Útdrættir

Útdrættir erinda á Hugvísindaþingi 2010 birtast hér eftir stafrófsröð höfunda:

Alda Björk Valdimarsdóttir, doktorsnemi í bókmenntum

Til Pemberley var þá förinni heitið. Túrismi í Pride and Prejudice og arfleifðarmyndum
Fjallað verður um arfleifðarmyndir með hliðsjón af kvikmyndum gerðum eftir skáldsögum Jane Austen. Arfleifðarmyndir eru búningamyndir gerðar á síðustu tuttugu og fimm árum, þar sem áhersla er lögð á sögulega nákvæmni í endursköpun fortíðar og á það jafnt við um búninga og hárgreiðslu sem og ýmsa muni og skrautgripi. Áhorfendur takast á við hugmyndir sínar um breska menningararfleifð, um hina þjóðlegu sjálfsmynd, um gamla England. Þessar búningamyndir hafa haft gríðarleg áhrif á menningartúrisma en sérstaklega verður skoðað hvernig sá þáttur birtist í þáttaröðinni Pride and Prejudice (1995) og þeirri spurningu varpað fram hvort persónur arfleifðarmynda geti verið neytendur landslags, túrisma og sinnar eigin arfleifðar líkt og nútímaáhorfendur.

Anna Agnarsdóttir, prófessor í sagnfræði
Íslenska elítan: „A better class of farmer“ (1810) – Stefánungar í augum erlendra manna
Stefánungar voru voldugasta ættin á Íslandi um aldamótin 1800 og í æðstu embættum: Ólafur stiftamtmaður, Magnús dómstjóri og Stefán amtmaður. Þeir voru gestrisnir og buðu erlendum ferðamönnum heim. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um hvernig þeir komu erlendum gestum sínum fyrir sjónir. Einnig verður aðferðafræðilegur vinkill skoðaður í tengslum við þetta efni: ferðabók Mackenzies (opinber) og dagbók Henry Hollands (einka) sem lýsa því sama.

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor í íslensku, Menntavísindasviði
Ráðsnjallar ömmur með skotthúfu og lóð. Ömmur í myndabókum
Hin ráðagóða amma á sér sterka ímynd í íslenskum barnabókmenntum. Sigrún Eldjárn ruddi henni braut inn í myndabækurnar með Málfríði og mömmu Málfríðar. Þrátt fyrir að þær mæðgurnar séu um margt frábrugðnar hefðbundnum barnabókaömmum, fjörugar og uppátækjasamar, eiga þær þó margt sameiginlegt með þeim. Sömu sögu er að segja um súperömmuna í bókum Bjarkar Bjarkadóttur. Hún er þó meiri nútímakoma en mæðgurnar, lyftir lóðum og stundar áhættusama atvinnu. Báðar nýta þær Sigrún og Björk myndirnar og samspil þeirra við textann á áhrifaríkan hátt til að undirstrika sérstöðu þessara ráðsnjöllu kvenna. Í fyrirlestrinum verður fjallað um ímynd ömmunnar í myndabókum þeirra Sigrúnar Eldjárn og Bjarkar Bjarkadóttur og þær bornar saman við hefðbundna og þjóðlega ímynd ömmunnar í íslenskum barnabókmenntum.

Anna Jeeves, doktorsnemi í ensku
Relevance in English Language Learning: Students’ Views
This study explores the question of perceived relevance of English studies for Icelanders at secondary school, university, and in employment. It examines the role of secondary school studies in contributing towards the L2 Self, and the perceived relevance of these studies to students’ formation of a future identity as English users. Little work has been done on the role and nature of relevance in language learning. This study focuses on the experience of students and employees, and investigates the voices of language learners themselves.

Annika Große, sendilektor í þýsku
Podcasts in language teaching – a German-Icelandic Project
Teaching methods have developed quickly during the last years. Being up to date and using the newest technology in teaching became a challenge for teachers. Web 2.0 offers a wide range of opportunities and it is easy to get lost. It is an ongoing discussion how useful technology in teaching is.

This presentation takes a closer look at a new technology that can be used to improve different skills such as speaking, listening comprehension and phonetics: Podcasts. Since September 2008 a bilingual exchange project between the German department of HÍ and Icelandic at HU Berlin takes place – using podcasts as a communication method. The outlines and outcomes of this project will be presented in this presentation.

