Útdrættir fyrirlestra

Fyrirlesurum er raðað í stafrófsröð

Aðalsteinn Hákonarson, doktorsnemi í íslenskri málfræði: Ný rím og hljóðdvöl í miðíslensku

Þegar komið var fram undir 1300 höfðu átt sér stað talsverðar breytingar á hljóðgildi sérhljóða (tvíhljóðun langra sérhljóða og lækkun stuttra sérhljóða). Við þetta fjarlægðust löng og stutt sérhljóð að hljóðgildi þannig að þegar lengd hætti að vera aðgreinandi urðu almennt ekki samföll í sérhljóðakerfinu. En þó háttaði þannig til að eftir höfðu orðið tvö löng ónálæg einhljóð sem bundin voru við eitt hljóðaumhverfi, þ.e. einhljóðin í hljóðasamböndunum é (= ) og . Við hljóðdvalarbreytinguna féllu þau saman við stuttu sérhljóðin e og o. Á 14. öld er tekin upp sú nýlunda að ríma saman é : e og : o en þó hefur þetta ekki verið talið til marks um lengdarsamfall. Ástæðan er að öllum líkindum sú að hljóðdvalarbreytingin er venjulega talin gerast á 16. öld. Þessi aldursgreining er byggð á heimildum um lengingu stuttra sérhljóða í opnum atkvæðum en ljóst er að fleiri breytingar búa að baki nýrri skipun hljóðdvalar.  Í erindinu verða færð rök fyrir því að rímin é : e og : o endurspegli tvenns konar lengdarbreytingar á 14. öld, annars vegar styttingu langra sérhljóða á undan löngum samhljóðum og samhljóðaklösum og hins vegar póst-lexíkalska lengingu stuttra sérhljóða í einkvæðum stuttstofna orðum í ákveðnu umhverfi.

Alaric Hall, lektor við Háskólann í Leeds og gestafræðimaður á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Reikult og rótlaust stemma

Hver Íslendingasaga er varðveitt í mörgum handritum, og afritin eru nánast aldrei samhljóða; í hverju handriti er einstök gerð af sögunni. Það hefur lengi tíðkast að sérfræðingar geri 'ættartré' yfir söguhandrit? myndrænar uppsetningar sem kortleggja hvaða handrit er skrifað upp eftir hverju? til að komast að raun um upprunalegasta texta sögunnar. En eins og Deleuze og Guattari skrifuðu: „við erum orðnir leiðir á trjám“. Hvað gerist þegar maður hættir að leita að upprunalegu sögunni, og byrjar að túlka hvað hver einstök gerð af Njálu merkti þegar hún var skrifuð?

Alda Björk Valdimarsdóttiraðjunkt í almennri bókmenntafræðiLíkami Jane Austen

Grosvenor Myer byrjar ævisögu sína um Jane Austen á kaflanum „Hvernig leit hún út?“ Umræða um útlit skáldkonunnar Jane Austen hefur verið fyrirferðarmikil í ævisögum um hana, í fjölmiðlum og á netinu og sumir telja að hún hljóti að hafa verið ófríð vegna þess að hún giftist aldrei. Þá er útlit hennar lesið í samhengi við skáldskaparstíl hennar og íróníska meðhöndlun á persónum sínum. Umræðan vekur óneitanlega upp spurningar um stöðu listarinnar í ímyndarsamfélögum nútímans. Skiptir útlit rithöfunda t.d. máli þegar breyta á hugverkum þeirra í söluvöru? Er hægt að draga ályktanir um stílbrögð, hamingju, lífshlaup og persónuleika með því að rýna í líkamann.

Andrew McGillivray, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Signy’s story: Incest and Filicide among the early Völsungar

Like many other sagas Völsunga saga has as its backbone the lineage of the main family. Völsungr Rerisson marries Hljóð, daughter of the giant Hrímnir. Together the couple bear eleven children, including their eldest son Sigmundr and sole daughter, Signý. Like other female characters in the saga Signý profoundly influences the course of events, perhaps moreso than many of the males, and her tale is one of incest, murder and ultimately death by choice. A look into the chapters in which Signý is a key character reveals elements that are repeated in the saga narrative, for example the killing of one’s children, later undertaken by Guðrún, and suicide, an act Brynhildr performs and Guðrún attempts. These three heroines are all victims of the actions of others as well as their own, and Signý is the prototype. The main question that will guide this talk is why women in the saga perform such heinous actions. Is it because the men have driven them to it, leaving them no other choice?

Andri Snær MagnasonLeitin að auðhumlu

Þeir sem kynna sér umhverfismál komast ekki hjá því að sjá sláandi mun á gögnum og varnaðar-orðum náttúruvísindamanna og hins vegar ákvörðunum og framtíðarsýn þeirra sem hafa lært aðrar og ,,harðari" greinar. Þegar náttúruvísindamenn sem starfa hjá virtustu háskólum veraldar sjá fjölmörg varúðarmerki, fordæmalausan dauða dýrategunda, bráðnun jökla og hækkandi hitastig, þverrandi auðlindir og versnandi vatnsbúskap má sjá þveröfuga framtíðarsýn hjá þeim sem hafa lært í þessum sömu háskólum og stýra fjármagnsflæði heimsins, framkvæmdum og framleiðslu. Þar eru settar fram spár um þrefalda, álframleiðslu, stálframleiðslu, bílaframleiðslu, plastframleiðslu, gosdrykkjaneyslu, hagvöxt, neyslu eða orkuframleiðslu. Við sjáum merkin hér víða í hönnun á innviðum höfuðborgarinnar, ákvörðunum í orkuvinnslu og í stærri og alvarlegri mynd til dæmis í Kína - þar sem mistök Vesturlanda virðast ekki aðeins endurtekin, heldur fjölfölduð á áður óþekktum skala. Í heimi þar sem sérhver einstaklingur helgar sig sífellt þrengri sviðum vex þörfin fyrir fólk sem getur sett hlutina í samhengi. Þar var Guðmundur Páll Ólafsson óhræddur við að setja náttúruna í samhengi við fagurfræði, siðfræði, listir og sögu. Guðmundur Páll var einnig óhræddur við að sækja sér myndhverfingar í goðafræði. Í Vatninu í Náttúru Íslands kemur fram ný hugmynd um Auðhumlu, hina goðsögulegu kú goðafræðinnar. Í heimildarskrá er vitnað í Andra Snæ Magnason varðandi þá hugmynd og mun hann útskýra og segja frá tilurð hennar og hvernig hann og Guðmundur Páll römbuðu samtímis á þessa heilögu kú.

Anna Heiða Pálsdóttir, rithöfundur og kennari: Fantasía í kolsvörtum íslenskum sandi: Sverðberinn eftir Ragnheiði Gestsdóttur.

Í samanburði Peter Hunts á amerísku hefðinni fyrir ferðalög í fantasíum og þeirri bresku, bendir hann á að sú ameríska leiti út og í vestur – hún er línuleg – en enskir fantasíuhöfundar eru hins vegar að troða slóðir forfeðranna og skoða um leið þjóðarsálina. Skírskotun þeirra byggir á hlutstæðari menningartáknum með djúpar rætur sem virðast liggja (stundum bókstaflega) undir fótum þeirra. Í þessum fyrirlestri er landslagið í nokkrum íslenskum fantasíum fyrir börn og unglinga, aðallega í fantasíu Ragnheiðar Gestsdóttur, Sverðberanum (2004), skoðað með tilliti til hins séríslenska landslags sem endurspeglast í verkum höfunda, m.a. í ljósi kenninga Peters Hunt og annarra um tengsl manns og landslags.

Anna Jóhannsdóttirstundakennari í listfræðiStaðinn að verki. Snertifletir málverksins

Listfræðileg umræða hefur á síðustu áratugum beinst að endurmati á fortíðinni – á listasögunni og hefðarveldinu. Rannsóknir listfræðinga hafa af þeim sökum hverfst um greiningu og túlkun á forsendum samtímans en jafnframt er grafist fyrir um félagssögulegt samhengi fortíðar og vanrækta, gleymda eða bælda merkingarþætti. Í þessu erindi er þess freistað að skoða og rekja saman þræði í fræðiskrifum sem fela í sér slíkt endurmat í tengslum við tæknilega útfærslu í málverki, og þá einkum í landslags- og náttúrutengdum verkum er kennd hafa verið við módernisma. Vikið verður að umræðu nokkurra höfunda sem fjallað hafa um sjónarhorn viðtakandans og mögulegar leiðir hans að málverkinu sem athafnasvæði í tíma og rúmi. Allir hafa þeir einnig að leiðarljósi hugmyndir um samspil líkama og hugar, og hvernig reynsla og skilningur á heiminum mótast í senn af huglægri skynjun og af skynrænum viðbrögðum og hreyfingu líkamans í afstöðu við umhverfið. 

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor: Maddama Ólöf og Aumingja Rósa. Konur í sagnaþáttum Guðfinnu Þorsteinsdóttur

Skáldkonan Guðfinna Þorsteinsdóttir (Erla) gaf út tvær bækur með þjóðlegum sagnaþáttum, Völuskjóðu (1957) og Vogrek (1959) og lét auk þess eftir sig mikið efni í lausu máli. Eins og aðrir alþýðlegir sagnaritarar, sem flestir voru karlar, skrifaði hún þætti af förumönnum og kynlegum kvistum sem og hefðbundar hrakningasögur af Austurlandi. Guðfinna skrifaði hins vegar meira um konur en aðrir sagnaritar gerðu og er alla jafna mun persónulegri og sýnilegri í frásögnum sínum en þeir. Konurnar í þáttum Guðfinnu eru af öllum stigum þótt mest fari fyrir vinnukonum og konum sem minna mega sín. Sagnaritarinn Guðfinna og konurnar hennar verða í brennidepli í þessum fyrirlestri.

Annemette Hejlsted, lektor í dönskum bókmenntum: Genremødet i Kim Leines prisbelønnede roman Profeterne i Evighedsfjorden (2012)

Den danske forfatter Kim Leine modtog Nordisk Råds litteraturpris for romanen Profeterne i Evighedsfjorden 2013. Romanen er kendetegnet ved en sammenskrivning af en række af den vestlige kulturs mest fremtrædende romangenrer: den historiske roman, kriminalromanen, rejseromanen og dannelsesroman. Dertil kommer en anvendelsen af en række indlejrede  genrer fx brevet, gravskriften, dagbogen. Forelæsningen giver et signalement af Kim Leines roman ud fra en genremæssig betragtning og peger på, hvordan romanen benytter disse genrer til at give sin særlige udgave af kulturmødet mellem grønlandsk og dansk kultur.

Fyrirlesturinn verður á dönsku

Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Um hugtakið nýyrði og málpólitíska þýðingu þess

Hugtakið nýyrði kemur óhjákvæmilega við sögu þegar rætt er um endurnýjun orðaforðans í íslensku og það hefur verið nefnt nýyrðastefna að vilja mynda og nota ný orð úr innlendum efniðviði fremur en orðstofna úr öðrum málum. Á Íslandi hefur gjarna verið litið á nýyrði sem smíðisgripi frá hendi tiltekinna hugkvæmra orðasmiða (sbr. hreyfill, samúð, tölva o.s.frv.) og er stundum stillt upp andspænis því að orð úr innlendum eða erlendum efniviði bætist við tungumálið á einhvern annan hátt. Í fyrirlestrinum verður litið á mismunandi leiðir sem farnar hafa verið eða fara má til að afmarka hugtakið nýyrði í íslensku, m.a. með tilliti til tökuþýðinga, tökumerkinga og tökuorða. Einnig verður rætt um beitingu hugtaksins nýyrði í málpólitískri orðræðu.

Arnar Pálsson, erfðafræðingur og dósent í Lífupplýsingafræði, Háskóla Íslands: Erfðatækni og umhverfi í ljósi vistfræði og þróunarfræði

Því hefur verið haldið fram að erfðatækni sé hættuleg umhverfinu á nokkra vegu. Til dæmis er sagt að erfðabreytingar geti búið til ofurillgresi, geti leitt til þess að gen hoppi í framandi tegundir eða menn, eða að erfðabreyttar lífverur séu í eðli sínu hættulegar. Fjallað verður um þessi dæmi út frá aðferð vísinda, með skírskotun í lögmál vistkerfa og þróunar. Megin ályktunin er sú að ekki er hægt að dæma allar erfðabreytingar sem hættulegar, og flestar þær umhverfishættur sem talið er að stafi af erfðatækni eru ekki á rökum eða staðreyndum reistar.

Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor: Kvennabaráttan og kirkjunnar þjónar um aldamótin 1900

Vígðir þjónar kirkjunnar létu sig varða um baráttu kvenna fyrir bættum réttindum, ekki síst kosningarétti, sem var í algleymingi um aldamótin 1900. Einhverjir beittu sér gegn þessari réttindabaráttu á meðan aðrir gerðust ötulir talsmenn hennar. Á meðal þeirra sem lögðu sitt lóð á vogarskálina til stuðnings konunum var sr. Ólafur Ólafsson (1855-1937), sem oftast er kenndur við Fríkirkjuna í Reykjavík. Árið 1891 hélt Ólafur opinberan fyrirlestur sem síðar var gefinn út á prenti. Yfirskrift fyrirlestursins var „Olnbogabarnið. Um frelsi, menntun og rjettindi kvenna.“ Í þessum fyrirlestri verður fjallað um fyrirlestur Ólafs sem og frumvarp sem hann flutti á Alþingi ásamt Skúla Thoroddsen um aukin réttindi kvenna. Frumvarpið fékk ekki stuðning en mun hafa verið fyrsta frumvarpið sem lagt var fram á Alþingi um konur og réttindi þeirra í íslensku samfélagi.

Auður Eir, prestur: Nú er tími til siðbótar – eins og alltaf

Lútersk kirkja á að vera siðbótarkirkja á öllum tímum. Hún á að fylgja þeirri lútersku guðfræði að við séum öll prestar hvaða starf sem við höfum.  Hún þarf að horfast í augu við tilhneigingu sína til kaþólskra messusiða. Og hún þarf að breyta ýmsu í grundvallarskipulaginu, í fyrsta lagi að breyta ráðningu prestanna. Svo að prestar verði ekki keppinautar heldur samheldinn hópur í boðun fagnaðarerindisins. Það þarf að ræða málin og gefa langan tíma til að tala vandlega saman.

Auður Hauksdóttir, dósent í dönsku: Sambúð dönsku og íslensku og viðhorf Dana til íslensku

Í umfjöllun um sambúð dönsku og íslensku á fyrri tíð er oft gengið að því vísu að Íslendingar hafi haft gott vald á danskri tungu, og að þeir hafi tileinkað sér málið með því að lesa texta og eiga í samskiptum við Dani hér á landi eða í Danmörku. Heimildir benda til þess að áhugi á að læra dönsku hafi verið mikill meðal margra Íslendinga, enda dönskukunnátta lykill þeirra að námi og frama, sem og öllum samskiptum við Dani. Hér er þó ekki allt sem sýnist, þar sem heimildir sýna að takmörkuð dönskukunnátta, einkum tökin á talmáli, hafi verið mörgum fjötur um fót.
Með vaxandi þjóðernisvitund á nítjándu öld má finna æ fleiri dæmi um neikvæða afstöðu Íslendinga til dönsku, m.a. áhrif hennar á móðurmálið og dönskuskotið málfar embættis- og menntamanna. Hér er margt sem minnir á viðhorf Dana til þýsku gagnvart dönsku. Þjóðernisviðhorf og móðurmálsvæðing í Danmörku ýtti undir notkun dönsku á öllum sviðum, og Íslendingar fóru ekki varhluta af þeirri þróun. Þá gegndi íslensk tunga og íslenskar bókmenntir mikilvægu hlutverki fyrir þjóðernisvitund Dana, sem styrkti stöðu íslenskrar tungu og efldi þjóðernisvitund Íslendinga.
Í fyrirlestrinum verður varpað ljósi á dönskukunnáttu Íslendinga og tækifæri þeirra til að læra og nota málið. Fjallað verður um hlutverk íslenskrar tungu og bókmennta fyrir danskt þjóðerni, og hvernig vaxandi þjóðernishyggja hafði áhrif á stöðu dönsku og íslensku, sem varð hvort tveggja í senn til að veikja og styrkja stöðu málanna hér á landi.

Auður Stefánsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntumSamlíðan í nærumhverfi: eigindleg rannsókn á viðbrögðum fólks við smásögunni Sóríu-Móríu eftir Kristínu Geirsdóttur

Í fyrirlestrinum verður nær óþekkt skáldkona, Kristín Geirsdóttir (1908-2005), kynnt í stuttu máli. Kristín bjó alla tíð á Hringveri í grennd Húsavíkur; fæstar sagna henna hafa birst á prenti en þær markast af því umhverfi og þeim tímum sem hún lifði og  einkennast af því sem mætti kalla hefðbundna frásagnarlist. Ákveðið var að kanna hvernig viðtökur við sögum Kristínar væru í samtímanum, og þá að byrja í nærumhverfi hennar sjálfar.

Eigindleg rannsókn var því gerð á Húsavík, annars vegar á eldri borgurum og hins vegar á aldurshópnum 25-35 ára. Lagt var fyrir óprentað textabrot úr smásögunni Sóríu-Móríu svo engar líkur voru á að þátttakendur þekktu söguna. Niðurstöður verða túlkaðar með hliðsjón af skrifum hugfræðinga, einkum þeirra sem hafa sérhæft sig í samlíðan í bókmenntum, svo sem Suzanne Keen. Kenningar um samlíðan og áhrif nærumhverfis verða nýtt til að ræða um hvort einfaldir textar veki meiri samlíðan en þeir sem flóknari eru. Einnig verður hugað að öðrum þáttum (aldri, lestrarvenjum o.fl.) og áhrifum þeirra á samlíðan með skálduðum persónum. 

Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Lærð eða virk orðmyndun? Athugun á nýyrðum sem eru jafnframt íðorð

Til þess að íslenska sé nothæf í vísindum og fræðum þarf hún að búa yfir nauðsynlegum orðaforða. Grundvöllur undir faglega orðræðu á íslensku er að til séu á íslensku viðurkennd orð og orðasambönd í tilteknum greinum. Orð, sem notuð eru í sérfræðilegri umræðu, kallast íðorð og stór hluti íslenskra nýyrða er íðorð. Orðanefndir vinna mikið verk við að auðga tunguna að nýyrðum í ýmsum sérgreinum og eru orðanefndarmenn oft afkastamiklir nýyrðasmiðir.

Í fyrirlestrinum verður litið á hversu mikið svokallaðri lærðri orðmyndun er beitt við gerð íðorða. Í því sambandi er athuguð orðmyndun í sex íðorðasöfnum í mismunandi greinum og kannað hvort greina megi mismun á íðorðasöfnunum hvað varðar þær orðmyndunaraðferðir sem eru einkum notaðar.

Ásdís Egilsdóttir, prófessor í íslenskum miðaldabókmenntum: Atburður, jartein, furða

Á Hugvísindaþingi 2013 flutti Gunnvör S. Karlsdóttir fyrirlesturinn „Atburður eða jartein?“ í málstofu á vegum rannsóknaverkefnisins Paranormal encounters. Í fyrirlestri mínum verður haldið áfram að ræða viðhorf til jarteina eins og þau birtast í íslenskum frásögnum miðalda.  Eftir siðskipti var ekki lengur heitið á helga menn ef eitthvað bjátaði á. Philip M. Soergel fjallað um breytingar á viðhorfum til kraftaverka eða óútskýranlegra atburða í bók sinni Miracles and the Protestant Imagination. (2012). Soergel kannaði svonefndar „Wunderzeichenbücher“ frá síðari hluta 16. aldar. Háskólalærðir húmanistar rituðu þessar bækur handa klerkum en þær nutu mikilla vinsælda meðal almennings. „Undrabækurnar“ sögðu meðal annars frá vansköpuðum og afbrigðilegum einstaklingum og var ætlað að minna á ófullkomleika mannsins og yfirvofandi heimsendi. Undrin voru merki um spilltan heim. Þörf er á að kanna hliðstæðar hugmyndir í íslenskum heimildum og bent verður á fáein dæmi.

Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönskum fræðum: Dýrin í skóginum eru ekki vinir: dýr í stað manna í frönskum ljóðsögum  frá 12. öld.

Mörkin milli manns og dýrs eru oft óljós í frönskum ljóðsögum miðalda. Höfundar sóttu efnivið í dæmisögur, dýratöl og þjóðtrú en einnig í strauma og stefnur úr samtíma sínum. Í strengleikum (lais) Marie de France verða menn að varúlfum og fljúga inn um glugga í fugls líki á ástarfund. Í linnulausum erjum dýranna í skóginum í Sögunni um Renart (Roman de Renart) endurspeglast mannlífið á skoplegan hátt og þar er Renart, refurinn klóki, í aðalhlutverki. Hér verður skoðað hvernig höfundar nokkurra texta frá 12. öld nota þessi óljósu mörk í verkum sínum til að gera hið ómögulega mögulegt en einkum verður sjónum beint að því hvernig maður verður dýr og dýr maður.

Áslaug Helgadóttir, prófessor í jarðrækt og plöntukynbótum, LbhÍ: Náttúran sér um sína – eða hvað? Erfðatæknin og kynbætur nytjaplantna

Í umræðum um matvælaframleiðslu má oft heyra að best sé að láta sólina, regnið og moldina um ræktun nytjaplantna og halda skuli öllum tækninýjungum víðs fjarri. Þetta sé að stunda landbúnað í sátt við náttúruna. Spyrja má hvort þetta sjónarmið hefði dugað til þess að koma okkur öllum á þann stað sem við erum nú og hvort það eigi framtíð fyrir sér í heimi þar sem fólki fer enn fjölgandi, velmegun vex í þróunarlöndunum og loftslagsváin vofir yfir. Plöntukynbætur hafa leikið lykilhlutverk síðustu 200 árin við að tryggja fæðuöryggi jarðarbúa og hafa menn þar beitt ýmsum aðferðum við að ná markmiðum sínum. Síðasta aldarfjórðunginn hefur erfðatæknin bæst í verkfærakistu kynbótafræðanna. Fjallað verður um hvort erfðatækni geti leyst þau viðfangsefni sem við blasa og bætt þann skaða á umhverfinu sem hlotist hefur af athöfnum manna á jörðinni síðustu áratugi.

