Samstarf leiðbeinanda og doktorsnema

Ekki er mælt fyrir um hve oft leiðbeinandi hittir doktorsnema. Nemar verða þó að geta gengið að ákveðnum lágmarksfjölda funda með leiðbeinanda. Stundum eru fundir til þess að fara yfir efni eða áætlanir, en stundum til þess eins að fara yfir stöðu mála; ræða saman m.a. um gang rannsóknar.

Allt efni sem leiðbeinanda er sent til yfirlestrar skal berast með góðum fyrirvara og skal leiðbeinandi bregðast við með faglegum athugasemdum innan eðlilegra tímamarka.

Í upphafi leiðsagnar er eðlilegt að ræða saman um inntak og form leiðsagnarinnar, hversu oft áætlað er að hittast, hve lengi hverju sinni og hvaða kröfur megi gera um tíma leiðbeinanda og vinnu.

Hlutverk leiðbeinenda er einkum að veita ráðgjöf um afmörkun efnissviðs og mótun rannsóknarspurninga, leiðbeina um öflun og úrvinnslu gagna, leiðbeina um hvernig nálgast á sérfræðilegar heimildir á bókasöfnum eða öðrum gagnasöfnum, ræða um framsetningu á niðurstöðum, fylgjast með framvindu verksins og meta það með hliðsjón af verkáætlun og taka þátt í umræðum um vandamál sem upp koma. Oft felst mikilvægur þáttur námsins enn fremur í samræðum leiðbeinanda og doktorsnema um verkefnið og viðkomandi fræðasvið.

Áhersla er lögð á að doktorsnemi beri ábyrgð á námi sínu. Hlutverk hans er að skipuleggja með leiðbeinendum hvers konar leiðsögn hentar best, semja um fundi og vinnu á milli funda, vinna náms-, rannsóknar- og tímaáætlun um framgang verksins, vinna að verkefni sínu eftir samþykktri áætlun og leyfa leiðbeinendum að fylgjast með framvindu verksins.
Mikilvægt er að doktorsnemi og leiðbeinandi semji einnig sín á milli um hvernig best sé að geta og meta vinnuframlags hvors um sig þegar þeir birta opinberlega efni sem byggir á sameiginlegri vinnu þeirra sem tengist doktorsverkefni. Þetta gæti til dæmis verið hluti af námsáætluninni sem gengið er frá í upphafi náms.

Sjá nánar í 9. gr. reglna um doktorsnám við Hugvísindasvið.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is