Tökuorð og þýðingar úr spænsku og frönsku

 

Málstofan er að mestu helguð þýðingum úr rómönsku málunum spænsku og frönsku. Fjallað verður um íslenskar þýðingar á ljóðum síleanska skáldsins Pablos Neruda og þýðingar á tveimur leikritum eftir frönsku 17. aldar leikskáldin Corneille og Molière. Einnig verður skoðað hvað það er sem fer forgörðum þegar bundið mál er þýtt yfir á prósa: hvað tapast, hvað kemur í staðinn? Stuðst verður við þýðingar frá miðöldum og okkar tímum. Að lokum verður nokkrum tökuorðum úr indíánamálum fylgt í þýðingum úr spænsku á frásögnum um hina Nýju veröld.

Málstofustjóri: Ásdís R. Magnúsdóttir

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 10-12 (stofa 051 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku: Indíánaorð í frásögnum um hina Nýju veröld í íslenskum þýðingum
  • Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku: „Og hversu merkar skoðanir!“ Þýðingar á ljóðum Pablos Neruda
  • Guðrún Kristinsdóttir, MA-nemi í frönskum fræðum: Fegursta formið: Tvær þýðingar í bundnu máli á leikritum frönsku leikskáldanna Corneille og Molière
  • Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönsku: Úr bundnu máli í prósa. Hvað fer forgörðum og hvað kemur í staðinn?

Fundarstjóri: Ásdís R. Magnúsdóttir

Útdrættir:

Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku: Indíánaorð í frásögnum um hina Nýju veröld í íslenskum þýðingum

Í handritum frá 17., 18. og 19. öld eru í íslenskri þýðingu frásagnir af landafundum Spánverja og hinni Nýju Veröld. Frá 17. öld eru tveir þættir sem fjalla annars vegar um ferðir Kólumbusar og hins vegar um siglingar Vesputíusar í lok 15. aldar og í upphafi þeirrar 16. Frá 19. öld eru tvö handrit á Landsbókasafni sem geyma sögu Ferdinands Kortesar og ferðalags hans um Mexíkó. Hér er ætlunin að gera stuttlega grein fyrir þessum textum sem eru þýðingar úr dönsku og fjalla um tökuorð úr tungumálum frumbyggja Suður-Ameríku sem hafa slæðst inn í þýðingarnar. Orðin eru til dæmis úr taínómáli, sem var talað á Stóru Antillu-eyjum, karíbamáli, tungumáli Litlu Antillu-eyja, og náhuatl, máli frumbyggja í Mexikó.

Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku: „Og hversu merkar skoðanir!“ Þýðingar á ljóðum Pablos Neruda

Eftir síleska ljóðskáldið Neftalí Ricardo Reyes Basoalto (1904-1973), sem kallaði sig Pablo Neruda, liggja tæplega 40 ritverk, aðallega ljóðasöfn. Hér á landi hafa þýðingar á stökum kvæðum Neruda birst nokkuð reglulega á síðari hluta XX aldar, auk þess sem Guðrún Halla Tulinius þýddi ljóðasafnið Tuttugu ljóð og einn örvæntingarsöngur, ásamt Karli Guðmundssyni, árið 1996, og Hæðir Machu Picchu, árið 2005. Árið 2011 kom svo út ljóðasafnið Óminni er ekkert og fleiri ljóð í þýðingu Hallbergs Hallmundssonar.

Í erindinu verður sjónum beint að þýðingum á stökum kvæðum Neruda. Spurt verður hvaða ljóð hafa verið valin til þýðinga, hverjir eru þar að verki og leitast við að svara hverju réð þar um. Sérstaklega verður fjallað um frásagnarljóð Neruda sem birtust í ljóðasafninu Canto general sem fyrst kom út í Mexíkó árið 1950 en mörg kvæðanna hafa verið þýdd á íslensku m.a. af Degi Sigurðarssyni.

Guðrún Kristinsdóttir, MA-nemi í frönskum fræðum: Fegursta formið: Tvær þýðingar í bundnu máli á leikritum frönsku leikskáldanna Corneille og Molière

Stór hluti klassískra leikbókmennta frá Frakklandi 17. aldar er ritaður í bundnu máli. Algengasta formið voru alexandrínur, tólf atkvæða ljóðlínur með endarími AA-BB, sem eru einkennandi fyrir þetta tímabil í frönskum leikbókmenntum, í harmleikjum jafnt sem gamanleikjum. Alexandrínurnar eru afar vandmeðfarnar í flutningi og þykja sá vettvangur þar sem frönsk tunga nær hve hæstum hæðum. Mörg af frægustu leikritum þessa tíma hafa orð á sér fyrir að vera óþýðanleg (Steiner, 1961). Í erindi þessu verður leitast við að varpa ljósi á nálganir tveggja íslenskra þýðenda, Helga Hálfdánarsonar og Karls Guðmundssonar, til að þýða tvö af þessum verkum fyrir íslenskt leikhús og íslenska áhorfendur á ofanverðri 20. öld; tragikómidíuna Le Cid (Ofjarlinn) eftir Pierre Corneille og móralska gamanleikinn Le Misanthrope (Mannhatarann) eftir Molière.

Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönsku: Úr bundnu máli í prósa. Hvað fer forgörðum og hvað kemur í staðinn?

Þegar franskar riddara- og ljóðsögur voru þýddar á norrænu á miðöldum var þeim undantekningalaust snúið á óbundið mál. Gilti þá einu hvort þær voru með átta atkvæða braglínum eða tíu á frummálinu og hvernig rími var háttað. Fyrir vikið hverfur hrynjandin og sú ljóðræna eða lýrík sem einkennir frönsku textana. En hvað kom í staðinn? Hér verða tekin nokkur dæmi sem sýna hvernig miðaldaþýðendur  leystu þetta verkefni. Stuðst verður við brot úr Strengleikum Marie de France, Tristrams sögu ok Ísandar, Ívents sögu og Rúnzivals þætti. Einnig verður litið til nýrra þýðinga á verkum frá þessu tímabili og spurt hversu mikilvægt er að fylgja formi frumtexta í þýðingu.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is