Skyggnst inn í ljósvakann: Eterkenningar, bylgjufræði, bókmenntir og andlegir straumar í upphafi 20. aldar

Föstudagurinn 13. mars kl. 13.15-14.45.

Í málstofunni verður sjónum beint að kenningum um ljósvakann og eterinn á fyrstu áratugum 20. aldar. Leitast verður við að varpa ljósi á hvernig þessar kenningar móta jafnt bókmenntasköpun, vísindalega umræðu og nýjar andlegar hreyfingar á þessu tímabili. Kenningin um eterinn sem miðil er ber rafstrauma, segulmagn og jafnvel hugsanir var fyrirferðarmikil í umræðu um nýjar vísindakenningar um aldamótin 1900, ekki síst þegar litið er til þeirrar alþýðlegu vísindaumræðu sem gegnir jafnan lykilhlutverki við viðtökur og úrvinnslu á nýrri vísindalegri þekkingu. Hugmyndin um eterinn heldur gildi sínu sem vísindaleg orðræða allt til loka annars áratugarins, þegar afstæðiskenning Einsteins öðlast almenna viðurkenningu, og hún gefur mikilvæga innsýn í þann hugmyndaheim sem menning og listsköpun tímabilsins tilheyrir. Hugmyndin um eterinn leysist ekki upp þegar hún er afsönnuð með aðferðum hinna ströngu raunvísinda, heldur öðlast hún framhaldslíf í óhefðbundinni vísindaiðkun, vísindaskáldskap og andlegum þekkingarstraumum nútímans. Í erindunum verður leitast við að varpa ljósi á hugmyndina um eterinn og gildi hennar fyrir rannsóknir á menningar- og þekkingarsögu nútímans.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Benedikt Hjartarson, dósent í almennri bókmenntafræði og menningarfræði: Með tímann í vasanum: Um tímaflakk, patafýsík, eterfræði og strangvísindalegar bókmenntir             
  • Kjartan Már Ómarsson, stundakennari í kvikmyndafræði: Mabuse: Ljósvakinn í lifandi ljósmyndum Fritz Lang
  • Pétur Pétursson, prófessor í kennimannlegri guðfræði: Haraldur Níelsson, Oliver Lodge og sannanir fyrir tilvist æðri heima

MálstofustjóriBenedikt Hjartarson, dósent í almennri bókmenntafræði og menningarfræði

Útdrættir:

Benedikt Hjartarson, dósent í almennri bókmenntafræði og menningarfræði: Eterinn og eilífðin: Um patafýsík, tímaflakk og raunvísindi         

Skáldsögu Alfreds Jarry Gestes et opinions du docteur Faustroll, pataphysicen (Dáðir og skoðanir patafýsíkersins dr. Faustroll, 1898/1911)) hefur verið lýst sem einskonar Biblíu patafýsíkur. Hugmyndakerfi patafýsíkurinnar þjónaði sem grundvöllur nýrrar fagurfræði er byggðist á ströngum (gervi)vísindum og lagði grunninn að sérstæðum verkum höfundarins. Faustroll-skáldsögunni hefur jafnan verið lýst sem skopstælingu á þeirri nýju raunvísindalegu orðræðu sem setti svip sinn á evrópska menningu um aldamótin 1900. Við nánari athugun reynist samræða verksins við nýjar kenningar á sviði raunvísinda, sem voru í umferð innan alþýðlegrar vísindaumræðu á þessum tíma, margslungnari en svo. Í verkinu má greina margbrotna glímu við nýjar vísindakenningar um fjarhrif, fjórðu víddina og eterinn. Í fyrirlestrinum verður leitast við að varpa ljósi á forvitnilegan samslátt framsækinnar fagurfræði, vísindahyggju og dulspeki í skáldsögu Jarrys og sjónum beint sérstaklega að hugmyndinni um eterinn, sem gegnir lykilhlutverki í þeim ímyndum tímaflakks sem brugðið er upp í verkinu.

Kjartan Már Ómarsson, stundakennari í kvikmyndafræði: Mabuse: Ljósvakinn í lifandi ljósmyndum Fritz Lang

Skapast hefur hefð fyrir því innan kvikmyndafræða að líta á kvikmynd þýska leikstjórans Fritz Lang, Dr. Mabuse. Der Spieler (1922), sem driffjöður umræðna um ófanganleg fyrirbæri á borð við viljastyrk, dáleiðslu og firðmök. Það er þá gjarnan gert í einhvers konar orsakasambandi við hugleiðingar um lýðstýringu og dáleiðandi krafta kvikmyndamiðilsins. Á málstofunni verður öfugt við venju hugað að firðmökum í Dr. Mabuse. Der Spieler í samhengi sem er sértækum eiginleikum kvikmyndamiðilsins óviðkomandi. Þess í stað verður leitast eftir að staðsetja myndina í umhverfi þeirrar þróunar sem á sér stað í vísindalegri orðræðu í upphafi 20. aldarinnar þegar viðurkennd þekkingarkerfi á borð við mesmerisma, dýrslega segulmögnun, andatrú, firðmök og ljósvakann hverfa af sviði hins vísindalega en spretta þess í stað upp, og dafna jafnvel, í listsköpun og dulspeki. Eins verður gerð tilraun til að varpa ljósi á þróun þessara vísindahugmynda í síðari tíma verkum um Mabuse, en myndirnar eru tólf talsins og brúa bróðurpart 20. aldarinnar. 

Pétur Pétursson, prófessor í kennimannlegri guðfræði: Haraldur Níelsson, Oliver Lodge og sannanir fyrir tilvist æðri heima

Haraldur Níelsson (1868-1928) var að flestra dómi áhrifamesti guðfræðikennarinn og predikarinn á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar. Árið 1904 fór hann að taka þátt í miðilsfundum og kynna sér sálarrannsóknir (psychic research) og gerðist í framhaldi af því eindrenginn spíritisti, þ.e.a.s. hann varð sannfærður um að rekja mætti þau dularfullu fyrirbrigði sem gerðust á miðilsfundunum til anda látinna einstaklinga. Haraldur var í innsta kjarna svokallaðs Tilraunafélags sem skráði og greindi þau fyrirbæri sem gerðust á miðilsfundum með Indriða Indriðasyni, en hann er sagður einn af allra kröftugustu miðlunum sem íslenskir spíritistar hafa haft aðgang að. Indriði lést árið 1912 og þá fór Haraldur að lesa kerfisbundið rit enskra  sálarrannsóknarmanna og spíritista. Það voru einkum rit eðlisfræðiprófessorsins Sir Olivers Lodge sem Haraldur tileinkaði sér, einkum kenningar hans um eterinn sem farveg milli þessa heims og annars. Í erindi mínu verður fjallað um það hvaða hlutverki kenningar Lodges um eterinn gegndu í guðfræði og predikun Haralds. Fjallað verður um guðsmyndina, eðli Jesú Krists, upprisuna, kraftaverkin og lífið eftir dauðann. Lögð verður sérstök áhersla á hvernig þessar kenningar birtust í predikun Haralds um huggun og í sálgæslu hans.  

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is