Anton Karl Ingason, MA-nemi í málfræði
„Djöfull kannast mig við hann!“ Virkni minnihlutamynstra í fallmörkun
Í þessum fyrirlestri verður því andmælt að nokkur afdráttarlaus skipting orðasafnsfalls í undirflokka sé réttlætanleg. Sett verður fram líkan sem gerir ráð fyrir að öll fallmörkun byggist á virkum reglum og að reglunum sé skipað í tálmunarstigveldi þar sem sértækar minnihlutareglur tálma almennari reglur. Byggt verður á tilbrigðalíkani Yang (2002; 2005; 2009) sem brúar bilið milli afdráttarlausra og aflíðandi fyrirbrigða í málkunnáttufræði. Líkanið býður upp á nákvæma afsannanlega spádóma um það hvenær regla er virk í tilteknu umhverfi. Líkanið skýrir einnig hvernig þágufallstilbrigði í íslensku eru óhjákvæmileg afleiðing misvísandi skilaboða úr málsamfélaginu og spáir fyrir um hvað gerist næst í sögu þessarar málbreytingar. Gögn úr ýmsum áttum verða dregin fram til að sýna fram á að virkni í íslenskri fallmörkun nær mun lengra en jafnan er talið og verður einkum horft til þolfallsfrumlaga.

Ari Páll Kristinsson, rannsóknardósent, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Einga afslætti. Um forsendur fyrir mati á málnotkun
Sjónarmið um hefð, uppruna og hreinleika, í ýmsum skilningi, virðast oft ráða mjög miklu um mat Íslendinga á því hvort tiltekin málnotkun er góð eða vond. Í erindinu verður litið á dæmi um slíkt mat. En í mati fólks á gæðum málnotkunar í íslensku og öðrum tungumálum er vitaskuld einnig gengið út frá ýmsum öðrum grundvallarsjónarmiðum. Tæpt verður á ýmsum þeirra og leitast við að veita einhverja yfirsýn yfir ólíkar forsendur fyrir mati á málnotkun.

Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í guðfræði
Sköpun, syndafall og hvað svo? Hrunið í guðfræðilegu ljósi

Í þessum fyrirlestri verður leitast við að skoða hrunið, ástæður þess og afleiðingar, út frá forsendum guðfræðinnar. Sé ástandið sem nú ríkir í íslensku samfélagi skoðað í ljósi hugmyndarinnar um Guðs góðu sköpun og ráðsmennskuhlutverk okkar, er ljóst að allt í kringum okkur sjáum við afleiðingar af ábyrgðarleysi og óhlýðni ráðsmanna sköpunar- verksins. Samkvæmt gyðing-kristinni guðfræðihefð hefur hrokinn orsakað það syndafallsástand sem hér ríkir. Ranglætið sem hvarvetna blasir við okkur kallar á viðbrögð – kallar á virkt andóf. Slíkt andóf er verkfæri réttlætisins og allt þar til réttlætið nær fram að ganga er hin góða sköpun föst í viðjum ranglætisins. Að þiggja gjöf Guðs firrir því engan ábyrgð á gerðum sínum. Þannig er ófrávíkjanleg spennan á milli kærleika og réttlætis Guðs. Af þessum sökum er það skylda guðfræðinga að tala inn í ríkjandi aðstæður án þess að missa sjónar annars vegar á boðskapnum um skilyrðislausan kærleika Guðs og hins vegar ófrávíkjanlegri réttlætiskröfu hins kærleiksríka Guðs.

Auður Aðalsteinsdóttir, doktorsnemi í bókmenntum
Ritdómar í efnahagskreppu
Í fyrirlestrinum verður fjallað um áhrif íslenska efnahagshrunsins á orðræðu og áherslur íslenskra ritdóma.

Efnahagskreppan hefur haft greinileg áhrif á bókmenntir og bókmenntaumræðu í fjölmiðlum. Haustið 2009 varð ljóst að margar jólabækur snertu efnahagshrunið á beinan eða óbeinan hátt og því lá í hlutarins eðli að ritdómarnir um þessar bækur gerðu slíkt hið sama. Hins vegar var allt eins líklegt að ritdómar fjölluðu að einhverju leyti um efnahagshrunið þótt bækurnar sem fjallað var um gerðu það ekki. Litið verður nánar á þessa áherslubreytingu sem varð í bókaumfjöllun, með tilliti til tengsla efnahagssviðsins og menningarsviðsins og mikilvægi þess að kanna orðræðu og viðmið ritdóma sem sögulegar afurðir.

