Samskiptasaga Danmerkur og Íslands í nýju ljósi

Laugardaginn 15. mars kl. 13.00-16.30 í stofu 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Ný viðhorf hafa verið að ryðja sér til rúms á undanförnum áratugum í rannsóknum á  samskiptum Íslands og Danmerkur fyrr á tímum. Þau marka fráhvarf frá þeirri þjóðernislegu söguskoðun sem ríkti lengi á Íslandi að kjarni þjóðarsögunnar væri barátta kúgaðrar þjóðar fyrir pólitísku frelsi undan erlendu valdi. Svarthvíta myndin af íslenskum hetjum og dönskum skúrkum er á undanhaldi og jákvæðari viðhorf í garð Dana að breiðast út sem beina athyglinni að ýmsu uppbyggilegu framlagi Dana til íslenskrar samfélagsþróunar.
Í málstofunni verða kynntar nýjar rannsóknir fræðimanna á samskiptasögu Danmerkur og Íslands á 19. og 20. öld í anda þessara nýju viðhorfa. Annar vegar reifa sagnfræðingarnir Guðjón Friðriksson og Jón Þ. Þór efni úr nýútkominni bók sinni, Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands, og fjallar Jón um samstarf Íslendinga og Dana um fræðastarf og bókaútgáfu og Guðjón um hagnýta menntun sem Íslendingar sóttu til Danmerkur. Hins vegar fjallar hópur fræðimanna um Dani og dönsk áhrif á Íslandi frá ýmsum hliðum á 20. öldinni, en ritsafn er væntanlegt með greinum eftir þessa höfunda. Auður Hauksdóttir varpar ljósi á sambúð dönsku og íslensku og viðhorf Dana til íslenskrar tungu, Guðmundur Jónsson fjallar um umsvif Dana í verslun og atvinnulífi Íslendinga, Íris Ellenberger greinir frá dönskum áhrifum á menningu og mannlíf og Sigurður Pétursson ræðir um farþegasiglingar og félagslegt gildi Gullfossanna tveggja.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Jón Þ. Þór, prófessor í sagnfræði við Háskólann á Akureyri: Samstarf og sjálfstæðisbarátta
  • Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur: Handverk og hagnýt menntun sótt til Danmerkur
  • Auður Hauksdóttir, dósent í dönsku við Háskóla Íslands: Sambúð dönsku og íslensku og viðhorf Dana til íslensku
  • Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands: Ísland sem athafnasvæði Dana á 20. öld
  • Sigurður Pétursson, lektor í grísku og latínu við Háskóla Íslands: Tveir Gullfossar. Hlutverk þeirra og félagslegt gildi
  • Íris Ellenberger, sagnfræðingur: „Ungfrúr „spassera“ og skemta sér á „böllum““. Um dansk-íslenskt þéttbýlissamfélag við upphaf 20. aldar.

Málstofustjóri: Upplýsingar væntanlegar

Útdrættir:

Jón Þ. Þór, prófessor í sagnfræði við Háskólann á Akureyri: Samstarf og sjálfstæðisbarátta

Í fyrirlestrinum verður fjallað um danska fjölþjóðaríkið á 18. og 19. öld, stöðu þjóða og hlutverk innan þess. Einkum verður hugað að áhrifum fjölþjóðaríkisins á samstarf Dana og Íslendinga í menningarmálum, ekki síst fræðastörfum og bókaútgáfu á 18. og 19. öld. og tengslum sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld við það.

Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur: Handverk og hagnýt menntun sótt til Danmerkur

Um 1870 hófust Vesturheimsferðir Íslendinga og er talið að um 20 þúsund manns hafi þá flust til Kanada og Bandaríkjanna og komu fæstir þeirra til baka. Um svipað leyti jukust mjög ferðir Íslendinga til Danmerkur en þangað var bæði auðveldara og ódýrara að fara en til Vesturheims. Hefur þeim ferðum ekki verið gefinn mikill gaumur hingað til. Flestir þeirra sem fóru til Danmerkur voru að leita sér hagnýtrar menntunar af margs konar tagi og lögðu þannig grunn að nýju iðnvæddu og borgaralegu þjóðfélagi á Íslandi en stór hluti þeirra sneri aftur til Íslands. Í framsöguerindinu verður leitast við að skilgreina umfang og eðli þessarar útrásar og hvaða þýðingu hún hafði fyrir nútímavæðingu Íslands.

