stjórnmálafræði: Samlíðan og stjórnmálaviðhorf: Skiptir lestur bóka máli?
  • Ragný Þóra Guðjohnsen, doktorsnemi í uppeldis- og menntunarfræði og Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði Menntavísindasviði: Samlíðan ungs fólks og viðhorf þess til borgaralegrar þátttöku
  • Auður Stefánsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum: Samlíðan í nærumhverfi: eigindleg rannsókn á viðbrögðum fólks við smásögu Kristínar Geirsdóttur

Málstofustjóri: Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi

Útdrættir:

Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum: „þetta taugahnútakerfi samlíðunartaugakerfið“: um samlíðan og bókmenntir

Í fyrirlestrinum verður í upphafi vikið að mismunandi skilningi sem Íslendingar hafa lagt fyrr og nú í orðið samlíðan og þaðan fetað út í ólíka afstöðu samtímamanna almennt til þess fyrirbæris sem enskumælandi menn nefna empathy. Drepið verður á skyld atriði eins og hugarkenninguna (Theory of Mind) og hugsamveru (intersubjectivity)  og fjallað um hverju þetta þrennt skiptir í rannsóknum á bókmenntum og hver hætta er á að að það lendi utangarðs ef ekki er hugað að viðtökum bókmennta, jafnt sem höfundum og skáldskapnum sjálfum. Lestur verður þar með í brennidepli; dæmi tekin bæði af bundnu máli og óbundnu og vísað í eigindlegar rannsóknir auk greininga fyrirlesara.

Þórhallur Eyþórsson, dósent í ensku: Grettir og Glámur: sjónarhorn í fornum texta og samlíðan nútímalesanda

Í þessum fyrirlestri verður sagt frá rannsókn á stílfræðilegum og setningafræðilegum atriðum í fornbókmenntum sem kunna að hafa áhrif á samlíðan nútímalesenda.  Rannsóknin beinist að frægum kafla í Grettis sögu þar sem segir frá viðureign Grettis og Gláms. Meðal annars verður stuðst við niðurstöður könnunar sem var gerð sérstaklega til að afla upplýsinga um atriði sem kynnu að vekja samlíðan þegar þessi frásögn er lesin. Einkum er hugað að mismunandi sjónarhorni frásagnarinnar þar sem atburðunum er ýmist lýst frá hlutlausu sjónarhorni, út frá upplifun Grettis eða með augum Gláms. Getum verður leitt að því að tiltekin málfræðiatriði í textanum auki áhrifamátt frásagnarinnar, m.a. þolmynd/germynd, nútíð/þátíð og orðaröð. Loks verður því haldið fram að notkun sagna sem tjá skynjun eða upplifun geri lesandanum kleift að taka þátt í skynjuninni og sjá inn í huga persónanna sem eigast við. Ályktað er að unnt sé að greina atriði sem hafa áhrif á samlíðun með persónunum og jafnvel þeim aðstæðum sem þær eru í.

Guðrún Steinþórsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum: Samlíðan og sérfræðingar: eigindlegar rannsóknir á viðbrögðum fólks við brotum úr sögum Vigdísar Grímsdóttur

Í fyrirlestrinum verður greint frá tveimur eigindlegum rannsóknum þar sem viðtökur við brotum úr skáldsögum Vigdísar Grímsdóttur voru kannaðar og þá einkum tilfinningaviðbrögð fólks og samlíðan. Í hinni fyrri var brot úr Þögninni (2000) lagt fyrir 20 manna hóp, annars vegar tíu einstaklinga sem menntaðir voru í tónlist, hins vegar 10 manns sem ekki höfðu tónlistarnám í farteskinu. Í ljós kom að bakgrunnur tónlistarmannanna hafði önnur áhrif á viðbrögð þeirra við textanum en gert hafði verið ráð fyrir. Því var ákveðið að kanna viðbrögð 10 myndlistarmanna með því að leggja fyrir þá brot úr skáldsögunni Þegar stjarna hrapar (2003) og bera saman við viðbrögð 10 einstaklinga sem ekki eru menntaðir í myndlist. Textarnir úr sögunum tveimur eiga það sameiginlegt að í þeim er fjallað um ákveðið listform, tónlistina í Þögninni en myndlistina í Þegar stjarna hrapar. Rætt verður um hvernig bakgrunnur þátttakenda markar viðbrögð þeirra og hvaða vísbendingar eigindlegar rannsóknir af þessu tagi kunna að gefa um aðra þætti en þá sem bókstaflega er spurt um. 

