Úr sögu biblíuþýðinga og biblíuskilnings

Föstudagurinn 13. mars kl. 15.00-16.30.

Í ár eru liðin 200 ár frá stofnun Hins íslenska biblíufélags, elsta starfandi félags í landinu. Af því tilefni verður í þessari málstofu fjallað um ýmsa þætti úr langri sögu íslenskra biblíuþýðinga. Þar koma við sögu tveir af elstu þýðendunum Oddur Gottskálksson og Guðbrandur Þorláksson sem og skoski trúboðinn Ebenezer Henerson sem beitti sér fyrir stofnun Hins íslenska biblíufélags 1815 og loks er fjallað um biblíuskilnings Danas Grundtvigs sem hafði umtalsverð áhrif á íslenska menntamenn.

Gunnlaugur A. Jónsson prófessor skipulagði málstofuna.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Einar Sigurbjörnsson, prófessor emerítus í guðfræði: Ritningarskilningur Grundtvigs
  • Guðrún Kvaran, prófessor emeritus og fyrrverandi stofustjóri hjá Árnastofnun: Líkt og ólíkt í Nýja testamentunum 1540 og 1584
  • Sigurður Pálsson, fyrrverandi sóknarprestur í Hallgrímskirkju: Ebenezer Henderson og stofnun Hins íslenska biblíufélags

MálstofustjóriRagnhildur Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags

Útdrættir:

Einar Sigurbjörnsson, prófessor emerítus í guðfræði: Ritningarskilningur Grundtvigs

Sem ungur guðfræðikandidat og prestur tók Grundtvig upp baráttu gegn rationalismanum sem þá var ríkjandi stefna í kirkju- og menningarmálum í Danmörku. Að hans mati var Heilög ritning eini mælikvarði kirkjunnar á trú og breytni. Í deilum sínum við prófessor Clausen þróaði hann all sérstæðan ritningarskilning sem hér verður fjallað um.

Guðrún Kvaran, prófessor emeríta og fyrrverandi stofustjóri hjá Árnastofnun: Líkt og ólíkt í Nýja testamentunum 1540 og 1584

Eins og mörgum er kunnugt notfærði Guðbrandur Þorláksson biskup sér þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu við útgáfu Biblíunnar 1584. Nýja testamentið var gefið út í Hróarskeldu 1540 og var fyrsta íslenska ritið sem komst á prent. Sumir hafa haldið því fram að breytingar Guðbrands hafi verið til bóta, aðrir að þær hafi verið óverulegar. Fæstar umsagnirnar styðjast við nákvæman samanburð.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um endurskoðun Guðbrands og í hverju breytingar hans voru fólgnar. Stuðst verður við rækilegan samanburð á báðum Nýja testamentunum. Í fyrri hlutanum verða sýnd valin dæmi um breytingar sem snúa að beygingum og orðmyndum en í síðari hlutanum verður reynt að sýna fram á fyrirmyndir Odds og Guðbrands og að Guðbrandur hafi stuðst við danska þýðingu á Biblíunni sem gefin var út í Kaupmannahöfn 1550.

Sigurður Pálsson, fyrrverandi sóknarprestur í Hallgrímskirkju: Ebenezer Henderson og stofnun Hins íslenska biblíufélags

Skotinn Ebebezer Henderson átti frumkvæði að því að Hið íslenska Biblíufélag var stofnað 10. júlí 1815. Í erindinu verður rætt um aðdraganda þess að hann kom til Íslands, ferðir hans um landið og stofnun Biblíufélagsins.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is