Auður Hauksdóttir, dósent í dönsku
Ísland í augum Dana
Í umfjöllun Dana um Ísland, fyrr og nú, er náttúra landsins gjarna í brennidepli auk þess sem íslenskri tungu og bókmenntum er gert hátt undir höfði. Fleyg eru ummæli Saxa hins málspaka um ritstörf Íslendinga og orðatiltækið „gå ad Hekkenfeldt til“ er til vitnis um þá ógn sem þótti stafa af óblíðri náttúru landsins. Enn þann dag í dag eru Dönum töm á tungu orð eins og „sagaøen“ og „vulkanøen“, þegar Ísland ber á góma. En úr hvaða jarðvegi spretta þessar hugmyndir og hver er sagan að baki þeim? Í fyrirlestrinum verður glímt við þessar spurningar og jafnframt reynt að skýra hvað einkennir viðhorf Dana til Íslands og Íslendinga. Leitað er í lýsingar Dana, sem kynntust landi og þjóð af eigin raun á nítjándu öld, m.a. skrif Gythu Thorlacius, Rasmusar K. Rasks og Benedicte Arnesen-Kall.

Auður A. Ólafsdóttir, lektor í listfræði og rithöfundur
Af krosstengslum fagurfræði og samfélags
Í erindi sínu mun Auður leitast við að spegla tvær lykilhugmyndir í heimi sjónlistar; fegurðarhugmyndina og frumleikahugmyndina. Skoðuð verður breyting á þessum tveimur hugmyndum í sögulegu samhengi og reynt að varpa ljósi á hugmyndir ungra listamanna á 21. öld um inntak listfegurðar og frumleikahugmyndar. Spurt verður hvort hugmyndin um frumleika í listum á hverjum tíma ráðist af samfélagslegu hlutverki myndlistar og afstöðunni til listamannsins.

Fjallað verður um þjóðlega og alþjóðlega fegurð, fegurð listhlutar, fegurð listamanns, fegurðina sem býr í auga áhorfanda og listfegurð í augum hagsmunaaðila viðskiptalífsins og spurt hvort allar þessar fegurðir eigi eitthvað sameiginlegt?

Ármann Jakobsson, dósent í bókmenntum
Með eða án vísna? Íslendingasagnaform á reiki í upphafi 14. aldar
Mörg 14. aldar handrit eru til af Brennu-Njáls sögu. Hins vegar munar talsverðu á fjölda vísna í þessum handritum. Í Njáluútgáfu sinni fyrir Hið íslenzka fornritafélag fjallar Einar Ólafur Sveinsson um „Vísna-auka“, 30 vísur alls, einkum í Kálfalækjarbók og á spássíum Reykjabókar sem hann prentar aftast í útgáfu sinni en í ýmsum öðrum útgáfum kemur hvergi fram að til eru „Njálur“ með 23 vísum og aðrar með 53. Hér verður farið aðeins í saumana á kveðskap í Njálu, bæði vísunum sjálfum og náttúru þeirra, þeim skáldum sem Njála með vísum kynnir til sögu og að lokum að samhenginu, 14. aldar menningunni sem skóp þessar „Njálur“.

Ármann Jakobsson, dósent í bókmenntum
Konan, sverðið og draugurinn
4. og 5. kafli Hervarar sögu og Heiðreks fjalla um ferð Hervarar til undirheima að sækja sverð föður síns í haug til hans. Þessi annarsheimsför er ekki vel skilgreind í sögunni en hún virðist vera Hervöru mikilvæg og um leið fundur hennar við drauginn, föður hennar.

Sjálfsmynd Hervarar virðist vera undir: konan sem er þó ekki kona sækir heim föður sem er þó ekki faðir hennar í öllum skilningi og er hvorki lífs né liðinn. Þegar þau horfast í augu virðast þau um leið skilgreina sjálf sig og hvort annað. Og í erindinu er spurt: Hvaða sjálfsskilning er hægt að sækja til drauga, annan en sverð?