Hulda Þórisdóttir, doktor í félagslegri sálfræði og lektor við stjórnmálafræðideild: Samlíðan og stjórnmálaviðhorf 

Í þessum fyrirlestri verður greint frá fyrstu niðurstöðum rannsóknarverkefnis á samspili samlíðunar og stjórnmálaviðhorfa. Farið verður yfir helstu niðurstöður erlendra rannsókna og að hvaða marki fyrstu íslensku gögn eru til samræmis við þær. Greint verður frá niðurstöðum tilraunar þar sem prófuð var tilgátan að framköllun samlíðunar í rannsóknarstofunni auki líkurnar á því að fólk hneigist (tímabundið) til stjórnmálaviðhorfa sem almennt eru talin til vinstri. Samlíðan var framkölluð með tveimur útgáfum af stuttri frumstæðri teiknimynd sem sýnir tvo þríhyrninga hreyfast um flöt. Helmingur þátttakenda sá útgáfu af myndinni sem vekur upp þá tilfinningu að þríhyrningarnir eigi í samskiptum (tilraunahópur) en hinn helmingurinn sá þríhyrningana fljóta stefnulaust um flötinn (samanburðarhópur).  Þátttakendur í tilraunahóp voru í kjölfarið líklegri til að segjast eiga auðvelt með að upplifa samlíðan, réttlættu síður kerfið (viðhorf sterklega tengt hægri-íhaldssemi), studdu síður skattalækkanir og töldu sig vinstri sinnaðri en þátttakendur í samanburðarhópi. Niðurstöður verða ræddar í ljósi þekkingar um samlíðan innan sálfræði og bókmenntafræði.

Ragný Þóra Guðjohnsen, doktorsnemi í uppeldis- og menntunarfræði og Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði Menntavísindsviði: Samlíðan ungs fólks og viðhorf þess til borgaralegrar þátttöku

Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna tengsin á milli samlíðunar ungmenna og viðhorfa þeirra til borgaralegrar þátttöku fólks. Borgaraleg þátttaka vísar annars vegar til hefðbundinnar þátttöku fólks (t.d. að kjósa, taka þátt í umræðu um pólitík) og hins vegar til þátttöku þeirra í félagslegum hreyfingum (t.d. vinna að mannréttindum, taka þátt í að vernda umhverfið). Samlíðan snýr annars vegar að vitsmunalegri samlíðan (t.d. „Ég skil að vinur minn sé ánægður þegar hann stendur sig vel í einhverju“) og hins vegar að tilfinningalegri samlíðan (t.d. „Ég á auðvelt með að lifa mig inn í tilfinningar annarra“).

Rannsóknin er hluti rannsóknarinnar Borgaravitund ungs fólks í lýðræðisþjóðfélagi sem annar höfundur erindisins stendur að. Þátttakendur voru 1042 ungmenni (14 og 18 ára) úr grunn- og framhaldsskólum í þremur byggðakjörnum á Íslandi. Spurningalistar voru lagðir fyrir ungmennin.

Helstu niðurstöður benda til að þau ungmenni sem sýna ríkari vitsmunalega og tilfinningalega samlíðan séu líklegri til þess að hafa jákvæðari viðhorf til þátttöku fólks í félagslegum hreyfingum. Ekki virðast koma eins sterk tengsl á milli samlíðunar ungmennanna og viðhorfa þeirra til hefðbundinnar borgaralegrar þátttöku fólks.

Auður Stefánsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum: Samlíðan í nærumhverfi: eigindleg rannsókn á viðbrögðum fólks við smásögunni Sóríu-Móríu eftir Kristínu Geirsdóttur

Í fyrirlestrinum verður nær óþekkt skáldkona, Kristín Geirsdóttir (1908-2005), kynnt í stuttu máli. Kristín bjó alla tíð á Hringveri í grennd Húsavíkur; fæstar sagna henna hafa birst á prenti en þær markast af því umhverfi og þeim tímum sem hún lifði og  einkennast af því sem mætti kalla hefðbundna frásagnarlist. Ákveðið var að kanna hvernig viðtökur við sögum Kristínar væru í samtímanum, og þá að byrja í nærumhverfi hennar sjálfar.

Eigindleg rannsókn var því gerð á Húsavík, annars vegar á eldri borgurum og hins vegar á aldurshópnum 25-35 ára. Lagt var fyrir óprentað textabrot úr smásögunni Sóríu-Móríu svo engar líkur voru á að þátttakendur þekktu söguna. Niðurstöður verða túlkaðar með hliðsjón af skrifum hugfræðinga, einkum þeirra sem hafa sérhæft sig í samlíðan í bókmenntum, svo sem Suzanne Keen. Kenningar um samlíðan og áhrif nærumhverfis verða nýtt til að ræða um hvort einfaldir textar veki meiri samlíðan en þeir sem flóknari eru. Einnig verður hugað að öðrum þáttum (aldri, lestrarvenjum o.fl.) og áhrifum þeirra á samlíðan með skálduðum persónum. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is