Ásta Ingibjartsdóttir, aðjunkt í frönsku: Leiklist í tungumálanámi og nýjar leiðir í samskiptum nemenda og kennara. Persónur og leikendur.

Á hverju byggja samskipti á milli kennara og nemanda í kennslustofu? Hver eru hlutverk hvers og eins í því ferli sem máltileinkun er? Hvert er samband nemandans og viðfangsefnis hans: markmálið? Í þessum fyrirlestri mun ég beina athyglinni að því umhverfi sem kennslustofan er og þeim aðalpersónum sem taka þátt í kennslustundinni. Í stefnu Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda er lögð áhersla á fjölbreytta kennsluhætti. Leiklist og leiklistartækni hafa lengi verið notuð í tungumálakennslu. Frönsk fræði bjóða upp á námskeið sem nefnist leiklist og hefur að markmiði að auka færni/tjáskipti á erlenda tungumálinu. Ég mun lýsa þessu námskeiði og markmiðum þess, reynslu minni sem leiðbeinanda, sem og reynslu nemenda sem hafa tekið þátt í námskeiðinu.

Ásta Svavarsdóttir, rannsóknardósent hjá Stofnun Árna Magnússonar: Reykvíska á 19. öld: Viðhorf og veruleiki

Reykjavíkurmálið á 19. öld hefur notið takmarkaðrar virðingar og það er viðtekin skoðun að það hafi verið mjög dönskuskotið. Sem dæmi um það má minna á ummæli Rasmusar Rask snemma á öldinni og samtalskafla í skáldsögu Jóns Thoroddsens, Pilti og stúlku, frá miðri öldinni. Í erindinu verður fjallað um þetta viðhorf og til samanburðar litið á raunverulega málnotkun fólks sem var borið og barnfætt í Reykjavík á 19. öld. Stuðst verður við bréf nokkurra reykvískra kvenna og dæmi sótt í þau. Einkum verða skoðuð merki um erlend áhrif í orðaforða og setningagerð en jafnframt litið til annarra máleinkenna eftir því sem tilefni er til.

Ásthildur Helen Gestsdóttir, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði: Meykóngur í mótun: myndun meykóngaminnisins innan íslenskrar sagnahefðar

Bókmenntaminnið um konungsdótturina sem neitar að ganga í hjónaband en situr þess í stað í valdasæti föður síns og lætur þegna sína kalla sig konung kemur víða fyrir innan íslenskrar sagnahefðar. Minnið kemur hvað fyrst fyrir í Hrólfs sögu Gautrekssonar frá 13. öld. Það var aftur á móti ekki fyrr en með tilkomu riddarasögunnar Clári sögu sem rituð var á fyrri hluta 14. aldar að minnið fór að skjóta rótum og festast í sessi sem bókmenntaminni og þá hvað helst innan frumsamdra riddarasagna. Í fyrirlestrinum verður farið yfir forvera meykóngsins innan íslenskrar og erlendrar sagnahefðar. Litið verður meðal annars til birtingarmyndar Brynhildar Buðladóttur eins og hún kemur fram í SigurdrífumáliNiebenlungenliedÞiðreks sögu og Völsungasögu sem og hvernig hún hafði áhirf á mótun birtingarmyndar meykóngaminnisins.

Ástráður Eysteinsson, prófessor í bókmenntafræði: Hvaða erindi á Edgar Allan Poe við íslenska lesendur?

Spurt verður, með vísun til höfundarverks bandaríska skáldsins Edgars Allans Poe, hvernig erlendir höfundar komi inn í íslenskt bókmenntalíf, hvaða spor þeir skilji eftir sig og hver staða þeirra sé í menningarkerfi annars tungumáls. Höfundar á borð við Poe koma ekki aðeins á vettvang sem skapendur einstakra verka, heldur einnig sem höfundar eða jafnvel holdgervingar ákveðinna hugmyndaheima. Hver hefur Poe verið á Íslandi: Leynilögregluhöfundur? Hrollberi? Fagurkeri? 

Ástríður Stefánsdóttir, dósent í siðfræði: Hagnýt siðfræði: Aðferðarfræðileg tilraun

Í þessu erindi lýsi ég aðferðarfræðilegri tilraun þar sem hugtökum er beitt til að fá dýpri þekkingu og skilning á siðferðilegum álitamálum í íslensku samfélagi. Siðferðileg markmið eru notuð til að taka gildishlaðna afstöðu til álitamálanna. Jafnframt er gerð tilraun til að greina stöðu og hlutverk fagstéttar í samfélaginu. Vettvangur umfjöllunarinnar er læknisfræði í íslensku samfélagi. Spurningin sem er til umfjöllunar snertir hlutverk og þróun heilbrigðisþjónustu og þróun fagstéttar lækna  í samfélaginu. Greiningin fer fram í gegnum umfjöllun um siðferðileg álitamál. Þau tengjast öll heilbrigðisþjónustu og starfi lækna og hafa verið í opinberri umræðu síðastliðin ár. Spurt er hvort álitamálin séu raunverulega réttmæt viðfangsefni læknisþjónustu. Með því að beina kastljósinu að dæmum sem vekja upp þá spurningu er gerð tilraun til að fá hugmynd um mörk þjónustunnar annars vegar og fagstéttarinnar hins vegar. Unnið er út frá greiningu þar sem færð eru rök fyrir því að læknisfræði í samfélaginu mótist af tveimur þáttum. Annars vegar sé kjarni hennar leiddur áfram af innra markmiði eða telosi sem sé sammannlegt og hafið yfir tíma og rúm. Á hinn bóginn hafa verið greindir hugmyndafræðilegir áhrifavaldar í samfélagi okkar sem móta læknisfræðina og þá jafnframt starf  lækna.

Benedikt Hjartarson, lektor í menningarfræðum: Söguleg framúrstefna — söguleg orðræðugreining

Í erindinu mun ég kynna niðurstöður rannsóknar sem ég hef unnið að á síðustu árum og snýr að þekkingarlegu samhengi evrópskra framúrstefnuhreyfinga á fyrsta fjórðungi 20. aldar. Í forgrunni verður bókmenntagrein stefnuyfirlýsingarinnar eða manifestósins, sem lýsa má sem sjálfum drifkrafti þess menningarlega verkefnis sem oft er tengd starfsemi hreyfinganna. Varpað verður ljósi á hvernig aðferðafræði sögulegrar orðræðugreiningar getur nýst til að varpa ljósi á sögulegt andartak framúrstefnunnar og þær goðsagnir sem gjarnan hafa verið fyrirferðarmiklar í umræðu um hreyfingarnar. Sjónum verður einkum beint að þeim sérstæða samslætti framsækinnar fagurfræði, róttækrar pólitíkur, dulspekilegrar þekkingar og heimspekilegrar andrökhyggju sem liggur fagurfræðilegu verkefni framúrstefnunnar til grundvallar.

Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum: „þetta taugahnútakerfi samlíðunartaugakerfið“: um samlíðan og bókmenntir

Í fyrirlestrinum verður í upphafi vikið að mismunandi skilningi sem Íslendingar hafa lagt fyrr og nú í orðið samlíðan og þaðan fetað út í ólíka afstöðu samtímamanna almennt til þess fyrirbæris sem enskumælandi menn nefna empathy. Drepið verður á skyld atriði eins og hugarkenninguna (Theory of Mind) og hugsamveru (intersubjectivity) og fjallað um hverju  þetta þrennt skiptir í rannsóknum á bókmenntum og hver hætta er á að að það lendi utangarðs ef ekki er hugað að viðtökum bókmennta, jafnt sem höfundum og skáldskapnum sjálfum. Lestur verður þar með í brennidepli; dæmi tekin bæði af bundnu máli og óbundnu og vísað í eigindlegar rannsóknir auk greininga fyrirlesara.

Birgir Guðmundsson, dósent í fjölmiðlafræði Háskólanum á Akureyri: Fjölmiðlar og sveitarstjórnarstjórnmál 

Almenn  pólitísk boðmiðlun hefur verið að breytast mikið  síðustu áratugi og strax um og upp úr síðust aldamótum voru fræðimenn farnir að tala um að nýtt tímabil væri að renna upp, svokallað „þriðja skeið pólitískrar boðmiðlunar“. Meðal einkenna hins nýja tíma er fagvæðing í samskiptum og samspili stjórnmála og fjölmiðla, bæði af hálfu stjórnmálanna og fjölmiðlanna. Annað einkenni tengist gjörbreyttu fjölmiðlaumhverfi og margföldun í miðlunarmöguleikum sem eru afsprengi netsvæðingar og stafrænu byltingarinnar almennt. Höfundur hefur áður fjallað um þessi áhrif á stjórnmál og fjölmiðlun á landsvísu á Íslandi en þessi breyting og samspil fjölmiðla og stjórnmála á sveitarstjórnarstigi hefur lítið sem ekkert verið skoðuð. Í þessu erindi verða fyrri rannsóknir höfundar um fjölmiðla og stjórnmál á landsvísu  og að hluta til á sveitarstjórnarstigi lagðar til grundvallar skoðunar á samspili stjórnmála og fjölmiðla í héraði. Líkindi og ólíkindi stjórnmálvettvangs á landsvísu og í héraði eru skoðuð auk þess sem tekist er á við spurningar eins og þá hver áhrif nýrra miðla geti verið á lýðræðisleg  skoðanaskipti á sveitarstjórnarstigi og hvert hlutverk hefðbundinna staðarmiðla sé í þeirri umræðu.

Björn Þór Vilhjálmssonaðjunkt í almennri bókmenntafræði„Sjúkleg vergirni“ eða bara eðlileg kynhvöt? Af sálgreiningu, nútíma og Straumrofi Halldórs Laxness

Lítt hefur verið fjallað um leikrit Halldórs Laxness í fræðilegri umræðu en jafnvel í því ljósi verður fyrsta leikverk hans, Straumrof, sem frumsýnt var 1934 af Leikfélagi Reykjavíkur, að teljast hornreka. Þegar hugað er að samtímaviðtökunum blasir hins vegar við önnur mynd og auðvelt er að ímynda sér að leikhúsáhugamanni í Reykjavík á fjórða áratugnum kæmi á óvart að heyra að verkið yrði síðar umvafið eins konar þagnarhjúpi, því hart var tekist á um það á sínum tíma, og vakti leikritið hneykslan. Kemur þar til ósiðleg kynferðishegðun aðalpersónu verksins, Gæu Kaldal. Gagnrýnendur settu líkama hennar og „stjórnlausa“ kynhvöt í forgrunn og læknisfræðileg orðræða sem snerist um „kvennasjúkdóma“ á borð við vergirni og móðursýki var notuð til að fella siðferðisdóma um verkið og persónur þess. Í erindinu verður hugað að þessum viðtökum, þeim menningarsögulega bakgrunni og menningarlegu orðræðu sem skilgreindi kynhvöt kvenna sem „ónáttúrulega“ og að lokum hvað það er í verki Halldórs sem kallaði fram þessi viðbrögð.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum: Tímakistan og krosslestur yfir kynslóðabil

Það hefur varla farið fram hjá neinum að bækur fyrir unga lesendur og kvikmyndir, byggðar á þeim, hafa slegið öll vinsældamet síðustu tvo áratugi eða svo og nægir að benda á Harry Potter, Ljósaskiptabækurnar og Hungurleikana.  Margvíslegar kenningar eru á lofti um þá blöndun á lesendahópum sem nú á sér stað; ein segir að börn séu fyrr fullorðin nú en áður, séu þjálfaðri í að taka á móti flóknum samhliða frásögnum og engin ástæða til að segja þeim ekki sannleikann um tilveruna. Höfundar unglingabóka hika því ekki við að blanda bókmenntagreinum, nota margröddun og sögusagnir (metafiction) um leið og bækurnar verða að hafa skýran söguþráð og halda lesendum við efnið. Höfundar unglingabóka skrifa þannig vandasama frásögn á mörgum plönum og allt þetta má sjá í Tímakistu Anda Snæs Magnasonar (2013) sem er bæði lofuð fyrir bókmenntalega verðleika sína og metsölubók sem börn og unglingar kunna að meta. Í fyrirlestrinum verða frásagnaraðferð og textatengsl þessar bókar rædd frá völdum sjónarhornum.

Daisy Neijmann, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Upprunamál og menningarleg sjálfsmynd: samspil máls og menningar í vestur-íslensku samhengi

Í þessu erindi verður fjallað um íslensku sem upprunamál (e. heritage language) í samhengi norður-amerísks fjölmenningarsamfélags, og hlutverk íslenskunnar í að þróa og viðhalda vestur-íslenskri sjálfsmynd. Hvert er viðhorf fólks til íslenskunnar, og hver eru menningarlegu áhrif á íslensku og íslenskukennslu í vesturheimi? Kynnt verða aðalkenningarnar á sviði upprunamála sem tengjast þróun sjálfsmyndar og upprunamenningar í fjölmenningarlegu samhengi, og íhugað hvernig þær gætu aukið skilning okkar á samspili máls og menningar í vestur-íslensku samhengi.

Edda R.H. Waage, aðjunkt í land- og ferðamálafræði: Að ramma inn náttúruna með landslagið að vopni

Hugtakið landslag hefur verið áberandi í náttúruverndarumræðu á Íslandi síðastliðin ár, eða allt frá því fyrst var farið að beita því með markvissum hætti við val á náttúruverndarsvæðum. Hefur merking þess verið túlkuð með mismunandi hætti í því samhengi. Hugtakið á sér þó mun lengri sögu innan náttúruverndar, enda kom það fyrir í fyrstu útgáfu almennra náttúruverndarlaga sem sett voru árið 1956. Í fyrirlestrinum verður greint frá niðurstöðum rannsóknar á þróun landslagshugtaksins í lögum um náttúruvernd frá upphafi. Rannsóknin byggir á orðræðu- og textagreiningu á lögunum sjálfum og og tengdum skjölum. Með rannsókninni var leitast við að varpa ljósi á hugmyndafræðilegar forsendur náttúruverndar, og stöðu landslagshugtaksins í því samhengi. Niðurstöðurnar leiða í ljós breytingar á merkingu hugtaksins og útskýra þannig mismunandi túlkun þess á síðastliðnum árum. Rannsóknin sem um ræðir er hluti doktorsritgerðar höfundar sem hún varði við Háskóla Íslands í desember síðastliðnum. 

Einar Falur IngólfssonLjósmyndarinn Guðmundur Páll

Ljósmyndun var ein þeirra greina sem Guðmundur Páll lagði stund á – fagið lærði hann í Svíþjóð. GPÓ var ástríðufullur ljósmyndari, og áhugasamur um vandaða ljósmyndun, en fyrst og fremst beitti hann þessu skráningartæki sem myndavélin er á áhrifaríkan hátt við miðlun sína og fræðslu um heiminn. Hann var aðallega náttúruljósmyndari; þolinmóður, athugull og næmur, eins og þeir þurfa að vera sem leggja slíka stund á slíkt. Ég velti fyrir mér þeim heimi sem hann skildi eftir sig í ljósmyndum.

Eiríkur Steingrímsson, prófessor, Læknadeild, Háskóla Íslands: Vísvitandi blekkingar um áhrif erfðabreyttra matvæla á heilsu? 

Erfðabreyttar lífverur hafa verið ræktaðar sem fóður og matvæli um árabil og er að finna í mörgum matvælum. Ef marka má umræðuna í þjóðfélaginu mætti halda að erfðabreytt matvæli væru orsök allra sjúkdóma á Vesturlöndum.  Þeim hefur verið kennt um aukna tíðni ofnæmis og krabbameina auk eitrunaráhrifa. Auk þess hefur verið fullyrt að leifar slíkra matvæla megi finna í frumum neytenda. En fær þetta staðist? Fjallað verður um gögnin á bak við fullyrðingarnar og dæmi tekin um það hvernig röngum upplýsingum um áhrif erfðabreyttra lífvera er komið á framfæri við almenning.  

Elizabeth Walgenbach, doktorsnemi: The outlaw and the goðar in Arons saga Hjörleifssonar

This paper focuses on Aron saga Hjörleifssonar. It explores the relationship between Aron and the powerful goðar in the Northern Quarter as depicted in the saga. I explore the political motivations for the goðar's actions and Aron's response. I also examine the complicating factor of bishop Guðmundr Arason, who, it might be argued, himself acted as another goði in the north, although one with a different set of tools—tools rooted in the claims and legal ideas of an expanding Church bureaucracy.

Emily Lethbridge, nýdoktorsstyrkþegi hjá miðaldastofu: Sagnakort sem Njálu-gögn

Rafræn gögn eru mikilvægur hluti af rannsóknaraðferðum í Rannísverkefninu ‘Breytileiki Njáls sögu‘. Eins og hefur komið fram, hafa Njálutextarnir í handritabrotum frá miðöldum þegar verið skrifaðir upp í XML-kóðun af Ludger Zeevaert og öðrum þátttakendum verkefnisins. Áætlunin er sú, að þessi skjöl verða notuð sem grunnur í nýja rafræna útgáfu af Njálu í framtíðinni. Í erindi mínu mun ég fjalla um enn önnur rafræn gögn sem ég hef verið að hanna á vegum verkefnisins og Miðaldastofu við Háskóla Íslands. Þetta er rafrænt sagnakort með notendaviðmót sem tengir saman alla staði sem koma fyrir í texta Njáls sögu við staðsetningu þeirra á landakorti. Hugmyndin að baki kortsins er að notandinn geti annaðhvort lesið textann og smellt á örnefni þegar þau eru nefnd til að fylgjast með hvar á landinu atburðir gerast, eða skoðað kortið og með því að smella á örnefni á kortinu, séð í hvaða kafla/köflum þau örnefni koma fyrir. Þá eru einnig myndir af stöðunum, og upplýsingar um örnefnin – hvort skiptar skoðanir hafi verið um þau og staðsetningu þeirra, heimildir o.s.frv. Njáluhandrit eru meira að segja merkt inn á kortið – og það er áhugavert að hugsa um hvaða stöðum handritin hafa tengjast og hvar þau hafa verið lesin.  Ég ætla að kynna kortið og segja frá hvernig það gæti verið öflugt tæki fyrir fræðimenn, nemendur, ferðamenn og aðra áhugasama. 

Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku: Með hjartað í buxunum eða lúkunum. Um myndhverfingar í spænskum og íslenskum orðtökum og frösum

Undanfarin ár og áratugi hafa fræðimenn um víða veröld ritað fjölda bóka og greina í anda hinna svokölluðu hugrænu fræða (estudios cognitivos). Mörgum hefur orðið tíðrætt um myndhvörf í tungumáli og hugsun í skrifum sínum en meðal þeirra sem hafa beint sjónum að myndhvörfum í tungumálinu eru Lakoff og Johnson (1980). Sporgöngumenn þeirra á Spáni eru ýmsir fræðimenn við háskólana í Granada, Barcelona, Almería ofl. Þeir fræðimenn sem einkum hafa skoðað spænsk orðasambönd frá sjónarhóli hugrænna málvísinda eru Pamies og Iñesta (2000, 2002). Þau hafa smíðað líkan til að flokka orðtök sem og bera saman myndhvörf í orðtökum ólíkra tungumála með það fyrir augum að greina hvort þau séu algild, eða ekki. Líkanið byggir meðal annars á hugmyndum Lakoffs og Johnsons um hugtaksmyndhvörf (metáforas conceptuales) en einnig er leitað í smiðju ýmissa annarra kennimanna í hugrænni merkingarfræði (semántica cognitiva).

Í rannsókn sem byggir á áðurnefdu líkani bera Penas Ibañez, Autónoma-háskólanum í Madríd, og Erlendsdóttir saman orðtök og frasa í spænsku, annars vegar, og íslensku, hins vegar. Í erindinu er ætlunin að gera grein fyrir rannsókninni og helstu niðurstöðum hennar.

Finnur Dellsén, doktorsnemi: Hluthyggja og keppinautar vísindakenninga

Þegar Newton setti fram þyngdarlögmál sitt hafði honum ekki dottið til hugar að skýra mætti þyngdaráhrif með því að eigna tíma or rúm ýmsa óevklíðska eiginleika, eins og almenna afstæðiskenning Einstein gerir. Ein veigamestu rökin gegn vísindalegri hluthyggju kveða á um að við séum nú í samskonar aðstöðu og Newton var í á sínum tíma, að því leyti að velflestar vísindakenningar nútímans eigi sér óuppgötvaða keppinauta af þessu tagi. Í þessu erindi verða þessi rök skoðuð á líkindafræðilegum grunni, en sú nálgun leiðir í ljós að rökin eiga ekki við um tiltekinn hóp vísindakenninga. Á þessum grunni eru svo færð rök fyrir hófsamri hluthyggju um vísindi með vísan til sögulegra og félagslegra staðreynda um nútíma vísindi. Þannig er leitast við að sýna fram á að almennt hafi vísindaleg hluthyggja ekkert að óttast af hendi sögulegra og félagslegra rannsókna á vísindum.

Francois Frans Heenen, aðjunkt í frönsku: Kenningar Gustaves Guillaumes (1883-1960) á sviði merkingarfræði sagnorða

Fyrsta rit Gustaves Guillaumes kom út 1911, stutt á undan Saussures Cours de linguistique générale og það síðasta í 1958, rétt eftir bók Chomskys, Syntactic Structures. Ferli hans byrjaði sem sagt hjá samanburðarmálfræðingum eins og til dæmis Antoine Meillet og endaði þegar kenningar generatívrar málfræði voru að líta dagsins ljós. Aðalviðfangsefni Guillaumes var hvernig langue, málkerfi, verður að langage, talinu. Hvað gerist á þessum sekúndubrotum á meðan orðin verða að veruleika. Út frá þessari grundvallarspurningu þróaði hann nýja málvísindagrein, psychoméchanique. Í fyrirlestrinum verður megináhersla lögð á hugmyndir Guillaumes varðandi hugtakið tími. Hvernig mynd tímans verður til í huganum og hvernig hún endurspeglast í mismunandi sagnbeygingarmyndum. 

