Upplýst setningafræði

Föstudagurinn 13. mars kl. 13.15-16.30, með kaffihléi.

Í málstofunni verður leitast við að segja frá nýjum tíðindum í rannsóknum á setningafræði, jafnt barna sem fullorðinna, og varpa þar með nýju og áhugaverðu ljósi á máltileinkun, tilbrigði málsins og málbreytingar almennt. Þannig verður sjónum beint að því þegar frumlagsaukafall kemur í stað nefnifalls, breytingum á fylliliðum í þolmynd, hömlum á stöðu ákveðinna nafnliða og nýju setningagerðinni í máli leikskólabarna.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Þórhallur Eyþórsson prófessor: Hvar kreppir skóinn? Um stökkbreytingar í íslenska fallakerfinu
  • Margrét Jónsdóttir, prófessor í íslensku sem öðru máli: Mér (mig) kennir til = ég kenni til“. Um sögu aukafallsfrumlaga með kenna til
  • Iris Edda Nowenstein, MA í almennum málvísindum og nemi í talmeinafræði: Tilbrigði í setningagerð og máltaka: Að tileinka sér innri breytileika

​Kaffihlé

  • Eiríkur Rögnvaldsson prófessor: Frá liðum til setninga: Breytingar á fylliliðum álits- og talsagna í þolmynd
  • Ingunn Hreinberg Indriðadóttir, doktorsnemi í íslenskri málfræði: Hamla ákveðins nafnliðar í íslensku nútímamáli
  • Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor: Það var kitlað hundinn. Skilningur leikskólabarna á nokkrum setningagerðum í íslensku nútímamáli

Málstofustjóri: Margrét Jónsdóttir prófessor

Útdrættir:

Þórhallur Eyþórsson prófessor: Hvar kreppir skóinn? Um stökkbreytingar í íslenska fallakerfinu

Aukafallsfrumlög hafa verið ofarlega á baugi í málfræðinni innanlands og utan allt frá því að fyrst var sýnt fram á tilvist þeirra í íslensku (Andrews 1976). Tilbrigði í fallmörkun rökliða hafa líka verið rannsökuð af kappi, ekki síst breytingar í þá átt að alhæfa eitt frumlagsfall á kostnað annars við ákveðin, fyrirsegjanleg skilyrði, t.d. þágufallssýki og nefnifallshneigð (Ásta Svavarsdóttir 1982, Höskuldur Þráinsson o.fl. 2015). Síðarnefnda breytingin felst í því að aukafall á frumlögum svokallaðra þemasagna víkur fyrir nefnifalli (bátinn rak að landi verður báturinn rak að landi). Í fyrirlestrinum verður fjallað um sjaldgæft og lítt rannsakað ferli sem er í raun andstæða nefnifallshneigðar. Þessa breytingu má nefna aukafallshneigð enda felst hún í því að aukafall kemur í stað nefnifalls á frumlögum tiltekinna sagna (mig/mér hlakkar til í stað ég hlakka til eða skóinn kreppir í stað skórinn kreppir). Að vísu er hér um að ræða einangraðar „stökkbreytingar“ fremur en kerfisbundna þróun en samt er unnt að greina skilyrði aukafallshneigðar í samhengi við aðrar breytingar á fallmörkun frumlaga. Ályktað er að þetta ferli varpi óvæntu ljósi á málbreytingar almennt og eðli og tilurð aukafallsfrumlaga sérstaklega.

Margrét Jónsdóttir, prófessor í íslensku sem öðru máli: Mér (mig) kennir til = ég kenni til“. Um sögu aukafallsfrumlaga með kenna til

Sambandið kenna til „finna til sársauka“ skal samkvæmt hefðinni vera með nefnifalls­frumlagi. Eins og hjá öðrum sögnum með skynjunarmerkingu er aukafallsfrumlag þó algengt; með kenna til er frumlagið næstum alltaf þolfallsfrumlag.

Elstu heimildir um þolfallsfrumlag ná aftur til miðrar 19. aldar. Þó er athyglisverð athugasemd í Íslenzkri stafsetningarorðabók Björns Jónssonar frá 1900 þar sem segir: mér (mig) kennir til = eg kenni til. Hér virðist mega ráða að fremur þyki ástæða til að amast við þágufallsfrumlaginu. Samt er alveg ljóst að dæmi um það eru miklu færri; elstu heimildir eru úr ritheimildum frá miðri 20. öld.

Í fyrirlestrinum verður hegðun kenna til skoðuð nánar og dæmi sýnd. Til samanburðar verður hegðun frumlags annarra sagna/sagnasambanda sömu og svipaðrar merkingar. Rétt eins og kenna til eru þetta sagnir sem (margar) sýna glöggt aukafallshneigð.  

Iris Edda Nowenstein, MA í almennum málvísindum og nemi í talmeinafræði: Tilbrigði í setningagerð og máltaka: Að tileinka sér innri breytileika

Þágufallshneigð, tilbrigði í frumlagsfalli þar sem þágufall kemur í stað upprunalegs þolfalls með skynjandasögnum, er vel rannsakað setningarlegt fyrirbæri í íslensku. Rannsóknir á þessum tilbrigðum hafa meðal annars leitt í ljós að breytileikinn kemur ekki aðeins fram málhafa á milli heldur innan máls sama málhafa. Svokallaður innri breytileiki fylgir tilbrigðunum. Þannig er algengt að sama manneskja segi bæði mig langar, með þolfallsfrumlagi, og þeim langar, með þágufallsfrumlagi. Dreifing þessa innri breytileika er ekki algjörlega handahófskennd, heldur fer hún eftir þáttum eins og persónu og tölu frumlagsins. En hvers eðlis er slíkur breytileiki? Er hann afleiðing meðvitaðra leiðréttinga eða hluti af málkunnáttunni? Hvernig læra börn frumlagsfall þegar það er breytilegt í málumhverfi þeirra? Í fyrirlestrinum eru færð rök fyrir því að svar við þriðju spurningunni feli í sér svar við hinum tveimur.