Árný Aurangasri Hinriksson, doktorsnemi í ensku
A Professor’s Dilemma and his Rebellious Students: Ediriwira Sarachchandra’s Curfew and a Full Moon (1978)
My paper will briefly introduce the novel that is seen to initiate the genre of English- language works on the subject of the insurgency in Sri Lanka. In Curfew and a Full Moon (1978), which is a fictional treatment of the 1971 youth uprising in Sri Lanka, Sarachchandra presents and develops his view on the colonial repercussions of the prominence given to English language and education in post-independent Sri Lanka. Anti-colonial sentiments and class struggles were seen in their most heightened form in the universities in Sri Lanka, which were in actual fact the breeding grounds for dissidents. The novel examines the student/teacher involvement in the movement and reflects the author’s own ideological stance in the revolution.

Ásdís Egilsdóttir, prófessor í bókmenntum
Nýjungar á fjórtándu öld – nýjungar í rannsóknum
Svo virðist sem fræðimenn sem fást við íslenskar miðaldir hafi fremur laðast að þrettándu öldinni en þeirri fjórtándu. Margir hafa þó fengist við þetta tímabil og ungir fræðimenn víða um heim eru nú að fjalla um verkefni sem tengjast fjórtándu öld. Þetta er tími ýmissa hræringa og nýsköpunar, blómaskeið íslenskrar bókagerðar og helgisagna- ritunar, svo fátt eitt sé nefnt. Rætt verður um nauðsyn þess að tengja saman fræðimenn og fræðasvið, efla og endurnýja rannsóknir á fjórtándu öld og skapa þeim sameigin- legan vettvang.

Ásdís R. Magnúsdóttir, dósent í frönsku
Af mannætum
Í Tilraunum (Essais) leitast Michel de Montaigne við að kynnast sjálfum sér betur með því að horfa á heiminn og mynda sér skoðun á því sem þar ber fyrir augu. Hann rýnir í spegil og sér andlit sitt eldast. Hann fjallar um dauðann, uppeldi, mannlegt eðli og ýmis málefni sem eru honum hugleikin. Landafundirnir eru eitt þeirra. Í þessum fyrirlestri verður sagt frá skrifum Montaigne um mannætur Nýja heimsins. Hvernig komu þær samtímamönnum hans fyrir sjónir? Hvað segja þessar lýsingar um þá sem skrifa þær? Hvað segja mannætur Nýja heimsins Evrópumönnum um þá sjálfa?

Ásrún Jóhannsdóttir, doktorsnemi í ensku

Future Cosmopolitans: 4th grade Students of English in Iceland

This study is based on the observation that in recent years the status of English in Iceland is perceived as a ‘lingua franca’ due to increased exposure, professional usage and perceived levels of general proficiency. At the same time, it has been suggested that the English proficiency of 8-9 year old children starting 4th grade exceeds the actual learning objectives for that level as proposed by the National Curriculum Guidelines. Nonetheless, previous studies and teacher’s observations suggest that the levels of proficiency and attitude are significantly diverse.

This lecture will report preliminary results that suggest that 4th grade students in Iceland see their general future L2 selves as users of foreign languages, irrespective of individual level of English exposure, motivation and lexical knowledge.

Ásta Ingibjartsdóttir, aðjunkt í frönsku

Orðaforði fyrsta árs frönskunema í töluðu og rituðu máli

Hver er frönskukunnátta nemenda sem koma beint úr menntaskóla og hefja nám í frönsku/frönskum fræðum við Háskóla Íslands? Eru þeir í stakk búnir til að takast á við þau verkefni sem lögð eru fyrir þá? Í fyrirlestrinum verður litið á orðaforða málnema sem kemur beint úr íslenskum menntaskóla. Orðaforði hans bæði í töluðu og í rituðu máli verður greindur og metinn út frá evrópska tungumálarammanum og niðurstöðurnar ræddar með ofangreindar spurningar í huga.