Gauti Kristmannsson, prófessor: Walter Scott og Eyrbyggja saga

Árið 1814, fyrir tvö hundruð árum, kom út fyrsta sögulega skáldsagan eins og hún var skilgreind síðar. Þessi nýja grein skáldsögunnar, sem blómstraði í rómantíkinni og lifir góðu lífi enn, var fundin upp af Skotanum og skáldinu sir Walter Scott, sem þá þegar var heimsfrægur fyrir söguljóð sín. En Scott var þá kominn í svolitla klemmu sem skáld og rithöfundur, því annar ungur Skoti (að hálfu) hafði nýlega skákað honum á „stóra sviðinu“ , George Gordon Byron.  Hvort sem það er ástæða þess að hann ákvað að semja skáldsögur eða ekki, þá er víst að snemma árs 1814 dundaði hann sér við að þýða Eyrbyggja sögu úr latínu á ensku og gaf út um vorið. Ýmsir hafa leitt að því getum að þetta hafi haft mikil áhrif á Scott og tilurð hinnar sögulegu skáldsögu, en aðrir mótmælt því. Hér verður þróun Scotts sem rithöfundar skoðuð í stærra samhengi í því skyni að svara þessari spurningu með nýjum hætti.

Geir Sigurðsson, dósent í kínverskum fræðum: Orðin tóm: chan og daoismi

Í Kína er tilurð búddíska hugleiðsluskólans chan rakin til komu Bodhidharma frá Indlandi á 6. öld sem boðaði miðlun kenninga Gautama Búdda utan orða, ritninga og texta, þ.e. beint frá hug til hugar. Þessi nálgun er svo rakin alla leið aftur til lærisveins Búdda, Mahakasyapa, sem mun hafa tjáð skilning sinn á orðlausum gjörningi meistarans með brosi einu. Sagan af hinum ólæsa Huineng sem verður sjötti patríarki chan skólans á 7. öld undirstrikar möguleikann á að öðlast skilning og hugljómun án þess að hafa tileinkað sér ritmál. Sögur þessar og réttlætingar eru þó ekki hafnar yfir vafa og líklegra er að áhrif frá daoisma og efahyggju hennar um tengsl veruleika og tungumáls, í bland við almennt ólæsi almennings, hafið valdið mestu um mótun chan hvað þetta varðar. Í erindinu verður fjallað um þessi daoísku áhrif  og samsvarandi hugmyndir daoisma og chan um eðli og eiginleika tungumálsins

Grétar Júníus Guðmundsson, doktorsnemi í hagnýtri siðfræði við Háskóla Íslands: Lýðræðisleg hlutverk fjölmiðla

Fjallað verður um skilgreiningu á lýðræðislegum hlutverkum fjölmiðla og greint frá því hvaða þættir eru lagðir til grundvallar við þá skilgreiningu. Um er að ræða afmarkaðan hluta af rannsókn á lýðræðislegum hlutverkum fjölmiðla í ljósi mismunandi fræðilegra lýðræðislíkana, með sérstakri áherslu á aðstæður á Íslandi. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að vinna að hugmyndum um hvernig hægt er að bæta vinnubrögð og auka sjáfstæði og trúverðugleika íslenskra fjölmiðlamanna, og fjölmiðlanna almennt, til að styrkja lýðræðið.

Skilgreining á lýðræðislegum hlutverkum fjölmiðla er nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að leggja mat á frammistöðu fjölmiðla, með tilliti til mismunandi lýðræðislíkana, og jafnframt forsenda fyrir því að hægt sé meta framlag fjölmiðla til að styrkja lýðræðið.

Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur: Handverk og hagnýt menntun sótt til Danmerkur

Um 1870 hófust Vesturheimsferðir Íslendinga og er talið að um 20 þúsund manns hafi þá flust til Kanada og Bandaríkjanna og komu fæstir þeirra til baka. Um svipað leyti jukust mjög ferðir Íslendinga til Danmerkur en þangað var bæði auðveldara og ódýrara að fara en til Vesturheims. Hefur þeim ferðum ekki verið gefinn mikill gaumur hingað til. Flestir þeirra sem fóru til Danmerkur voru að leita sér hagnýtrar menntunar af margs konar tagi og lögðu þannig grunn að nýju iðnvæddu og borgaralegu þjóðfélagi á Íslandi en stór hluti þeirra sneri aftur til Íslands. Í framsöguerindinu verður leitast við að skilgreina umfang og eðli þessarar útrásar og hvaða þýðingu hún hafði fyrir nútímavæðingu Íslands.

Guðmundur Andri ThorssonSérðu það sem ég sé: Bókasmíðar Guðmundar Páls Ólafssonar

Var Guðmundur Páll rithöfundur sem skrifar um náttúrufræði eða náttúrufræðingur sem skrifar bækur? Hvort tveggja og ótal margt fleira: ljósmyndari, teiknari, fræðari, en fyrst og fremst var hann bókagerðarmaður. Í bókunum mættust allar listir þessa fjölhæfa manns.

Sem höfundur hafði hann sinn tón – sín sterku einkenni – og rödd hans heyrðist vel og skar sig úr í íslenskri þjóðfélagsumræðu þegar hann tjáði sig í blaðagreinum, afdráttarlaust og af þunga, svo að fólk hrökk eiginlega við þegar það las, því að slík siðferðileg alvara hefur ekki átt beinlínis upp á pallborðið á seinni árum. Hann náði hins vegar eyrum fólks og vakti það til vitundar um margvíslega vá sem steðjar að náttúru okkar.

En í verkum sínum er Guðmundur Páll ekki bara hrópandinn í eyðimörkinni. Þar birtist okkur líka hinn ákafi og gamansami fræðari, hinn innilegi ljóðaunnandi, sagnamaðurinn skemmtilegi, gruflarinn sem pælir í hinstu rökum tilverunnar en umfram allt – náttúruskoðarinn sem tekur lesanda sér við hönd og spyr: Sérðu það sem ég sé?

Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor í samgönguverkfræði: Áhrif aðstæðna og persónu á upplifun aldraðra á skorti samgöngukosta

Í Suður-Kóreu er búist við nærri tíföldun íbúa 65 ára og eldri á árabilinu 2000 til 2018. Mannfjöldaáætlun spáir því að einn af hverjum þremur íbúum Suður-Kóreu verði 65 ára eða eldri árið 2042. Það er því margt hægt að læra af þeirri þróun sem þar er að eiga sér stað. Hér er lýst rannsókn á 812 einstaklingum sem svöruðu ítarlegri könnun með 160 spurningum um einstaklinginn og aðstæður í þeim tilgangi að kanna upplifun aldraðra á skorti samgöngukosta, sem hér er skilgreindur út frá svörum sem sýna að viðkomandi einstaklingur getur stundum eða oft ekki tekið þátt í athöfnun utan heimilis vegna skorts á samgöngukostum.  Niðurstöðurnar sýndu betri stöðu þeirra sem þekkja vel til almenningssamgangna, hafa búið lengi á sama stað, og þar sem samfélagsmiðstöðvar eldri borgara eru í göngufæri. Verri stöðu höfðu elstu einstaklingarnir, 75 ára og eldri, þeir sem voru líkamlega skertir, og karlmenn sem hætt höfðu akstri einkabifreiða. Einna helst þarf að bæta gönguumhverfi og almenningssamgöngur, þar með talið upplýsingatækni svo hún henti eldri borgurum betur.

Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri: Geta börn haft rétt til opinnar framtíðar?

Börn hafa hagsmuni eins og aðrar manneskjur. Sumir hagsmunir þeirra stafa af því að þau þarfnast umönnunar og forsjár fullorðinna en aðrir af því að þau verða á endanum fullveðja sjálfráðir einstaklingar. Sjálfráðir einstaklingar geta mótað líf sitt að einhverju leyti, kannski flestu leyti. En hvernig á að haga uppeldi og menntun barna og unglinga svo að þau ráði við það verkefni að móta og stýra eigin lífi? Er hægt að ala börn og unglinga þannig upp að framtíð þeirra sé opin þegar þau verða fullveðja og ráða eigin gerðum? Hvað merkir það að framtíð þeirra sé opin? Iðulega er það þannig að fullveðja manneskju líkar tilteknir lífshættir einmitt vegna þess að hún hefur alist upp við þá. En þá er hinni fullveðja manneskju ekki fyllilega sjálfrátt við að móta og stjórna eigin lífi. Leitað verður svara við því hvort og hugsanlega hvernig gera má ráð fyrir því að framtíð barna og unglinga geti verið opin í þeim skilningi að þau verði fær um að stjórna eigin lífi þegar þau eru fullveðja. Sömuleiðis verður leitast við að svara því hvernig uppeldi barna og unglinga gæti verið svo að þau verði fær um að leysa þetta verkefni þegar þau verða fullorðin.

Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands: Ísland sem athafnasvæði Dana á 20. öld

Danir höfðu sterk efnahagsleg ítök á Íslandi fram eftir 20. öldinni, þótt stjórnmálaáhrif þeirra færu ört dvínandi. Í erindinu er fjallað um fjölbreytt umsvif danskra kaupsýslumanna og fyrirtækja í íslensku atvinnulífi, þám. útgerð, byggingarframkvæmdir og verslunarviðskipti Íslands og Danmerkur. Sjónum er m.a. beint að því hvernig dönskum athafnamönnum gekk að fóta sig í hinu nýja íslenska þjóðríki sem var að rísa af grunni.

Guðni Elísson, prófessor, Íslensku- og menningardeild, HÍ: Deilan um erfðabreytingar í almenningsrýminu

Hvað einkennir umræðuna um erfðabreytingar í almenningsrýminu og hvernig geta leikmenn vegið og metið sannleiksgildi þeirra fullyrðinga sem settar eru fram? Fá svið vísinda eru jafn umdeild og líftækni-iðnaðurinn, en hann hefur mætt hatrammri andstöðu frá hægri jafnt sem vinstri þótt hinir ólíku þrýstihópar hafi mismunandi sýn og áherslur. Umræðan um líftækni-iðnaðinn og erfðabreytt matvæli verður skoðuð í samhengi loftslagsumræðunnar, en hún er annað vísindasvið þar sem myndast hefur gjá milli almennings og leiðandi vísindamanna.

Guðni Th. Jóhannesson, lektor í sagnfræði: Þjóðrembur í valdastólum og trítilóðir spekingar. Hvers vegna er gjá milli söguskoðunar valdhafa og fræðasamfélagsins?

Undanfarin misseri hafa ýmsir innan háskólasamfélagsins gagnrýnt þá söguskoðun forseta Íslands og forsætisráðherra sem birst hefur í ávörpum þeirra til þjóðarinnar og öðrum ræðum. Forseti hefur sjaldnast svarað aðfinnslunum en forsætisráðherra tekið þær óstinnt upp.

Hvað veldur þessari gjá milli valdhafa og fræðimanna? Í erindinu verður tekist á við þá spurningu, samanburðar leitað og rakin rök sem gætu stutt þá hugsanlegu niðurstöðu að sjaldan valdi einn þá tveir deila. Má þar nefna annars vegar smámunasemi fræðasamfélagsins, ýmiss konar valdapólitík innan þess og lítinn skilning á því sjálfsagða sjónarmiði að valdhafar eigi að efla samtakamátt þjóðarinnar með því að minnast fyrri afreka hennar. Á hinn bóginn má svo spyrja hvort þjóðarleiðtogarnir hafi ekki farið offari í slíkum málflutningi og úrelt söguskoðun, sem þjóni eiginhagsmunum þeirra í samtímastjórnmálum, sé byggð á misskilningi og ýkjum um sameiginlega sögu Íslendinga í aldanna rás.

Ein niðurstaða erindisins verður sú að stundum veldur einn þá tveir deila.

Guðrún Steinþórsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntumSamlíðan og sérfræðingar: eigindlegar rannsóknir á viðbrögðum fólks við brotum úr sögum Vigdísar Grímsdóttur

Í fyrirlestrinum verður greint frá tveimur eigindlegum rannsóknum þar sem viðtökur við brotum úr skáldsögum Vigdísar Grímsdóttur voru kannaðar og þá einkum tilfinningaviðbrögð fólks og samlíðan. Í hinni fyrri var brot úr Þögninni (2000) lagt fyrir 20 manna hóp, annars vegar tíu einstaklinga sem menntaðir voru í tónlist, hins vegar 10 manns sem ekki höfðu tónlistarnám í farteskinu. Í ljós kom að bakgrunnur tónlistarmannanna hafði önnur áhrif á viðbrögð þeirra við textanum en gert hafði verið ráð fyrir. Því var ákveðið að kanna viðbrögð 10 myndlistarmanna með því að leggja fyrir þá brot úr skáldsögunni Þegar stjarna hrapar (2003) og bera saman við viðbrögð 10 einstaklinga sem ekki eru menntaðir í myndlist. Textarnir úr sögunum tveimur eiga það sameiginlegt að í þeim er fjallað um ákveðið listform, tónlistina í Þögninni en myndlistina í Þegar stjarna hrapar. Rætt verður um hvernig bakgrunnur þátttakenda markar viðbrögð þeirra og hvaða vísbendingar eigindlegar rannsóknir af þessu tagi kunna að gefa um aðra þætti en þá sem bókstaflega er spurt um. 

Guðrún Theodórsdóttir, lektor í annarsmálsfræðum við íslensku- og menningardeild: Fráblástur í íslensku: Endurskoðun á afröddun, aðblæstri og fráblæstri

Í hefðbundinni hljóðfræði íslensku er sagt frá fyrirbærum eins og afröddun, aðblæstri og fráblæstri og þau talin vera ólík. Afröddun verður á samhljóðum þegar þau standa á undan p, t, k og s í orðum eins og vanta, oft og bjartur. Gert er ráð fyrir hljóðapörum þar sem annað hljóðið er raddað en hitt óraddað: v/f, n/hn, l/hl, r/hr, þ/ð, o.fl.

Aðblástur verður á undan –kk, -pp, -tt í orðum eins og ekki, uppi og þetta og á undan –tn, -kn, -pn í orðum eins og teikna og opna og loks á undan -tl, -kl, -pl í orðum eins og Hekla og epli.

Fráblástur verður á k-, p-, og t- í upphafi orða: kaka, pabbi, taka.

Í fyrirlestrinum verður sýnt fram á að hægt er að einfalda þessa lýsingu; öllum þessum fyrirbærum er hægt að lýsa sem fráblæstri sem einfaldar framburðarkennslu fyrir erlenda stúdenta. Þannig yrði gert ráð fyrir að sérhljóð séu fráblásin á undan –pp, -tt, og –kk: ah, oh, ih o.s.frv., að í staðinn fyrir að lýsa pörunum n/hn, l/hl og r/hr sem rödduðu og órödduðu hljóði að nota  aðgreininguna ófráblásið og fráblásið. 

Gunnar J. Gunnarsson, dósent  á Mennvísindasviði: Bono og Davíð – Áhrif Davíðssálma á texta hljómsveitarinnar U2

Þekkt er að í textum írsku rokkhljómsveitarinnar U2 er mikið af trúarstefjum og trúarlegum vísunum. Bono eða Paul David Hewson, söngvari hljómsveitarinnar, er höfundur flestra textanna og hann hefur í viðtölum tjáð sig um áhrif kristinnar trúar á líf sitt og mótun. Davíð og sálmarnir, sem við hann eru kenndir í Biblíunni, virðast í sérstöku uppáhaldi hjá honum og hann talar meðal annars um Davíð sem Elvis Biblíunnar. Í þessu erindi verða áhrif Davíðssálma á kveðskap Bono‘s skoðuð og leitað svara við því hvers vegna og með hvaða hætti svo fornir sálmar hafa áhrif á texta rokkstjörnu og réttindabaráttumanns í nútímanum.

Gunnar Kristjánsson, prófastur: Frjálslynd guðfræði og þjóðkirkjuhugtakið

Í erindinu verður fjallað um breytingar á trúarlífi, kirkjuskilningi og guðfræði undanfarnar tvær aldir. Þar verður staðnæmst við kenningar þýska guðfræðinginsins Friedrichs Schleiermachers sem fyrstur manna setti þjóðkirkjuhugtakið á dagskrá. Skoðað verður hvers eðlis það er og hvernig þær hugmyndir bárust til Íslands. Í síðari hlutanum verður horft til þeirra breytingar sem orðið hafa á íslensku þjóðkirkjunni undanfarna áratugi þar sem áhersla á helgisiðatengda guðfræði og trúfræði hefur sett svip sinn á þróun sem hefur ekki orðið þjóðkirkjunni í hag. Spurt verður hvert þjóðkirkjan virðist stefna í skipulagi sínu og hvers eðlis sú guðfræði sé sem móti þróunina á líðandi stund. Jafnframt verður spurt hvort lútherskar megináherslur á frelsi mannsins, almennan „prestsdóm“ leikra sem lærðra og á huglægni hafi látið undan síga. Velt verður upp hugmyndum um breyttar guðfræðilegar áherslur sem miða að því að skýra að nýju hefðbundin þjóðkirkjueinkenni íslensku þjóðkirkjunnar.

Gunnella Þorgeirsdóttir, aðjunkt í japönsku máli og menningu: Tómarúmið: birtingarmyndir zen í japönsku myndmáli og hönnun

Fjallað verður um ýmsa þætti japanskrar menningar og tengingar þeirra við zen hugmyndafræðina.  Flestir þekkja til japanskra hugleiðslu garða, te athafnarinnar og blómakreytinga, en hvernig birtist hugmyndafræðin hinsvegar í menningu nútímans? Er hún enn gild eða einungis dregin fram þegar auglýsa á land og þjóð? Skoðaðar verða birtingamyndir zen úr hefðbundinni myndlist og áhrif þeirra á nútíma teiknimyndasögugerð. Einnig verður einfaldleikanum, minimalismanum gefinn gaumur sem og þeir árekstrar sem verða þegar eldri hugmyndafræði mætir nýrri tækni, líkt og

við hönnun vefsíðna.

Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild: „Lofið hann með hörpu og gígju.“ 150. Davíðssálmur í þremur ólíkum listgreinum

Sálmur 150 er kröftugur endir á sálmasafni Gamla testamentisins (Saltarans), hápunktur á langri vegferð sem hófst á hvatningu um að íhuga Guðs orð (Slm 1.2). Sálmurinn virðist sannarlega viðeigandi endir á sálmsafni þar sem hafa skipst á skin og skúrir, dalir og hálsar, sigrar og ósigrar, gleði og sorgir. Allt virðist stefna að lofgjörðinni til Guðs sem birtist með svo skýrum hætti í lokasálminum. En sálmurinn er samt ekki endir allrar þróunar sálmasafnsins  því að einstakir sálmar hafa lifað sínu framhaldslífi í menningunni, í bókmenntum og fleiri listgreinum. Hér verður sjónum beint að slíku framhaldslífi Slm 150 eða áhrifasögu hans.  Sýnt verður hvernig hann hefur verið túlkaður og heimfærður í þremur ólíkum listgreinum: Kvikmyndalist (Kvikmynd Robert Duvalls, The Apostle), ljóðlist (sálmur sr. Valdimars Briem) og myndlist (Chagall og Einar Hákonarson). Með þessari nálgun er áréttað að það er ekki síður verðugt rannsóknarefni að kanna hvernig hinir fornu textar hafa kviknað til lífs á síðari tímum við nýjar aðstæður og í ólíkum greinum heldur en að leita aðeins að hinni einu upprunalegu merkingu textans. 

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, dósent í almennri bókmenntafræði: Minnismerki og kreppur: Svarta keilan og minnisvandinn

Hvernig geta samfélög minnst átakatíma og erfiðleika úr nýliðinni fortíð? Hvers konar ‚minnisvinnu‘ þarf til að sátt geti verið um slíka fortíð – eða er það ávallt raunin að sýn ráðandi afla verði ofan á? Hvaða hlutverki gegna minnismerki í slíku starfi? ‚Svarta keilan: minnismerki um borgaralega óhlýðni‘ eftir Santiego Sierra stendur nú um stundir á Austurvelli sem minnismerki um atburðina í búsáhaldabyltingunni 2008-2009. Engin sátt ríkir hins vegar um það verk og þá ekki um atburðina sem því er ætlað að minna á. Hér verður litið til deilnanna sem staðið hafa um verkið og kannað hvaða ljósi slíkar deilur varpa á hlutverk minnismerkja í minni þjóða um trámatíska tíma.

Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri og lektor í félagsráðgjöf: Hreyfanleiki, samskipti og velferðartækni 

Líklegt er að eldra fólk muni hafa meiri tíma, betri heilsu, meiri menntun, meiri tækniþekkingu og betri fjárráð  en áður hefur þekkst hjá þessum aldurshópi. Þetta kallar á ný hlutverk og ný verkefni velferðarþjónustunnar. Hlutfall eldra fólks af íbúafjölda hækkar, tekjur af aldurshópnum munu aukast, útgjöld munu líka aukast, og menningarneysla þessa hóps mun aukast, sem og ferðir og flakk. Búseta verður hreyfanlegri vegna þessa. Samfélagslegt öryggi og upplifun íbúa og eldra fólks sérstaklega, mun að líkindum verða stórt viðfangsefni – samhlið uppbyggingu á trausti. Félagsleg samskipti og uppbygging á tengslum milli einstaklinga, milli hópa og milli staða, verða því viðfangsefni velferðarþjónustunnar.  Velferðartækni og samskiptamiðlar munu skipa mikinn sess í velferð eldra fólks í framtíðinni sem og aðgengi að vegakerfi tækninnar

Hanna Óladóttir, aðjunkt og doktorsnemi í málfræði: Óbærileg tilbrigði málfræðinnar: Viðhorf grunnskólanemenda og kennara til málbreytinga

Ein þekktasta málvilla íslensks samtíma er án efa þágufallssýkin. Þágufallssýki, einnig kölluð þágufallshneigð, er yfirleitt notuð um þá tilhneigingu málhafa að nota þágufallsfrumlag með ópersónulegum sögnum sem lengst af hafa tekið þolfallsfrumlag, þekktasta dæmið um það er sögnin langa. Hér verður fjallað um aðra sögn sem oft hefur verið felld undir téða sýki þó að sjúkdómseinkennin felist ekki alltaf í þágufallshneigð heldur ekki síður í þolfallshneigð. Þetta er sögnin hlakka sem sögulega er persónuleg og ætti samkvæmt því að taka frumlag í nefnifalli en er orðin ópersónuleg í munni æ fleiri málhafa og þá ýmist með frumlagi í þolfalli eða þágufalli. Sjónarhornið hér eru viðhorf grunnskólanemenda og kennara til málbreytingarinnar, kennara sem stöðu sinnar vegna eiga að vinna gegn henni og nemenda sem eru í henni miðri og vita oft ekki sitt rjúkandi ráð. Markmiðið er að sýna hvernig málbreytingu reiðir af í meðförum forskriftarmálfræðinnar og hvernig viðhorf til hennar geta varpað ljósi á skoðanir nemenda og kennara á tungumálinu almennt.

