Shakespeare, klukka landsins og gnarrinn: Málstofa um íslenskt leikhús

Föstudagur 25. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 231 í Aðalbyggingu Háskólans

Íslensk leiklist er ung grein sé tekið mið af sögu listgreinarinnar í öðrum löndum Evrópu og akademísk umræða um greinina er enn af mjög skornum skammti. Á málstofunni verður leitast við að gera á þessu nokkra bragarbót. Fjallað verður um fyrstu sýningu á Shakespeare-leikriti á Íslandi vorið 1926 og sýnt hvernig sá viðburður tengist aðdragandanum að stofnun Þjóðleikhússins. Þá verða sviðsetningar Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness greindar sem samfélags- og listviðburðir. Loks verður staða pólitísks leikhúss hérlendis greind í ljósi leikrænnar áherslu í kosningabaráttu Besta flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík vorið 2010.

Málstofustjóri: Sveinn Einarsson, leikhúsfræðingur og leikstjóri 

Fyrirlesarar:

  • Magnús Þór Þorbergsson, lektor í leiklistarfræðum við leiklistar- og dansdeild LHÍ: „Vér erum búnir að fá leikhús“: Fyrsta Shakespeare-sýningin og vonin um þjóðleikhús
  • Trausti Ólafsson, stundakennari í bókmenntafræði/leiklistarfræði: Íslandsklukkan og Þjóðleikhúsið
  • Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði: Þegar leikhúsið segir satt en veruleikinn blekkir: Þjóðfélagsádeila í leikhúsi stjórnmálanna

 

Útdrættir:

 

Magnús Þór Þorbergsson, lektor í leiklistarfræðum við leiklistar- og dansdeild LHÍ

„Vér erum búnir að fá leikhús”: Fyrsta Shakespeare-sýningin og vonin um þjóðleikhús

Vorið 1926 var í fyrsta sinn sett upp verk eftir William Shakespeare á íslensku leiksviði þegar Leikfélag Reykjavíkur setti á svið gamanleikinn Þrettándakvöld. Sýningin þótti þá þegar merkur viðburður og mikilsverður áfangi í sögu íslenskrar leiklistar og þótti hún jafnvel til marks um að allar forsendur væru til staðar til að þjóðleikhús gæti hafið starfsemi, en þremur árum áður hafði Alþingi samþykkt að leggja fé til byggingar þjóðleikhúss. Vonin um þjóðleikhús er áberandi í umræðu um sýninguna, en um leið veltir hún upp spurningum um hlutverk og markmið þjóðleikhúss, sem og um sjálfstæði og fagmennsku íslenskrar leiklistar og samanburð við evrópskar leiklistarhefðir.

 

Trausti Ólafsson, stundakennari í bókmenntafræði/leiklistarfræði
Íslandsklukkan og Þjóðleikhúsið

Fjallað verður um leikhús og leiksýningar sem samfélagslegan viðburð og sviðsetningar Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness allt frá vígsluvorinu 1950 séðar í slíku ljósi. Athyglinni er beint sérstaklega að leikstjórn Benedikts Erlingssonar á Íslandsklukkunni vorið 2010 og greint hvernig sviðsetning hans er römmuð inn í Þjóðleikhúsið sem stefnumótsstað þjóðar og listar. Leidd verða að því rök að þessi leikstjórnaraðferð undirstriki mikilvægi leikhússins sem listforms í samfélagi manna og tengi þannig verk Halldórs og listamanna Þjóðleikhússins við veruleika sem er utan þess sjálfs.

 

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði
Þegar leikhúsið segir satt en veruleikinn blekkir: Þjóðfélagsádeila í leikhúsi stjórnmálanna

Fjallað verður um hið leikræna í kosningabaráttu Besta flokksins og hvernig sú notkun leiklistarinnar afhjúpaði og undirstrikaði leikhúsið í hefðbundinni kosningabaráttu. Skoðaðir verða eiginleikar hins pólitíska leikhúss á mörkum hins leikræna, sem og staða þess, möguleikar og merking í samtímanum.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is