Ásta Svavarsdóttir, rannsóknardósent, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum Spádómur Rasks og ímynd íslenskunnar

Snemma á 19. öld lét danski málfræðingurinn Rasmus Kristján Rask þá skoðun í ljósi að eftir 100 ár myndi enginn í Reykjavík skilja íslensku og enginn á landinu öllu 200 árum síðar „ef allt fer eins og hingað til og ekki verða rammar skorður við reistar“. Nú eru þessi spámannlegu ummæli orðin næstum 200 ára gömul og ekkert bendir til þess að spádómurinn komi fram í bráð þótt enn sé iðulega vitnað í orð hans. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessi ummæli og túlkun þeirra. Annars vegar verður litið á grundvöllinn að skoðun Rasks og samhengið sem hún var sett fram í. Hins vegar er ætlunin að skoða nokkrar tilvitnanir m.t.t. þess hvort og hvernig ummælin hafa mótað hugmyndir um íslenskt mál og stöðu þess.

Benedikt Hjartarson, aðjunkt í bókmenntafræði

Fagurfræði hrunsins: Hugleiðingar um íslenska og evrópska menningarbölhyggju

Fjallað verður um birtingarmyndir menningarbölhyggju í íslenskum samtíma. Efnahags- hruninu hefur gjarnan verið lýst á grundvelli sögulegrar markhyggju er byggir á hugmyndum um lífrænt ferli fæðingar, þroska, hnignunar og dauða. Íslenska efnahagshrunið verður þannig að harmrænni dæmisögu um dramb eða græðgi sem leiðir óumflýjanlega til maklegra málagjalda. Einnig er hruninu oft lýst sem afleiðingu glataðra tengsla við uppruna, sögu og þjóðareðli. Í þessum tregablandna óði til upprunans má greina enduróm frá hugmyndum fyrri tíma um þjóðina sem leiksopp óhlutbundinna og alþjóðlegra hugtakakerfa er svipta rótgróna (þjóðlega) menningu inntaki hennar. Varpað verður gagnrýnu ljósi á slík frásagnarlíkön með hliðsjón af sögu evrópskrar og íslenskrar menningarbölhyggju.

Bergljót S. Kristjánsdóttir, prófessor í bókmenntum

„Nema í sögu/og huga“ – Um tengsl manns og frásagna og fáein verk Gyrðis Elíassonar

Í fyrirlestrinum verður fjallað um tengsl manns og frásagna; rætt um reynslu, skynjun, drauma, einstakling, samfélag og menningu og hugað að völdum textum eftir Gyrði Elíasson.

Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum

Menntun og aðlögun fullorðinna innflytjenda: Norræn samanburðarrannsókn

Í fyrirlestrinum verður fyrst gerð grein fyrir niðurstöðum samnorrænnar rannsóknar á menntunarúrræðum fyrir innflytjendur á Norðurlöndunum og áhrifum þeirra á mál- tileinkun og aðlögun. Niðurstöður eru þær að stefnur og framkvæmd þeirra eru mjög mismunandi í löndunum en alls staðar er þó lögð aðaláhersla á tungumálanám. Höfundar leggja til að starfstengt tungumálanám verði eflt þar sem það virðist hafa meira gildi fyrir innflytjendur en almennt tungumálanám. Niðurstöður íslensku rannsóknarinnar eru að þrátt fyrir framsækna jafningjastefnu í málefnum innflytjenda er ýmsu ábótavant í framkvæmd stefnunnar sem má skrifa á skort á þekkingu á málefninu. Þá virðist skortur á menntunarmöguleikum fyrir kennara hamla því að unnt sé að mæta þörfum innflytjenda fyrir tungumálanám við hæfi. Að lokum er velt upp hugmyndum um hvaða áhrif sterk velferðarkerfi Norðurlandanna hafi á gerendahæfni innflytjenda og möguleika þeirra til tileinkunar málsins og aðlögunar almennt.

Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum

Using English as a Lingua Franca at the University of Iceland: Students’ and Teachers’ Views

This study is part of a three year study that has as its goal to map out exposure and use of English as a Lingua Franca in Iceland. A recent study found that more than 90% of the curriculum at Icelandic Universities is in English (Birna Arnbjörnsdóttir 2009). Few studies exist that have examined the use of English as a Lingua Franca in Scandinavia, especially the use of English in an otherwise Nordic academic context (Mauranen 2007). This study presents results of surveys of students and teachers at the University of Iceland that investigated (1) to what extent respondents perceive that they are prepared to meet increased demands to use academic English in their coursework and (2) what effects it may have on the quality of their academic work and (3) what strategies they use to master the curriculum.

