„Þar sem jökulinn ber við loft...“ Jöklar í bókmenntum

Föstudagur 25. mars kl. 15.00-16.30  í stofu 231 í Aðalbyggingu Háskólans.

Jöklar hafa löngum sett sterkan svip á náttúru og ímynd Íslands. Landið er kennt við ís og á því er sá jökull sem stærstur er að rúmmáli í Evrópu. Mælingar raunvísindamanna sýna að jöklar hafa hopað og minnkað umtalsvert á undanförnum áratugum og útlit er fyrir að þeir hverfi að mestu á næstu öld. En hvaða ljósi geta bókmenntirnar varpað á ástand jökla fyrr á tíð og viðhorf manna til þeirra? Því mun jöklafræðingurinn Helgi Björnsson leitast við að svara í fyrirlestri sínum, en bókmenntafræðingarnir Helga Kress og Sveinn Yngvi Egilsson munu fjalla um ímynd og tákngildi jökla í bókmenntum að fornu og nýju.

Málstofustjóri: Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor

Fyrirlesarar:

  • Helgi Björnsson, vísindamaður: Jöklafræði í íslenskum bókmenntum fyrr á tíð
  • Helga Kress, prófessor emeritus: Sú hin mikla mynd: Um jöklasýn í íslenskum bókmenntum
  • Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor: Fagurfræði íssins: Jöklar og háleit orðræða

 

Útdrættir:

 

Helgi Björnsson, vísindamaður
Jöklafræði í íslenskum bókmenntum fyrr á tíð

Af gömlum íslenskum ritum, örnefnum og landakortum má ráða að til loka 18. aldar hafi þekking á jöklum á margan hátt verið meiri á Íslandi en í öðrum löndum. Íslenskar bókmenntir fjalla um jökla, útbreiðslu, stærð og hreyfingu þeirra, viðbrögð við loftslagsbreytingum og margs konar umbrot svo sem jökulhlaup, framhlaup og eldvirkni. Þar er skyggnst inn í hugarheim genginna kynslóða Íslendinga sem sennilega lifðu í nánara sambýli við jökla en aðrir jarðarbúar ef frá eru taldir inúítar á Grænlandi. Þessi ritaði fróðleikur nýtist við rannsóknir á sögu vísinda, loftslags- og jöklabreytinga, en einnig getur lesandi með nútímaþekkingu aukið skilning sinn á eðli jökla og atburðum sem núlifandi kynslóð hefur ekki upplifað.

 

Helga Kress, prófessor emeritus
Sú hin mikla mynd: Um jöklasýn í íslenskum bókmenntum

Stiklað verður á jöklum í landslagi íslenskra bókmennta og hugað að hlutverki þeirra og táknrænni merkingu í tengslum við sjónarhorn og byggingu, sviðsetningu og myndmál, þjóðerni og kyn. Þá verður staldrað við jökulinn í dramatískum sögulokum Fegurðar himinsins (fjórða og síðasta bindis Heimsljóss, 1940) eftir Halldór Laxness og Sólskinshests (2005) eftir Steinunni Sigurðardóttur og hvernig áhugaverð textatengsl þeirra kjarnast í sýninni, minningunni, ferðalaginu, ástinni og dauðanum – ásamt því að ljúka verki.

 

Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum
Fagurfræði íssins: Jöklar og háleit orðræða

Í fyrirlestrinum verður fjallað um jökla í bókmenntum í ljósi hugmyndarinnar um hið háleita (e. sublime). Á 18. og 19. öld urðu óvistleg náttúrufyrirbæri af þessu tagi þáttur í skilgreiningu fagurfræðinga á ægifegurð norðurslóða og fóru að standa fyrir þjóðleg gildi í ættjarðarljóðum. En skáldleg merking jökla er margræð, enda eru þeir ekki allir þar sem þeir eru séðir. Tekin verða dæmi um tákngildi jökla og tilhöfðun þeirra til skilningarvitanna. Þeir geti tengst dauða og kyrrstöðu en einnig verið til marks um hægvirk breytingaröfl og hið mikilfenglega sem verði vart með orðum lýst.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is