Suðrið í norðri. Um þýðingar úr rómönskum málum og latínu

Laugardagur 26. mars kl. 13.00-16.30 í stofu 207 í Aðalbyggingu Háskólans

Erindi málstofunnar tengjast þýðingum á íslensku úr latínu og rómönskum málum. Þær eru frá ólíkum tímabilum, allt frá miðöldum til okkar daga, en textarnir sem þýddir hafa verið ná þó enn lengra aftur í tímann. Fjallað verður um þýðingar á Eneasarkviðu, Perceval (Sögunni um Gralinn) og króníkum spænskra landafundamanna. Einnig er fjallað um sálmaþýðingar Helga Hálfdanarsonar, þýðingar og fræðistörf Þórhalls Þorgilssonar og að lokum ljóðaþýðingar úr spænsku eftir skáld frá Rómönsku Ameríku.

Málstofustjóri: Kristín Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt í spænsku

 

Fyrirlesarar:

  • Sigurður Pétursson, lektor í grísku og latínu: Rímur af Aeneasi sterka
  • Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönskum fræðum: Að þýða úr frönsku og fornfrönsku: Perceval eða Sagan um Gralinn
  • Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku: „[…] og sigler nú Kólúmbús med sÿn tvö skip og föruneÿte ä stad […]“. Landafundirnir og Nýi heimurinn í íslenskum handritum

Kaffihlé

  • Hjalti Snær Ægisson, MA í almennri bókmenntafræði: Breytt í lútersku. Um latínuþýðingar Helga Hálfdanarsonar, lektors
  • Kristín Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt í spænsku: Þórhallur Þorgilsson. Gleymdur þýðandi og fræðimaður
  • Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku: Listin að þýða heimsálfur: „Trú á friðsamlegt samband“

 

Útdrættir:

 

Sigurður Pétursson, lektor í grísku og latínu
Rímur af Aeneasi sterka

Margir hafa í tímanna rás fengist við að þýða klassísk verk bæði hér á landi og erlendis. Þýðingar þessar hafa verið margs konar og vitanlega misjafnar að gæðum enda hefur margt glatast eða fallið í gleymskunnar dá þótt einnig sé mikið varðveitt bæði á prenti og í handritum. Á handritadeild Landsbókasafns Íslands er eitt og annað að finna á íslensku bæði í bundnu og lausu máli sem fyrri tíðar menn skildu eftir sig í þessum efnisflokki. Sem dæmi má nefna handritið Lbs 188 8vo sem hefur að geyma þýðingu af fyrstu bók Eneasarkviðu eftir rómverska skáldið Vergilius sem höfundur nefnir Rímur af Aeneasi sterka. Verk þetta er að ýmsu leyti forvitnilegt. Athugað verður hvernig þýðanda, sem líklega var uppi á fyrri hluta 19. aldar, tókst að færa efni á milli tveggja menningarheima og að hverju hann stefndi með þessu verki sínu.

 

Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönskum fræðum
Að þýða úr frönsku og fornfrönsku: Perceval eða Sagan um Gralinn

Lifandi tungumál eru í stöðugri þróun og þýðandi þarf sífellt að setja sig inn í málvenjur og merkingu orða á ritunartíma þess verks sem hann ætlar sé að þýða. Það er þó stórt stökk að færa sig aftur um ein 850 ár þegar franska á í hlut. Frönsk tunga hefur tekið það miklum breytingum í gegnum aldirnar að umtalsverða þjálfun þarf til að verða læs á það mál sem fyrstu riddarasögurnar voru samdar á upp úr miðri 12. öld. Hér verður fjallað um nýlega þýðingu á riddarasögunni Perceval eða Sagan um gralinn eftir Chrétien de Troyes og þær spurningar sem vakna við þýðingu á svo gömlu verki. Til hliðsjónar verður litið til þýðingar á sama verki sem talið er að sé frá miðri 13. öld eða síðari hluta hennar.