Haraldur Bernharðsson, dósent: Fjaðraskipti fuglsins: Piltur og stúlka Jóns
Thoroddsens (1818–1868) og málstöðlun á síðari hluta 19. aldar

Skáldsaga Jóns Thoroddsens (1818–1868) Piltur og stúlka kom fyrst út 1850 og naut mikilla vinsælda. Sautján árum síðar, 1867, var skáldsagan gefin út aftur endurskoðuð — eða „með nokkrum fjaðraskiptum“ eins og höfundur lýsir því í eftirmála. Í þessari síðari útgáfu hefur höfundur aukið inn tveimur köflum og gert smávægilegar orðalagsbreytingar hér og þar. Jafnframt hefur hann gert margvíslegar breytingar á bæði stafsetningu og málfari og fært nær þeim viðmiðum sem þá voru í mótun og síðar festust í sessi. Í fyrirlestrinum verður rætt um málfarsmun („fjaðraskiptin“) á þessum tveimur útgáfum Pilts og stúlku, frá 1850 og 1867, en hann gefur nokkuð góða mynd af tilurð þess málstaðals sem síðar varð ráðandi. Ekki er heldur efamál að þessi vinsæla skáldsaga hefur átt drjúgan þátt í að festa þennan málstaðal í sessi.

Haraldur Hreinsson, doktorsnemi: Patmos í norðri. Opinberunarbókin í meðförum Sjóns, Eiríks Arnar Norðdahl og Hugleiks Dagssonar

Þó Opinberunarbókin hafi ekki fengið öruggan sess í hinu kristna helgiritasafni fyrr en tiltölulega seint á mótunarskeiði þess og allar götur síðan verið á jaðri kanónsins,  enda ritið torskilið mjög og óárennilegt, þá eru fá rit Biblíunnar sem hafa haft jafn margbreytileg áhrif á vestræna menningu og listir. Íslensk menning er þar engin undantekning. Á umliðnum árum, n.t. frá árinu 2008, hafa komið út þrjú íslensk bókmenntaverk sem skarast í textatengslum við Opinberunarbókina og ýmsa aðra apókalyptíska texta Biblíunnar með áhugaverðum hætti. Er hér um að ræða Rökkurbýsnir (2008) eftir Sjón, Gæsku (2009) eftir Eirík Örn Norðdahl og Opinberun (2012) eftir Hugleik Dagsson

Haukur Ingvarsson, rithöfundur og útvarpsmaður: Faulkner á Íslandi

Árið 1955 gerði rithöfundurinn William Faulkner víðreist um heiminn á vegum bandaríska utanríkisráðuneytisins. Meðal viðkomustaða hans var Ísland en hér dvaldi hann 12.-19. október. Á ferðalaginu lagði Faulkner sig sérstaklega eftir því að ná til ungs fólks og hér flutti hann m.a. hugvekju í útvarp þar sem hann beindi máli sínu að því sérstaklega, einnig fundaði hann með ungum höfundum og tók þátt í dagskrá í Hátíðarsal Háskóla Íslands á vegum Stúdentafélags Reykjavíkur sem haldin var honum til heiðurs. Íslenskir fjölmiðlar sýndu heimsókninni mikinn áhuga og um hana má finna ýmis konar heimildir sem varpa áhugaverðu ljósi á höfundarnafn Williams Faulkner og íslenskan bókmenntavettvang.

Í erindinu verður staldrað við nokkur stef sem birtast í umræðu um Faulkner og verk hans í tengslum við Íslandsheimsóknina. Einnig verður leitast við að leggja mat á áhrif Faulkners í íslenskum bókmenntum en meðal þeirra höfunda sem hafa gengist við áhrifum frá honum og verkum hans eru Thor Vilhjálmsson og Guðbergur Bergsson. 

Haukur Þorgeirsson, nýdoktor: Sex hundruð sumur: Rímnamálheild kynnt

Kynnt verður málheild með sýnishornum úr 138 rímnaflokkum frá tímabilinu 1350–1950. Málheildin skiptist í tvennt og er annar hlutinn heildarsafn rímna fyrir siðaskipti. Hinn hlutinn er úrval þar sem aðeins eru teknar með rímur undir ferskeyttum hætti. Að hafa textana undir sama bragarhætti gerir allan samanburð auðveldari og marktækari. Rædd verða álitamál í frágangi og framsetningu. Framtíðarmöguleikar verða reifaðir og notkunardæmi sýnd. Loks verður sýnd stílmælingarleg athugun á höfundareinkennum miðaldarímna sem rennir stoðum undir kenningar Björns Karels Þórólfssonar um höfundarverk Sigurðar blinds.

Helga Jóna Eiríksdóttir, MA nemi í sagnfræði, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands: Embættisfærslur sýslumanna á 19. öld

Þrátt fyrir að embætti sýslumanna megi rekja allt aftur á 13. öld eru litlar sem engar heimildir varðveittar frá fyrri tíð.  Það er ekki fyrr en undir lok 18. aldar og byrjun þeirra 19. sem skjöl sýslumanna hafa varðveist skipulega og má líklega rekja það til skipunarbréfa sýslumanna sem tekin voru upp á fyrri hluta 18. aldar.  Í slíkum erindisbréfum má sjá hlutverk sýslumanna og skyldur þeirra til að halda til haga skjölum og skrám yfir embættisfærslur sínar.  Í fyrirlestrinum verður fjallað um helstu embættisfærslur sýslumanna á 19. öld og skoðaðar verða færslur sýslumanna í Rangárvallasýslu, Snæfellsnessýslu og Ísafjarðarsýslu út frá dæmum og lagagrundvelli þeirra. 

Helga Kress, prófessor emeritus: „Hann jarðvarpaði mér þrisvar.“ Bréf kvenna til Þorvalds Thoroddsen

Bréfasafn Þorvalds Thoroddsen (1855–1921) er varðveitt í handritadeild Konungsbókhlöðunnar í Kaupmannahöfn, NKS 3006 4to. Safnið er mjög mikið að vöxtum og eru íslensku bréfin í sextán þykkum bögglum. Bréfin spanna tæplega fimmtíu ára tímabil, þau elstu frá 1875 og þau yngstu frá dánarári Þorvalds 1921. Bréfritarar eru um 270 talsins og bréfin skipta þúsundum. Þau eru mjög vel flokkuð, bréf frá fjölskyldunni í fyrstu möppunum og síðan eftir bréfriturum í stafrófsröð. Nöfn bréfritara eru ekki skráð, þannig að ekki er hægt að fletta þeim upp í spjaldskrá handritadeildarinnar,  heldur verður að fara í bréfasafnið sjálft.

Bréfin í bréfasafni Þorvalds hafa að geyma gífurlegar heimildir um sögu, mannlíf, ferðalög, samgöngur, framkvæmdir, fatnað, mat, vísindi, pólitík og landshagi yfirleitt á því tímabili sem þau eru skrifuð. Ekki síst eru þau heimildir um einkalíf, áhyggjur, áhugamál, tilfinningar, ástarmál, trúlofanir, barneignir, veikindi, basl og slúður, hvað bréfritarar eru að hugsa um og á þeim hvílir, hvernig og hvað þeir skrifa, um málfar, stíl, stafagerð, stafsetningu, pappír og skriffæri.        

Það vekur athygli hve margir bréfritarar í bréfasafni Þorvalds eru konur, 32 af 270, þ.e. um 12 prósent. Flestar eru konurnar á einhvern hátt skyldar eða tengdar Þorvaldi. Þarna eru m.a. 29 bréf frá móður hans, Kristínu Þorvaldsdóttur Thoroddsen (1833–1879), 53 frá móðursystur hans, Katrínu Þorvaldsdóttur (1833–1879), konu Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara, en hjá þeim ólst Þorvaldur upp frá 11 ára aldri, 32 bréf frá Elínu Jónsdóttur Blöndal (1841–1934), hálfsystur Þorvalds og læknisfrú í Stafholtsey, en langflest frá Þóru Pétursdóttur biskups (1847–1917), konu Þorvalds. Þá eru í bréfasafninu nokkur bréf frá föðursystur hans, Jóhönnu Kristínu Petronellu Þórðardóttur (1817–1894), Jóhönnu Kristínu Þorleifsdóttur Bjarnason (1834–1896), sem kallar sig „fóstru“ hans, og Elinborgu Thorberg (1841–1925), mágkonu hans.

Í fyrirlestrinum verður gripið niður í þessum bréfum með sérstöku tilliti til lýsinga bréfritara á sjálfum sér, aðstæðum sínum og nánasta umhverfi, frá hverju þær segja og hvernig (oft með sviðsetningum), og hvað bréfin geta sagt um kvennasögu og kvenleg skrif.

Helgi Þorláksson, prófessor í sagnfræð: Sagan í frysti. Um samstöðu, mikilmenni og frelsi

Alþjóðahyggja var áberandi fyrir 1800, á 19. öld snerist þetta við, erlend áhrif töldust óæskileg,  alþjóðahyggja hvimleið og svonefnd sundrung hættuleg; fólkið skyldi sameinast um eina ákveðna skoðun. Meginskoðunin meðal margra ófrjálsra þjóða á seinni hluta 19. aldar var víða sú að gullöld hefði  ríkt á tilteknum  tíma af því að þjóðin var sjálfstæð þá.  Því væri brýnt að endurheimta sjálfstæði til að njóta nýrrar gullaldar. Á Íslandi finnst flestum gullöld ríkja á landinu og fólki virðist sama um það þótt gullöldin sem á að hafa ríkt hérlendis fyrir 1200 sé meira eða minna tilbúin. Því er trúað að myrkur og kúgun hafi ríkt á bilinu 1262 til 1845 en þá fyrst farið að rofa til. Þeirrar viðleitni hefur gætt meðal sagnfræðinga frá 1964 að endurskoða þá söguskoðun sem ríkti og  enn ríkir og skýra hvernig hún varð til og af hverju hún er hæpin. Það gengur ekki vel og þá má spyrja af hverju það sé svo. Af hverju gengur endurskoðun svona illa? Reynt verður að svara því. Eins verður reynt að svara hvað sé til ráða til þess að fá þessu breytt.

Henry A. Henrysson, verkefnisstjóri á Siðfræðistofnun: Skotveiðar á spendýrum

Siðfræði er meðal annars rökleg greining á þeim gildum og viðhorfum sem eru til staðar í samfélaginu. Slík rökleg greining á skoðunum fólks hugar meðal annars að samræmi og bendir á mögulegar mótsagnir. Fá viðhorf virðast í fljótu bragði vera eins ruglingsleg og viðhorf okkar til dýra, ekki síst til spendýra. Okkur þykir eðlilegt að ein tegund sé borðuð en önnur ekki, að gerðar séu tilraunir á vissum tegundum og að sum dýr séu flokkuð sem meindýr og því réttdræp með hvaða aðferð sem er. Í erindinu verður sjónum beint að siðferðilegum álitamálum varðandi skotveiðar á spendýrum og skoðað hvers konar afstaða til þeirra sé líklegust til að forða okkur frá því að leiðast inn í mótsagnakenndan hugmyndaheim.

Hildur Ýr Ísberg, doktorsnemi: Katniss á klakanum. Um Múrinn eftir Sif Sigmarsdóttur og Hungurleikana eftir Suzanne Collins

Múrinn er fyrsta bókin í sagnabálknum Freyju sögu, eftir Sif Sigmarsdóttur. Höfundur og fjölmiðlar hafa talað um bókina sem „hina íslensku Hungurleika“ og henni þar með líkt við Hungurleikana eftir Suzanne Collins. Í þessum fyrirlestri verður skoðað hvað átt er við með þessum samanburði og að hversu miklu leyti hann á við rök að styðjast.

Hjalti Hugason, prófessor: Kirkjan og brennivínið: Þátttaka kirkjunnar í þjóðmálaumræðunni í upphafi 20. aldar

Bann við aðflutningi og sölu á áfengi voru eitt heitasta deilumálið á Íslandi á tveimur fyrstu áratugum 20. aldar auk sambandsmálsins sem fjallaði um réttarstöðu Íslands gagnvart Danmörku. Samhliða alþingiskosningum 1908 sem annars snerust einkum um „uppkastið“ var kosið um hvort innleiða skyldi áfengisbann eða ekki og greiddu um 60% atkvæði með banni. Gekk það að hluta til í gildi 1912 (aðflutningur) og að fullu 1915 (sala). Voru kosningarnar merkur áfangi í lýðræðisþróun á landinu.

Í aðdraganda kosninganna tókust mörg mismunandi sjónarmið á: Var um einkamál eða opinbert mál að ræða? Gerði Alþingi rétt í að setja lög á þessu sviði? Fælu slík lög í sér mannréttindabrot? Kæmu slík lög til með að skaða verslunarhagsmuni þjóðarinnar? Þá bentu margir á að áfengisneysla væri samfélagslegt vandamál á landinu og enn aðrir nálguðust málið út frá siðferðilegum og uppeldislegum sjónarhornum.

Þótt atkvæðagreiðsla hefði farið fram og lög verið sett héldu deilurnar áfram og margir vonuðu að konungur mundi höggva á hnútinn með mannréttindi og verslunarhagsmuni að leiðarljósi. Áður en hann hafði staðfest lögin hafði sóknarprestur austur í Flóa vakið athygli landsmálablaðsins Ingólfs í Reykjavík fyrir ummæli sem hann lét falla við kirkjulega athöfn. Spannst af þessu athyglisverð umræða milli blaðsins (einkum Gunnars Egilsonar ritstj.) og Þórhalls Bjarnarsonar biskups um málfrelsi presta í og utan kirkju.

Í erindinu verður gerð grein fyrir þessum deilum og bent á hvernig enn má nota margháttuð rök sem þar voru færð fram með eða á móti þátttöku þjóðkirkjunnar og talsmanna hennar í pólitískri umræðu.

Hlynur Helgason, lektor í listfræði: Fjármörk og fundnir hlutir — Tengingar við framúrstefnu í verkum Níelsar Hafstein

Á sýningu sinni á Parísartvíæringnum árið 1980 sýndi Níels Hafstein verk sem byggði á fjármörkun Íslenskra bænda. Þar tók hann hefðbundið kerfi aðgreiningar og yfirfærði yfir á listina þannig að um var að ræða verk sem byggði á kerfi sem skoða má sem fundinn hlut. Á sýningu í Nýlistasafninu árið 1994 minntist hann Benedikts Theódórssonar smiðs, eða Skíða-Bensa eins og hann var einatt kallaður, með sýningu á sérsmíðuðum handsmíðuðum verkfærum hans sem Níels hafði bjargað úr leifum trésmiðjunnar. Þar var sett upp formræn listsýning á fundnum hlutum. Í fyrirlestrinum eru þessir hlutir skoðaðir nánar og tengsl þeirra við framúrstefnuhugmyndir á fyrri hluta 20. aldar.

Hoda Thabet, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði: Feminist Resistance by Syrian, Lebanese and Egyptian Women Writers

This paper deals primarily with the recent literary history of Arabic women writers in Lebanon, Egypt and Syria. At the current moment, the productivity and creativity of Arabic women writers is extraordinary and noteworthy, and yet it remains problematic on many levels, including that of politics in some regions. It is thus with some regret that this paper must be limited to a handful of connections and interrelationships amongst women writers in Egypt, Syria, and Lebanon, thus excluding the works of Algerian and Iraqi women writers, for example.

Women writers in the nahdah reshaped the boundaries of freedom of expression and tolerance for the visibility of women. That this paper is limited to a small portion of a modern period from approximately the late 19th century to near the present time, does not imply that the Arab women’s movement did not exist before such modern times. Al-Saʻdāwī asserts that the Arab women’s movement did not emerge from a void, that it is distinct from and not based on Western women’s movements, and that it manifests itself throughout the more than fourteen hundred years of Arab and Islamic history.

Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku: Upplýsingamiðlun eða áróður: Þýðingar „baráttuljóða“ frá Rómönsku Ameríku

Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að þýðingum „baráttuljóða“ frá spænskumælandi löndum Rómönsku Ameríku. Ljóðin, sem flest voru íslenskuð á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, eru ágeng og hverfast gjarnan um ofsóknir, kúgun og ofbeldi. Spurt er hvaða mynd þessar þýðingar draga upp af samfélagþróun álfunnar og hvort sú félagslega útlistun sögulegra atburða og aðstæðna sem gjarnan birtist í kvæðunum sé farvegur upplýsingar, uppgjörs, dóma eða áróðurs.

Hrafnkell Lárusson, doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands: Viðfang eða virkt samfélag? Fjölmiðlun um og í dreifbýli

Í erindinu verður gerð grein fyrir afmörkuðum þáttum í nýju rannsóknarverkefni (sem lýkur nú í febrúar). Meginmarkmið þess er að meta samfélagsleg áhrif svæðisbundinnar fjölmiðlunar á Austurlandi á árunum 1985-2010. Í erindinu verða forsendur rannsóknarinnar skýrðar en áhersla lögð á að draga fram samfélagslegan mismun þess fyrir Austurland að búa við þjónustu landsdekkandi fjölmiðla, sem eru með öfluga starfsemi á svæðinu, eða verða að reiða sig eingöngu á svæðisfjölmiðla. Leitað verður svara við eftirfarandi spurningum: Hver eru áhrif fjölmiðla á umræðu um samfélags- og hagsmunamál íbúa í dreifbýli og þar með á lýðræði á svæðinu? Má greina ólíkrar ímyndir svæða úr fjölmiðlaumfjöllun? Hvernig hefur RÚV staðið að þjónustu við Austurland á umræddu tímabili?
Kynntar verða niðurstöður rannsóknar á efnistökum frétta- og þjóðlífsþáttarins Landans á RÚV. Að lokum verður velt vöngum yfir því hvað sé framundan í íslenskri fjölmiðlun, einkum svæðisbundinni.
Erindið byggir, auk eigin rannsóknar, á innlendum og erlendum fræðiheimildum sem og á spurningakönnun og viðtölum við austfirskt fjölmiðlafólk, sem framkvæmd voru sérstaklega vegna þessa rannsóknarverkefnis.

Huginn Freyr Þorsteinsson, doktorsnemi og aðjunkt: Tilvísunarvandi fræðiheita

Vísindaleg hluthyggja gerir ráð fyrir tilvist fræðigripa eins og rafeinda, atóma, fósturvísa og dvergstjarna.  Samkvæmt forsvarsmönnum hluthyggju er ein meginástæða þess að við getum verið viss um tilvist margra fræðigripa árangur þeirra vísindakenninga sem styðjast við þá. Vandi við þessa árangurstengingu er að í sögu vísinda er auðvelt að finna dæmi um vísindakenningar sem gáfu góða raun en engu að síður studdust við fræðigripi sem eiga sér ekki tilvist. Ljósvakakenningar í eðlisfræði veittu fjölmargar skýringar á eðli og hegðun ljóss en engu að síður teljum við að hugtakið ljósvaki vísi ekki til neins. Hið sama á við um kenningar um flógiston í efnafræði en fræðiheitið flógiston var notað í fjölmörgum skýringum um bruna og oxun sem eru markverðar. Flógiston reyndist þó ekki eiga sér tilvist. Í erindi mínu fjalla ég um þau fjölmörgu heimspekilegu álitamál er tengjast fræðiheitum eins og flógiston og ljósvaki og hvernig hluthyggjumenn hafa fjallað um þau. Færð eru rök fyrir því að ýmis viðbrögð þeirra enda í ógöngum en einnig hvernig hægt væri að sneiða hjá þeim.

Hulda Þórisdóttir, doktor í félagslegri sálfræði og lektor við stjórnmálafræðideild: Samlíðan og stjórnmálaviðhorf 

Í þessum fyrirlestri verður greint frá fyrstu niðurstöðum rannsóknarverkefnis á samspili samlíðunar og stjórnmálaviðhorfa. Farið verður yfir helstu niðurstöður erlendra rannsókna og að hvaða marki fyrstu íslensku gögn eru til samræmis við þær. Greint verður frá niðurstöðum tilraunar þar sem prófuð var tilgátan að framköllun samlíðunar í rannsóknarstofunni auki líkurnar á því að fólk hneigist (tímabundið) til stjórnmálaviðhorfa sem almennt eru talin til vinstri. Samlíðan var framkölluð með tveimur útgáfum af stuttri frumstæðri teiknimynd sem sýnir tvo þríhyrninga hreyfast um flöt. Helmingur þátttakenda sá útgáfu af myndinni sem vekur upp þá tilfinningu að þríhyrningarnir eigi í samskiptum (tilraunahópur) en hinn helmingurinn sá þríhyrningana fljóta stefnulaust um flötinn (samanburðarhópur).  Þátttakendur í tilraunahóp voru í kjölfarið líklegri til að segjast eiga auðvelt með að upplifa samlíðan, réttlættu síður kerfið (viðhorf sterklega tengt hægri-íhaldssemi), studdu síður skattalækkanir og töldu sig vinstri sinnaðri en þátttakendur í samanburðarhópi. Niðurstöður verða ræddar í ljósi þekkingar um samlíðan innan sálfræði og bókmenntafræði.

Höskuldur Þráinsson, prófessor í málfræði: Nei, íslenska er ekki útlenska

Heitið á þessum fyrirlestri er svar við spurningu sem Guðmundur Andri Thorsson varpaði fram í grein í Fréttablaðinu 4. mars 2013. Þar hélt hann því m.a. fram að íslenskukennurum hætti til að einblína á mistök nemenda í kennslunni og afleiðingin væri sú að margir nemendur fengju það á tilfinninguna að íslenska væri erfið útlenska sem þeir kynnu lítið í og myndu jafnvel aldrei geta lært. Í því sambandi vitnaði Guðmundur Andri í líkingu sem Þorvaldur heitinn Þorsteinsson hafði sett fram um eðli málfræðikennslu í skólum. Í fyrirlestrinum mun ég annars vegar taka undir þá gagnrýni Guðmundar Andra að íslenskukennarar beiti oft gagnslausum og jafnvel skaðlegum aðferðum í máluppeldi en um leið færa rök að því að málfræðikennsla í grunnskóla geti verið og eigi að vera gagnleg og líking Þorvalds Þorsteinssonar hafi verið byggð á misskilningi. Í lokin mun ég svo benda á kennsluaðferð sem ég tel að muni efla máltilfinningu og málfærni nemenda og stórbæta árangur íslenskra nemenda á lesskilningsþætti Pisa-prófsins margumrædda.