Bjarni Randver Sigurvinsson, doktorsnemi í guðfræði

Jesús kemur til Montréal

Kanadíska kvikmyndin Jesús frá Montréal (Denys Arcand: 1989) segir frá hópi leikara sem fer óhefðbundnar leiðir í árlegri uppfærslu hjá rómversk-kaþólsku kirkjunni á helgileik um líf, dauða og upprisu Jesú Krists. Smám saman er sem guðspjöll Nýja testamentisins raungerist í lífi leikaranna og örlögum þeirra en rómversk-kaþólska kirkjan snýr baki við þeim vegna róttækni þeirra og efasemda um viðteknar skoðanir um Jesúm Krist.

Ófáir guðfræðingar hafa skilgreint aðalpersónu myndarinnar, leikarann sem tekur að sér hlutverk Jesú Krists í helgileiknum og fær aðra leikara til liðs við sig, sem hefðbundinn kristsgerving en það hugtak er notað um einstaklinga í bókmenntum og listum sem endurspegla með skýrum hætti líf Jesú Krists og boðskap hans. Hér verður kristsgervingartúlkunin þó sérstaklega skoðuð með hliðsjón af kristinni mystík eins og hún birtist í ignatískri hugleiðslu meðal jesúíta innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar sem á síðari árum hefur öðlast fylgi langt út fyrir raðir hennar.

Björn Þór Vilhjálmsson, bókmennta- og kvikmyndafræðingur

Hið óeinstaklingsbunda auga: Halldór Laxness og kvikmyndir

Halldór Laxness var aðeins hálfþrítugur þegar hann hélt til Hollywood með drauma um handritaskrif í maganum. Í Ameríkuför Halldórs, sem bar að vísu ekki tilætlaðan árangur, má finna upphafsreit sambands skáldsins við kvikmyndamiðilinn, streng sem rekja má í gegnum ferilinn og bregður birtu á mikilvægar menningarpólitískar átakalínur sem tengjast m.a. nútímavæðingu íslensks samfélags. Í fyrirlestrinum verður hugað að ólíkum birtingarmyndum þessa sambands í verkum Halldórs og sjónum beint jafnt að ritgerðum hans sem skáldverkum.

Björn Þorsteinsson, nýdoktor hjá Heimspekistofnun

Af eðli verunnar. Verufræðileg álitamál í nútímaeðlisfræði

Á tuttugustu öld urðu miklir atburðir í sögu eðlisfræðinnar sem ekki sér fyrir endann á. Þau viðfangsefni sem þar er um að tefla varða sjálft eðli veruleikans – enda fjallar eðlis- fræðin auðvitað, eins og nafnið bendir til, um þau efni og er því náskyld verufræðinni. Í erindinu verður brugðið upp svipmyndum af þeim átökum sem eðlisfræðingar síðustu aldar stóðu í. Einkum verður kannað hvernig andans jöfrar eins og Niels Bohr og Albert Einstein tókust á um álitamál á borð við tvíeðli efnisins (er það bylgjur eða agnir?), tilvist hlutlægs veruleika (sem vera skyldi óháður athugandanum) og það sem kalla mætti frumspekilega einda- eða einstaklingshyggju.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í bókmenntum
Ánauðug húsdýr í nýlendu Dana ... Um sögulegar skáldsögur fyrir börn og unglinga

Börn hafa alltaf verið jaðarhópur í samfélaginu og margir foreldrar líta á börn sem eign sína. Nútímaforeldrar ráðstafa þannig börnum sínum, flytja þau milli landa án þess að spyrja þau, semja um líf þeirra án tillits til vilja þeirra eins og í bók Kristínar Steinsdóttur, Hetjur (2009). Í nýrri sögulegum skáldsögum fyrir börn er sagan oft notuð sem vettvangur til að skoða vandamál sem varða nútímabörn og oft er farið fram og til baka milli tímaskeiða. Oft eru þessar nýju skáldsögur „blendingar“ sem blanda saman bókmenntagreinum eins og Garðurinn eftir Gerði Kristnýju (2008). Stundum fela þær í sér endurskoðun og uppgjör við söguskoðun eins og í Grösin í glugghúsinu eftir Hreiðar Stefánsson (1980) eða sögulega atburði sem eru sýndir í nýju ljósi og séðir með barnsaugum eins og í Allt annað líf eftir Gunnhildi Hrólfsdóttur (2002).

