Sjónarhorn á samtímalist

 

Samhengi samtímalistar er gjöfull og virkur rannsóknarvettvangur þar sem myndlist á Íslandi samtvinnast við erlenda list og list fyrri tíma í áhugaverðu samspili. Erindi málstofunnar taka fyrir mörg og fjölbreytt sjónarmið á þetta samhengi.

 

 

Málstofustjóri: Hlynur Helgason

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 10-12 (stofa 225 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Hlynur Helgason, lektor í listfræði: Ragnar Kjartansson — guðleg sjálfsmynd
  • Æsa Sigurjónsdóttir, dósent í listfræði: Eilífðarnetið  netverk listamanna á 8. og 9. áratug 20. aldar
  • Silja Pálmarsdóttir listfræðingur: Ólafur Elíasson: Rými sem miðill
  • Baldvina Sigrún Sverrisdóttir listfræðingur: Í listinni felast lykilsamskipti fólks: Magnús Pálsson og Mob Shop, alþjóðlegar sumarvinnustofur listamanna á níunda áratugnum
Útdrættir:

Hlynur Helgason, lektor í listfræði: Ragnar Kjartansson — guðleg sjálfsmynd

Ragnar Kjartansson hefur á skömmum tíma náð að skapa sér sess í alþjóðlegum listheimi. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvernig hann hefur náð þessum árangri með því að gera verk sem eru í senn áleitin og vingjarnleg. Í fyrirlestrinum verða valin verk Ragnars tekin fyrir og þau skoðuð, með hliðsjón af hugmyndum kennismiða á við Friedrich Nietzsche, Gilles Deleuze og Félix Guattari. Á meðal þeirra verka sem tekin verða fyrir er innsetningin *Guð* sem sýnd var í Nýlistasafninu árið 2007 og gjörningurinn *Schumann Machine* sem framkvæmdur var á Manifesta-hátíðinni á Ítalíu árið 2008. Sjálfsmynd Kjartans sem listamanns verður skoðuð sérstaklega út frá þessum verkum með tilliti til þessum hvernig hún á í samspili við hugmyndir um stöðu listamannsins og grundvallarkenninga um áhrif endurtekningarinnar.  

Æsa Sigurjónsdóttir, dósent í listfræði: Eilífðarnetið  netverk listamanna á 8. og 9. áratug 20. aldar

Listsöguritun er spennandi vettvangur í sífelldri endurskoðun. Á undanförnum árum hefur áhersla verið lögð á mikilvægi þess að rannsaka myndlist fortíðar út frá öðrum viðmiðum en höfundasögu og sögu stefnu og strauma. Í þessum fyrirlestri verður sjónum beint að Eilífðarneti Roberts Filliou (1926 - 1987) og fleiri netverkum listamanna sem hugsanlega mætti skoða sem listsögulegan ramma tímabilsins. Þá verður sýnt fram á hvernig netverk listamanna höfðu áhrif á myndlistarumhverfið á Íslandi á tímabilinu sem um ræðir.

Silja Pálmarsdóttir listfræðingur: Ólafur Elíasson: Rými sem miðill

Síðustu áratugi hafa listamenn lagt aukna áherslu á hlutverk rýmis og áhorfanda í listaverkum sínum og er áhugavert að skoða það allt aftur til sögulegu framúrstefnanna. Í erindinu verður fjallað um rannsóknir á list og hugmyndum Ólafs Elíassonar (f. 1967) og skoðað hvernig hann lítur á rými(ð) sem miðil í list sinni. Þá verða teknir fyrir áhrifavaldar listamannsins og því komið inn á grunnhugmyndir í fyrirbærafræði og listsögulegu stefnurnar Naumhyggju og Landslagslist. Einnig verður litið til áhrifa innan arkitektúrs og þá sérstaklega frá bandaríska arkitektinum Buckminster Fuller og samstarf Ólafs Elíassonar við Einar Þorstein Ásgeirsson arkitekt og stærðfræðing.

Baldvina Sigrún Sverrisdóttir listfræðingur: Í listinni felast lykilsamskipti fólks: Magnús Pálsson og Mob Shop, alþjóðlegar sumarvinnustofur listamanna á níunda áratugnum

Í fyrirlestrinum verður fjallað um Mob Shop, Alþjóðlegar sumarvinnustofur listamanna, sem Magnús Pálsson starfrækti á níunda áratug síðustu aldar. Sjónum verður beint að alþjóðlegum samskiptum og samvinnu sem var snar þáttur í lífi Magnúsar sem listamanns sem og áhuga hans á að miðla því nýjasta sem var á döfinni í listum í hinum vestræna heimi.  Magnús mótaðist sem listamaður af listhugsun Flúxuslistar. Hanna Higgins listfræðingur og höfundur bókarinnar Fluxus Experience hefur bent á að ákveðin samsvörun sé á milli hugmyndafræði heimspekilegrar verkhyggju, kenning heimspekingsins og kennslufræðingsins Johns Dewey og hugmynda flúxuslistamanna um listina og lífið.  Rætt verður hvort og þá með hvaða hætti hugmydafræði verkhyggjunnar eigi sér samsvörun í framkvæmd og hugmyndafræði Magnúsar í Mob Shop, Alþjóðlegum sumarvinnustofum listamanna. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is