Höskuldur Þráinsson, prófessor í málfræði og Sigríður Mjöll Björnsdóttir, meistaranemiHvernig falla föll í gleymsku? Um andlagsfall og önnur föll í vesturíslensku og í málstoli

Fallmörkun eða fallstjórn er meðal þess sem getur farið úr skorðum þegar málnotendur missa tökin á máli sínu á einhvern hátt. Í þessum fyrirlestri verða skoðuð tilbrigði í fallstjórn sagna og forsetninga í vesturíslensku. Megináherslan er á þróun fallstjórnar í máli eins málnotanda sem skrifaði bréf til Íslands frá Vesturheimi 73 ár. Meðal þess sem kemur fram í þessum bréfum er að þágufall sækir allvíða á þegar fram líða stundir, þ.e. kemur fram á ýmsum stöðum þar sem þess er ekki að vænta. Þessi þróun er borin saman við svipaða tilhneigingu sem má finna í máli sjúklings sem missti tökin á málinu eftir málstol (málfræðistol). Einnig verður höfð hliðsjón af fræðilegum kenningum um tengslin milli fallstjórnar og merkingar sagna og ýmis dæmi skoðuð um fallstjórn í öðrum heimildum um vesturíslensku, ekki síst fallstjórn tökusagna úr ensku, sem og breytingar á fallmörkun sagna sem taka þolfallsandlög í staðalíslensku, en þágufallsandlög í vesturíslensku.

Ingibjörg Ágústsdóttir, lektor: Sjálfstæði Skotlands og skoska sögulega skáldsagan

Þann 18. september næstkomandi mun skoska þjóðin kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort að Skotar skuli verða sjálfstæð þjóð eða vera áfram hluti af Bretlandi. Nýlegar skoðanakannanir gefa til kynna að skoska þjóðin sé klofin í afstöðu sinni til málsins. Fyrir Skotum í dag er sjálfstæði þjóðarinnar óþekkt ástand; sjálfstætt Skotland er aðeins ímyndaður staður, eitthvað sem ber að sækjast eftir eða hafna, eftir því hvaða skoðanir fólk hefur á málum. Því hræðast margir óvissuna sem gæti falist í sigri stuðningsmanna sjálfstæðis og Skoska þjóðarflokksins. En hvernig endurspeglast sjálfstæðisumræðan í skoskum nútímabókmenntum? Í þessum fyrirlestri verður fjallað um sögulegar skáldsögur sem gerast á átaka- og umbrotatímum og sem gefnar hafa verið út á síðustu árum, eða á þeim tíma sem sjálfstæðisumræðan hefur verið hvað mest áberandi í samfélaginu. Skoðað verður hvort og þá hvernig þessar sögur endurspegla sjálfstæðisumræðuna, og einnig fjallað um hvort rithöfundar séu meðvitað að varpa fram sjónarmiðum um framtíð Skotlands og mögulegt sjálfstæði í verkum sínum.

Iris Edda Nowenstein, meistaranemi og Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í málfræði: Sýki eða ekki sýki. Um málvernd og máltilbrigði á Íslandi og vestanhafs

Íslenska og vesturíslenska hafa þróast við gjörólíkar málfélagslegar aðstæður síðan einir mestu brottflutningar Íslandssögunnar áttu sér stað undir lok 19. aldar. Í þessu er fólgið einstakt tækifæri til rannsókna á orsökum málbreytinga og þeim þáttum sem stýra útbreiðslu þeirra. Þannig er hægt að leita markvisst svara við spurningum á borð við: Koma sömu málbreytingar fram ef málfélagslegar aðstæður eru ólíkar? Hversu miklu máli skiptir forskriftarmálfræði þegar kemur að útbreiðslu þeirra? Hér verður einblínt á tvær umtalaðar setningafræðilegar breytingar, þágufallshneigð (þágufallssýki) og nýju setningagerðina (nýju þolmyndina). Vesturfararnir tóku að öllum líkindum þágufallshneigð með sér þegar þeir fluttu til Norður-Ameríku en aftur á móti virðist nýja setningagerðin hafa sprottið þar sjálfstætt. Sagt verður frá rannsókn sem sýnir sambærileg mynstur í útbreiðslu þágufallshneigðar í íslensku og vesturíslensku og einnig verða kynnt gögn sem benda til tilvistar nýju setningagerðarinnar í vesturíslensku.

Irma Erlingsdóttir, dósent í frönskum samtímabókmenntum: Vofur í pólitík: Saga, minni og Sihanouk prins. 

Norodom Sihanouk, leiðtogi Kambódíu, var tæplega níræður þegar hann hann lést 13. ágúst 2013. Hann var fórnarlamb og þjóðartákn í þeim örlögum sem Kambódía þurfti að þola í einum versta hildarleik tuttugustu aldar. Prins, forsætisráðherra, forseti, konungur: Hann var ávallt í lykilhlutverki í stjórnmálalífi Kambódíu og lét þær holskeflur sem dundu á landið yfir sig ganga. Í fyrirlestrinum verður fjallað um sviðsetningu þeirra Hélène Cixous og Ariane Mnouchkine á sögu Sihanouks, leikritið L´Histoire terrible mais „inachevée“ de Norodom Sihanouk roi du Cambodge (Hrottaleg en „ólokin“ saga Norodom Sihianouk konungs Kambodíu). Þegar leikritið var sett upp blöstu við afleiðingar stríðs og þjóðarmorðs í Kambódíu. Unnt er að túlka það sem siðferðilega og pólitíska dæmisögu um mannlega þjáningu og eymd. Þessi samtímalegu myndhvörf um mannlegt hlutskipti eiga eins mikið erindi nú og árið 1985 þegar leikritið var frumsýnt.  Uppsetning þeirra Cixous og Mnouchkine er pólitísk og er sagan notuð í þágu minninga og réttlætis. Markmiðið er að ljá þjáningu Kambódíu merkingu í samtímanum og forða reynslunni frá því að falla í gleymsku. Að auki snýst leikritið um ábyrgð sem felst í því að virkja og halda á lofti sameiginlegum minningum – kambódískum, bandarískum, kínverskum, víennömsku – auk minninga einstaklinga sem lentu í harmleiknum miðjum. Í fyrirlestrinum verður lögð áhersla á hlutverk Sihanouks í leikritinu, en þar birtist hann sem gæslumaður stjórnmálavona og menningararfs Kambódíu og sem konungur allra kynslóða, dauðra og komandi.

Íris Ellenberger, sjálfstætt starfandi fræðimaður: „Ungfrúr „spassera“ og skemta sér á „böllum“.“ Um dansk-íslenskt þéttbýlissamfélag við upphaf 20. aldar.

Við upphaf 20. aldar bjó hlutfallslega stór hópur af Dönum í þéttbýli á Íslandi. Meðlimir hans höfðu margir talsverð áhrif og settu mark sitt á nærumhverfið í krafti fjármagns, þekkingar og/eða virðingar sem Danir nutu vegna uppruna síns. Í erindinu verður fjallað um samfélagsþátttöku þeirra í sínum heimabyggðum og stöðu þeirra gagnvart öðrum samfélagsmeðlimum með áherslu á aðlögun og þverþjóðleika. Þá verður leitt í ljós hvernig þeir áttu um margt fjölbrettari möguleika á að taka afstöðu til meirihlutasamfélagsins en þær kynslóðir Dana sem komu til landsins um miðja 20. öld. Þá verður samfélagsbreytingum á fyrstu áratugum 20. aldar gerð skil en þær drógu úr möguleikum Dana á að skapa sér tilveru á eigin forsendum.

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, MA í sagnfræði, sérfræðingur á Þjóðskjalasafni Íslands:  Skagfirðingar skrifa Landsnefndinni fyrri 1770–1771

Landsnefndin fyrri var nefnd þriggja manna sem send var hingað til lands á vegum konungs árið 1770 til þess að rannsaka hagi landsins. Nefndinni var ætlað að hafa samband við landsmenn bæði háa og lága. Með komu nefndarinnar gafst almenningi í landinu því gott tækifæri á að skrifa konungi eða embættismönnum hans í Danmörku milliliðalaust, þ.e. án aðkomu innlendra embættismanna, s.s. sýslumanna, og segja álit sitt á stjórnun landsins, viðreisn atvinnuveganna eða hverju sem þeim lá á hjarta. Ekki er hægt að segja annað en viðbrögðin hafi verið góð, yfir hundrað bréf bárust frá almenningi og prestum víðs vegar að af landinu auk fjölmargra greinargerða frá sýslumönnum og embættismönnum. Í erindinu verða bréf úr Skagafirði tekin til sérstakrar skoðunar en þaðan bárust alls 13 bréf. Fjallað verður um þjóðfélagsstöðu bréfritara og helstu umkvörtunarefni bréfanna. Hvernig brugðust Skagfirðingar við þessu tækifæri? Hvað höfðu þeir til málanna að leggja við Landsnefndina? Hverjir skrifuðu og um hvað?

Jóhannes B. Sigtryggsson, málfræðingur, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Nýyrði í sérgreinum í Stafsetningarorðabókinni

Í Stafsetningarorðabókinni (1. útg. 2006) eru um 65.000 uppflettiorð og þar af fjölmörg orð úr sérgreinum, til dæmis armfætlingur, lækjasilmý, þjótaug og fenýlalanín. Við endurskoðun orðabókarinnar hefur sú spurning vaknað hversu brýnt erindi slík sérfræðiorð eiga í almenna orðabók. Eiga þau eingöngu heima í sérfræðiorðasöfnum og íðorðalistum eða eru almennar orðabækur eins og Stafsetningarorðabókin og Íslensk orðabók góður vettvangur til að koma þeim á framfæri við almenning? Ef svo er hvernig á þá að velja sérfræðiorð í almennar orðabækur? Við hvað á að miða?

Jóhannes Gísli Jónsson, lektor í málfræði, Breytileiki í fallstjórn með nýjum sögnum

Breytileiki í fallstjórn kemur ekki aðeins fram með sögnum sem hafa lengi verið til í málinu (sbr. Hana/Henni langar að fara eða Þau slitu samvistir/samvistum). Slíkur breytileiki er líka algengur með sögnum eru tiltölulega nýjar í málinu (sbr. Sigga gúgglaði þetta/þessu í gær eða Gummi blastaði gömlu jólalögin/jólalögunum). Í þessum fyrirlestri verður fjallað um þennan breytileika í fallstjórn og reynt að varpa ljósi á eðli hans út frá ýmsum merkingarlegum þáttum. Einnig verður rætt hvað breytileikinn getur sagt okkur um íslenska fallakerfið almennt, þar á meðal þá mikilvægu staðreynd að langflestar sagnir málsins sýna alls engan breytileika í fallstjórn, hvort sem þær eru gamlar eða nýjar (sbr. Hann/*Honum fílaði þetta alls ekki eða Löggan böstaði þjófinn/*þjófnum).

Jón Axel Harðarson, prófessor: Tilgátur um aðgreinandi tónkvæði í eldri íslenzku

Í grein sem birtist árið 1926 túlkar Jón Helgason vitnisburð kveðskapar frá 15. öld á þá lund að íslenzkt mál hafi á þeim tíma haft tónkvæði sem gerði skáldum kleift að greina á milli upphaflegra einkvæðra og tvíkvæðra orðmynda. Þetta þýðir að eftir að einkvæðar orðmyndir eins og ræðr (af so. ráða) höfðu fengið stoðhljóðið u og þar með breytzt í tvíkvæðar myndir hafi tónkvæði þeirra haldið þeim aðgreindum frá upprunalega tvíkvæðum myndum eins og ræður (af no. ræða). Þessa hugmynd tók Stefán Karlsson upp í grein frá 1964 þar sem hann fjallar um Egils rímur Skallagrímssonar eftir Jón Guðmundsson í Rauðseyjum (Dalasýslu). Stefán telur rímurnar, sem voru ortar árið 1643, geyma vitnisburð um aðgreinandi tónkvæði sem hafi komið í veg fyrir að upphaflegum einkvæðum og tvíkvæðum orðmyndum hafi verið ruglað saman. Síðar hafa aðrir fræðimenn tínt til fleiri heimildir um tónkvæði í eldri íslenzku. Þar á meðal er Þriðja málfræðiritgerðin svokallaða eftir Ólaf hvítaskáld Þórðarson. Í fyrirlestrinum verða heimildir um meint tónkvæði í íslenzku athugaðar og leitað svars við þeirri spurningu hvort ekki sé unnt að skýra þær á annan hátt.

Jón Hallsteinn Hallsson, dósent í erfðafræði, LbhÍ: Satt og logið í sveitinni – Sjálfsmorð smábænda og erfðabreyttar lífverur

Í umræðum um erfðabreyttar lífverur í landbúnaði er því endurtekið haldið fram að erfðabreytt fræ skili aðeins stórum alþjóðlegum líftæknifyrirtækjum ágóða og kostnaður við tæknina sé til þess fallinn að leiða fátæka smábændur í skuldaánauð. Því er meðal annars haldið fram að tilkoma erfðabreyttra lífvera skýri háa tíðni sjálfsmorða meðal indverskra smábænda. Sú hugmynda fékk fyrst mikla athygli eftir ummæli sem Karl Bretaprins lét falla árið 2008 en síðan hefur hugmyndinni víða skotið upp, nú nýverið í grein Dr. Vandana Shiva „The Seeds Of Suicide: How Monsanto Destroys Farming“ sem lýkur á orðunum: „No GMO seeds, no debt, no suicides“. Fjallað verður um rannsóknir á áhrifum erfðatækni á hag smábænda í þróunarlöndunum og byggt á fyrirliggjandi gögnum.

Jón Hilmar Jónsson, rannsóknarprófessor, og Sigrún Helgadóttir, reiknifræðingur: Það var og: Hliðskipuð sambönd til leiðsagnar um merkingarvensl

Í efnismikilum textasöfnum birtast einkenni orða og orðanotkunar í margbreytilegri mynd. Þegar athyglin beinist að tilteknum orðum er hið setningarlega umhverfi einkum í sjónmáli, einkennandi orðavensl og orðasambönd verða sýnileg og marka hverju og einu sérstöðu gagnvart öðrum orðum. Merkingarleg vensl orðanna eru óskýrari á yfirborðinu, en að vissu marki má greina þau með hliðsjón af notkunarmunstrum í textunum þar sem merkingarskyld orð og sambönd reynast eiga samleið.

Í Íslensku orðaneti er orðanotkun í textasöfnum dregin fram og látin vitna um merkingarvensl innan orðaforðans. Þar hafa hliðskipuð sambönd með tengiorðinu og reynst gegna athyglisverðu og mikilvægu hlutverki. Í erindinu verður greint frá þessu hlutverki, brugðið upp dæmum um hliðskipuð sambönd jafnt meðal orða sem orðasambanda og vikið að því hvernig greining þeirra getur stutt mat á merkingarskyldleika og merkingarlegri nálægð.

Jón Karl Helgason, prófessor í íslensku sem öðru máli: Danskur pílagrímur á enskum Land Rover: Tilraun Paul Vad um Hrafnkels sögu

Árið 1994 kom út í Danmörku ferðabók rithöfundarins og listgagnrýnandans Paul Vad, Nord for Vatnajøkel. Ferðabók, að nafninu til, en um leið er ástæða til að setja fyrirvara við það hugtak. Kveikja textans er vissulega heimsókn höfundar til Íslands árið 1970 og sagt er frá einu og öðru sem á vegi hans varð á leiðinni en höfuðtilgangur virðist samt vera sá að búa lesandann undir að lesa Hrafnkels sögu Freysgoða, enda er hún prentuð í heild sinni sem viðauki við bókina. Einstakir kaflar Vads eru helgaðir útlistun á söguþræðinum, greiningu á höfuðpersónum hennar og samanburði á sögunni og sumum þekktari verk heimsbókmenntanna, svo sem Don Kikóta eftir Cervantes og Furstann eftir Machiavelli. Einn kaflinn rekur útgáfusögu Hrafnkötlu í Danmörku, annar hefur að geyma hugmyndirVads um hvernig hægt væri að kvikmynda söguna, til dæmis í anda ítalsks spaghettí-vestra eða japanskrar samúræjamynda. Síðast en ekki síst á Vad í virkri samræðu við danska Íslandsferðabókahefð og veltir þar vöngum  yfir því hvort heimsókn á sögusvið Íslendingasagnanna sé yfirleitt til þess fallið að auka skilning „pílagrímsins“ á viðkomandi verki. Í fyrirlestrinum verður rætt um það hvernig Vad reyndir að forðast vissar gryfjur sem fyrirrennarar hans hafa fallið í en fellur um leið í sumar aðrar.

Jón Þ. Þór, prófessor í sagnfræði við Háskólann á Akureyri: Samstarf og sjálfstæðisbarátta

Í fyrirlestrinum verður fjallað um danska fjölþjóðaríkið á 18. og 19. öld, stöðu þjóða og hlutverk innan þess. Einkum verður hugað að áhrifum fjölþjóðaríkisins á samstarf Dana og Íslendinga í menningarmálum, ekki síst fræðastörfum og bókaútgáfu á 18. og 19. öld. og tengslum sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld við það.

Jónas Elíasson, prófessor í verkfræði: Shinto, andarnir vísa veginn

Náttúran, þjóðin og hreinleikinn, trúin landið og andarnir. Nokkur dæmi um anda - kami -. Hofið og hofsiðir, lífið eftir dauðann Ríkistrúin, hermannalistir - bushido og þríhendan - haiku -. Nokkrar birtingarmyndir Shinto.

Karl Benediktsson, prófessor í landfræði: Þjónusta vistkerfa – náttúrulaus hugmynd?

Hugtakið „þjónusta vistkerfa“ (e. ecosystem services) hefur rutt sér mjög til rúms í umhverfisorðræðu á undanförnum árum. Með því er gerð tilraun til að draga fram í dagsljósið þau margþættu gæði sem mannlegt samfélag nýtur af hálfu náttúrunnar. Margt náttúruverndarfólk telur þarna vera hugtak sem geti gert náttúruvernd gjaldgenga – í orðsins fyllstu merkingu – í ákvörðunum sem teknar eru á markaði og í stjórnmálum. Það sem oftast hangir á spýtunni þegar rætt er um þjónustu vistkerfa er sú hugmynd að meta megi virði þeirra til fjár með því að verðleggja þá þjónustu sem þau veita. Í erindinu verður þetta skoðað gagnrýnum augum. Auk vafasamrar tengingar við hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar felst gjarnan í talinu um þjónustu vistkerfa afar mannhverf sýn og trú á markmiðsbundna skynsemi, sem styðst við tilteknar tegundir vísindalegrar þekkingar. Um leið er hætta á að litið sé fram hjá þeirri fjölbreytni sem finna má í menningarlegum tengslum samfélaga við náttúruna, nýtingu auðlinda og stjórn. Samt sem áður er mikilsverð kjarnasannindi vissulega að finna í hugmyndinni um þjónustu vistkerfa. Hvernig má koma í veg fyrir að hún sé rænd allri náttúru – gerð náttúrulaus? 

Katrín Anna Lund, dósent í ferðamálafræði og Gunnar Þór Jóhannesson, lektor í ferðamálafræði: Að ferðast inn í myrkrið og fanga norðurljósin

Myrkrið hefur löngum verið tengt neikvæðum öflum, ótta og hættum. Myrkrið flæðir yfir og hylur það sem dagsbirtan lýsir upp; það sem sýnilegt er. Nýlega hafa einstaka fræðimenn veitt myrkrinu athygli og leitast við að draga fram jákvæða eiginleika þess og þá ekki síst spurninguna um hvað ljós væri án myrkurs. Í þessu erindi verður athyglinni beint að norðurljósunum sem segja má að hafi á síðastliðnum þremur til fjórum árum lýst upp skammdegi íslenskrar ferðaþjónustu yfir vetrartímann. Norðurljósin hafa verið virkjuð sem vara og spila stóran þátt í framsetningu ímyndar Íslands í tengslum við markaðssetningu sem er áhugavert í ljósi hverfulleika ljósanna sjálfra sem lúta engri stjórn. Það eru ekki síst duttlungar ljósanna sem sveipa þau þeirri dulúð sem gerir þau eftirsóknarverð. Þetta er dulúð ómannlegra krafta sem manneskjan leitast við að fanga, í tilfelli ferðaþjónustunnar með það fyrir augum að selja myrkrið.

Katrín Axelsdóttir, aðjunkt: Rímmyndun og aðrar gerðir áhrifsbreytinga

Áhrifsbreytingar má greina í ýmsa flokka og undirflokka. Meginflokkarnir tveir hafa stundum verið kallaðir kerfisbundnar áhrifsbreytingar (e. systematic analogy) og óreglulegar áhrifsbreytingar (e. sporadic analogy). Í erindinu verður fjallað um þær gerðir sem hafa verið að verki, eða kunna að hafa verið að verki í beygingarþróun nokkurra fornafna í íslensku. Þessum gerðum verður lýst, sýnd verða dæmi um þær og rætt um hversu algengar þær eru hlutfallslega. Þá verður fjallað um ýmiss konar vanda: vanda við flokkun og skilgreiningu áhrifsbreytinga og vanda við að skipa einstökum málbreytingum í flokka. Þar verður sjónum einkum beint að einum undirflokki óreglulegra áhrifsbreytinga, rímmyndun (e. rhyming formation). Um þessa gerð hefur ekki mikið verið fjallað en hún tengist rími eins og heitið ber með sér.

