Tengsl ríkis og kirkju/trúfélaga

Laugardagur 26. mars kl. 10.30-12.00 í stofu 111 í Aðalbyggingu Háskólans

Nú stendur vonandi fyrir dyrum heildarendurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins. Í tengslum við hana er nauðsynlegt að gaumgæfa einnig þá hluta stjórnarskrárinnar sem lúta að trúmálum, þ.e. trúfrelsi og þjóðkirkjuskipan. Á málstofunni verður glímt við ýmsar spurningar er lúta að trúmálapólitík 21. aldar en nauðsynlegt er að grundvöll hennar sé að finna í stjórnarskrá.

Málstofustjóri: Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í guðfræði

 

Fyrirlesarar:

  • Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu: Samband ríkis og kirkju í fortíð, nútíð og framtíð
  • Sigrún Óskarsdóttir, prestur í Árbæjarkirkju: Þjóðkirkja og almannaheill
  • Njörður P. Njarðvík, skáld og prófessor emeritus: Tengsl ríkisvalds og trúfélaga

 

Útdrættir:

 

Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu
Samband ríkis og kirkju í fortíð, nútíð og framtíð

Í fyrirlestrinum verður varpað ljósi á söguleg tengsl ríkis og kirkju í Evrópu. Í því sambandi verður varpað fram nokkrum grundvallarspurningum um þessi tengsl, svo sem: Hvernig hafa tengsl ríkis og kirkju þróast í aldanna rás? Hvernig eru þau hér á landi nú á dögum? Hvaða kostir eru í boði nú þegar heildarendurskoðun stjórnarskrár stendur vonandi fyrir dyrum? Er þörf á að marka trúmálapólitíska stefnu á Íslandi við upphaf 21. aldar? Hvaða sjónarmið er nauðsynlegt að leggja til grundvallar við mörkun slíkrar stefnu?

 

Sigrún Óskarsdóttir, prestur í Árbæjarkirkju
Þjóðkirkja og almannaheill

Í fyrirlestrinum verður fengist við ýmsar spurningar er varða tengsl ríkis, þjóðar og kirkju: Hvaða skyldur við almenning leggur þjóðkirkjuskipanin á þjóðkirkjuna? Er ásættanlegt að létta þeim skyldum af kirkjunni? Hver mun taka við hlutverkum hennar? Er ríkisvaldið í stakk búið að taka yfir þau hlutverk sem þjóðkirkjan gegnir nú á dögum og lúta að almannaheill? Getur þjóðkirkjan sagt skilið við þjóðina án afleiðinga fyrir almannaheill? Helstu þættir þjóðkirkjufyrirkomulagsins verða greindir, sem og þær breytingar á tengslum ríkis og kirkju sem urðu með gildistöku þjóðkirkjulaganna frá 1997.

 

Njörður P. Njarðvík, skáld og prófessor emeritus
Tengsl ríkisvalds og trúfélaga

Í fyrirlestrinum verður fengist við spurningar á borð við þessar: Hver eiga tengsl ríkis og trúfélaga að vera á 21. öld? Samrýmast trúfrelsi og sú skipan að eitt trúfélag njóti sérstakra forréttinda og sérstakrar aðstöðu umfram önnur? Nægir að endurskoða þjóðkirkjuskipanina eða ber okkur að rjúfa öll tengsl ríkis og trúfélaga við væntanlega endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins? Gerð verður grein fyrir grundvallar­sjónarmiðum sem hafa ber í huga í umræðum um slík álitamál sem ekki mega ráðast af þeim vandamálum sem þjóðkirkjan glímir við á líðandi stundu.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is