Í fyrirlestrinum verða sögulegar skáldsögur fyrir börn skoðaðar í ljósi síð- nýlendufræða með áherslu á börn og vald.

Edda R. H. Waage, doktorsnemi í landfræði

„Fjöll voru þar og fagurt var þar um að litast“: Um hugtakið landsleg í Íslendingasögunum

Vernd landsvæða á forsendum landslags er eitt af þeim verkefnum sem glímt er við í íslenskri náttúruvernd, sem og víðar um heim. Svo virðist sem hugtakið landslag vísi sumpart til annarra þátta en alla jafna hafa verið viðfangsefni hefðbundinnar náttúruverndar og hafi víðari merkingu en efnistök náttúruvísindanna gera ráð fyrir. Landslag og hliðstæð hugtök í öðrum tungumálum eru þó ekki tilbúin tækniyrði heldur menningarbundin hugtök. Þau geta því hvert og eitt vísað til ólíkra þátta sem gerir landslagsvernd í alþjóðlegu tilliti vandasamari en ella.

Í nútímaíslensku hefur hugtakið landslag sterka fagurfræðilega tilvísun. Það er að finna í sumum af okkar elstu fornritum, en forn ritmynd þess er landsleg. Í erindinu verða kynntar niðurstöður rannsóknar á hugtakinu landsleg, eins og það birtist í Íslendingasögunum. Niðurstöðurnar verða bornar saman við nútímaskilning hugtaksins og þær jafnframt settar í samhengi við umfjöllun um hliðstæðu þess á enskri tungu, ‘landscape’.

Einar Freyr Sigurðsson, MA-nemi í málfræði og Hlíf Árnadóttir, MA-nemi í málfræði Fallvölt andlög. Breytingar á nefnifallsandlögum

Í íslensku taka nokkrar sagnir þágufallsfrumlag og nefnifallsandlag (ÞGF–NF-sagnir):

(1)     Mér (þgf.) líkar hún (nf.) ekki.

Í fyrirlestrinum verður rætt um breytingu á fallmynstri þessara sagna. Hún felst í því að sagnir á borð við líka taka þolfallsandlag í stað nefnifallsandlags:

(2)     Mér (þgf.) líkar hana (þf.) ekki.

Þessi breyting er stutt á veg komin í íslensku en á sér samsvörun í skyldum málum. Verður íslenska borin saman við önnur mál að þessu leyti, einkum færeysku. Þá verða tengsl breytingarinnar við nýju þolmyndina athuguð og sett fram tilgáta um kveikjuna að breytingunni.

Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku
Caníbal: un indoamericanismo prehispánico en Europa
El acervo léxico de las lenguas nórdicas –el danés, el islandés, el noruego y el sueco– y de otras lenguas europeas se ha enriquecido con la incorporación de vocablos procedentes de las lenguas amerindias: el taíno, el caribe, el arauaco, el quechua, el náhuatl, el guaraní, y otras. Canoa, huracán, caimán así como cacao, tomate, guano, maíz, puma, chocolate, sabana, papaya, chili y muchas otras voces forman parte de nuestro corpus de indoamericanismos prehispánicos filtrados a las distintas lenguas europeas. Entre las palabras de esta procedencia se encuentra caníbal, ‘antropófago’, voz supuestamente antillana cuya primera documentación se recoge en varias crónicas y textos españoles hacia finales del siglo XV y en la primera mitad del siglo XVI. Desde España el vocablo se difundió y pasó a las diversas lenguas del Viejo Mundo. El tema que se aborda en la presente comunicación es la procedencia de este indoamericanismo y su incorporación a varias lenguas europeas.