Auður Hauksdóttir, dósent í dönsku við Háskóla Íslands: Sambúð dönsku og íslensku og viðhorf Dana til íslensku

Í umfjöllun um sambúð dönsku og íslensku á fyrri tíð er oft gengið að því vísu að Íslendingar hafi haft gott vald á danskri tungu, og að þeir hafi tileinkað sér málið með því að lesa texta og eiga í samskiptum við Dani hér á landi eða í Danmörku. Heimildir benda til þess að áhugi á að læra dönsku hafi verið mikill meðal margra Íslendinga, enda dönskukunnátta lykill þeirra að námi og frama, sem og öllum samskiptum við Dani. Hér er þó ekki allt sem sýnist, þar sem heimildir sýna að takmörkuð dönskukunnátta, einkum tökin á talmáli, hafi verið mörgum fjötur um fót.

Með vaxandi þjóðernisvitund á nítjándu öld má finna æ fleiri dæmi um neikvæða afstöðu Íslendinga til dönsku, m.a. áhrif hennar á móðurmálið og dönskuskotið málfar embættis- og menntamanna. Hér er margt sem minnir á viðhorf Dana til þýsku gagnvart dönsku. Þjóðernisviðhorf og móðurmálsvæðing í Danmörku ýtti undir notkun dönsku á öllum sviðum, og Íslendingar fóru ekki varhluta af þeirri þróun. Þá gegndi íslensk tunga og íslenskar bókmenntir mikilvægu hlutverki fyrir þjóðernisvitund Dana, sem styrkti stöðu íslenskrar tungu og efldi þjóðernisvitund Íslendinga.
Í fyrirlestrinum verður varpað ljósi á dönskukunnáttu Íslendinga og tækifæri þeirra til að læra og nota málið. Fjallað verður um hlutverk íslenskrar tungu og bókmennta fyrir danskt þjóðerni, og hvernig vaxandi þjóðernishyggja hafði áhrif á stöðu dönsku og íslensku, sem varð hvort tveggja í senn til að veikja og styrkja stöðu málanna hér á landi.  

Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands: Ísland sem athafnasvæði Dana á 20. öld

Danir höfðu sterk efnahagsleg ítök á Íslandi fram eftir 20. öldinni, þótt stjórnmálaáhrif þeirra færu ört dvínandi. Í erindinu er fjallað um fjölbreytt umsvif danskra kaupsýslumanna og fyrirtækja í íslensku atvinnulífi, þám. útgerð, byggingarframkvæmdir og verslunarviðskipti Íslands og Danmerkur. Sjónum er m.a. beint að því hvernig dönskum athafnamönnum gekk að fóta sig í hinu nýja íslenska þjóðríki sem var að rísa af grunni.

Sigurður Pétursson, lektor í grísku og latínu við Háskóla Íslands: Tveir Gullfossar. Hlutverk þeirra og félagslegt gildi

Siglingar og sjósókn í víðum skilningi hafa ætíð verið ein meginforsenda þess að hægt sé að lifa mannsæmandi lífi á Íslandi. Í aldaraðir voru samgöngur til annarra Evrópulanda í höndum erlendra aðila. Þegar sjálfstæðisbaráttan efldist myndaðist því eðlilega bæði ósk og nauðsyn þess að Íslendingar sæju sjálfir um þennan mikilvæga þátt. Með þetta að leiðarljósi var Eimskipafélag Íslands stofnað árið 1914 og skip þess urðu bæði mikilvægir hlekkir í efnahagslífi þjóðarinnar og um leið tákn sjálfstæðs Íslands. Flaggskip félagsins voru Gullfossarnir tveir. Sá eldri var fyrsta skip félagsins og sigldi í 25 ár (1915-1940) og sá yngri í 23 ár (1950-1973). Hér verður athyglinni beint að tilgangi og hlutverki þessara skipa og reynt að bregða upp mynd af félagslegu gildi þeirra í þjóðlífi Íslendinga.

Íris Ellenberger, sjálfstætt starfandi fræðimaður: „Ungfrúr „spassera“ og skemta sér á „böllum“.“ Um dansk-íslenskt þéttbýlissamfélag við upphaf 20. aldar.

Við upphaf 20. aldar bjó hlutfallslega stór hópur af Dönum í þéttbýli á Íslandi. Meðlimir hans höfðu margir talsverð áhrif og settu mark sitt á nærumhverfið í krafti fjármagns, þekkingar og/eða virðingar sem Danir nutu vegna uppruna síns. Í erindinu verður fjallað um samfélagsþátttöku þeirra í sínum heimabyggðum og stöðu þeirra gagnvart öðrum samfélagsmeðlimum með áherslu á aðlögun og þverþjóðleika. Þá verður leitt í ljós hvernig þeir áttu um margt fjölbrettari möguleika á að taka afstöðu til meirihlutasamfélagsins en þær kynslóðir Dana sem komu til landsins um miðja 20. öld. Þá verður samfélagsbreytingum á fyrstu áratugum 20. aldar gerð skil en þær drógu úr möguleikum Dana á að skapa sér tilveru á eigin forsendum.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is