Sjö íslenskir og einn Goti

Laugardagurinn 14. mars

Athugið, skipulega málstofunnar hefur breyst þar sem öllu þinghaldi var frestað til kl. 12 vegna veðurs.

Málstofan hefst kl. 12. Þá flytja Kristján, Guðrún og Haraldur sína fyrirlestra. Eftir fyrra kaffihlé, sem er 13.30-13.45, verða fyrirlestrar Aðalsteins, Jóns Axels og Magnúsar. Eftir seinna kaffihlé, sem er 15.15-15.30, verða fyrirlestrar Katrínar og Hauks. Sjá nánar um fyrirlestrana hér fyrir neðan.

Í málstofunni verður fjallað um málheimildir og málbreytingar í sjö fyrirlestrum sem hafa íslenska málsögu að viðfangsefni og einum af sviði gotneskrar málfræði. Rætt verður um hljóðkerfi íslensks máls að fornu og upplýsingar hinna fornu málfræðiritgerða um það og íslenskar hljóðbreytingar og breytingar á beygingum frá ýmsum tímum allt til samtímans. Í brennidepli verða þess vegna íslensk hljóð og orð — og þó má búast við fróðlegum samanburði við færeysku og fá innsýn í vandann við að túlka gotneskt stakdæmi.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Kristján Árnason, prófessor í íslenskri málfræði: Að greina lengd: Fyrsta, önnur og þriðja tilraun íslenskra málfræðinga
  • Guðrún Þórhallsdóttir, dósent í íslenskri málfræði: Dularfulla nefjunarhvarfið
  • Haraldur Bernharðsson, dósent í miðaldafræði: Málbreytingar og málheimildir á 13. öld
  • Aðalsteinn Hákonarson, doktorsnemi í íslenskri málfræði: é — tvíhljóð eða hljóðasamband?
  • Jón Axel Harðarson, prófessor í íslenskri málfræði: „Hvönær sem kallið kemur, kaupir sig enginn frí“: Enn um u-hljóðvarp í íslenzku
  • Magnús Snædal, prófessor í almennum málvísindum: Gotneska orðmyndin aibr
  • Katrín Axelsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Þórarinn í þágufalli
  • Haukur Þorgeirsson, rannsóknarlektor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Ógreinileg beyging í íslensku og færeysku

Málstofustjórar: Þórhallur Eyþórsson prófessor, Ari Páll Kristinsson rannsóknaprófessor og Guðvarður Már Gunnlaugsson rannsóknardósent 

Útdrættir:

Kristján Árnason, prófessor í íslenskri málfræði: Að greina lengd: Fyrsta, önnur og þriðja tilraun íslenskra málfræðinga

Greining lengdar er eitt af eilífðarvandamálunum í hljóðkerfisfræði. Menn eru ekki sammála um það hvar í kerfinu lengd (eða stuttleiki) á heima sem hljóðkerfisþáttur, í einstökum hljóðum eða hljóðsneiðum, í lengri hljóðasamböndum svo sem atkvæðum, eða hvort lengdin er fyrst og fremst tónfallsfyrirbrigði sem ræðst af talhrynjandi og málbeitingu. Svo skemmtilega vill til að fyrstu íslensku málfræðingarnir fara hver sína leið í þessu efni: Fyrsti málfræðingurinn gerir ráð fyrir löngum eða skömmum stöfum. Í annarri málfræðiritgerðinni er talað um að hljóðstafir (sérhljóð) séu styttir eða dregnir og málstafir (samhljóð) hafi misjafnlega fast atkvæði. Ólafur Þórðarson lítur, a.m.k. stundum, á lengd sem eiginleika samstöfu og er þar að einhverju leyti sammála Priscianusi og Snorra frænda sínum. Frekar en tengja þetta hinu fræga sundurlyndi og þrasgirni Íslendinga skulum við að segja að hver hafi nokkuð til síns máls. Og vandamálið er í rauninni enn óleyst.

Guðrún Þórhallsdóttir, dósent í íslenskri málfræði: Dularfulla nefjunarhvarfið

Í Fyrstu málfræðiritgerðinni, sem talin er rituð fyrir eða um miðja 12. öld, er sagt frá nefjuðum sérhljóðum og lagt til að nefjun skuli táknuð með punkti yfir sérhljóðstákni. Engin merki sjást þó í handritum um að skrifarar hafi tekið upp þá ritvenju. Nefjun er líka talin hafa horfið skömmu síðar og orð Fyrsta málfræðingsins um nefjun eru stundum túlkuð þannig að hann hafi lýst íhaldssamri mállýsku. Í fyrirlestrinum verður rætt um það undrunarefni að Fyrsti málfræðingurinn treysti samtíðarmönnum sínum til að merkja nefjun í rithætti, þótt hún væri deyjandi fyrirbæri, og um samband nefjunarhvarfsins við aðrar hljóðbreytingar sem urðu um þær mundir.

