Skotland, saga, bókmenntir og sjálfstæði

Laugardaginn 15. mars kl. 10.30-12.00 í stofu 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Tilefni þessarar málstofu er þjóðaratkvæðagreiðslan um sjálfstæði Skotlands sem fram fer 18. september næstkomandi. Fjallað verður um skoskar bókmenntir og sögu í samhengi við sjálfstæðisspurninguna og hugmynda um þjóðarbókmenntir. Fjallað verður m.a. um skoskar nútíma skáldsögur sem fjalla um sögulega atburði, og hvernig þessar sögur endurspegla sjálfstæðisumræðuna. Málstofan verður að auki með nokkuð óhefðbundnu sniði þar sem lesin verður upp þýðing á ljóðinu Tam O‘Shanter eftir þjóðarskáld Skota, Robert Burns.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Gauti Kristmannsson, prófessor: Walter Scott og Eyrbyggja saga
  • Ingibjörg Ágústsdóttir, lektor: Sjálfstæði Skotlands og skoska sögulega skáldsagan
  • Sölvi Björn Sigurðsson les þýðingu sína á ljóðinu Tam O‘Shanter eftir Robert Burns

Málstofustjóri: Ragnheiður Kristjánsdóttir

Útdrættir:

Gauti Kristmannsson, prófessor: Walter Scott og Eyrbyggja saga

Árið 1814, fyrir tvö hundruð árum, kom út fyrsta sögulega skáldsagan eins og hún var skilgreind síðar. Þessi nýja grein skáldsögunnar, sem blómstraði í rómantíkinni og lifir góðu lífi enn, var fundin upp af Skotanum og skáldinu sir Walter Scott, sem þá þegar var heimsfrægur fyrir söguljóð sín. En Scott var þá kominn í svolitla klemmu sem skáld og rithöfundur, því annar ungur Skoti (að hálfu) hafði nýlega skákað honum á „stóra sviðinu“ , George Gordon Byron.  Hvort sem það er ástæða þess að hann ákvað að semja skáldsögur eða ekki, þá er víst að snemma árs 1814 dundaði hann sér við að þýða Eyrbyggja sögu úr latínu á ensku og gaf út um vorið. Ýmsir hafa leitt að því getum að þetta hafi haft mikil áhrif á Scott og tilurð hinnar sögulegu skáldsögu, en aðrir mótmælt því. Hér verður þróun Scotts sem rithöfundar skoðuð í stærra samhengi í því skyni að svara þessari spurningu með nýjum hætti.

Ingibjörg Ágústsdóttir, lektor: Sjálfstæði Skotlands og skoska sögulega skáldsagan

Þann 18. september næstkomandi mun skoska þjóðin kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort að Skotar skuli verða sjálfstæð þjóð eða vera áfram hluti af Bretlandi. Nýlegar skoðanakannanir gefa til kynna að skoska þjóðin sé klofin í afstöðu sinni til málsins. Fyrir Skotum í dag er sjálfstæði þjóðarinnar óþekkt ástand; sjálfstætt Skotland er aðeins ímyndaður staður, eitthvað sem ber að sækjast eftir eða hafna, eftir því hvaða skoðanir fólk hefur á málum. Því hræðast margir óvissuna sem gæti falist í sigri stuðningsmanna sjálfstæðis og Skoska þjóðarflokksins. En hvernig endurspeglast sjálfstæðisumræðan í skoskum nútímabókmenntum? Í þessum fyrirlestri verður fjallað um sögulegar skáldsögur sem gerast á átaka- og umbrotatímum og sem gefnar hafa verið út á síðustu árum, eða á þeim tíma sem sjálfstæðisumræðan hefur verið hvað mest áberandi í samfélaginu. Skoðað verður hvort og þá hvernig þessar sögur endurspegla sjálfstæðisumræðuna, og einnig fjallað um hvort rithöfundar séu meðvitað að varpa fram sjónarmiðum um framtíð Skotlands og mögulegt sjálfstæði í verkum sínum. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is