Úlfar Bragason: Útdráttur og lykilorð

Ritið 1. hefti, 14. árangur - 2014

Úlfar Bragason: „Syng, frjálsa land, þinn frelsissöng“

Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (1881–1946), Hulda, fékk verðlaun í ljóðasamkeppni fyrir kvæðið „Söngvar helgaðir þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944“. Það var frumflutt á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 17. júní 1944. Kvæðið er þjóðernislegt og þar er lögð áhersla á frelsi og frelsisbaráttu þjóðarinnar: „Svo aldrei framar Íslands byggð/ sé öðrum þjóðum háð“. Hinn 18. júní hélt Íslendingafélagið Vísir í Chicago samkomu þar sem Paul J. Halldorson iðnrekandi (1883–1964) hélt ræðuna „Iceland’s Unique Destiny“ til að minnast lýðveldisstofnunarinnar. Í ræðu sinni rakti Paul sögu Íslendinga og velti fyrir sér framtíð lýðveldisins frá bandarískum sjónarhóli. Jón Halldórsson (1838–1919), faðir Pauls, var einn af þeim Íslendingum sem fyrst fluttu til Bandaríkjanna. Hann fór 1872 til Milwaukee í Wisconsin og nam land í Nebraska 1874. Hann var vinur Benedikts Jónssonar á Auðnum (1846–1939), föður Unnar, og skrifuðust þeir á um langt árabil. Hér eru borin saman viðhorfin sem koma fram í hátíðarkvæði Huldu og ræðu Pauls – skoðanir heima og heiman.

Efnisorð: Viðhorf Vestur-Íslendinga til heimalandsins, sjálfsmynd Vestur-Íslendinga, frelsi Íslendinga, lýðveldi

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is