Þættir úr íslenskri málsögu

Laugardagur 26. mars kl. 11.00-16.30 í stofu 222 í Aðalbyggingu Háskólans

Fluttir verða átta fyrirlestrar sem fjalla um sögu íslenskunnar frá ólíkum sjónarhornum, gamlar orðabækur og biblíuþýðingar, málbreytingar, beygingu og orðmyndun.

Málstofustjórar: Margrét Jónsdóttir, prófessor, Guðrún Kvaran, prófessor, og Katrín Axelsdóttir, aðjunkt

 

Fyrirlesarar:

  • Guðrún Kvaran, prófessor og stofustjóri orðfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Kleyfsi og orðmyndun Jóns Árnasonar biskups
  • Gunnlaugur Ingólfsson, rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Fyrstu prentuðu íslensku orðabækurnar

Hádegishlé

  • Jón G. Friðjónsson, prófessor í íslensku: Tengsl Guðbrandsbiblíu og Stjórnar
  • Jóhannes Bjarni Sigtryggsson, verkefnisstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Frá Bandle til Jóns Steingrímssonar: hljóð- og beygingar­breytingar frá 16. til 18. aldar
  • Katrín Axelsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Hvenær beygir maður orð og hvenær beygir maður ekki orð?

Kaffihlé

  • Guðrún Þórhallsdóttir, dósent í íslenskri málfræði: Áhrifsbreytingar í sögu sterkra sagna
  • Jón Axel Harðarson, prófessor í íslenskri málfræði: Forsaga og þróun sagna eins og slöngva og slengja, þröngva og þrengja í íslenzku
  • Margrét Jónsdóttir, prófessor í íslensku sem öðru máli: Veika sögnin sem varð sterk: sögnin kvíða

 

Útdrættir:

 

Guðrún Kvaran, prófessor og stofustjóri orðfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Kleyfsi og orðmyndun Jóns Árnasonar biskups

Árið 1738 gaf Jón Árnason biskup út latnesk-íslenska orðabók, Nucleus latinitatis, sem allt frá dögum Jóns hefur gengið undir heitinu Kleyfsi. Fyrirmynd Jóns var samnefnd bók eftir Hans Gram, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Íslenskur orðaforði í bókinni er mikill að vöxtum og fjölda íslenskra orða hefur Jón sett saman sjálfur sem eru stakdæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Í fyrirlestrinum er ætlunin að bera valin orð að orðabók Grams með það fyrir augum að skoða aðferðir Jóns við orðmyndun, hvort hann þýddi beint eftir Gram eða fór sínar eigin leiðir.

 

Gunnlaugur Ingólfsson, rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Fyrstu prentuðu íslensku orðabækurnar

Um miðja 17. öld voru samdar tvær orðabækur um íslenskt mál sem á prent komust. Hin eldri er að stofni til frá 1635 og var prentuð í Kaupmannahöfn árið 1650 undir heitinu Specimen Lexici Runici (Sýnishorn rúnaorðabókar). Hún var samin af séra Magnúsi Ólafssyni í Laufási (1573–1636). Orðaforðinn nær fyrst og fremst yfir forníslensk rit, einkum Íslendingasögur, konungasögur og gamlan kveðskap sem ekki var til á prenti þegar orðabókin var gerð en þó er nokkuð um einstök orð, orðtök og málshætti úr samtíma höfundar. Hin yngri var samin á árunum 1650–54 en komst ekki á prent fyrr en árið 1683. Höfundur hennar var Guðmundur Andrésson sem á þessum árum var innritaður við háskólann í Kaupmannahöfn en sinnti jafnframt ýmsum fræðistörfum fyrir Ole Worm og hefur líklega hafið orðabókarverkið að undirlagi hans. Guðmundur og Worm létust í pest sem geisaði í Kaupmannahöfn sumarið 1654. Handritið að orðabók Guðmundar komst síðar í eigu P.H. Resens sem kom verkinu á prent undir heitinu Lexicon Islandicum …. Verk Guðmundar er sýnu meira að vöxtum en Specimen … sr. Magnúsar og miklu meira er þar af orðafari úr samtímamáli en í Specimen …, svo og kveðskaparbrot bæði rímna kyns og úr danskvæðum. Í erindinu verður þessum verkum lýst nánar og þess freistað að bera þau saman.

 

Jón G. Friðjónsson, prófessor í íslensku
Tengsl Guðbrandsbiblíu og Stjórnar

Leitast verður við að varpa ljósi á tengsl Stjórnar (elsta samfellda biblíuþýðingin) og Guðbrandsbiblíu með beinum samanburði. Teflt verður fram dæmum úr Guðbrandsbiblíu sem virðast eiga rætur sínar að rekja til Stjórnar og reynt að festa hendur á því sem textunum er sameiginlegt. Enn fremur verður leitast við að sýna fram á með dæmum að elstu biblíuþýðingar séu um margt ólíkar þýðingum siðaskiptamanna. Í fyrra tilvikinu virðist megináhersla lögð á það mál sem þýtt er á (íslensku) og af því leiðir að oft er naumast unnt að sjá að um þýðingu er að ræða. Þýðingar siðaskiptamanna bera það hins vegar með sér að þýðendur leituðust jafnan við að vera eins trúir frumtextanum og kostur var enda má oft sjá hatta fyrir frumtextanum.

