Þjófar, uppreisnarseggir og aðrir misindismenn í dómabókum sýslumanna

Laugardagurinn 14. mars kl. 10.00-12.00.

Dómabækur sýslumanna eru, með orðum Más Jónssonar, „óviðjafnanlegar heimildir um lifnaðarhætti og hugarfar Íslendinga fyrr á öldum“. Heimildaflokkurinn er líka umfangsmikill og erfiður viðureignar og hefur því löngum verið vannýttur af sagnfræðingum. Á undanförnum árum hefur Þjóðskjalasafn Íslands unnið að skráningu dómabóka sýslumanna frá 17. öld og fram á byrjun 20. aldar í miðlægan og leitarbæran gagnagrunn. Gagnagrunnurinn hefur gert þessar heimildir mun notendavænni en áður og hefur þegar leitt af sér nokkurn fjölda rannsókna. Í málstofunni verður fjallað um þessar heimildir, kosti þeirra og galla, fræðileg álitamál sem að þeim lúta og þá einstöku innsýn í íslenskt samfélag fyrri tíma sem þar er að finna.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Vilhelm Vilhelmsson, doktorsnemi í sagnfræði: Af lyst til að stela en ekki fyrir þörf: Atbeini undirsáta og hversdagslegt andóf í þjófnaðarmáli úr Húnavatnssýslu árið 1835
  • Ólafur Arnar Sveinsson, doktorsnemi í sagnfræði: Bankastjóri á flótta: Einstaklingurinn og sameiginleg saga vesturferða 
  • Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands: Athugun á sauðaþjófnaðarmálum í Eyjafjarðarsýslu 1697-1838
  • Gunnar Örn Hannesson, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands: Bætt aðgengi að sögulegri auðlind: Um dóma- og þingbækur í Þjóðskjalasafni Íslands

Málstofustjóri: Margrét Gunnarsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði

Útdrættir:

Vilhelm Vilhelmsson, doktorsnemi í sagnfræði: Af lyst til að stela en ekki fyrir þörf: Atbeini undirsáta og hversdagslegt andóf í þjófnaðarmáli úr Húnavatnssýslu árið 1835

Á jólaföstunni árið 1835 urðu nokkur vinnuhjú hjá Birni Blöndal sýslumanni Húnvetninga uppvís að ýmsum þjófnaði frá húsbónda sínum. Yfirheyrslur í málinu veita merkilega mikla innsýn í ævi og kjör vinnufólks, viðhorf þeirra og daglegt líf. Í fyrirlestrinum verður rætt um málið í ljósi kenninga um atbeina og hversdagsandóf og málið notað sem dæmi um þá möguleika til athafna og sjálfræðis sem undirsátar íslensks sveitasamfélags á 19. öld sköpuðu sér. 

Ólafur Arnar Sveinsson, doktorsnemi í sagnfræði: Bankastjóri á flótta: Einstaklingurinn og sameiginleg saga vesturferða 

Eitt af megineinkennum sögu vesturferða frá Íslandi er að hún birtist okkur gjarnan sem ótal lífssögur einstaklinga. Því hefur m.a. verið lýst að í þessari sagnaritun felist allt í senn þjóðleg fróðleikssöfnun, persónusaga og ættfræði. Á sama tíma lifir sameiginleg saga vesturfaranna sem hóps ágætu lífi þar sem áhersla er lögð á neikvæð áhrif harðindaára 19. aldar, eldgos og agentanna svokölluðu, sem áttu að hafa narrað fjölda fólks til flutninga vestur um haf. Þarna bindast nánum böndum persónulegar minningar einstaklinga og félagslegar og sögulegar minningar hópa. Í erindinu verður fjallað um hvernig dómabækur sýslumanna veita tækifæri til að rannsaka félagslega og réttarfarslega þætti í sögu íslenskra vesturfara, einkum sögu þess fólks sem rímar illa við söguleg og sameiginleg minni fólksflutninganna á 19. og 20. öld. Sjónum verður aðallega beint að sérstæðum flótta útibússtjóra Íslandsbanka á Akureyri undan klóm réttvísinnar fyrir rúmlega 100 árum og tilraunum yfirvaldsins við að hafa hendur í hári hans. Þá verður því velt upp hvort endurskoða ætti áðurnefnd minni vesturferða með greiðari aðgangi að ríkulegum heimildum og hvernig það úrlausnarefni gæti orðið sagnfræðingnum vandasamt.

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands: Athugun á sauðaþjófnaðarmálum í Eyjafjarðarsýslu 1697-1838

Í þessu erindi verður reynt að varpa ljósi á hvernig nota megi dómabækur sýslumanna sem heimildir um samfélagið í Eyjafirði á tímabilinu 1697–1838. Hvað er hægt að lesa út úr dómum í sauðaþjófnaðarmálum um íslenska samfélagsgerð fyrr á öldum? Þrjú megin þemu eru tekin fyrir. Í fyrsta lagi er leitast við að skýra orsakir eða ástæður afbrotanna og jafnframt hugað að viðhorfum samfélagsins til afbrotsins, bæði sakafólksins sjálfs og yfirvalda. Í öðru lagi er fjallað um félagslegt taumhald. Hvernig var lögum og reglum framfylgt í samfélagi þar sem engin eiginleg lögregla var til staðar? Í þriðja lagi er hugað að hlut kvenna og vinnuhjúa. Hvað getur þáttur kvenna og vinnuhjúa í sauðaþjófnaði sagt fyrir um stöðu þeirra í samfélaginu? Rannsóknin grundvallast á þeim 48 sauðaþjófnaðarmálum sem finna mátti í dómabókum sýslumanna á umræddu tímabili.

Gunnar Örn Hannesson, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands: Bætt aðgengi að sögulegri auðlind: Um dóma- og þingbækur í Þjóðskjalasafni Íslands

Dóma- og þingbækur fyrri alda eru flestum hulinn og framandi heimur. Í fljótu bragði má benda á tvær meginástæður fyrir því. Annars vegar eru þær rithendur sem bækurnar geyma óvönum seinlesnar. Hins vegar hafa engin yfirlit um efni þeirra og innihald verið á boðstólum, sem gætu orðið mönnum til verkaléttis í glímunni við þessar einstöku heimildir. Það eru engin meðöl til við hinu fyrrnefnda, nema þá kannski helst þrautseygja, áhugi og þolinmæði. Hvað síðara atriðið snertir hefur orðið nokkur bragarbót á hin síðustu 7-8 ár. Til sögunnar er nefnilega kominn sérstakur grunnur í Þjóðskjalasafni Íslands (ÞÍ) sem hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár.

Í erindinu verður fjallað um efnisskráningu dóma- og þingbóka í ÞÍ, upphaflegar ástæður hennar og markmið. Eins verður rætt um afrakstur efnisskráningarinnar og framlag hennar til rannsókna á ýmsum þáttum og sviðum íslenskt samfélags á fyrri tíð. Hverjar eru framtíðarhorfur verkefnisins? Hversu langt á leið erum við komin? Sýnishornum úr Dómabókagrunni ÞÍ verður varpað upp á skjá og grein gerð fyrir notkunarmöguleikum hans sem og takmörkunum.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is