„Sögu skal ég segja þér“ - Smásögur frá ýmsum heimshornum.

Föstudagur 9. mars kl. 13-16.30
Stofa 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Erindin í málstofunni lúta á einn eða annan hátt að smásögum. Fjallað er um þýðingar á smásögum, smásögur kvenna og smásögur sem bókmenntaform. Í fyrri hluta málstofunnar verður sagt frá tilurð smásögunnar í Frakklandi á 16. og 17. öld, hversdagslífi kvenna í Mið-Ameríku og úrvinnslu Kristjönu Gunnars á íslenskum heimildum í smásögum sínum. Í seinni hluta málstofunnar verður fjallað um sagnasveiga fyrr og nú, þýðingar á smásögum spænskra kvenna frá 20. og 21. öld og að lokum er rakin saga þýðinga á smásögum eftir spænskumælandi höfunda á íslensku.  

Fyrirlesarar:

  • Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönsku máli og bókmenntum: Smásögur kvenna í Frakklandi á 16. og 17. öld 
  • Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, prófessor í ensku: Lygilegt en satt: Íslandssögur Kristjönu Gunnars
  • Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku
    Scribo ergo sum: Vitnisburður Mið-Amerískra kvenna um lítt þekkt hversdagslíf
  • Rúnar Helgi Vignisson, lektor í ritlist: Sagnasveigar fyrr og nú
  • Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku: Raddir frá Spáni. Smásögur spænskra kvenna
  • Kristín Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt í spænsku: Saga smásagnaþýðinga úr spænsku á íslensku

Málstofustjóri: Sigrún Ástríður Eiríksdóttir, stundakennari, þýðandi og ritstjóri Milli mála

 

Útdrættir

Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönsku máli og bókmenntum
Smásögur kvenna í Frakklandi á 16. og 17. öld

Verk skáldkvennanna Marguerite de Navarre og Madame de Lafayette eru lítt þekkt hérlendis. Sú fyrri var systir Frakklandskonungs, François 1. Hún samdi smásagnasafn í anda Boccacio sem kallast Heptaméron eða Sjödægra. Sú síðari lét til sín taka í samkvæmis- og bókmenntalífi Parísarborgar og er frægust fyrir skáldsöguna La Princesse de Clèves. Fyrir þeim báðum vakti að skrifa trúverðugar sögur þótt efniviður verka þeirra væri býsna ólíkur. Hér verður sagt frá smásögum þeirra og um leið frá smásögunni sem bókmenntagrein í Frakklandi á þessum tíma.

 

Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, prófessor í ensku
Lygilegt en satt: Íslandssögur Kristjönu Gunnars

Í erindinu mun ég ræða hvernig Kristjana Gunnars vinnur úr sannsögulegum íslenskum heimildum í smásögum sínum. Fæstar af birtum smásögum Kristjönu snúast um íslenskan veruleika, heldur er Norður-Ameríka eða Kanada sýnilegast, en ég mun fjalla um það hvernig hún vinnur á skondinn hátt með sannsögulegt efni í nokkrum sögum þar sem hún talar mjög sýnilega á mismunandi nótum til tveggja menningarhópa.

 

Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku
Scribo ergo sum: Vitnisburður Mið-Amerískra kvenna um lítt þekkt hversdagslíf

Skáldkonurnar Jacinta Escudos (El Salvador), Gioconda Belli (Níkaragva) og Anacristina Rossi (Kostaríku) beina í smásögum sínum sjónum að hversdagslífi kvenna og óþægilegum afkimum þess. Þær kasta fyrir róða ímyndinni um konur sem göfugar og góðar, fórnfúsar, þjónandi og líknandi. Kvenpersónur þeirra eiga í stöðugri baráttu við umhverfi sitt og andóf þeirra er óvægið og afhjúpandi. Þrár þeirra og langarnir, illkvittni og hefndarþorsti eru jafn sjálfsagðir persónueiginleikar og gæska þeirra og glaðværð. Þær svipta hulunni af veruleika sem lítt hefur verið skrásettur og staðfesta tilvist hans með skrifum sínum.

 

Rúnar Helgi Vignisson, lektor í ritlist
Sagnasveigar fyrr og nú

Bók Guðmundar Andra Thorssonar, Valeyrarvalsinn, er á titilsíðu sögð vera
sagnasveigur og er hún trúlega fyrsta íslenska skáldverkið sem auðkennt er með þessum hætti. Þetta er eina skáldverkið sem kemur upp þegar leitað er að hugtakinu í gagnaveitu bókasafnanna. Valeyrarvalsinn er þó síður en svo eina íslenska skáldverkið sem auðkenna mætti með þessum hætti og í fyrirlestri sínum hyggst Rúnar Helgi Vignisson fjalla um þetta bókmenntaform, reifa skilgreiningar á því og nefna innlend og erlend dæmi um það.

 

Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku
Raddir frá Spáni. Smásögur spænskra kvenna

Ekki er um auðugan garð að gresja þegar horft er til íslenskra þýðinga á spænskum bókmenntaverkum á 20. og 21. öld. Ef sjónum er beint að þýðingum á verkum eftir spænska kvenhöfunda er sviðið vægast sagt dapurlegt. Í fljótu bragði virðist sem einungis tvær skáldsögur og sjö smásögur eftir spænskar konur hafi verið þýddar á íslensku á þessu tímabili. Til stendur að gefa út smásagnasafn með smásögum og örsögum eftir þekktustu kvenhöfunda Spánar. Þær sem hafa orðið fyrir valinu eru m.a. Rosa Chacel, Ana María Matute, Carmen Laforet, Carmen Martín Gaite, Josefina Aldecoa, Esther Tusquets, Ana María Moix, Marina Mayoral, Soledad Puértolas, Almudena Grandes, Lucía Etxebarría, Cristina Fernández Cubas, Espido Freire og Elena Rodríguez. Hér er ætlunin að gera stuttlega grein fyrir framlagi nokkurra þessara kvenna til spænskra bókmennta.

 

Kristín Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt í spænsku
Saga smásagnaþýðinga úr spænsku á íslensku

Þegar talað er um þýðingar úr spænsku á íslensku er oft látið sem þær eigi sér stutta sögu, að fyrstu þýðingar séu frá síðustu áratugum 20. aldar. Þær ná þó mun lengra aftur í tímann. Í erindinu verður farið yfir sögu þýðinga á smásögum eftir spænskumælandi höfunda á íslensku allt frá því fyrstu þýðingar birtust á prenti í lok 19. aldar til dagsins í dag.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is