Laugardagur 10. mars kl. 13-14.30
Stofa 231 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Á síðastliðnu ári var stofnaður rannsóknahópurinn Nordic Network in Narrativity and Medicine. Stjórnandi er Jens Lohfert Jørgensen, fyrrum lektor í dönsku við Háskóla Íslands. Ásdís Egilsdóttir tók þátt í að undirbúa umsókn til NOS-HS og sótti fyrsta vinnufundinn sem haldinn var í Kaupmannahöfn 9. – 10. desember 2011. Markmið þessa verkefnis er tvíþætt: að efla rannsóknir á orðræðu um sjúkdóma og lækningar í bókmenntum og hvetja til og móta kennslu í bókmenntum fyrir læknanema. Slík námskeið eru þegar orðin að veruleika í ýmsum háskólum. Í málstofunni verður fjallað um margvísleg tengsl sjúkdóma, lækninga og bókmennta frá jarteinum miðalda til Þórbergs Þórðarsonar. Þá verður rætt um rök fyrir því að æskilegt sé að bjóða upp á bókmenntanámskeið fyrir læknanema.
Fyrirlesarar:
- Ásdís Egilsdóttir, prófessor í íslenskum miðaldabókmenntum: Á bókmenntafræði erindi við læknisfræði?
- Gunnvör S. Karlsdóttir, doktorsnemi í bókmenntum: Vígt lífgjafarvatn í trássi við kirkjuna
- Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur og sérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði: Þórbergur Þórðarson og Lækningabók Jónassens
Málstofustjóri: Ásdís Egilsdóttir prófessor
Útdrættir:
Ásdís Egilsdóttir, prófessor í íslenskum miðaldabókmenntum
Á bókmenntafræði erindi við læknisfræði?
Reynt verður að svara spurningunni með vísun í starf rannsóknahópsins Nordic Network in Narrativity and Medicine. Greint verður frá helstu ástæðum þess að bókmenntanámskeið eru orðin valnámskeið í ýmsum háskólum.
Gunnvör S. Karlsdóttir, doktorsnemi í bókmenntum
Vígt lífgjafarvatn í trássi við kirkjuna
Í Jarteinabók Guðmundar góða Arasonar er sagt frá því að vígt brunnvatn hans hafi hrifið ungan prestsson vestur á Ströndum úr klóm dauðans.
Frásögnin er ekki síst áhugaverð fyrir það að greint er frá andstöðu föður drengsins og fleiri presta við brunnvígslur sem líklega hafa verið í trássi við kenningar kirkjunnar og kirkjulög. Fjallað verður nánar um þessa frásögn og aðrar skyldar.
Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur og sérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði
Þórbergur Þórðarson og Lækningabók Jónasens
Fjallað verður um tengsl texta Þórbergs Þórðarsonar við Lækningabók handa alþýðu á Íslandi eftir Jónas Jónassen landlækni sem kom út árið 1884.