Undirbúningur fyrir vörn

Þegar  doktorsnefnd telur að ritgerð sé tilbúin skilar hún til deildar rökstuddu áliti, sem allir nefndarmenn staðfesta, um að doktorsneminn geti lagt ritgerð fram til doktorsvarnar. Sé doktorsnefnd ekki sammála skal meirihluti ráða og er atkvæði formanns oddaatkvæði.

Verkefnastjóri/ritari kannar námsferil nemandans og hvort ritgerðin uppfylli skilyrði um uppsetningu og frágang. Í reglum er kveðið á um ýmislegt sem koma þarf fram í ritgerð (varðandi inngang, merki Háskóla Íslands, útdrætti o.fl.).

Telji doktorsnámsnefnd ritgerðina tæka til varnar tilnefnir hún, að fenginni umsögn deildar, tvo andmælendur við munnlega vörn ritgerðarinnar. Miðstöð framhaldsnáms staðfestir andmælendurna.

Verkefnastjóri/ritari sendir andmælendum eintak af ritgerðinni ásamt formlegu skipunarbréfi.

Eigi síðar en innan tveggja mánaða frá dagsetningu skipunarbréfs skila andmælendur rökstuddu áliti sínu sameiginlega, þar sem fram kemur að ritgerðin sé:

  1. tæk til varnar með engum eða smávægilegum breytingum
  2. tæk til varnar með nauðsynlegum breytingum
  3. ekki tæk til varnar.

Ef andmælendur krefjast breytinga á ritgerðinni sendir doktorsnemi doktorsnámsnefnd nýja útgáfu ritgerðarinnar ásamt greinargerð um breytingar að jafnaði innan sex vikna frá svari andmælenda. Gert er ráð fyrir að andmælendur staðfesti innan tveggja vikna hvort viðbrögð við aðfinnslum þeirra séu fullnægjandi.

Þegar andmælendur hafa staðfest að ritgerð sé tæk til varnar og viðkomandi deild hefur ákveðið að doktorsvörn skuli fara fram gengur doktorsefni frá endanlegri gerð ritgerðarinnar í samráði við Hugvísindastofnun og vistar rafrænt eintak hennar í Skemmu, rafrænu gagnasafni Háskóla Íslands. Athugið að reglum um doktorsnám var breytt á haustmisseri 2019 og ekki er lengur krafist prentaðra eintaka af lokagerð. Vinsamlegast hafið samband við Maríu Gestsdóttur til að fá nánari upplýsingar, netfang mariage@hi.is

Deild ákveður dagsetningu doktorsvarnar í samráði við doktorsefni, leiðbeinanda og andmælendur. Miðað er við að vörn fari fram eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að andmælendur staðfesta að ritgerð sé tæk til varnar. Ritgerðin liggur frammi á skrifstofu Hugvísindasviðs í tvær vikur fyrir vörn.

Sjá nánar í 13. gr. reglna um doktorsnám við Hugvísindasvið.
 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is