Umsókn um doktorsnám

Umsóknarfrestur fyrir doktorsnám á Hugvísindasviði er til 15. apríl fyrir innritun á haustmisseri, en umsóknarfrestur erlendra umsækjenda utan Norðurlandanna er til 1. febrúar. Umsóknarfrestur fyrir innritun á vormisseri er til 15. október. Heimilt er að taka við umsóknum um doktorsnám á öðrum tímum ef sérstaklega stendur á. Umsækjendur þurfa að hafa samband við skrifstofu Hugvísindasviðs áður en þeir sækja um utan frests.

Umsóknum skal skilað til nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem aðgengilegt er á vef skólans (http://www.hi.is/adalvefur/umsokn_i_framhaldsnam). Umsóknum sem skilað er án nauðsynlegra fylgigagna og/eða fylgja ekki öðrum leiðbeiningum er hafnað á grundvelli formgalla. Athuga ber að náms- og rannsóknaráætlun skal vera fyllt út á þar til gerðu eyðublaði. Með umsókn um doktorsnám skulu eftirfarandi gögn fylgja:

  • Ferilskrá (CV).
  • Staðfest afrit af prófskírteinum og fyrri námsferli hafi það nám ekki verið við Háskóla Íslands. Staðfestum afritum af prófskírteinum má skila til nemendaskrár.
  • Yfirlýsing um markmið og væntingar (hámark 1 blaðsíða).
  • Náms- og rannsóknaráætlun í fjórum hlutum á sérstöku eyðublaði: I. Almenn lýsing á rannsóknarverkefni, markmiðum þess, rannsóknarspurningum og faglegum forsendum nemandans til að vinna verkefnið (hámark 5 blaðsíður).  II. Drög að áætlun um skipulag námsins, þ.e. námsáætlun (hámark 2 blaðsíður). III. Áætlun um fjármögnun námsins. IV. Heimildaskrá (hámark 5 blaðsíður). Mikilvægt er að vanda sérstaklega vinnu við þennan þátt umsóknar. Sjá upplýsingar og eyðublað fyrir náms- og rannsóknaráætlun.
  • Skrifleg staðfesting frá leiðbeinanda. Í staðfestingu, sem á að vera hálf til ein blaðsíða, þarf að koma fram 1) að viðkomandi hafi samþykkt að leiðbeina umsækjanda, 2) að leiðbeinandi hafi lesið og samþykkt náms- og rannsóknaráætlun þá sem umsækjandi leggur fram og 3) rökstuðningur fyrir því að verkefni umsækjanda falli undir sérsvið leiðbeinanda, sem teljast megi vera viðurkenndur og virkur sérfræðingur á viðkomandi sviði og hafi birt ritsmíðar á því sviði á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur, eins og reglur um doktorsnám kveða á um. Staðfestingu skal skila beint til skrifstofu. ATH: Hugvísindasvið fylgir eftir viðmiðum Háskóla Íslands um að hver leiðbeinandi hafi að hámarki 4 doktorsnema á hverjum tíma. Leiðbeinendur geta því aðeins tekið að sér nýja nemendur hafi þeir 3 eða færri doktorsnema á sínum snærum.
  • Yfirlýsing um væntanleg námslok. Ef nemandi hyggst hefja doktorsnám strax að loknu meistaraprófi getur hann sótt um það áður en hann lýkur prófi, ef fyrir liggur yfirlýsing viðkomandi háskóladeildar um að hann muni væntanlega ljúka náminu með fullnægjandi árangri við lok yfirstandandi misseris. Innan Háskóla Íslands má slíka yfirlýsingu fá hjá verkefnastjóra hverrar deildar.

Sé leiðbeinandi ekki starfsmaður þeirrar deildar sem umsækjandi hyggst stunda nám við skal umsækjandi, í samráði við leiðbeinanda, leita eftir akademískum starfsmanni deildar með doktorspróf til að sitja í doktorsnefnd sinni sem umsjónarmaður fyrir hönd deildar. Skriflegt samþykki umsjónarmanns skal þá fylgja umsókn.

Námsbraut er að auki heimilt að krefjast sýnishorna af ritgerðum umsækjenda telji hún þörf á.

Ef umsókn uppfyllir formkröfur fær námsbraut eða deild hana til efnislegrar umfjöllunar og því næst er hún send doktorsnámsnefnd til afgreiðslu. Afgreiðslu umsóknar skal að jafnaði vera lokið og henni svarað skriflega innan sex vikna frá lokum umsóknarfrests, eða frá móttöku ef samþykkt er að taka við umsókn á öðrum tíma. Umsækjendur fá svar sent á það netfang sem þeir gáfu upp í umsókninni.

Sjá nánar í 4. og 5.  gr. reglna um doktorsnám við Hugvísindasvið.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is