Tengsl akademíu og menningartengdrar ferðaþjónustu

Föstudagur 25. mars kl. 13.00-16.30 í stofu 220 í Aðalbyggingu Háskólans.

Markmið málstofunnar er að kalla á umræðu um það hver aðkoma hugvísindaakademíunnar geti verið – skuli vera – að ferðaþjónustu, sem á örskömmum tíma er orðin ein af aðalatvinnugreinum landsins. Unnið er markvisst að uppbyggingu greinarinnar og framundan blasir enn við aukning að því marki sem valda mun róttækum samfélagsbreytingum. Sjónum verður beint að menningartengdri ferðaþjónustu, fagþekkingu hugvísinda á því sviði og stefnu, eða stefnuleysi, þeirra sem að uppbyggingunni standa. Stefnt er að því að umræða málstofunnar snúist meðal annars um hvernig þekking þeirra sem hafa menntað sig á sviði hug- og mannvísinda geti nýst til þess að auka gæði fyrirtækja og verkefna og um leið bætt atvinnumöguleika menntaðs fólks í hinni nýju atvinnugrein.

Málstofustjóri: Valdimar Tryggvi Hafstein, dósent í þjóðfræði

 

Fyrirlesarar:

  • Lára Magnúsardóttir, forstöðumaður Rannsókna- og fræðaseturs HÍ á Norðurlandi vestra: Þegar menning er atvinnulíf
  • Áki G. Karlsson, þjóðfræðingur: Hagnýt(t) og ónýt(t) fræði: Hvernig þjóðfræðin bjó til menningartengda ferðaþjónustu á Íslandi
  • Katrín Jakobsdóttir, íslenskufræðingur og mennta- og menningarmálaráðherra: Menning og atvinna – andstæður eða samstæður?

Kaffihlé

  • Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands: Menningarminjar og menningartengd ferðaþjónusta
  • Jón Jónsson, menningarfulltrúi Vestfjarða: Rótað í framtíðinni: Gæðaþróun og samvinna 
  • Sólveig Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar: Friðargæslusveit UNESCO og upphefðin að utan

 

Útdrættir:

 

Lára Magnúsardóttir, forstöðumaður Rannsókna- og fræðaseturs HÍ á Norðurlandi vestra
Þegar menning er atvinnulíf

Í erindinu ræðir Lára á hvaða hátt hugvísindi geti stutt við fyrirtæki og stofnanir menningartengdrar ferðaþjónustu í landinu með þeirri sérþekkingu sem þau hafa á efniviðnum sem þar er unnið með. Hún veltir fyrir sér hlutverki akademíunnar þegar samfélagsbreytingar standa fyrir dyrum, fjallar um stöðu lítilla fyrirtækja og stofnana á landsbyggðinni – flókið eignarhald, stjórnsýslu og styrkjakerfi – og loðna hugtakanotkun. Geta hugvísindi stuðlað að arðbærari rekstri og betra (atvinnu)lífi?

 

Áki G. Karlsson, þjóðfræðingur
Hagnýt(t) og ónýt(t) fræði: Hvernig þjóðfræðin bjó til menningartengda ferðaþjónustu á Íslandi

Í fyrirlestrinum fjalla ég um það hvernig hugmyndir um tengsl háskóla og atvinnulífs hafa leitt til stofnunar nýrra hagnýt(t)ra fræðasviða til hliðar við meint „hrein“ akademísk fög og hvernig þetta skapar falska aðgreiningu milli hagnýtra og óhagnýtra fræðigreina. Ég ræði sérstaklega um tengsl akademískra fræða við þróun menningartengdrar ferðaþjónustu síðustu tuttugu ár og held því fram að starfandi virkir fræðimenn hafi verið bæði hugmyndafræðingar og framkvæmdaraðilar þeirrar stefnu sem unnið hefur verið eftir í þessum geira ferðaþjónustunnar á Íslandi.

 

Katrín Jakobsdóttir, íslenskufræðingur og mennta- og menningarmálaráðherra
Menning og atvinna – andstæður eða samstæður?

Er menning raunveruleg atvinnugrein? Hvaða áhrif mun það hafa til lengri tíma að líta á menningu sem atvinnugrein? Verður þá menningin „bara“ atvinnugrein? Hvernig má tengja betur saman fræðileg sjónarmið, sköpun og atvinnu? Þessu og mörgu öðru mun Katrín Jakobsdóttir velta upp í sínu erindi.

 

Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands
Menningarminjar og menningartengd ferðaþjónusta

Hvernig er hægt að haga málum þannig að menningarminjar styðji við ferðaþjónustu og ferðaþjónusta við menningarminjar? Hvar eru brúarsmiðirnir?

 

Jón Jónsson, menningarfulltrúi Vestfjarða
Rótað í framtíðinni: Gæðaþróun og samvinna

Skapandi greinum hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu árin, rétt eins og ferðaþjónustu sem verður sífellt mikilvægari atvinnugrein hér á landi. Í mörgum verkefnum á þessum sviðum er horft til sögu og þjóðmenningar og efniviður úr þeim sjálfbæra nægtabrunni nýttur til atvinnusköpunar og gerður að söluvöru. Margt hefur tekist afbragðsvel en annað miður, eins og gengur. Samvinna ólíkra aðila til að tryggja gæðin mætti að ósekju vera meiri á stundum, fræðimanna, ferðaþjóna og listafólks, og er margt sem hefur þar áhrif. Eftir stendur að það er undir hverjum hóp komið að gera sig gildandi og sýna og sanna að þeir hafi eitthvað marktækt til málanna að leggja. Hlutirnir hafa gerst hratt, ef litið er 20 ár aftur í tímann má kalla uppbyggingu á menningartengdri ferðaþjónustu hér á landi byltingu. Engin ástæða er til að ætla að breytingarnar verði minni næstu 20 ár.

 

Sólveig Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar
Friðargæslusveit UNESCO og upphefðin að utan

Í erindinu verður fjallað um landslag menningarminja á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna frá íslensku sjónarhorni. Hver voru upphafleg markmið SÞ með stofnun heimsminja­skrárinnar, hvernig hafa áherslurnar breyst eftir því sem stöðum hefur fjölgað á heimsminjaskránni og hvað geta vörslumenn íslensks menningararfs lært af samskiptum UNESCO og aðildarríkjanna? Reifuð verða nokkur dæmi og vöngum velt um markmið, tilgang og mismunandi hagsmunaaðila í merkilega flóknum dansi.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is