Haraldur Bernharðsson, dósent í miðaldafræði: Málbreytingar og málheimildir á 13. öld

Þekking okkar á íslensku máli á 13. öld er að langmestu leyti byggð á rituðum heimildum sem varðveist hafa í handritum frá þeim tíma. Þessar málheimildir eru þó háðar ýmsum takmörkunum sem nauðsynlegt er að taka tillit til. Skriftarþróun á 13. öld bendir til að mynda til þess að handritin séu sprottin úr litlu samfélagi skrifara þar sem nýjungar í skrift breiddust hratt út. Hvaða áhrif hefur þetta á túlkun okkar á vitnisburði þessara handrita um breytingar á máli?

Aðalsteinn Hákonarson, doktorsnemi í íslenskri málfræði: é — tvíhljóð eða hljóðasamband?

Langa ókringda miðlæga frammælta sérhljóðið /é/ [eː] í forníslensku samsvarar oftast [jɛ(ː)] í nútímamálinu sem stafsett er é, sbr. t.d. él, sér og réttr. Venjulega er gert ráð fyrir því að nýíslenskt é sé hljóðasamband hálfsérhljóðsins /j/, sem er einnig í orðum á borð við játa, ljótur og sjá, og sérhljóðsins /e/ sem kemur líka fyrir í orðum eins og vera, selur og detta.

Björn K. Þórólfsson og Jóhannes L. L. Jóhannsson hafa fjallað hvað ítarlegast um breytinguna frá forn- til nýíslensku. Um sumt voru þeir ósammála en báðir gerðu ráð fyrir því (með nokkurri einföldun) að físl. langa einhljóðið /é/ hefði fyrst breyst í tvíhljóð (≈ [iɛː] á 13.–14. öld en seinna orðið að hljóðasambandi þegar fyrri liður tvíhljóðsins breyttist í önghljóð á 16. öld. Yngri fræðimenn virðast ekki hafa gert athugasemdir við lýsingu Björns og Jóhannesar á þróun /é/. Þó hafa fræðimenn lýst efasemdum varðandi áðurnefnda önghljóðun sem Björn og Jóhannes gerðu ráð fyrir að næði til hálfsérhljóðsins /j/ almennt. Séu þær réttar verður óljóst hvenær /é/ breyttist í hljóðasamband. Einnig flækir það málin nokkuð að ekki skilja allir heitin tvíhljóð, hálfsérhljóð og hljóðasamband sama skilningi. Í erindinu verður reynt að greiða úr þessum flækjum og færð rök fyrir því að ritháttarbreytingin ‘e’ (fyrir /é/) > ‘ie’, sem fyrst verður vart í heimildum frá 13. öld, endurspegli breytingu /é/ í hljóðasamband, þ.e. „seinna“ stigið í þróun /é/.

Jón Axel Harðarson, prófessor í íslenskri málfræði: „Hvönær sem kallið kemur, kaupir sig enginn frí“: Enn um u-hljóðvarp í íslenzku

Á undanförnum árum hefur allmikið verið rætt um hvort u-hljóðvarp af a er (að hluta) virk hljóðkerfisregla í íslenzku nútímamáli eða hvort sérhljóðavíxl sem urðu til við þetta hljóðvarp eru aðeins beygingarlega skilyrt. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hve hæpnar forsendurnar eru sem fyrri skoðunin byggist á. Þá verður með ýmsum rökum reynt að sýna fram á að síðari skoðunin er í raun hið eina sem til greina kemur.

Magnús Snædal, prófessor í almennum málvísindum: Gotneska orðmyndin aibr

Í gotneska biblíutextanum er gríska orðið δῶρον ‘gjöf, fórn’ venjulega þýtt með giba ‘gjöf’. Frá þessu eru tvær undantekningar: maiþms er notað einu sinni og aibr einu sinni (Matt 5:23). Fyrirlesturinn fjallar um síðastnefnda formið: Er eitthvert vit í því ef það er tekið eins og það stendur, eða er um að ræða ritvillu fyrir *tibr (eins og Jacob Grimm stakk upp á) eða eitthvað annað?

Katrín Axelsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Þórarinn í þágufalli

Hefðbundin þágufallsmynd karlmannsnafnsins Þórarinn er Þórarni sem kunnugt er. Þetta er sú mynd sem einhöfð var í þágufalli í fornu máli (eftir því sem næst verður komist) og þetta er væntanlega sú þágufallsmynd sem flestum er töm nú á dögum. En dæmi eru um fjórar aðrar þágufallsmyndir nafnsins. Það má líklega teljast heldur óvenjulegt að til séu (eða til hafi verið) fimm beygingarmyndir í einu og sama fallinu. Í fyrirlestrinum verður sagt frá nýjungunum fjórum. Sýnd verða um þær dæmi og sagt frá tilraunum til að grafast fyrir um aldur þeirra og útbreiðslu. Enn fremur verður hugað að ástæðum þess að nýjungarnar komu upp.

Haukur Þorgeirsson, rannsóknarlektor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Ógreinileg beyging í íslensku og færeysku

Fjallað verður um þróun nafnorðabeygingar í íslensku og færeysku með tilliti til kenningar Carstairs-McCarthy um greinileika í orðaforða (e. Vocabular Clarity). Sýnd verða dæmi sem erfitt er að útskýra innan kenningarinnar og rætt um vandann við að skilgreina beygingarflokka.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is