Kim Simonsen, nýdoktor við SPIN í Amsterdam: Dreamscapes and National Identity: The use of the Pastoral in 19th Century Travel Writing

19th Century travel literature found its theoretical underpinnings in accounts of the beautiful, the sublime, the pastoral and the picturesque; these modes were notably deeply connected to landscapes. The tradition of national Romantic art, and especially the genre of landscapes in painting and in literature, is obsessed with historicism, memory and national memorials.  In this historicist era of romantic nationalism cultural memory formed a part of the public sphere in a new way involving, which is not very well understood.  The theoretical background to this paper is found in cultural nationalism studies, cultural transfer studies and cultural memory studies. Cultural transfer does not only take place between national entities, but these entities themselves take shape and are articulated as self-images and the cultural memory of a nation as a result of transferral processes between societies. In this paper, national identity is not seen as primordial or natural but as determined by exchange and recognition. Instead of focusing on influence and reception, transferral processes must be examined in more detail. Furthermore, how can scholars account for the remarkable simultaneity between culture-national activities at various points of the European map? The paper explores how landscape images created national identity by connecting imagery of landscapes to the nationalisation of nature. My interest in is to explore the interplay between the ideology of landscapes and memory as seen in the imagined landscapes, utopian ideas and in the use of pastorals in 19th century. Also how pastorals deal with time and rural retreat but also romanticized images of both nature and culture, connecting memory with landscape- and identity-formation. Therefore, pastorals are somewhat escapist, highly selective reflections on past country life, in which old values are ‘rescued’. In this sense, I will make an argument for seeing the pastoral as both a genre of memory and also a requiem for a lost world, as well as part of a larger ideology of cultural nationalism in Europe.

Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Not margmiðlunarefnis í tileinkun orðaforða og lesskilnings

Orðaforði og lesskilningur eru meðal grundvallarþátta í tileinkun annars máls. Margmiðlunarefni býður upp á ómæld tækifæri til tungumálakennslu og -náms og nýtur netstudd kennsla (CALL) víða vaxandi fylgis. En hvernig bera málnemar sig að í námi á netinu? Mörgum spurningum er ósvarað um atferli nemanna; hvernig þeir nálgast texta og hvaða aðferðum þeir beita við að þróa lesfærni og kunnáttu í orðaforða. 

Í erindinu verður fjallað um rannsókn á nemum í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands sem nota vefnámskeiðið Icelandic Online við tileinkun orðaforða og lesskilnings. Rætt verður um það hvernig þeir nýta þennan miðil, námsaðferðir og viðhorf þeirra til slíks námsumhverfis. Niðurstöðurnar sýna m.a. fram á kosti margmiðlunar í íslenskunámi og að málnemarnir nota innbyggða stuðningsmiðla á annan hátt en spáð hafði verið.

Kristín Bjarnadóttirrannsóknarlektor, Þórdís Úlfarsdóttir, ritstjóri, og Jón Friðrik Daðason, rannsóknarmaður: Úrvinnsla úr textasöfnum: Tól og verkefni sem eru til og ekki til.

Textasöfn eru til ýmissa hluta nytsamleg en gagnsemi þeirra byggist ekki síst á því að tæknilegur frágangur á þeim og þau tól sem til eru geri vinnu við þau auðvelda.

Leitarvél er grundvallartólið í vinnu við textasöfn en til þess að hún komi að fullum notum dugar einföld strengjaleit skammt. Í leit að íslenskum orðum er t.d. óhjákvæmilegt að leita að öllum beygingarmyndum orðs í einu. Leitarniðurstöður úr textasöfnum verða þeim mun betri eftir því sem tólin henta betur til þess að finna og greina rannsóknarefni manna. Til þessa hafa verið búin til ýmiss konar tól og önnur eru í undirbúningi, s.s. nafnaþekkjari, orðtökutól, markarar, lemmald, leiðréttingartól og tól sem breytir eldri stafsetningu til nútímamáls. Á hverjum tíma byggist úrvinnsla úr textasöfnunum á því hvaða tól eru til en jafnframt sýnir verkefnisvalið oft hvert hugurinn stendur í framtíðarverkefnum.

Kristín Guðrún Jónsdóttir, lektor í spænsku: Dýr og kynjaverur í örsögum frá Rómönsku Ameríku

Þegar örsögur frá Rómönsku Ameríku eru skoðaðar kemur fljótt í ljós að dýr og ýmiss konar furðuverur skipa stóran sess í hugum höfunda álfunnar. Þennan áhuga má rekja allt til miðbiks tuttugustu aldar, en þá komu út tvö verk sem marka án efa þáttaskil í að glæða þennan áhuga: Manual de zoológica fantástica eftir Jorge Luis Borges og Bestiario eftir Juan José Arreola. Í þessum verkum gætir áhrifa frá dýratölum miðalda (bestiarium-hefðinni) en einnig krónikum landafundamanna. Í erindinu verður saga þessi rakin, rýnt í val dýra og furðuvera og hlutverk þeirra skoðað. Að lokum verður sjónum beint að verkum tveggja höfunda sem hafa nýlega gefið út verk í slíkum anda: Önu Maríu Shua og Luisu Valenzuela.

Kristín M. Jóhannsdóttir, nýdoktor í málvísindum: Tímatáknun í vesturíslensku

Eitt af því sem hafa þarf í huga þegar gerðar eru rannsóknir á tungumálum er að hægt sé að stýra aðstæðum á þann hátt að myndin sem dregin er upp sé sem nákvæmust. Þetta þýðir að huga þarf vel að rannsóknaaðferðunum sem notaðar eru enda geta mismunandi aðferðir skilað gerólíkum niðurstöðum. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um rannsókn á tímatáknun í vestur-íslensku – sérstaklega hvað varðar notkun á tíð og horfi – og hvernig málhafar velja mismunandi setningagerðir eftir því hvert verkefnið er. Þannig kom t.d. í ljós að framvinduhorf var alls ráðandi þegar málhafar áttu að lýsa mynd sem sýndi einfaldan og einangraðan atburð en nútíðarformið varð æ algengara eftir því sem sagan varð samfelldari. Þá var greinilegur munur á notkun lýsingarháttar þátíðar og loknu horfi II eftir því hvor rannsóknaaðferðin var notuð. Það er því ljóst að ein rannsóknaraðferð dugar skammt þegar lýsa á máli.

Kristjana Kristinsdóttir, lektor í skjalfræði: Lénsreikningar 1645 til 1648

Fyrirlesturinn fjallar um íslenska lénsreikninga frá árunum 1645 til 1648. Á þeim tíma var landið svokallað reikningslén og fékk lénsmaður, sem þessi ár var kallaður konunglegur fógeti, föst laun frá konungi fyrir stjórn sína á landinu. Reikningarnir eru þannig upp byggðir að fyrst eru allir tekjuliðir konungs færðir, bæði í peningum og fríðu og samtala þeirra reiknuð. Síðan koma allir útgjaldaliðir, eða það sem dróst frá tekjunum með samtölu. Reikningarnir voru endurskoðaðir í rentukammeri og þar skrifaðar ýmsar athugasemdir við einstaka reikningsfærslur og er oft  vísað til kvittana. Reikningunum fylgja því kvittanir og t.d. sakeyrisskrár auk þess sem jarðabók yfir konungsjarðir í Gullbringusýslu er skrifuð inn í reikningana þessi ár.

Kristján Árnason, prófessor í málfræði og Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi í málfræði: Málbrigði og alþýðumálfræði: Þekking og mat einstaklinga á staðbundnum framburðareinkennum

Vitað er að breytileiki máls er minni hér á landi en í mörgum nágrannalöndum. Hér eru ekki mállýskur til jafns við það sem þekkist t.d. í Noregi eða í Færeyjum. Samt er til breytileiki og mat á tilbrigðum í máli er misjafnt. Heyrst hefur til dæmis að það sé mál manna að hvergi sé íslenskan fegurri en á Norðurlandi. En hversu útbreitt er þetta viðhorf í raun og hverjir eru þessarar skoðunar? Eru það aðallega Norðlendingar sjálfir eða finnst öðrum landsmönnum norðlenskan fallegri en þeirra eigið mál? Í fyrirlestrinum verður þessum spurningum svarað og sagt frá fleiri niðurstöðum úr athugun á því hvaða framburður fólki þyki fallegastur. Einnig segir frá viðtölum við aldna Íslendinga í þremur landshlutum sem spurðir voru um landshlutabundinn framburðarmun, þekkingu þeirra á honum og viðhorf. Í viðtölunum kom meðal annars fram skýr vísbending um að íslensk framburðarafbrigði séu misvel þekkt og að hugtök eins og sunnlenska og norðlenska hafi ekki endilega skýra merkingu í huga almennings þegar grannt er skoðað. Þá kom og fram að þótt almenningur noti gjarna svipuð orð til að lýsa framburðarmun og málfræðingar er ekki þar með sagt að rætt sé um það sama.

Kristján Jóhann Jónsson, dósent: Þjóðerni, skáldskapur, þversagnir og vald, - eða er sagan alltaf sama sagan

Rætt verður um nýsöguhyggju. Skáldið og fagurfræðingurinn Grímur Thomsen varð athyglisvert söguefni samlanda sinna. Í ýmsu af því sem sagt hefur verið af Grími, og kennt sem bókmenntasaga,  hefur þörfin fyrir litríkar frásagnir ráðið för, frekar en smámunasemi í heimildanotkun og tengsl við menningarsögu og umhverfi.

Sjálfur endursagði Grímur Íslendingasögur og gaf út í Danmörku í frásagnaþáttum og sagði margar sögur úr íslenskum miðaldabókmenntum í kvæðum sínum og hallaðist þá einmitt að litríkum frásögnum frekar en smámunasemi í heimildanotkun. Í þeim sögum sem sagðar voru af Grími og þeim sögum sem hann sagði af íslenskri menningu birtist sterk þörf til þess að horfa á söguna í ljósi samtímans en það er einmitt einn af hornsteinum nýsöguhyggjunnar.  

Ludger Zeevaert, fræðimaður á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Að marka Gullskinnu. Málfræðilegar rannsóknir á Njáluhandritum frá 17. öld

Skinnhandrit Njálu er búið að skoða nokkuð vel, en það sama er ekki hægt að segja um pappírshandritin. Með rannsókn sem byggð er á einum kafla sögunnar tókst að fjölga hóp þekktra Gullskinnuhandrita úr 7 upp í 26 (sbr. erindi Alaric Hall). Aðferðin sem var notuð til að bera saman handritin byggir á uppskriftum handritanna sem gætu komið að gagni líka í öðru samhengi. Markmiðið er að skapa gagnagrunn sem væri hægt að nota fyrir allar hugsanlegar rannsóknarspurningar í sambandi við Njálu, en Gullskinnuverkefnið er gott tækifæri til að nota reynsluna frá Njáluverkefninu til að betrumbæta aðferðina þar sem uppskriftarvinnan er enn á byrjunarstigi. Í erindi mínu ætla ég aðallega að segja frá tilraunum sem voru gerðar í samvinnu við orðfræðisvið Árnastofnunar. Reynt var að nota máltækni sem var upprunalega þróuð fyrir nútimaíslensku til að marka Njáluhandrit frá 17. öld málfræðilega, en málfræðileg mörkun myndi auka notkunarsvið textanna töluvert. Auðvitað má búast við að ýmis vandamál komi upp þegar reynt er að búa til gagnagrunn fyrir textafræðilega útgáfu og rannsóknir um setningafræði og tengsl á milli handrita, en ég vonast samt til að geta lýst í stórum dráttum hvernig hægt væri að ná þessu markmiði. 

Magnús Karl Magnússon, prófessor, Læknadeild, HÍ: Hvað segir reynslan af nýtingu erfðatækni í læknisfræði okkur um hugsanlega hættu af erfðabreytingum í landbúnaði fyrir heilsu fólks? 

Erfðatækni hefur verið notuð í áratugi til að auka öryggi og gæði ýmissa lyfja og í þróun nýrra meðferðarmöguleika, s.s. genalækningar. Mikil gögn liggja fyrir um öryggi og ávinning af nýtingu þessarar tækni í nútíma læknisfræði. Þrátt fyrir þessa miklu þekkingu og innsýn í notkunarmöguleika líftækninnar er mikil tortryggni gagnvart nýtingu hennar í landbúnaði þar sem því er meðal annars haldið fram að slíkri notkun fylgi mikil hætta fyrir heilsu fólks. Fjallað verður um hvort og þá hvernig landbúnaðarafurðir úr erfðabreyttum lífverum gætu skaðað heilsu fólks út frá þeirri reynslu sem nú er fyrirliggjandi.

Margrét Jónsdóttir, prófessor í málfræði: Um breytta og breytilega notkun sagnarinnar kvíða

Allar eldri heimildir bera þess vitni að sögnin kvíða hafi verið persónuleg sögn, þ.e. með frumlagi í nefnifalli. Upp úr miðri 20. öld eru dæmi um ópersónulega notkun sagnarinnar. Frumlagið er þá ýmist í þolfalli eða þágufalli. Einu gildir hvort sögnin er sögn með forsetningarlið eða áhrifssögn. Sé sögnin áhrifssögn eru dæmi um andlag í þolfalli sé frumlagið í þolfalli. Persónulega notkunin er þó enn ráðandi.

Í fyrirlestrinum verður þessi hegðun skoðuð nánar og dæmi sýnd. Jafnframt verða aðrar sagnir skoðaðar til samanburðar.

Marion Lerner, lektor í þýðingafræði: Hver er ábyrgð þýðandans þegar um ófrágenginn frumtexta er að ræða? Hugleiðingar í tilefni af þýðingu á Ferðabók Tómasar Sæmundssonar

Á árunum 1832-34 ferðaðist Tómas Sæmundsson um Evrópu og víðar. Eftir heimkomuna til Íslands samdi hann drög að Ferðabók sem hann hins vegar lauk aldrei við. Drögin komu svo út sem Ferðabók Tómasar Sæmundssonar árið 1947. Í erindinu verður stuttlega farið yfir sögu textans og sérkenni hans. Síðan verður velt upp spurningum í sambandi við hugsanlega þýðingarstefnu. Augljóslega er þessi sögulegi texti afar menningar- og tímabundinn. Höfundur miðaði að því að upplýsa íslenska lesendur sína um það sem var nýtt og gagnlegt í evrópskri menningu samtímans. Til að lýsa þessum framandi veruleika þurfti hann að tileinka sér orð og hugtök úr erlendum málum og lagðist í umfangsmikla nýyrðasmíð. Einnig fyrirfinnast slettur og önnur sérstök blæbrigði 19. aldar íslensku. Hvernig getur þýðandi komið þessum einkennum textans til skila? Er það yfirleitt æskilegt þegar um ófrágengin og óyfirlesin drög er að ræða sem höfundur kvaðst sjálfur vera óánægður með? Hvernig ákveður þýðandi stefnu sína?

Marion Poilvez, doktorsnemi: Facing the chieftain: Outlawry in dynamics of power in the Íslendingasögur

In a society without centralized power such as medieval Iceland, violence was contained through feuds. When feuds escalate, outlawry often appeared as the last resort to prevent an outburst of killings. In theory, outlaws become literally out-of-the-law and thus outside social concerns.Yet, in practice, they are forced to haunt the margins of the icelandic society, as a legal specification of their condition –the interdiction to be transported (óferjandi)- keeps them within the natural borders of Iceland. They become an unpredictable threat to farmers and the goðar have to gather both men and means to help to stop the trouble-maker(s). Thereafter, a manhunt till death is lauched in the district.

Through several case-studies from the Íslendingasögur, this paper aims to analyze how outlaws from the saga-age are represented in their dynamic links with powerful men and legal advocates. Some questions will be addressed, such as: Were outlaws benefitial to chieftains in their raise to power? Are some outlaws represented as respectable opponents to chieftains? What are the consequences of their spats? The analysis will hopefully help to identify outlawry as an elaborate social structure that played a decisive role in a medieval society without a king.

Matthew Whelpton, dósent í enskum málvísindum og Þórhalla Guðmundsdóttir Beck, málfræðingur: Fætur ofan á diski. Um merkingarlega könnun á vesturíslensku og kanadískri ensku
This paper reports on a semantic elicitation experiment carried out among speakers of North American Icelandic (hereafter NA Icelandic; cf. Arnbjörnsdóttir 2006 and references there) and local Canadian English during a trip to Manitoba, Canada, in April and May 2013. The experiment builds on work already conducted as part of a large European project (EOSS 1); Majid, Jordan, and Dunn 2011) studying the semantics of Indo-European languages, including Icelandic. During the Manitoba trip, the EoSS experiment was re-run for three domains (containers, body parts and spatial relations). Preliminary results show: significant vocabulary attrition; variation in lexical forms and grammatical class; no evidence of a shift from Icelandic extensions to Canadian English extensions but rather a broadening of extensional range; moreover, distinctive features of Icelandic usage persist, e.g. productive compounding and complex preposition usage (cf. Berthele et al. 2013).

Arnbjörnsdóttir, Birna. 2006. North American Icelandic – the Life of a Language. Winnipeg: University of Manitoba Press.

Berthele, Raphael, Matthew Whelpton, Åshild Næss, Pieter Duijff, and Cornelia van Scherpenberg. 2013. “Static Spatial Descriptions in Five Germanic Languages.” Language Sciences to appear.
Majid, Asifa, Fiona Jordan, and Michael Dunn. 2011. Evolution of Semantic Systems Procedures Manual. Nijmegen: Max Planck Institute for Psycholinguistics.

1) http://www.mpi.nl/departments/other-research/research-consortia/eoss/pro...

Már Jónsson, prófessor: Elskandi unnusti, elskandi sonur og elskandi faðir. Átta óbirt bréf Jóns Thoroddsen til þriggja kvenna 1842-1865

Til eru nokkur bréf sem Jón Thoroddsen sýslumaður og skáld skrifaði unnustu sinni og barnsmóður Ólöfu Hallgrímsdóttur Thorlacius árið 1842, móður sinni Þóreyju Gunnlaugsdóttur árin 1849–1853 og Elínu dóttur sinni árin 1861–1865. Flest þessara bréfa komu nýlega í leitirnar og ekki hefur verið fjallað um þau áður. Konurnar þrjár kveður hann sem „elskandi“ unnusti, sonur eða faðir. Reynt verður að útskýra hvað í þessari kveðju  fólst hverju sinni og hvernig sú yfirlýsta ást birtist að öðru leyti í texta bréfanna, með aðstæður og fyrri samskipti sem baksvið túlkunar. Rétt er að geta þess að ekkert bréf er varðveitt frá Jóni til eiginkonu sinnar Kristínar Ólínu Þorvaldsdóttur Sívertsen og almennt lítið til af bréfum frá honum og til hans.

Miriam Mayburd, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Material agency and fragmentation of the self in Kormáks saga

There is a strange scene of a duel in Kormáks saga, the building up to which seems to disproportionally outweigh its outcome. Kormákr, rash, impulsive and hot-tempered, is about to clash with Hólmganga Bersi, a seasoned dueller as his byname implies. Both carry magic weapons to the fight: Bersi a small iron-rimmed shield given to him by the witch Þorveig, and Kormákr the legendary sword Sköfnungr once wielded by king Hrólfr kraki. The stake is high for both participants: Kormákr is fighting for Steingerðr who is currently married to his opponent. For all of these factors, the duel itself is innocuous, and the worst of it amounts to Kormákr walking away with a cut in his thumb. Stranger still, this innocuous scuffle warrants as many as seven stanzas in the saga, recited by Kormákr as he describes this duel to his relatives after the event. Considering the amount of verse devoted to this incident, it may not have been as insignificant as it seems. Does it contain some crucial elements that shed more light on other parts of the story? Kormákr's memorable if brief relationship with this sword does not seem to have attracted critical attention to date. It will be argued that Kormákr's contact with Sköfnungr in its capacity as a magic weapon, as well as his deliberate mistreatment of this object, has left a direct impact on him, the ripple effects of which spreads throughout the narrative. This scene from Kormáks saga will serve us as a springboard into the bigger question – how material objects were perceived to affect bodies, and the medieval conception of the self.

Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor í þýsku: Hvernig leggja menn skóna á hilluna í þýsku?

Í erindinu mun ég fjalla um rannsóknar á notkun og tíðni orðtaka (Frequenzvor¬kommensanalyse) í íþróttafréttum þýskra og íslenskra dagblaða. Með því að orðtaka blaðatexta sem spanna ákveðið tímabil og safna kerfisbundið öllum orðtökum og afbrigðum þeirra sem þar koma hefur orðið til gagnagrunn sem annars vegar gefur mikilvægar upplýsingar um notkun og tíðni orðtakanna og hins vegar um í hvaða formi þau eru notuð, þ.e.a.s. er um afbrigði, tilbrigði, afbökun eða er um „ranga“ notkun að ræða. Áhugavert getur verið að kanna hvort fyrir kemur samsláttur tveggja orðtaka í slíkum rauntextum?Með orðtíðnirannsókninni sem ég greini frá fást mikilvægar upplýsingar um það hvaða orðtök eru notuð og hvort þau koma fyrir sem afbrigði eða í því formi sem þau eru gefin upp í uppflettiritum. Og væntanlega fást svar við því hvort menn leggi skóna á hilluna í þýsku 

Oddur Vilhelmsson, prófessor í líftækni, HA: Er of gaman á rannsóknastofunni? – Hugleiðingar um óbærilegan léttleika erfðatækninnar

Umræða um erfðatækni og erfðabreyttar lífverur er lífleg í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og ýmsum öðrum óritrýndum vettvangi um þessar mundir – jafnvel full lífleg að sumra mati. Leikir sem lærðir vaða elginn, stundum af meira kappi en forsjá, og hefur borið á því að mönnum hafi þótt skorta á aga og vandvirkni í vinnubrögðum. En skyldi hið meinta agaleysi einnig ná inn á rannsóknastofuna? Eru sameindalíffræðingar of léttúðugir? Eru erfðabreytt matvæli búin til einfaldlega af því að vísindamenn hafa gaman af því að leika dr. Frankenstein? Oddur Vilhelmsson ræðir vítt og breitt um þau tækifæri sem erfðatæknin skapar í matvælaiðnaðinum og veltir vöngum yfir því hvernig hægt sé að greina frá þeim á auðskilinn hátt, en þó án léttúðlegrar einföldunar.