 

Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku
„[…] og sigler nú Kólúmbús med sÿn tvö skip og föruneÿte ä stad […]“. Landafundirnir og Nýi heimurinn í íslenskum handritum

Fréttir af landafundum Spánverja í nýjum heimi bárust fyrst til Spánar í munnlegum frásögnum sæfara og því næst í bréfum, kronikum og ýmsum öðrum ritum. Þessi skrif bárust fljótlega ýmist á spænsku eða latínu til annarra landa í Gamla heiminum þar sem þau voru jafnvel þýdd á þjóðtungur viðkomandi landa. Þessar þýðingar fóru landa á milli og sumar bárust til Íslands. Hér er ætlunin að fjalla um nokkur íslensk handrit frá 17., 18. og 19. öld sem hafa að geyma þýðingar um landafundina og Nýja heiminn.

 

Hjalti Snær Ægisson, MA í almennri bókmenntafræði
Breytt í lútersku. Um latínuþýðingar Helga Hálfdanarsonar, lektors

Helgi Hálfdánarson, lektor, sendi frá sér kver með sálmaþýðingum árið 1873. Þar er að finna sex þýðingar latneskra miðaldasálma, en í formála verksins tekur Helgi fram að honum hafi ekki alltaf verið það sérstakt kappsmál að þýða sem nákvæmast: „Suma af sálmum þessum hef jeg leitazt við að út leggja sem næst frumsálmunum, aðra hef jeg þar á móti, jafnvel með vilja, út lagt fjær orðum, og fremur haldið mjer við aðalhugsunina.“ Um einn sálminn segir Helgi: „Hinum katólsku hugsunum frumsálmsins er hjer breytt í lúterskar.“ Í fyrirlestrinum verða þessar latínuþýðingar Helga skoðaðar og reynt að álykta um aðferð hans við að þýða úr einni trú í aðra.

 

Kristín Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt í spænsku
Þórhallur Þorgilsson. Gleymdur þýðandi og fræðimaður  

Í erindinu verður fjallað um þýðingar og fræðastörf Þórhalls Þorgilssonar (1903-1958) sem má telja fyrsta menntaða rómanista á Íslandi. Þegar hann kom heim að námi loknu frá Frakklandi, Spáni og Ítalíu á fjórða áratug 20. aldar hófst hann handa við að kynna bókmennta- og menningararf þjóða á rómönskum málsvæðum, bæði í Evrópu og Ameríku. Eftir hann liggur mikið verk: greinar, kennslubækur og þýðingar. Hann var til að mynda helsti þýðandi úr spænsku á 4. og 5. áratug 20. aldar, en hann þýddi einnig úr frönsku og ítölsku. Verk hans hafa fallið í gleymsku og eru mönnum nú á dögum að miklu leyti óþekkt. Tilgangur erindisins er að draga verk hans fram í dagsljósið og fara skipulega yfir þau.

 

 

Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku
Listin að þýða heimsálfur: „Trú á friðsamlegt samband“

Umfang bókmenntaþýðinga úr spænsku á íslensku hefur ekki verið fyrirliggjandi fyrr en um þessar mundir. Í fyrirlestrinum verða sögu ljóðaþýðinga frá spænskumælandi löndum Rómönsku Ameríku á íslensku gerð skil. Sjónum verður sérstaklega beint að áhrifum þýðinga á ímyndarsköpun álfunnar og fjallað um þrjá tiltekna efnisflokka, umfang þeirra og tímabil. Í fyrsta lagi verða til umræðu svokölluð „intimista ljóð“ eða persónuleg ljóð, sem alla jafna fjalla um einstaklingsbundna reynslu ljóðmælandans. Því næst verða pólitískum baráttuljóðum frá ýmsum löndum gerð skil, en þar ber mikið á ljóðum frá sjötta og sjöunda áratugnum. Að síðustu verður fjallað um ljóð eftir skáld sem öðlast hafa viðurkenningu á alþjóðavettvangi og íslenskir þýðendur hafa talið eiga sérstakt erindi við íslenska lesendur. Má þar nefna þýðingar á ljóðum Jorges Luis Borgesar og Pablos Neruda.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is