Eiríkur Rögnvaldsson prófessor: Frá liðum til setninga: Breytingar á fylliliðum álits- og talsagna í þolmynd

Setningagerðin þolfall með nafnhætti var til þegar í fornu máli eins og þessi setning úr Njálu sýnir:

(1)       Njáll sagði hann vera hinn mesta afreksmann.

Þegar slíkum setningum er snúið í þolmynd verður þolfallsliðurinn ‒ merkingarlegt frumlag aukasetningarinnar ‒ að frumlagi aðalsetningar, en nafnháttarsetningin verður fylliliður með lýsingarhætti þátíðar.

(2)       Hann var sagður [vera hinn mesti afreksmaður]

Setninguna í (2) er hins vegar ekki að finna í Njálu, og hliðstæðar setningar virðast raunar ekki koma fyrir í fornu máli. Þar taka lýsingarhættir álits- og talsagna eingöngu með sér sagnlausa fylliliði, lýsingarorðsliði (3) eða nafnliði (4).

(3)       því að hann var sagður [margkunnandi].

(4)       Ekki er hann sagður [mikilmenni].

Það virðist ekki vera fyrr en um og eftir miðja 19. öld sem sagnir fara að koma fyrir í fylliliðum þessara lýsingarhátta ‒ fyrst vera, en síðan fylgja aðrar sagnir á eftir. Á seinni hluta 19. aldar og framan af þeirri 20. er nafnháttarmerkið iðulega haft í þessari setningagerð eins og (5) sýnir, einkum í vesturíslensku, en er nú alveg horfið.

(5)       Er hann nú sagður [að hafa náð aftur fullri heilsu].

Í erindinu verður reynt að varpa ljósi á þessa breytingu og tilbrigði í henni ‒ upptök, eðli og útbreiðslu.

Ingunn Hreinberg Indriðadóttir, doktorsnemi í íslenskri málfræði: Hamla ákveðins nafnliðar í íslensku nútímamáli

Í íslensku gildir svokölluð hamla ákveðins nafnliðar, eða ákveðnihamlan (e. the Definiteness Effect) (Kenneth J. Safir, 1985). Samkvæmt ákveðnihömlunni verður frumlag leppsetninga að vera óákveðið, bæði í germynd og þolmynd, sbr. dæmin í (1) og (2).

(1)        a. Það hafði brunnið hús á hæðinni.

            b. *Það hafði brunnið húsið á hæðinni.

(2)        a. Það voru keyptar nýjar tölvur fyrir skólann.

            b. *Það voru keyptar nýju tölvurnar fyrir skólann.

Rannsóknir á íslensku nútímamáli hafa leitt í ljós að sumir málhafar leyfa leppsetningar með ákveðnum frumlögum (Höskuldur Þráinsson o.fl., væntanlegt) og því hefur verið haldið fram að ákveðnihamlan sé ekki jafnvirk í máli fólks í dag og hún var í fornu máli (Þórhallur Eyþórsson, 2008 og Sigríður Sigurjónsdóttir, væntanlegt). En hversu virk er ákveðnihamlan í raun og veru og hvers eðlis eru undantekningarnar? Hefur ákveðnihamlan veiklast í íslensku nútímamáli eða hafa alltaf verið undantekningar frá henni? Í erindinu verður reynt að svara þessum spurningum og fleiri.

Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor: Það var kitlað hundinn. Skilningur leikskólabarna á nokkrum setningagerðum í íslensku nútímamáli

Í þessu erindi verða kynntar niðurstöður prófs sem kannar skilning á þolmynd og skyldum setningagerðum í íslensku (höfundur: Sigríður Sigurjónsdóttir, teikningar: Auður Ýr Elísabetardóttir). Í prófinu eru sex setningagerðir prófaðar (germynd, germynd með andlags-kjarnafærslu, þolmynd án af-liðar, þolmynd með af-lið, leppþolmynd og nýja setningagerðin) með sögnum sem hafa mismikil áhrif á andlag sitt. Valin voru sagnapör, þ.e. sagnir sem tilheyra sama merkingarflokki en önnur sögnin tekur andlag í þolfalli og hin í þágufalli.

Prófið var lagt fyrir 55 leikskólabörn á aldrinum 3;0-5;6 ára, fimm ellefu ára grunnskólabörn og 10 fullorðna. Niðurstöður sýna að leikskólabörn eiga marktækt auðveldara með að skilja germyndarsetningar og nýju setningagerðina en aðrar setningagerðir sem prófaðar voru. Ekki er tölfræðilega marktækur munur á skilningi þeirra á þolmynd án af-liðar og leppþolmynd. Þolmynd með af-lið reynist þeim erfiðari en erfiðast reynist þeim þó að skilja germynd með andlagskjarnafærslu. Einnig kemur fram marktækur munur á skilningi barnanna eftir því hversu mikil áhrif sögnin hefur á andlag sitt í þolmynd og nýju setningagerðinni. Fall andlagsins hefur hins vegar ekki áhrif á niðurstöðurnar.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is