Ólafur Páll Jónsson, dósent: Hugsmíðar og sannleikur

Hugsmíðahyggja er ríkjandi kenning eða sjónarmið í menntavísindum og víðar. Það er hins vegar óljóst nákvæmlega hvað slík hyggja felur í sér – því hugsmíðahyggjurnar eru margvíslegar. Gjarnan er litið svo á að hugsmíðahyggja sé ósamrýmanleg því að til sé hlutlægur sannleikur og að þekking geti verið á veruleika sem sé óháður mannlegri vitund. Þótt róttæk hugsmíðahyggja sé örugglega andstæð hluthyggju um veruleikann og vísindalega þekkingu og gangi einnig gegn samsvörunarkenningu um sannleika, þá eru til útgáfur af hugsmíðahyggju sem gera það ekki. Spurningin er þá hvort slíkar útgáfur af hugsmíðahyggju séu í samræmi við það innsæi sem hefur drifið áfram þá sem hafa haldið fram hugsmíðahyggju, t.d. í menntavísindum, svo sem Jerome Bruner o.fl. Í erindinu mun ég fjalla um rætur hugsmíðahyggjunnar, m.a. eins og Bruner lýsir þeim í Acts of Meaning, (1990) og færa rök fyrir því að hægt sé að vinna úr því innsæi, sem var kveikjan að hugsmíðahyggjunni sem einum meginstraumi í rannsóknum í menntavísindum á seinustu áratugum 20. aldar, án þess að gefa eftir hugmyndina um hlutlægan veruleika, hlutlæga þekkingu og samsvörunarkenningu um sannleika.

Pernille Folkmann, lektor í dönskum málvísindum: Er dansk nøglen til det nordiske sprogfællesskab?

Dansk undervises som fremmedsprog i de islandske folkeskoler og gymnasier, og i læreplanen for dansk i gymnasiet står:
“Dönskukunnátta er lykill að Norðurlöndum fyrir Íslendinga. Þeir sem lært hafa dönsku eiga tiltölulega auðvelt með að tileinka sér norsku eða sænsku” (Aðalnámskrá framhaldsskóla : erlend tungumál 1999, s. 43)
Her står det klart og tydeligt at danskundervisningen i Island opfattes som nøglen til det nordiske sprogfællesskab, men hvilke oplevelser har de islændinge der flytter til Norge eller Sverige for at arbejde eller studere, når de skal begå sig på norsk eller svensk?
I oplægget vil der være fokus på islændinges oplevelser af mødet mellem dansk på den ene side og sprogene svensk og norsk på den anden side. Jeg vil præsentere tidligere forskning i forståelse af de nordiske sprog dansk, svensk og norsk i Norden og give mit bud på hvilke spørgsmål der er relevante at besvare.

Pétur Pétursson, prófessor í guðfræði: Ummyndanir í tóminu: nokkur stef í japanskri fagurfræði og hliðstæður þeirra í vestrænum nútímalistum

Fjallað verður um „ma“ (millibilið) og  „ku“  (tómið) í japanskri fagurfræði og tengsl hennar við kínverskar listir og trúarbrögð (zen og dao). Komið verður inn á landslagsmyndir, kalligrafíu og listigarða í þessu samhengi og vísbendingar um það hvernig þessi fagurfræði  endurnærði nýsköpun í listum  Vesturlanda á 20. öld svo sem dada og fluxushreyfinguna. Tekin verða dæmi úr íslenskri ljóðlist og myndlist.

Ragnar Karlsson, aðjunkt við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur á Hagstofu Íslands: Í hlutverki klappstýru eða gleðispillis? Um leiðaraskrif staðar- og héraðsfréttablaða

Leiðarar hafa um langt skeið verið fastur liður í útgáfu fréttablaða. Í leiðaraskrifum eru fréttir gjarnan settar í stærra samhengi fyrir lesendur, áherslulínur blaðs um menn og málefni eru dregnar skýrari dráttum og mál reifuð með beinskeyttari hætti en í almennum fréttum. Í erindinu er gerð grein fyrir niðurstöðum úr megindlegri innihaldsgreiningu á umfjöllunarefni og afstöðu sem birtist í leiðurum þeirra átján staðar- og héraðsfréttablaða sem út komu hér á landi vikulega eða tíðar á s.l. ári. Sýnt er fram á hvernig ólíkar aðferðir við dreifingu, útbreiðsla og samkeppnisstaða blaða hefur áhrif á viðhorf útgefenda/ritstjóra til leiðara og leiðaraskrifa og hlutverks blaðs í samfélagslegri umræðu í héraði.

Ragnheiður Kristjánsdóttir, lektor í sagnfræði: Valdhafar, fræðasamfélag og kosningaréttur kvenna í 100 ár

Alþingi hefur ákveðið að minnast þess að á næsta ári verða liðin 100 ár frá því að konur sem höfðu náð fertugsaldri fengu kjörgengi og kosningarétt til Alþingis.  Þar með er efnt til  annars konar samræðu milli fræðasamfélags og valdhafa en hingað til hefur tíðkast. Áður hefur verið haldið upp á lýðveldisstofnun, kristnitöku, heimastjórn og afmæli Jóns Sigurðssonar. Þar hafa verið í forgrunni karlar sem fóru með völd í landinu, fyrirrennarar ráðherra og alþingismanna. Í þessu tilfelli gefst hins vegar tækifæri til að skoða fortíðina frá öðru sjónarhorni, því þótt sumar konur hafi fengið kosningarétt og kjörgengi til Alþingis árið 1915, komust konur ekki til valda. Hundrað ára afmæli kosningaréttarins hlýtur því að setja óþekktar konur og grasrótarstarf þeirra í forgrunn. Ólíkt hinum atburðunum – og þá sérstaklega heimastjórn – kallar afmæli kosningaréttarins á nálgun þar sem valdhafarnir koma lítið sem ekkert við sögu.

Ragný Þóra Guðjohnsen, doktorsnemi í uppeldis- og menntunarfræði og Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði Menntavísindsviði: Samlíðan ungs fólks og viðhorf þess til borgaralegrar þátttöku

Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna tengsin á milli samlíðunar ungmenna og viðhorfa þeirra til borgaralegrar þátttöku fólks. Borgaraleg þátttaka vísar annars vegar til hefðbundinnar þátttöku fólks (t.d. að kjósa, taka þátt í umræðu um pólitík) og hins vegar til þátttöku þeirra í félagslegum hreyfingum (t.d. vinna að mannréttindum, taka þátt í að vernda umhverfið). Samlíðan snýr annars vegar að vitsmunalegri samlíðan (t.d. „Ég skil að vinur minn sé ánægður þegar hann stendur sig vel í einhverju“) og hins vegar að tilfinningalegri samlíðan (t.d. „Ég á auðvelt með að lifa mig inn í tilfinningar annarra“).

Rannsóknin er hluti rannsóknarinnar Borgaravitund ungs fólks í lýðræðisþjóðfélagi sem annar höfundur erindisins stendur að. Þátttakendur voru 1042 ungmenni (14 og 18 ára) úr grunn- og framhaldsskólum í þremur byggðakjörnum á Íslandi. Spurningalistar voru lagðir fyrir ungmennin.

Helstu niðurstöður benda til að þau ungmenni sem sýna ríkari vitsmunalega og tilfinningalega samlíðan séu líklegri til þess að hafa jákvæðari viðhorf til þátttöku fólks í félagslegum hreyfingum. Ekki virðast koma eins sterk tengsl á milli samlíðunar ungmennanna og viðhorfa þeirra til hefðbundinnar borgaralegrar þátttöku fólks.

Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði og Kristín Lena Þorvaldsdóttir, málfræðingur á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra: Gulur, rauður, grænn og blár. Breytileiki í litatáknum í ÍTM

Uppruna íslensks táknmáls (ÍTM) má rekja til miðrar 19. aldar og er málið því um 150 ára gamalt. Tákn fyrir grunnlitaheiti (skv. Berlin og Kay 1969) hafa frá upphafi verið 11 talsins í ÍTM. Á 20. öld urðu þó breytingar á táknunum sjálfum vegna áhrifa frá öðrum norrænum táknmálum, einna helst danska táknmálinu. Í dag eru til tvenns konar litatákn fyrir 8 af þessum 11 grunnlitum og ræður aldur málhafa notkun þeirra. Málhafar fæddir um og fyrir miðja 20. öld nota 19. aldartáknin og málhafar fæddir eftir miðja 20. öld nota 20. aldartáknin. Einhver skörun verður þó á hópunum tveimur. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir öllum litatáknum í ÍTM og ástæður þessara breytinga á orðasafninu verða ræddar, en þær má m.a. rekja til vanþekkingar á táknmálum.

Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússneskju: Samband manna og dýra í nokkrum smásögum Ljúdmílu Úlítskaju

Dýr hafa í gegnum tíðina skipað verðugan sess í rússneskum bókmenntum. Þau hafa birst með ýmsum hætti í dæmisögum, einnig sem hversdagslegur en áhrifaríkur og táknrænn hluti mannlegrar tilveru, eða sem furðuskepnur með yfirnáttúrulega og/eða mannlega eiginleika. Í nýlegu smásagnasafni Ljúdmílu Úlítskaju, Þegnar keisara vors, koma dýr talsvert við sögu, bæði sem aðal- og aukapersónur. Hvort sem dýr þessi eru lifandi verur eða eftirlíkingar af einhverju tagi þá eiga þau það öll sameiginlegt að hafa talsverð áhrif á örlög eða aðstæður annarra persóna í bráð eða lengd. Í erindinu verður skoðað hvernig samskiptum manna og dýra er háttað í þessum sögum og hvort dýrin eigi sér ættingja í verkum eldri höfunda.

Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki: Ætti viðskiptasiðferði að vera ókristilegt?

Í fyrirlestrinum verður leitast við að sýna hvernig forsendur sem kristnir menn gefa sér iðulega um siðferði og siðferðilega verðleika falla illa að viðskiptasiðferði (e. business ethics). Þetta birtist t.d. í hugmyndum kristinna um vægi hugarfars og hjartalags, áherslu þeirra á tilfinningar, fórnfýsi og biðlund. Kristnir menn hafa því oft átt erfitt með að koma auga á siðferði í viðskiptum en formælendur viðskiptalífsins hafa líka margir hafnað mikilvægi siðferðis fyrir viðskipti á kristnum forsendum, jafnvel þótt þeir leggi áherslu á samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þá segja þeir gjarnan að samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja hafi ekkert með siðferði (kristið siðferði?) að gera.

Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist: Að þýðast Faulkner

Verk bandaríska Nóbelsskáldsins Williams Faulkner hafa löngum verið talin illþýðanleg sökum stílbragðanna sem hann beitir. Orðaforði er gjarnan sérstæður sem og setningagerð og ekki gera módernísk tiltæki hans heldur þýðanda auðveldara fyrir. Nú hafa þó nánast öll verk hans verið þýdd á aðrar tungur og svo skemmtilega vill til að Norðmenn urðu fyrstir til að þýða verk eftir hann. Á íslensku var hann fyrst þýddur af Kristjáni Karlssyni árið 1956; það var bókin Smásögur. Árið 1969 kom út þýðing Guðrúnar Helgadóttur á Sanctuary undir heitinu Griðastaður. Á síðustu árum hefur Rúnar Helgi Vignisson svo þýtt tvær af hans þekktustu bókum, Light in August (Ljós í ágúst) og nú síðast As I Lay Dying (Sem ég lá fyrir dauðanum). Í fyrirlestri sínum mun Rúnar Helgi fjalla um aðferðafræði sína við þýðingarvinnuna og skoða nálgun sænskra, danskra og þýskra þýðenda. Hann spyr líka um vinnuskilyrði íslenskra þýðenda og hvort þeir hafi nægt svigrúm til að koma framandleika verks á borð við Sem ég lá fyrir dauðanum til íslenskra lesenda.

Rúnar M. Þorsteinsson, lektor í nýjatestamentisfræðum: Kristinn náungakærleikur: Ávöxtur „að ofan“ eða niðurstaða samfélagslegrar samræðu?

Oft hefur því verið haldið fram, m.a. af félagsfræðinginum Rodney Stark, að kenningin um kristinn náungakærleika (og kristið siðferði almennt) hafi verið alger nýjung í fornöld og meira og minna óháð umræðu samtímans í Rómaveldi; m.ö.o að kenning þessi hafi nánast dottið af himnum ofan. Í þessu erindi verða hliðstæðar hugmyndir og kenningar í Rómaveldi á fyrstu öld skoðaðar og á grundvelli þeirra verður ofannefndri skoðun andmælt. Gegn henni verður því ennfremur haldið fram að kristin kenning um náungakærleika hafi myndast og mótast í samræðu við grísk-rómversk samfélög samtímans.

Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar: Heila- og taugarannsóknir: Siðfræðileg álitamál

Markmið rannsókna á heila- og taugakerfi miða flestar að því að auka færni og getu manneskjunnar. Í sumum tilfellum er verið að bæta skaða sem sjúkdómar valda, eins og Parkinson, eða draga úr einkennum taugaþroskaröskun eins og ADHD, en í öðrum tilfellum er stefnt að því að efla getu heilbrigðra einstaklinga, líkt og þegar nemendur sækja í lyf til að efla minni. Í þessum fyrirlestri verða reifuð þau siðferðilegu álitaefni sem tengjast þessum rannsóknum og þeirri spurningu velt upp hversu langt megi ganga í að bæta heila- og taugastarfsemi.

Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur: Mannréttindi, fjölhyggja og umhverfismál í þjóðkirkju 21. aldar

Guðfræðingurinn George Newlands (2006) leiðir líkum að því að mannréttindi geti verið mikilvægasta hugtak nútímans á landfræðipólitíska vísu. Mannréttindaorðræða í kirkjulegu samhengi tengir að dómi Newlands saman siðfræði, helgihald, pólítík og menningu nútímans. Hann bendir á að kristin trú og ímyndir af Kristi hafa einmitt oft verið notið til hins gagnstæða, við að styðja kúgun og undirskipan þræla, kvenfólks og samkynhneigðs fólks, svo dæmi séu nefnd. Fyrir Newlands er ekki nóg að segja að mannréttindabarátta og kristin trú geti farið saman. Hann gengur skrefinu lengra og telur að „Jesús Kristur sé grundvöllur þess að brýnt sé að kristið fólk styðji mannréttindi.“ Erindið gerir grein fyrir kenningum Newlands og fleiri um tengsl kirkju og mannréttinda og þar er því haldið fram að út frá þessum sjónarhóli verða mannréttindin ekki einhver hliðargrein kirkjunnar, tertuskraut, eða falleg yfirlýsing með ekkert gildi á tyllidögum, heldur ein af meginstoð sem grundvallar sjálfsmynd og skipulag kirkjunnar. 

Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði: Það var fyrst rannsakað þessa setningagerð um síðustu aldamót: Samanburður tveggja kannana

Í þessu erindi verða bornar saman niðurstöður könnunar Sigríðar Sigurjónsdóttur og Joan Maling og Tilbrigðaverkefnisins á völdum atriðum tengdum þessari nýju setningagerð. Könnun Sigríðar og Joan var gerð veturinn 1999-2000 og var fyrsta kerfisbundna rannsóknin á þessari nýjung í málinu. Kannanir á nýju setningagerðinni í Tilbrigðaverkefninu fóru fram á árunum 2006-2007 undir stjórn Höskuldar Þráinssonar prófessors. Rannsókn Sigríðar og Joan leiddi í ljós ýmis atriði sem höfðu áhrif á mat þátttakenda á setningagerðinni. Niðurstöður Tilbrigðaverkefnisins, sem fór fram sjö árum síðar, varpa enn skýrara ljósi á þessi tengsl, t.d. landfræðilega útbreiðslu nýju setningagerðarinnar. Þær staðfesta einnig þá niðurstöðu Sigríðar og Joan að félagslegir þættir, þ.e. aldur málnotenda, búseta þeirra og skólaganga, hafi áhrif á mat á nýju setningagerðinni. Niðurstöður þessara tveggja kannana eru hins vegar ólíkar að því leyti að í Tilbrigðaverkefninu kemur ekki fram munur á mati á nýju setningagerðinni með sögnum sem stýra þolfalli og sögnum sem taka andlag í þágufalli. Einnig samþykkja heldur færri unglingar þessa nýjung á árunum 2006-2007 en gerðu það veturinn 1999-2000. Rætt verður um mögulegar ástæður fyrir þessum mun, bæði ólíka aðferðafræði í þessum tveim könnunum og breytt viðhorf fólks til þessarar málbreytingar.

Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki: Siðveran í flækju veruleikans: Femínísk og pósthúmanísk siðfræði

Femínísk siðfræði hefur komið fram með öfluga gagnrýni á húmanisma siðfræðihefðarinnar að því leyti sem hugmyndir heimspekilegrar siðfræði fela í sér hugsjón um mennsku sem hefur ekki hvað síst birst í getu siðverunnar til að fella sjálfráða, algildiskræfa siðadóma. Gagnrýni femínískrar siðfræði á einhliða áherslu á sjálfræði einstaklinga byggir á hugmyndum um siðveruna sem tengslaveru sem er skilyrt á ýmsan hátt af aðstæðum. Þessari gagnrýni liggur til grundvallar sá hugmynd að maðurinn sé líkamsvera og þ.a.l. tilfinningavera. Af því við erum líkamar fæðumst við inn í tengsl við aðra menn, samfélag/menningu og erum í tilteknu ástandi, aldri, kyni, o.s.frv. Í hugvísindum kenndum við pósthúmanisma er að finna nánari útfærslu á mannverunni sem tengslaveru. Mannhverf sýn heimspekilegrar siðfræði víkur þar fyrir póstmannhverfri sýn á manninn sem staðsettur er í tengslum við mennsk og ómennsk dýr, í tæknikerfum og í flækju veruleikans. Hvaða gagn er að þessari sýn fyrir siðfræði samtímans? Sú spurning hlýtur að fela í sér einhverjar vísbendingar um hvers konar siðfræði gæti verið gagnleg og í hvaða tilgangi.

Sigríður Þorvaldsdóttir og María Garðarsdóttir, aðjunktar í íslensku sem öðru máli: Fall eða setningarstaða? Þróun fallaúthlutunar í máltileinkun

Í nýlegum rannsóknum á þróun fallaúthlutunar í máltileinkun er gert ráð fyrir því að málnemar reiði sig á stöðu liðanna í setningunni í byrjun máltileinkunar til að tjá hver geri hvað við hvern í setningunni. Með því er átt við að málnemar túlki alla liði fremst í setningu sem frumlag sem fær nefnifall og liði sem standa á eftir sögn sem „ekki-frumlag“ sem fær „ekki-nefnifall“. Síðar fara málnemar að tengja málfræðihlutverk við setningastöðuna og geta þá komið auga á og merkt frumlög og andlög sem eru ekki á sínum hlutlausa stað í setningunni. Í fyrirlestrinum verður sagt frá niðurstöðum rannsóknar okkar á þróun fallaúthlutunar hjá málnemum í íslensku sem öðru máli og þær ræddar í ljósi erlendra rannsókna.

Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi í íslensku: „Það þarf samskonar neista til þess að vera betlari og listamaður“ eða „hvernig væri að liðið fengi sér vinnu“: Af betlara Halldórs Stefánssonar og fáeinum „afætum“

Fyrir skömmu var listamannalaunum úthlutað, eins og gert hefur verið reglulega um áratugaskeið. Sem fyrr mátti greina óánægjukurr frá hópi fólks, en að þessu sinni barst kurrið ekki síst úr athugasemdakerfum vefmiðla. Umræðan var ekki alltaf málefnaleg, þar sem listamönnum var jafnvel líkt við afætur og betlara. Í fyrirlestrinum verður gerð tilraun til að greina umræðuna, til dæmis með tilliti til líkinga. Þá verður vikið að smásögunni „Betlarinn“ eftir Halldór Stefánsson, sem kom út í miðri kreppu árið 1935. Í sögunni eru dregnar upp ýmsar hliðstæður með listamanninum og betlaranum, sem forvitnilegt er að skoða með tilliti til samtímaumræðu um kjör listamanna.

Sigurður Kristinsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri: Virðing fyrir sjálfræði án ígrundunar.

Í hagnýttri siðfræði er oft vísað til þeirrar mikilvægu siðareglu að virða skuli sjálfræði einstaklinga, sem m.a. er talin leiða af sér kröfur um upplýst samþykki í tengslum við heilbrigðisþjónustu og rannsóknir. Þessi tengsl virðingar og upplýsts samþykkis virðast augljós þegar um er að ræða einstaklinga sem hafa áhuga og hæfni til að vega og meta upplýsingar og taka ákvarðanir sem varða eigin hag í ljósi þeirra. Hagnýtt siðfræði hefur hins vegar vanrækt þá spurningu hvað virðing fyrir persónu/manneskju feli í sér í því tilviki þegar hún er fjarri því að falla að þessari staðalímynd hins upplýsta nútímamanns, t.d. vegna skorts á hæfni, löngun eða vilja, eða vegna þess að skynsamleg yfirvegun ákvarðana samræmist illa lífsgildum eða lífsmynstri einstaklingsins. Í erindinu verður leitað svara við þessari spurningu út frá sjónarhorni kantískrar siðfræði annars vegar og afleiðingahyggju hins vegar. Færð verða rök fyrir því að kantíska nálgunin eigi betur við og að sé hún valin leiði það til ákveðinna svara við því hvernig bregðast ætti við aðkallandi vanda og hvernig starfsreglur og siðareglur ættu að leiðbeina um slíkar aðstæður.

Sigurður Pétursson, lektor í grísku og latínu við Háskóla Íslands: Tveir Gullfossar. Hlutverk þeirra og félagslegt gildi

Siglingar og sjósókn í víðum skilningi hafa ætíð verið ein meginforsenda þess að hægt sé að lifa mannsæmandi lífi á Íslandi. Í aldaraðir voru samgöngur til annarra Evrópulanda í höndum erlendra aðila. Þegar sjálfstæðisbaráttan efldist myndaðist því eðlilega bæði ósk og nauðsyn þess að Íslendingar sæju sjálfir um þennan mikilvæga þátt. Með þetta að leiðarljósi var Eimskipafélag Íslands stofnað árið 1914 og skip þess urðu bæði mikilvægir hlekkir í efnahagslífi þjóðarinnar og um leið tákn sjálfstæðs Íslands. Flaggskip félagsins voru Gullfossarnir tveir. Sá eldri var fyrsta skip félagsins og sigldi í 25 ár (1915-1940) og sá yngri í 23 ár (1950-1973). Hér verður athyglinni beint að tilgangi og hlutverki þessara skipa og reynt að bregða upp mynd af félagslegu gildi þeirra í þjóðlífi Íslendinga.

