Trú, vantrú og vísindi

Laugardagur 10. mars kl. 10-12
Stofa 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Fjallað verður um takmark og takmörk vísinda og þekkingarleitar og mikilvægi skapandi hugsunar og tilrauna í því sambandi. Ræddur verður þáttur trúarbragða, bókmennta og lista í viðleitni mannsins til að þekkja sjálfan sig, víkka út reynslu og þekkingarheim sinn og skapa réttlátt og gott þjóðfélag. Út frá þessum pælingum verður leitast við að vega og meta mikilvægi akademísks frelsis og hugsanlega heftingu þess og álitamál sem það vekur í borgaralegu samfélagi.

Fyrirlesarar:

  • Pétur Pétursson, prófessor í guðfræði: Trú og vantrú fyrir hundrað árum
  • Benedikt Hjartarsson, aðjunkt í menningarfræði: Af meinsemdum höfuðsins: nokkrar hugrenningar um dulspeki, rökvæðingu og andófsmenningu
  • Jón Ólafsson, prófessor við Háskólann á Bifröst: Mörk rannsóknar- og kennslufrelsis
  • Bjarni Randver Sigurvinsson stundakennari: Nýtrúarhreyfingar og trúarhugtakið

Málstofustjóri: Ástráður Eysteinsson, prófessor og forseti Hugvísindasviðs

Útdrættir:

Pétur Pétursson prófessor
Trú og vantrú fyrir hundrað árum

Greint verður frá deilunum um ljóðabókina Þyrna eftir Þorstein Erlingsson sem út kom árið 1897 þar sem Haraldur Níesson guðfræðingur og Guðmundur Hannesson læknir tókust á. Í framhaldi af því verður fjallað um sálarrannsóknir og spíritisma á fyrsta áratugi 20. aldar, en þar komu báðir þessir menn einnig mjög við sögu. Reynt verður að svara þeirri spurningu um hvað þessar deilur snérust í raun og veru. Hver voru þau grundvallagildi sem tekist var á um? Getum við eitthvað lært af þeim öld seinna?

 

Benedikt Hjartarsson aðjunkt
Af meinsemdum höfuðsins: nokkrar hugrenningar um dulspeki, rökvæðingu og andófsmenningu

Í erindinu verður fjallað um samband rökvæðingar, andófsmenningar og dulspekihreyfinga í sögulegu ljósi. Í forgrunni verða fyrstu áratugir 20. aldar, þegar dulspekihreyfingar urðu mikilvægur vettvangur andófsstarfsemi jafnt á stjórnmálasviðinu, í fræðasamfélaginu og innan umræðu um fagurmenningu. Varpað verður ljósi á takmörk hinnar ríkjandi hugmyndar um nútímann og þau margvíslegu átök ólíkra þekkingarkerfa sem móta ferli nútímavæðingar.

 

Jón Ólafsson prófessor við Háskólann á Bifröst
Mörk rannsóknar- og kennslufrelsis

Hugmyndafræðilegt ofstæki birtist iðulega í árásum á þá sem stunda kennslu á háskólastigi: Hlutverk kennarans er ofstækishópum sérstaklega hugleikið og því reyna þeir iðulega að koma höggi á kennara með ásökunum um einhverskonar áróður eða misferli í kennslu. Ofstækishópar, út af fyrir sig, baka háskólasamfélaginu þó engin vandræði. Vandinn er hinsvegar stundum sá að ofstækishópum tekst að mistúlka tilgang og eðli kennslu og þar með ljá ofstækisárásum trúverðugleika sem geta komið háskólakennurum í óþægilega klemmu. En hvar liggja mörk rannsókna- og kennslufrelsis? Og hvernig er hægt að verjast ofstæki, án þess að víkja frá ströngum kröfum fræðilegra vinnubragða og fagmennsku?

 

Bjarni Randver Sigurvinsson stundakennari
Nýtrúarhreyfingar og trúarhugtakið

Hart hefur verið tekist á um merkingarsvið trúarhugtaksins og er þar m.a. deilt um hvers konar hreyfingar geti talist trúarlegar og nýjar af nálinni. Gerð verður grein fyrir þeim skilgreiningum sem liggja til grundvallar trúarlífsfélagsfræðilegri greiningu á trú og trúarhreyfingum og fjallað um álitamál í tengslum við þær.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is