Samræður við landslag – Málstofa tengd útgáfu bókarinnar Conversations with Landscape

Laugardagur 26. mars kl. 10.30-16.30 í stofu 229 í Aðalbyggingu Háskólans

Landslag er hugtak sem vísar í senn til menningar og náttúru. Lengst af hefur verið fjallað um það annaðhvort sem efnisleg form eða sem myndrænan menningarlegan tilbúning. En er hugsanlegt að líta á tengsl fólks og landslags á gagnvirkari hátt – sem samræður? Fyrir skömmu kom út bókin Conversations with Landscape, sem Karl Benediktsson og Katrín Anna Lund ritstýrðu, þar sem fjölþjóðlegur, þverfaglegur hópur fræðafólks vinnur með þessa hugmynd. Í bakgrunni er íslenskt landslag í öllum sínum margbreytileika.

Í málstofunni flytja sjö af höfundunum erindi. Að því loknu verða pallborðsumræður um bókina með þátttöku fólks úr listum, hugvísindum, félagsvísindum og náttúruvísindum – nokkurs konar samræður um samræður við landslag.

Málstofustjóri: Þorvarður Árnason, forstöðumaður Fræðaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði

Fyrirlesarar:

  • Katrín Anna Lund, dósent í ferðamálafræði: Samræður við landslag
  • Ástráður Eysteinsson, prófessor í bókmenntum og forseti Hugvísindasviðs: Snæfellsjökull í garðinum
  • Anna Jóhannsdóttir, myndlistarmaður og stundakennari í listfræði við HÍ: Vatn í veðrum og myndum

Hádegishlé

  • Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki: Hver erum „við“ sem erum innblásin af íslenskri náttúru?
  • Edda R.H. Waage, doktorsnemi í landfræði: Fyrirbærið landslag
  • Karl Benediktsson, prófessor í landfræði: Kindarlegt og mannlegt landslag tákna og tjáningar

Kaffihlé

  • Bryndís Snæbjörnsdóttir, myndlistarmaður og prófessor í myndlist: Innan ramma myndlistarinnar: Samtöl manna og dýra í landslaginu
  • Pallborðsumræður

 

Útdrættir:

 

Katrín Anna Lund, dósent í ferðamálafræði
Samræður við landslag

Heimspekingurinn Hans-Georg Gadamer hefur bent á að einlægar samræður eru aldrei þær sem við einsetjum okkur að eiga, heldur frekar þær sem við „lendum í“ eða verðum þátttakendur í. Góðar samræður flétta saman mörgum mismunandi þráðum, sem gera þær margslungnar, ófyrirsjáanlegar og óendanlegar. Þær opna fyrir frekari skilning og nýja sýn. Einnig má halda því fram að landslag, á þann hátt sem fræðimenn hafa nálgast hugtakið, sé að mörgu leyti gætt sömu eiginleikum. Það er síbreytilegt, ótamið og óendanleg uppspretta samræðna. Í þessu erindi mun ég fjalla um mismunandi tjáningarform landslags. Hvernig talar landslagið til okkar? Er það háð mismunandi stað og tíma hverju sinni? Hvaða aðstæður skapa „samræður við landslag“ og hvers konar skilning geta þær samræður opnað?

 

Ástráður Eysteinsson, prófessor í bókmenntum og forseti Hugvísindasviðs
Snæfellsjökull í garðinum

„Í ótal myndum er innri sjón / mannsins bundin / Útsýni hafsins og landsins“. Svo segir í ljóði Jóhannesar Kjarvals „Snæfellsjökull“. Í þessu málþingserindi verður fjallað um Snæfellsjökul sem stað og mynd er birst hefur með ýmsu móti, allt frá fornu fari til samtímans, í textum, hugmyndum, ímyndun og myndverkum. Hann hefur verið ráðandi landslagsþáttur í sínum fjórðungi og sem náttúruvætti hefur hann teygt sig langt út fyrir það svæði. Hugað verður að tilraunum til samræðna við Snæfellsjökul, og því táknræna gildi sem honum er léð í ýmsum menningarmyndum, sérstaklega í bókmenntaverkum, t.d. Bárðar sögu Snæfellsáss og skáldverkum eftir Jules Verne, Halldór Laxness, Steinunni Sigurðardóttur, Ísak Harðarson og fleiri.

 

Anna Jóhannsdóttir, myndlistarmaður og stundakennari í listfræði við HÍ
Vatn í veðrum og myndum

Á 19. öld gætti nýrra viðhorfa í landslagsmálun og myndmál verka mótaðist í auknum mæli af huglægri skynreynslu af náttúrunni. Slík reynsla varpaði ljósi á síbreytilega og hverfula ásýnd hlutanna og listamenn hófu að leggja áherslu á að sýna náttúruna sem síkvikt ferli. Sýnd verða nokkur dæmi um 19. aldar myndverk þar sem samband (lista)manns og náttúru er í fyrirrúmi. Í seinni hluta fyrirlestrarins verður hugað að birtingarmyndum huglægra og skynrænna þátta í náttúrutengdri myndlist samtímans. Bandaríski listamaðurinn Roni Horn á gjarnan í samræðu við náttúruna, ekki síst á ferðalögum um Ísland, í verkum sem fela í sér sjálfskönnun og vangaveltur um mismunandi rými, huglæg sem hlutlæg. Vatn og veður koma við sögu í verkunum sem verða til umfjöllunar og tengjast Snæfellsnesi og Thames-ánni í London.

