„Þegar við nú ekki sjáumst.“ Um tilfinningar, fjarveru og þrá í sendibréfum 1840-1920

Laugardaginn 15. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Í málstofunni verður fjallað um sendibréf sem heimildir um sögu einkalífsins á Íslandi og hvernig þau afhjúpa mál sem annars lægju í þagnargildi. Hugað verður að þeirri orðræðu sem birtist í bréfunum og er oft innileg og skáldleg. Einnig verður vikið að sendibréfum sem sérstöku listformi skálda sem finna í þeim meira frelsi en í hefðbundnum greinum bókmennta.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Már Jónsson, prófessor: Elskandi unnusti, elskandi sonur og elskandi faðir. Átta óbirt bréf Jóns Thoroddsen til þriggja kvenna 1842-1865
  • Helga Kress, prófessor emeritus: „Hann jarðvarpaði mér þrisvar.“ Bréf kvenna til Þorvalds Thoroddsen
  • Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor: Benedikt Gröndal, bréfaskáld

Málstofustjóri: Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor

Útdrættir:

Már Jónsson, prófessor: Elskandi unnusti, elskandi sonur og elskandi faðir. Átta óbirt bréf Jóns Thoroddsen til þriggja kvenna 1842-1865

Til eru nokkur bréf sem Jón Thoroddsen sýslumaður og skáld skrifaði unnustu sinni og barnsmóður Ólöfu Hallgrímsdóttur Thorlacius árið 1842, móður sinni Þóreyju Gunnlaugsdóttur árin 1849–1853 og Elínu dóttur sinni árin 1861–1865. Flest þessara bréfa komu nýlega í leitirnar og ekki hefur verið fjallað um þau áður. Konurnar þrjár kveður hann sem „elskandi“ unnusti, sonur eða faðir. Reynt verður að útskýra hvað í þessari kveðju  fólst hverju sinni og hvernig sú yfirlýsta ást birtist að öðru leyti í texta bréfanna, með aðstæður og fyrri samskipti sem baksvið túlkunar. Rétt er að geta þess að ekkert bréf er varðveitt frá Jóni til eiginkonu sinnar Kristínar Ólínu Þorvaldsdóttur Sívertsen og almennt lítið til af bréfum frá honum og til hans.

Helga Kress, prófessor emeritus: „Hann jarðvarpaði mér þrisvar.“ Bréf kvenna til Þorvalds Thoroddsen

Bréfasafn Þorvalds Thoroddsen (1855–1921) er varðveitt í handritadeild Konungsbókhlöðunnar í Kaupmannahöfn, NKS 3006 4to. Safnið er mjög mikið að vöxtum og eru íslensku bréfin í sextán þykkum bögglum. Bréfin spanna tæplega fimmtíu ára tímabil, þau elstu frá 1875 og þau yngstu frá dánarári Þorvalds 1921. Bréfritarar eru um 270 talsins og bréfin skipta þúsundum. Þau eru mjög vel flokkuð, bréf frá fjölskyldunni í fyrstu möppunum og síðan eftir bréfriturum í stafrófsröð. Nöfn bréfritara eru ekki skráð, þannig að ekki er hægt að fletta þeim upp í spjaldskrá handritadeildarinnar,  heldur verður að fara í bréfasafnið sjálft.

Bréfin í bréfasafni Þorvalds hafa að geyma gífurlegar heimildir um sögu, mannlíf, ferðalög, samgöngur, framkvæmdir, fatnað, mat, vísindi, pólitík og landshagi yfirleitt á því tímabili sem þau eru skrifuð. Ekki síst eru þau heimildir um einkalíf, áhyggjur, áhugamál, tilfinningar, ástarmál, trúlofanir, barneignir, veikindi, basl og slúður, hvað bréfritarar eru að hugsa um og á þeim hvílir, hvernig og hvað þeir skrifa, um málfar, stíl, stafagerð, stafsetningu, pappír og skriffæri.        

Það vekur athygli hve margir bréfritarar í bréfasafni Þorvalds eru konur, 32 af 270, þ.e. um 12 prósent. Flestar eru konurnar á einhvern hátt skyldar eða tengdar Þorvaldi. Þarna eru m.a. 29 bréf frá móður hans, Kristínu Þorvaldsdóttur Thoroddsen (1833–1879), 53 frá móðursystur hans, Katrínu Þorvaldsdóttur (1833–1879), konu Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara, en hjá þeim ólst Þorvaldur upp frá 11 ára aldri, 32 bréf frá Elínu Jónsdóttur Blöndal (1841–1934), hálfsystur Þorvalds og læknisfrú í Stafholtsey, en langflest frá Þóru Pétursdóttur biskups (1847–1917), konu Þorvalds. Þá eru í bréfasafninu nokkur bréf frá föðursystur hans, Jóhönnu Kristínu Petronellu Þórðardóttur (1817–1894), Jóhönnu Kristínu Þorleifsdóttur Bjarnason (1834–1896), sem kallar sig „fóstru“ hans, og Elinborgu Thorberg (1841–1925), mágkonu hans.

Í fyrirlestrinum verður gripið niður í þessum bréfum með sérstöku tilliti til lýsinga bréfritara á sjálfum sér, aðstæðum sínum og nánasta umhverfi, frá hverju þær segja og hvernig (oft með sviðsetningum), og hvað bréfin geta sagt um kvennasögu og kvenleg skrif.

Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor: Benedikt Gröndal, bréfaskáld

Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson (1826–1907) var afkastamikill og skemmtilegur bréfritari. Sendibréf hans urðu oft vettvangur skáldskapar og skriflegra uppátækja. Bréfavinir hans fengu því iðulega frumsamin verk með pósti, ýmist ljóð, leikþætti eða sögur. Gröndal skrifaði t.d. skáldleg bréf til Eiríks Magnússonar bókavarðar, Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara og Jóns Sigurðssonar forseta, en skemmtilegust voru þó sennilega ljóðabréfin sem hann skrifaði vinkonu sinni Sigríði E. Magnússon, konu Eiríks. Í fyrirlestrinum verður fjallað um skáldleg bréf Gröndals og vikið að sendibréfum sem sérstöku listformi skálda sem finna í þeim meira frelsi en í hefðbundnum greinum bókmennta.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is