Sigurveig H. Sigurðardóttir, dósent í félagsráðgjöf: Samskipti kynslóða, aðstoð og stuðningur

Rannsóknir öldrunarfræða hafa sýnt að góð félagsleg tengsl eru eldra fólki mikilvæg og skipta máli varðandi velferð þeirra. Fjölskyldurannsóknir hafa einnig lagt áherslu á mikilvægi góðra tengsla barna og ungmenna við afa sína og ömmur. Aukið langlífi hefur áhrif á samband kynslóðanna og tíminn sem afar og ömmur eiga með barnabörnum sínum er lengri en áður var. Í erindinu verður fjallað um mikilvægi þessara tengsla og meðal annars gerð grein fyrir niðurstöðum nýrrar rannsóknar um tengslin á milli afa og ömmu og barnabarna og hvers konar aðstoð kynslóðirnar eru að veita hvor annarri. Einnig verður fjallað um kynjamun á samskiptum og hvernig kyn millikynslóðarinnar, þ.e. foreldra barnanna hefur áhrif á tengslin. Gagnkvæm aðstoð milli afa/ömmu og barnabarna getur haft áhrif á líðan beggja kynslóðanna og haft áhrif á skipulag velferðarþjónustu við báða aldurshópana.

Skúli SkúlasonAð hafa tilfinningu fyrir náttúrunni í vísindum

Náttúran sem við mennirnir erum hluti af er margbrotin og flókin og skilningur okkar á henni er mjög takmarkaður. En frammi fyrir hinu óþekkta kviknar forvitnin og þráin eftir því að vita meira og verða þannig virkur þátttakandi í undrum náttúrunnar.  Þegar svona samband manns við náttúruna fær tækifæri til að þroskast felur það í sér fegurð og ástríðu og er best líst sem vináttu. Í vísindum leiðir þetta vináttusamband til þess að við sjáum betur þau verðmæti sem náttúran felur í sér; og við eigum auðveldara með að vanda okkur og miðla þeirri þekkingu sem við öflum með þessum hætti til gleði og gagns fyrir hinn mannlega veruleika. Rannsóknaraðferð náttúrufræðingsins Guðmundar Páls Ólafssonar fellur mjög vel að þessari hugsun. Hann þroskaði sterka tilfinningu fyrir umhverfi sínu og var sannur vinur náttúrunnar sem hann þráði að skilja og kenna okkur að umgangast á réttan hátt.

Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Háskólasetur HÍ á Hornafirði: Hetjur og hyski: Rætur Snopes fjölskyldunnar

Í mörgum verkum Williams Faulkners koma fyrir persónur af Snopes ættinni en það er heldur vafasamt lið; sannkallað hyski í augum margra. Í skáldsagnaþrennu Faulkners: The Hamlet (1940), The Town (1957) og The Mansion (1959) er sögð sagan af því hvernig nokkrir meðlimir þessarar alræmdu fjölskyldu hreiðra um sig, fyrst í sveitaþorpinu Frenchman‘s Bend, í SuðausturYoknapatawpha héraði, og síðar í borginni Jefferson sem er miðja héraðsins. Lýst er hvernig Snápunum tekst smám saman, með ýmsum óhreinum meðölum, að komast til auðs og valda á kostnað gamalgróinna og virta ætta sem áður réðu ríkjum í Yoknapatawpha.

Margir líta á söguna af uppgangi Snápanna sem táknsögu um þær breytingar sem urðu í Suðurríkjum Bandaríkjanna þegar Norðurríkjamenn tóku að flytja sig suður á bóginn og umbylta Suðurríkjamenningu. En í erindi mínu mun ég líta enn norðar og draga fram líkindi sem sjá má með persónum þríleiksins og frægum hetjum norrænna sagna, nánar tiltekið af ætt Niflunga. Skoðuð verða einnig atvik úr frásögn þríleiksins sem eiga óvæntar samsvaranir við hinar norrænu sagnir.

Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræði:  Þú skalt ekki stela! Hagnýting siðfræði í viðbrögðum við kynferðisofbeldi innan trúarstofnana.

Fjöldi kirkjudeilda víða um heim hefur um lengri tíma staðið frammi fyrir þeirri staðreynd að meðal vígðra þjóna kirknanna eru kynferðisafbrotamenn sem brjóta gegn sóknarbörnum sínum. Í fyrirlestrinum verður rýnt í guðfræðilega og siðfræðilega greiningu og túlkun Dr. Marie M. Fortune á þessu vandamáli. Fortune segir kynferðislegt ofbeldi vera synd og til að fordæma hana lítur hún til boðorðanna tíu. Það er þó ekki sjöunda boðorðið, „Þú skalt ekki drýgja hór“ sem hún tengir syndina við, heldur áttunda boðorðið, „ Þú skalt ekki stela“. Guðfræðileg og siðfræðileg túlkun Fortune á áttunda boðorðinu í tengslum við kynferðislegt ofbeldi er rædd jafnframt því sem leitast er við að skýra skilning Fortune á kynverund manneskjunnar sem liggur til grundvallar fyrrnefndri túlkun hennar.

Stefanie Bade, doktorsnemi í íslenskri málfræði: Icelandic language policy and the assessment of immigrants' unconventional language use (Íslensk málstefna og viðhorf til óhefðbundinnar málnotkunar innflytjenda)

This Ph.D. project is concerned with social and sociolinguistic aspects of the newly emerged multicultural society in Iceland, focusing on how and by what means Icelanders assess immigrants' use of the Icelandic language. It thus engages primarily with Icelanders' reactions to unconventional language use and especially foreign-accented speech. In this regard, Icelanders' attitude towards the Icelandic language policy will be investigated through questions about whether concepts like originality and purity of the Icelandic language influence Icelanders' attitude towards their mother tongue, and if so, to what extent.

In the course of examining the aforementioned questions, audio material will be recorded with a group of immigrants to capture their foreign-accented speech when speaking Icelandic. That material will in turn be played for a group of Icelanders, who will discuss their views on their own language as well as the unconventional language use of immigrants in focus group discussions as well as in-depth interviews.

Embedded in this research is a five month project grant by Rannsóknasjóður Háskóla Íslands, which will be spent in investigating how Icelanders perceive and what their attitudes are towards proper and improper Icelandic.

Stefano Rosatti, aðjunkt í ítölsku: Kvenfrelsi og undirokun. Sérkennileg þverstæða hjá þrem ítölskum kvenrithöfundum í lok 19. aldar

Í erindi mínu mun ég fjalla um ævisögu ítölsku rithöfundanna Matilde Serao (1856-1927), Anna Radius Zuccari (öðru nafni Neera, 1846-1918) og Rina Faccio (öðru nafni Sibilla Aleramo, 1876-1960) og mun ég greina í stuttu máli nokkur ritverk þeirra sem nutu mikilla vinsælda á sínum tíma. Þessar þrjár konur eru tengdar femínisma sem á Ítalíu sameinaðist hreyfingu sósíalista í lok aldarinnar. Athyglisvert er að tvær af þeim (þ.e. Serao og Neera) eru sérlega mikið á móti femíniskum hugmyndum (menntun fyrir konur, kosningarétti kvenna  o.s.frv.), þó að þeirra líf sé til fyrirmyndar hvað varðar kvenfrelsi. Hins vegar er sú þriðja (þ.e. Aleramo) undirokuð og kúguð sem unglingur og ung kona en hugmyndir hennar eru svo þróaðar að hin stórkostlega sjálfsævisaga hennar, Una donna, er talin fyrsta femíniska í bókmenntaverkum Ítalíu.

Steinþór Steingrímsson, tölvunarfræðingur: Íslenskur texti: Yfirlit yfir málheildir og textasöfn, aðgengileg, óaðgengileg og þau sem ekki eru til

Textasafn er safn texta sem formaðir eru með ákveðnum hætti. Textarnir geta verið alveg hráir, þ.e.a.s. hreinn texti, eða markaðir, t.d. með málfræðilegri greiningu, upplýsingum um höfund eða ártali. Textasöfn má nota til að greina málfræðilega þætti tölfræðilega, búa til tungumálalíkön fyrir hvers kyns máltæknitól, skoða breytingar í málnotkun yfir lengri tíma eða jafnvel greina stemningu í málsamfélaginu á ákveðnum tíma.

Á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er haldið utan um nokkur textasöfn. Þessi textasöfn eru misjafnlega aðgengileg. Einhver eru opin öllum en önnur eru lokaðri. Farið verður yfir hvernig má betrumbæta þau textasöfn sem til eru og opna eins og mögulega er hægt. Einnig hvernig er hægt að búa til ný textasöfn úr textum sem eru til en hafa ekki verið gerðir aðgengilegir.

Sumarliði Ísleifsson, doktorsnemi í sagnfræði og ritstjóri: Ferðalýsingar frá Íslandi fyrir 1750 – sex frásagnir: Hvað segja þær okkur, hver eru helstu einkenni þeirra?

Í erindinu verður fjallað um ferðabækur sem tengjast Íslandi á tímabilinu 1550 til 1750 en einungis sex slík rit eru til frá þessu tímaskeiði. Rætt verður um hvers eðlis þessi rit eru og fjallað um þau sem dæmi þess mikla fjölbreytileika sem ferðabækur eru. Jafnframt verður vikið að myndskreytingum sem birtast í þessum bókum og kannað hvað þær hafa fram að færa. Þá verður gerð grein fyrir hvernig megi nýta þessi verk í sagnfræðirannsóknum og getið um þá hefð sem hefur verið ráðandi í þessu samhengi hérlendis. Samhliða verður bent á aðra möguleika. Meginatriðið er þó að greina þann boðskap sem birtist í þessum verkum. Hvers eðlis er hann? Hvers konar svæði er Ísland með tilliti til ferðalýsinganna; hluti af hvaða veröld er landið og íbúar þess? Eru þær ímyndir sem birtast í þessum verkum  svipaðar eða ólíkar? Hvaða samlíkingar eru helst notaðar, hverjum eru Íslendingar helst taldir líkjast? Loks verður rætt um viðtökur á þessum verkum hérlendis og hver hefur orðið merking þeirra í samtímanum.

Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki: Hugleiðing um hagnýta siðfræði í ljósi sögunnar

Heimspekingum fornaldar þótti mikilvægt að spyrja hvernig lífinu skyldi lifað. Spurningin var mikilvæg vegna þess að svarið átti að ráða því hvernig þeir höguðu lífi sínu. Þessi sýn á samband fræða og lífs hefur heillað. En siðfræði hefur ekki alltaf verið beintengd lífinu á þennan hátt (þótt hagnýt siðfræði samtímans fáist vissulega við afmörkuð vandamál, hvort heldur hún geri það á grundvelli siðfræðikenninga eða ekki). Innan samtímans hefur slíkt samband jafnvel talist gild réttlæting siðfræðinnar. Hverjar voru forsendur heimspekinga fornaldar sem beintengdu fræðin og lífið?

Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor: Benedikt Gröndal, bréfaskáld

Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson (1826–1907) var afkastamikill og skemmtilegur bréfritari. Sendibréf hans urðu oft vettvangur skáldskapar og skriflegra uppátækja. Bréfavinir hans fengu því iðulega frumsamin verk með pósti, ýmist ljóð, leikþætti eða sögur. Gröndal skrifaði t.d. skáldleg bréf til Eiríks Magnússonar bókavarðar, Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara og Jóns Sigurðssonar forseta, en skemmtilegust voru þó sennilega ljóðabréfin sem hann skrifaði vinkonu sinni Sigríði E. Magnússon, konu Eiríks. Í fyrirlestrinum verður fjallað um skáldleg bréf Gröndals og vikið að sendibréfum sem sérstöku listformi skálda sem finna í þeim meira frelsi en í hefðbundnum greinum bókmennta.

Torfi H. Tulinius, prófessor: Law and outlaws: the role of the goði and his relationship to the outlaw

The Sagas about early Icelanders (Íslendingasögur) often portray chieftains (goðar) in their interaction with other members of society as well as with each other. So do the contemporary sagas (samtíðarsögur) as well as a number of other sources, especially the preserved law-code Grágás dating from the Free State period. This paper will concentrate on how the role of the goði is described in his relationship with the outlaw. A comparison of how these different types of sources present this relationship, allows the construction of a clearer picture of the social role of the chieftain. The results will be discussed in the wider context of the Sagas about early Icelanders as expressing a questioning among thirteenth-century Icelanders about the major institutions of their society in a time of crisis and change. 

Unnur Birna Karlsdóttir„Málsvari náttúrunnar“. Um náttúruverndarhugmyndir Guðmundar Páls Ólafssonar

Í fyrirlestrinum verður fjallað um baráttu Guðmundar Páls Ólafssonar fyrir verndun íslenskrar náttúru eins og hún birtist í verkum hans, og þá einkum í riti hans, Hálendi Íslands og Vatnið. Dregnar verða fram helstu áherslur í þeirri hugmyndafræði sem þar birtist og hvernig þær tengjast vestrænni náttúrusýn í víðara samhengi. Einnig verður skoðað í hverju sérstaða Guðmundar Páls í sögu náttúruverndar á Íslandi felst.

Vanessa Isenmann, doktorsnemi í íslenskri málfræði: Computer-mediated communication: a new variety? (Netsamskipti: Nýtt málsnið?)

The Internet and its opportunities for communication increasingly influence the lives of Iceland’s inhabitants. The constantly growing prevalence of online communication is a new testing ground for the use of the Icelandic language.

This paper will outline a Ph.D. project reviewing Computer-mediated-communication (CMC) in Iceland, that is to say (interactive) communication through electronic devices.

CMC has been claimed to differ from standard writing norms as language adjusts to the new possibilities and limitations that arise through changing technologies. Hence, as a hybrid of written, oral, and sign language, Icelandic CMC includes elements associated with (informal) spoken language (e.g. English borrowings), compensation strategies for visual and prosodic elements of communication (e.g. emoticons), as well as spelling facilitations (e.g. writing without diacritics). However, communication on the Internet has not been studied in Icelandic linguistics.

Based on a corpus of forums, blogs, and online comments features and strategies of Icelandic CMC are analyzed on a qualitative and quantitative level. In so doing, their morphological peculiarities, semantic function, and pragmatic role are reviewed. This will help to assess whether CMC can be characterized as a new register or variety of Icelandic.

Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki: Hvernig er hagnýtt siðfræði?

Í erindinu verður leitast við að sýna hvernig siðfræði er hagnýtt og varpað ljósi á helstu spurningar sem vakna við það. Tekið er fyrir tilvik eða stutt saga úr raunveruleikanum sem kallar á siðfræðilega greiningu. Tilvikinu er lýst og dregin saman þau siðfræðilegu úrlausnarefni sem það felur í sér. Sýnt verður hvernig greining á aðstæðum, þar sem þýðingarmiklar staðreyndir málsins þurfa að liggja fyrir, spilar saman við siðalögmál á borð við sjálfræði, velferð og réttlæti. Bent verður á helstu fræðilegu álitaefni sem rísa við slíka greiningu og pytti sem forðast þarf að falla í. Spurt verður um mikilvægi siðfræðikenninga við greiningu af þessu tagi og hugað að muninum á hagnýttri og kennilegri siðfræði.

Zophonías O. Jónsson, prófessor, HÍ: Saga erfðatækninnar - í stuttu máli

Rætur erfðatækninnar liggja í uppgötvunum á sviði erfðafræði, frumulíffræði og lífefnafræði sem leiddu til þess að hægt var að einangra erfðaefni, skeyta saman á nýjan hátt og koma aftur inn í lífverur.  Sagt verður í mjög stórum dráttum frá þessari vegferð og hvernig menn brugðust í fyrstu við þeim augljósu siðferðilegu álitamálum sem þetta leiddi af sér.

Þorsteinn Helgason, dósent í sagnfræði og sögukennslu: Erlendar innrásir í minningu heimamanna

Í rúmlega þúsund ára sögu Íslands hefur þjóðin staðið frammi fyrir innrásarherjum þrisvar sinnum með nokkurra alda millibili. Þessar innrásir eiga lítið sameiginlegt og minningin um þær hefur tekið á sig ólíkar myndir. Hernámið í seinni heimsstyrjöldinni er enn í „samskiptaminni“ (e. communicative memory,  J. Assmann) en hernámsárin eru jafnframt viðfangsefni fræðimanna; það var þá sem nútíminn kom til landsins með óþjóðlegri spillingu eða alþjóðlegri menningu eftir því hver minnist tímans. Hertöku Noregskonungs á Grímsey var afstýrt með ræðumennsku Einars Þveræings með viðkomu í fjöðurstaf Snorra Sturlusonar og í eftirminningu andstæðinga NATO og ESB. Á milli stendur hið fjölþjóðlega Tyrkjarán undir fána norðurafrískra borga. Það varðveittist og umbreyttist í menningarminni þjóðar og minni hópa sem skrifaðar frásagnir, örnefni og þjóðsögur, skáldskapur og sannsögur. Nýjar skjalarannsóknir eru meðteknar í sameiginlega minnið og í framtíðinni munu viðhorf erlendis frá og þarfir ferðamennskunnar hugsanlega hagga því og breyta. Óvirkjaðar „geymsluminningar“ (þ. Speichergedächtnis, A. Assmann) á borð við altaristöfluna á Krossi í Landeyjum munu  virkjast og fá nýtt líf. Lærdómur minninga og sögu Tyrkjaránsins mun áfram vera á marga lund eins og verið hefur hingað til því ekkert samkomulag ríkir um túlkunina.

Þorvarður ÁrnasonÁstin á náttúrunni – tilraun til greiningar á vistspeki Guðmundar Páls

Sterk viðhorf til náttúrunnar, sérstaklega þó varðandi verndun hennar, eiga sér oftast djúpar rætur í  siðferðiskennd og verðmætamati einstaklinga. Deilur um náttúruvernd orsakast því iðulega af árekstrum á milli ólíkra grunnviðhorfa um hvað er verðmætt, hvað er merkingarbært og hvað er þess virði að berjast fyrir. Slík grunnviðhorf eru mönnum sjálfum jafnvel að mestu hulin og koma því sem slík sjaldan til umræðu; umræðan er þess í stað nánast öll á yfirborðinu og málin af þeim sökum sjaldan til lykta leidd. Fáir þátttakendur í slíkum deilum ná að þroska með sér djúpa, heildstæða sýn á eigin viðhorf og annarra, því nýr slagur tekur ávallt við af öðrum. Í erindinu verður gerð tilraun til að greina þau viðhorf til náttúrunnar sem fram koma í verkum Guðmundar Páls út frá kenningaheimi náttúrusiðfræðinnar, reynt að teikna upp útlínur hugmyndafræðinnar (eða vistspekinnar) sem þar birtist og rætt um gildi hennar fyrir yfirstandandi náttúruverndarumræðu á Íslandi.

Þóra Björk Hjartardóttir, dósent í íslensku sem öðru máli: Litið um öxl : Fyrstu kynni danskra innflytjenda af íslensku

Hvati, kennsla og tækifæri til tjáningar eru þættir sem taldir eru vega þungt við tileinkun nýs máls á fullorðinsárum.  Hvernig horfir þetta við innflytjendum  þegar þeir líta til baka löngu liðna tíð til frumbýlingsára sinna á Íslandi? Reynsla gamalla Dana eins og hún er í minningunni eftir hálfrar aldar búsetu hér á landi verður skoðuð í þessu ljósi út frá ummælum þeirra um máltileinkun sína á íslensku og þær aðferðir sem þeir beittu í glímunni við að ná tökum á málinu.

Þórður Helgason, dósent: „Hvers vegna er mestallur gamli sálmaskáldskapurinn okkar uppsölumeðal og óæti hverri sál?“ Nokkur orð um sálma og skáldskap

Nítjánda öldin var tími mikilla sviptinga í bókmenntum. Nýjar hugmyndir um skáldskap urðu til þess að kynslóðaskipti urðu í bókmenntum Íslendinga, ekki síst í ljóðagerð og nýr smekkur varð til. Það varð sífellt augljósara öllum að hinar nýju hugmyndir fóru hjá garði í sálmakveðskap landsmanna. Þar sat allt við hið sama gamla.

Áhugamenn um góðan skáldskap, lærðir jafnt sem leikir, létu til sín taka í ræðu og riti um niðurlægingu hins andlega skáldskapar og spurðu knýjandi spurninga: Geta sálmar orðið eiginlegur skáldskapur að hætti nýrra viðhorfa? Er í rauninni brýnt að sálmar elti annan skáldskap? Þurfa sálmar að fara að bragreglum? Hvað með klassíkina, t.d. Hallgrím Pétursson og fleiri höfunda sem þjóðin hafði vanist við? Er ástæða til að lagfæra sálma þeirra? Hvar er nýr Hallgrímur? Og svo fannst hann!

Þórhallur Eyþórsson, dósent í ensku: Grettir og Glámur: sjónarhorn í fornum texta og samlíðan nútímalesanda

Í þessum fyrirlestri verður sagt frá rannsókn á stílfræðilegum og setningafræðilegum atriðum í fornbókmenntum sem kunna að hafa áhrif á samlíðan nútímalesenda.  Rannsóknin beinist að frægum kafla í Grettis sögu þar sem segir frá viðureign Grettis og Gláms. Meðal annars verður stuðst við niðurstöður könnunar sem var gerð sérstaklega til að afla upplýsinga um atriði sem kynnu að vekja samlíðan þegar þessi frásögn er lesin. Einkum er hugað að mismunandi sjónarhorni frásagnarinnar þar sem atburðunum er ýmist lýst frá hlutlausu sjónarhorni, út frá upplifun Grettis eða með augum Gláms. Getum verður leitt að því að tiltekin málfræðiatriði í textanum auki áhrifamátt frásagnarinnar, m.a. þolmynd/germynd, nútíð/þátíð og orðaröð. Loks verður því haldið fram að notkun sagna sem tjá skynjun eða upplifun geri lesandanum kleift að taka þátt í skynjuninni og sjá inn í huga persónanna sem eigast við. Ályktað er að unnt sé að greina atriði sem hafa áhrif á samlíðun með persónunum og jafnvel þeim aðstæðum sem þær eru í.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is