Þögla kvikmyndin

Föstudagur 9. mars kl. 15-16.30
Stofa 231 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Tímabil þöglu kvikmyndarinnar varði frá fyrstu kvikmyndasýningunum árið 1895 til ársins 1927 þegar Warner bræður frumsýndu hljóðmyndina The Jazz Singer – þótt vissulega tæki nokkur ár að uppfæra tæknibúnað kvikmyndahúsa víðsvegar um heiminn. Þessir áratugir þöglu myndarinnar voru mikið umrótatímabil í mannkynssögunni og er oft rætt um innreið nútímans í því samhengi. Sjálfur kvikmyndamiðillinn hefur einmitt verið nefndur sem dæmi þar að lútandi, enda áttu sér stað margvísleg átök um miðilinn. Tekist var á um fagurfræðilegar, efnahagslegar og hugmyndafræðilegar spurningar. Erindi málstofunnar snúa öll á þeim með einum eða öðrum hætti.

Björn Norðfjörð mun ræða almennt um helstu kenningar og stefnur þöglu kvikmyndalistarinnar auk tilkomu hljóðsins. Heiða Jóhannsdóttir mun huga að samslætti kvikmyndamiðilsins og stofnanavalds á upphafsárum fræðslumyndagerðar í Bretlandi, einkum hópi kvikmynda sem var ætlað að sporna gegn útbreiðslu kynsjúkdóma. Loks mun Björn Þór Vilhjálmsson ræða áhrif kenninga Ungverjans Bela Balázs, sem finna má í bók hans Der sichtbare Mensch(1924), á Halldór Laxness sem hreifst mjög af hugmyndum Balázs um róttæka nútímavæðingu og frelsandi afl kvikmyndamiðilsins.

Fyrirlesarar:

  • Björn Norðfjörð, lektor í kvikmyndafræði: „Óafturkallanleg eyðilegging“: List þöglu kvikmyndarinnar og tilkoma hljóðsins
  • Heiða Jóhannsdóttir, stundakennari: „Svo uppsker sem sáir“: Myndhverfing sóttnæmis og upphaf kynfræðslumyndagerðar í Bretlandi
  • Björn Þór Vilhjálmsson, stundakennari: Balázs og Laxness: Hinn sýnilegi maður og kvikmyndakenningar þögla tímabilsins

Málstofustjóri: Helga Þórey Jónsdóttir, MA-nemi í bókmenntafræði

 

Útdrættir:

Björn Norðfjörð, lektor í kvikmyndafræði
„Óafturkallanleg eyðilegging“: List þöglu kvikmyndarinnar og tilkoma hljóðsins

Þriðji áratugur 20. aldarinnar var kannski sá frjóasti í sögu kvikmyndalistarinnar þar sem fjölbreyttar stefnur tókust á um hylli áhorfenda: bandaríska frásagnarmyndin, þýski expressjónisminn, franski impressjónisminn og sovéska myndfléttan. En það var líka á þriðja áratugnum sem kvikmyndagerðarmenn og aðrir spekúlantar, frá Jean Epstein í París til Sergei Eisenstein í Moskvu til Rudolfs Arnheim í Berlín, tóku að skilgreina sérstöðu kvikmyndalistarinnar. Þótt margvíslegar kenningar kæmu fram glímdu þær flestar við þann líflega en jafnframt þögla heim sem birtist á kvikmyndatjaldinu. Í erindinu verða gerð skil bæði hinum margvíslegu stefnum þögla skeiðsins og kenningum sem snúa að þeim. Þá verður hugað að tilkomu hljóðsins undir lok áratugarins sem neyddi bæði kvikmyndagerðarmenn og spekúlanta til að hugsa kvikmyndalistina upp á nýtt.

 

Heiða Jóhannsdóttir, stundakennari
„Svo uppsker sem sáir“: Myndhverfing sóttnæmis og upphaf kynfræðslumyndagerðar í Bretlandi

Í fyrirlestrinum verður hugað að samslætti kvikmyndamiðilsins og stofnanavalds og því hvernig hvernig útbreiðslumáttur og myndræn miðlun kvikmyndatækninnar var virkjuð í tilraunum til þess að að uppfræða og móta almenning upphafsárum fræðslumyndagerðar í Bretlandi. Fjallað verður um hóp kvikmynda sem framleiddar voru fyrir tilstuðlan heilbrigðisyfirvalda á öðrum og þriðja áratugnum í viðleitni við að sporna gegn útbreiðslu
kynsjúkdóma, en kvikmyndirnar má m.a. greina í ljósi kynjapólítskrar orðræðu sem beindist að róttækum breytingum á samfélagslegri hlutverkaskipan kynjanna.

 

Björn Þór Vilhjálmsson, stundakennari
Balázs og Laxness: Hinn sýnilegi maður og kvikmyndakenningar þögla tímabilsins

Í erindinu verður hugað að kenningum ungverska kvikmyndafræðingsins Béla Balázs og áhrifum þeirra á hugmyndir Halldórs Laxness um kvikmyndamiðilinn. Ljóst er að Laxness þekkti fyrsta rit Balázs um þöglu kvikmyndina, Der sichtbare Mensch (1924), prýðilega og hreifst mjög af hugmyndum Balázs um róttæka nútímavæðingu og frelsandi afl miðilsins. Þá er jafnljóst að eftir því sem Laxness varð gagnrýnni á Hollywood og kvikmyndarýni hans hugmyndafræðilegri dvínaði áhugi hans á formrænum vangaveltum ungverska kvikmyndafræðingsins. Þannig má kortleggja í ólíkum útgáfum ritgerðarinnar sem Laxness skrifaði um Hollywood hvernig Balázs í vissum skilningi hverfur af sjónarsviðinu – en því er við að bæta að ýmsir þættir í endanlegri útgáfu ritgerðarinnar verða aðeins skýrðir til fulls ef fyrri hrifning Laxness á Balázs er höfð í huga. Hér verður því ekki aðeins leitast við að kortleggja áhrifavalda Halldórs þegar að kvikmyndagreiningu hans kemur heldur einnig varpað fram spurningum um ólíka leshætti þöglu myndarinnar á þriðja áratugnum.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is