 

Jóhannes Bjarni Sigtryggsson, verkefnisstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Frá Bandle til Jóns Steingrímssonar: hljóð- og beygingarbreytingar frá 16. til 18. aldar

Margt er óljóst um sögu íslenskrar tungu á síðari öldum. Í doktorsverkefni mínu kanna ég framburð og beygingar í sjálfsævisögu Jóns Steingrímssonar, sem rituð er seint á 18. öld, og hugsanleg áhrif málhreinsunar á málið á henni. Ævisagan var rituð fyrir dætur Jóns og „án nokkurrar stílunarviðhafnar“ og hentar því vel til málrannsókna. Í erindinu greini ég frá nokkrum forvitnilegum niðurstöðum úr mállýsingunni og ber þær saman við mállýsingar 16. aldar rita og nútímamál. Meðal annars verður fjallað um miðmynd sagna, kringingu sérhljóða og beygingu frændsemisorða. 

 

Katrín Axelsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli
Hvenær beygir maður orð og hvenær beygir maður ekki orð?

Í íslensku er misjafnt eftir orðflokkum hvort orð beygjast. Svokölluð fallorð (nafnorð, lýsingarorð, fornöfn) beygjast til dæmis í föllum, eins og heiti þeirra ber með sér — að minnsta kosti oftast nær. Frá því eru þó undantekingar. Þannig eru t.d. mánaðaheiti fallorð en þó virðast þau ekki beygjast í nútímamáli. (Auðvitað kann að vera að þessi orð beygist en þau séu af einhverjum ástæðum eins í öllum föllum.) Í fyrirlestrinum verður litið á nokkrar slíkar undantekningar frá beygingu og giskað á ástæður þess að orðin hegða sér ekki eins og búast mætti við.

 

Guðrún Þórhallsdóttir, dósent í íslenskri málfræði
Áhrifsbreytingar í sögu sterkra sagna

Beyging íslenskra sagna hefur breyst á ýmsa vegu í tímans rás, og m.a. hafa einstakar sagnir skipt um beygingarflokk. Ef til vill hefði mátt búast við að sterkar sagnir flykktust yfir í virkasta flokkinn, þ.e. flokk veikra sagna af gerðinni kalla — þt. kallaði. Það kom að vísu fyrir nokkrar sagnir, t.d. bjarga — þt. barg, sem tók upp þátíðina bjargaði, en einnig tóku sagnir upp sjaldgæfari veika beygingu, t.d. rísta — þt. reist, sem varð rista — þt. risti, eða nýja sterka beygingu, t.d. fela — þt. fal, sem fékk þátíðina fól. Í fyrirlestrinum verður rýnt í eðli slíkra áhrifsbreytinga og tekin dæmi úr sögu íslenskra sterkra sagna.

 

Jón Axel Harðarson, prófessor í íslenskri málfræði
Forsaga og þróun sagna eins og slöngva og slengja, þröngva og þrengja í íslenzku

Þeir sem einhverja þekkingu hafa á íslenzku fornmáli vita að fjölmargar sagnir sem í eldra máli höfðu oftast nafnháttarendinguna ‑va enda í nútímamáli yfirleitt á ‑ja, sbr. físl. byggva, hryggva, syngva og víkva (ýkva) andspænis nísl. byggja, hryggja, syngja og víkja. Í sumum tilvikum hafa tvímyndir orðið til eins og slöngva og slengja, þröngva og þrengja, sem auk formmunar beygjast á ólíkan hátt. Í fyrirlestrinum verður leitað skýringa á því hvers vegna hliðarmyndir með endingunni ‑ja voru til og hvers vegna þær leystu myndir sem enduðu á ‑va yfirleitt af hólmi.

 

Margrét Jónsdóttir, prófessor í íslensku sem öðru máli
Veika sögnin sem varð sterk: sögnin kvíða

Sögnin kvíða er veik í nútíð eintölu, annars sterk. Hún var veik í fornu máli og heimildir eru um veika þátíð allt fram á 18. öld; frá sama tíma eru líka elstu dæmi um sterka þátíð. Í fyrirlestrinum verður fjallað um kvíða frá nokkrum sjónarhornum. Í fyrsta lagi verður gerð stutt grein fyrir uppruna sagnarinnar. M.a. verða skoðuð verða skyld orð í málinu. Í öðru lagi verður beygingarsaga hennar rakin og í því skyni verða dæmasöfn könnuð. Þau leiða ýmislegt í ljós, m.a. forvitnilega setningafræði og að veika beygingin hefur verið af tvennum toga. Langflest dæmanna sýna beyginguna kvíða – kvíddi – kvítt en dæmi er um lh.þt. kvíðað. Í þriðja lagi verður reynt að skýra út hvers vegna veik sögn varð sterk. Í fjórða lagi verður það að sögnin skyldi verða sterk skoðað ásamt fleiri óvæntum málbreytingum frá svipuðum tíma.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is