Söguskoðun, valdhafar og fræðasamfélag

Föstudaginn 14. mars kl. 15.00-16.30 í stofu 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Þegar sagnfræði varð að akademískri fræðigrein á nítjándu öld voru sagnfræðingar oftar en ekki einlægir og nytsamir bandamenn valdhafa sem vildu hvarvetna nota söguna – menningararf og sameiginlegar minningar hópa – til að auka samhug þjóðarheildarinnar. Á Íslandi, líkt og í mörgum öðrum þjóðríkjum, gætti þessara sameiginlegu hagsmuna langt fram eftir síðustu öld. Smám saman myndaðist þó gjá milli sagnfræðinga, sem efuðust um einingarsögu fyrri tíma, og ráðamanna sem vildu halda í hana.

Á málstofunni verður þessi þróun tekin fyrir. Er gjáin óumflýjanleg og óyfirstíganleg? Er menningararfurinn „frosinn“ í huga valdhafa, og jafnvel alls almennings? Er hagnýtt saga (e. public history) nothæft greiningartæki í athugunum af þessu tagi?

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Helgi Þorláksson, prófessor í sagnfræði: Sagan í frysti. Um samstöðu, mikilmenni og frelsi
  • Guðni Th. Jóhannesson, lektor í sagnfræði: Þjóðrembur í valdastólum og trítilóðir spekingar. Hvers vegna er gjá milli söguskoðunar valdhafa og fræðasamfélagsins?
  • Ragnheiður Kristjánsdóttir, lektor í sagnfræði: Valdhafar, fræðasamfélag og kosningaréttur kvenna í 100 ár

Málstofustjóri: Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði

Útdrættir:

Helgi Þorláksson, prófessor í sagnfræð: Sagan í frysti. Um samstöðu, mikilmenni og frelsi

Alþjóðahyggja var áberandi fyrir 1800, á 19. öld snerist þetta við, erlend áhrif töldust óæskileg,  alþjóðahyggja hvimleið og svonefnd sundrung hættuleg; fólkið skyldi sameinast um eina ákveðna skoðun. Meginskoðunin meðal margra ófrjálsra þjóða á seinni hluta 19. aldar var víða sú að gullöld hefði  ríkt á tilteknum  tíma af því að þjóðin var sjálfstæð þá.  Því væri brýnt að endurheimta sjálfstæði til að njóta nýrrar gullaldar. Á Íslandi finnst flestum gullöld ríkja á landinu og fólki virðist sama um það þótt gullöldin sem á að hafa ríkt hérlendis fyrir 1200 sé meira eða minna tilbúin. Því er trúað að myrkur og kúgun hafi ríkt á bilinu 1262 til 1845 en þá fyrst farið að rofa til. Þeirrar viðleitni hefur gætt meðal sagnfræðinga frá 1964 að endurskoða þá söguskoðun sem ríkti og  enn ríkir og skýra hvernig hún varð til og af hverju hún er hæpin. Það gengur ekki vel og þá má spyrja af hverju það sé svo. Af hverju gengur endurskoðun svona illa? Reynt verður að svara því. Eins verður reynt að svara hvað sé til ráða til þess að fá þessu breytt.

Guðni Th. Jóhannesson, lektor í sagnfræði: Þjóðrembur í valdastólum og trítilóðir spekingar. Hvers vegna er gjá milli söguskoðunar valdhafa og fræðasamfélagsins?

Undanfarin misseri hafa ýmsir innan háskólasamfélagsins gagnrýnt þá söguskoðun forseta Íslands og forsætisráðherra sem birst hefur í ávörpum þeirra til þjóðarinnar og öðrum ræðum. Forseti hefur sjaldnast svarað aðfinnslunum en forsætisráðherra tekið þær óstinnt upp.

Hvað veldur þessari gjá milli valdhafa og fræðimanna? Í erindinu verður tekist á við þá spurningu, samanburðar leitað og rakin rök sem gætu stutt þá hugsanlegu niðurstöðu að sjaldan valdi einn þá tveir deila. Má þar nefna annars vegar smámunasemi fræðasamfélagsins, ýmiss konar valdapólitík innan þess og lítinn skilning á því sjálfsagða sjónarmiði að valdhafar eigi að efla samtakamátt þjóðarinnar með því að minnast fyrri afreka hennar. Á hinn bóginn má svo spyrja hvort þjóðarleiðtogarnir hafi ekki farið offari í slíkum málflutningi og úrelt söguskoðun, sem þjóni eiginhagsmunum þeirra í samtímastjórnmálum, sé byggð á misskilningi og ýkjum um sameiginlega sögu Íslendinga í aldanna rás.

Ein niðurstaða erindisins verður sú að stundum veldur einn þá tveir deila.

Ragnheiður Kristjánsdóttir, lektor í sagnfræði: Valdhafar, fræðasamfélag og kosningaréttur kvenna í 100 ár

Alþingi hefur ákveðið að minnast þess að á næsta ári verða liðin 100 ár frá því að konur sem höfðu náð fertugsaldri fengu kjörgengi og kosningarétt til Alþingis.  Þar með er efnt til  annars konar samræðu milli fræðasamfélags og valdhafa en hingað til hefur tíðkast. Áður hefur verið haldið upp á lýðveldisstofnun, kristnitöku, heimastjórn og afmæli Jóns Sigurðssonar. Þar hafa verið í forgrunni karlar sem fóru með völd í landinu, fyrirrennarar ráðherra og alþingismanna. Í þessu tilfelli gefst hins vegar tækifæri til að skoða fortíðina frá öðru sjónarhorni, því þótt sumar konur hafi fengið kosningarétt og kjörgengi til Alþingis árið 1915, komust konur ekki til valda. Hundrað ára afmæli kosningaréttarins hlýtur því að setja óþekktar konur og grasrótarstarf þeirra í forgrunn. Ólíkt hinum atburðunum – og þá sérstaklega heimastjórn – kallar afmæli kosningaréttarins á nálgun þar sem valdhafarnir koma lítið sem ekkert við sögu.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is