 

Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki
Hver erum „við“ sem innblásin af íslenskri náttúru?

„Samræður við landslag“ („Conversations with Landscape“) er titill nýútgefins greinasafns um íslenskt landslag. Samræður við landslag geta ekki verið annað en samræður við okkur sjálf um náttúruna, tengsl okkar við landslag og reynslu okkar af því vegna þess að allar staðhæfingar um náttúruna eru mannasetningar. Við getum heldur aldrei höndlað hið óræða sem náttúran býr yfir en skynjum það þó í djúpri fagurfræðilegri reynslu af henni sem við eigum ekki annað orð yfir til að lýsa en sem „frumspekilegri“ reynslu. Við teljum frumspekilega reynslu tjá hinstu rök um grundvallarskilyrði mennskrar tilvistar, um hver við erum í víðu samhengi, hvort sem það er í tengslum við ættjörðina, hnöttinn eða alheiminn. Það er athyglisvert í því samhengi að greina frumspekilegar hugmyndir um íslenska náttúru sem kjarna sjálfsvitundar íslenskrar þjóðar, eins og þjóðarsjálfsvitundin hefur verið skilgreind í ýmsum landkynningar-, ímyndar-, auglýsinga- og markaðsherferðum á undanförnum árum. Hvers kyns og hvers eðlis eru þær frumspekilegu hugmyndir um náttúruna sem þar birtast?

 

Edda R.H. Waage, doktorsnemi í landfræði
Fyrirbærið landslag

Í þessu erindi verður íslenska hugtakið landslag tekið til gagnrýninnar skoðunar. Leitast er við að skilja verufræði landslags út frá kenningum um tengslanet og fyrirbærafræði Maurice Merleau-Pontys. Í stað þess að líta á landslag sem hlutbundinn veruleika er það skilgreint sem rými sem verður til við tengsl manns og náttúru af ákveðnu tagi, þ.e. tengsl sem myndast gegnum sjónræna skynjun mannsins á formum náttúrunnar og þá fagurfræðilegu upplifun sem af henni getur hlotist. Af þessu leiðir að rétt eins og náttúran er maðurinn órjúfanlegur hluti landslagsins, sem og fegurðin.

 

Karl Benediktsson, prófessor í landfræði
Kindarlegt og mannlegt landslag tákna og tjáningar

Landslagsfræði, a.m.k. af félags- og hugvísindalegum toga, hafa oftast hverfst um mannskepnuna, skynjun hennar á landslagi og þá menningarlegu merkingu sem í það er lögð. Öðrum skepnum hefur verið veitt fremur lítil athygli. En unnt er að líta á landslag sem annað og meira en menningarlega smíð. Hugtak Jakobs von Uexküll, Umwelt, beinir athyglinni að hinum sérstaka sjálfmiðaða heimi sérhverrar lífveru – sem vettvangi tákna og tjáskipta milli hennar sjálfrar, annarra lífvera og efnislegs umhverfis. Í landslagsfræðum getur nálgun af þessu tagi verið gott og þarft mótvægi við hina mannhverfu hefð. Eða hvað? Í erindinu er gerð grein fyrir þessum hugmyndum, með dæmi af sauðfé og fólki í íslensku landslagi.

 

Bryndís Snæbjörnsdóttir, myndlistarmaður og prófessor í myndlist
Innan ramma myndlistarinnar: Samtöl manna og dýra í landslaginu

Erindi þetta byggir á listaverkum Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Marks Wilson, sem vinna með samband manna og dýra. Aðaláherslan að þessu sinni er á verkefni þeirra um selinn, sem hefur verið sýnt á alþjóðavettvangi sem rýmisverk undir heitinu between you and me. Selurinn hefur verið við strendur Íslands í gegnum árin og hefur samband mannsins við hann breyst töluvert á undanförnum árum. Til er fólk sem hefur gengið í gegnum allt ferlið og man selinn sem matfang, sem réttdræpt meindýr, og nú sem fagurfræðilega veru sem hluta af landslagi sjávar og fjöru. Myndlistin vinnur með myndlíkingar og í tengslum við dýr eftirlíkingar sem oft eru látnar flytja vafasaman boðskap um eðli og eiginleika raunverulegrar fyrirmyndar. Í verkum sínum vinna Bryndís og Mark út frá samfélagslegu sjónarmiði þar sem leitast er við að skapa tengsl milli þess sem unnið er með og þess sem er að gerast í þjóðfélaginu. Hvað breytist í túlkunarferlinu þegar umhverfið eða landslagið er hluti af verkinu og þar af leiðandi heildarmyndinni?

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is