Erla Dóris Halldórsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði

Erfiðar fæðingar á síðari hluta 18. aldar

Á 18. öld breyttust hugmyndir manna um fæðingar, einkum erfiðar fæðingar. Sjónarmið mannúðar og samhjálpar áttu þar hlut að máli. Töframáttur lausnarsteins þótti ekki lengur þjóna tilgangi í að „leysa konu skjótt frá fóstri sínu“ heldur átti að beita manneskjulegri aðferðum. Við stofnun landlæknisembættisins árið 1760 urðu þáttaskil í fæðingarhjálp á Íslandi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um framkvæmd nýrra hugmynda um fæðingarhjálp sem höfðu það að markmiði að bjarga lífi fæðandi kvenna og ófæddra barna þeirra.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, nýdoktor hjá Heimspekistofnun

Mátturinn og eðlið

Stundum er sagt að innra eðli hlutar einkennist af því hvernig hluturinn er óháð aðstæðum sínum og tengslum við aðra hluti. Stundum er líka sagt að svokallaðar hneigðir, þeir eiginleikar hlutanna sem fela í sér mátt þeirra, ákvarðist af innra eðli hlutanna. Sé gengið út frá þessu tvennu sitjum við uppi með þá niðurstöðu að umhverfi hlutar og aðstæður hafi engin áhrif á mátt hans. Í fyrirlestrinum verður því haldið fram að þessi niðurstaða sé ótæk og gerð krafa um heimsmynd sem gerir ráð fyrir að umhverfið sé mikilvægur þáttur í mætti hlutanna og jafnvel í eðli þeirra líka.

Gauti Kristmannsson, dósent í þýðingafræði

Sköpun og öpun eða fölsun að þjóðlegum hætti?

Í þessum fyrirlestri verður farið yfir eitt frægasta söguljóð sem frá Bretlandseyjum hefur komið, Ossíanskvæði eftir/í þýðingu James Macpherson, sem fóru sem eldur í sinu Evrópu á síðari hluta 18. aldar og reyndar langt fram eftir nítjándu öld. Löngum hefur verið deilt um þau, hvort þau séu fölsuð þýðing, menn eru ekki á einu máli hvort þau eru öpuð eða sköpuð. Fáir textar hafa valdið jafn miklum og langvinnum deilum sem þessi, en enn þann dag í dag takast fræðimenn af hörku á um hvernig meta eigi þessi ljóð sem voru rómantískur innblástur þjóðvísnasafnara og annarra sem tóku að sækja þjóðlegar bókmenntir til alþýðu manna. Þessi kvæði gátu ekki aðeins af sér nýjar þýðingar í þúsunda- tali heldur einnig óperur og merkileg málverk sem skoðuð verða í þessu samhengi.

Gottskálk Þór Jensson, dósent í bókmenntum

Bókmenntafræðingurinn Sókrates

Flestir geta fallist á að Aristóteles sé réttnefndur bókmenntafræðingur vegna jákvæðra viðhorfa og ótvíræðs framlags hans til greiningar á aþenska leikhúsinu og Hómerskviðum en ef ég nefni Sókrates bókmenntafræðing er líklegt að hjarta viðkvæmra manna missi úr nokkur slög enda er hið þrasgjarna Geitmenni (Sílenos) og píslarvottur nýju skólanna í Aþenu frægari fyrir fjandsamlegt viðhorf sitt til grískra arfsagna og skáldskapar (helsta ágæti þessarar fornu menningar að mati flestra) og alræmdur fyrir að gera skáldin útlæg úr ímynduðu Ríki sínu. Engu að síður er það staðreynd að sumir merkustu bókmenntafræðingar nútímans, s.s. Erich Auerbach, Gérard Genette, Jacque Derrida, Julia Kristeva, hafa sótt til hinna sókratísku samræðna bæði hugtök og greiningartæki (mimesis, diegesis, aporia, kore, svo aðeins nokkur séu nefnd) sem mörkuðu djúp spor í 20. aldar bókmenntafræði og gera enn á nýrri öld. Í erindinu verður fjallað í stuttu máli um framlag Sókratesar til bókmenntafræðinnar og tekin dæmi þar að lútandi (úr Ríkinu, Jóni, Samdrykkjunni, Fædrosi og Tímajosi).

Gottskálk Þór Jensson, dósent í bókmenntum

Nokkrar athugasemdir um latínubókmenntir eftir Íslendinga á 12. öld, hið pólitíska samhengi þeirra og stöðu gagnvart bókmenntum á norrænu

Á 12. og 13. öld voru íslenskir klerkar mikilvirkustu latínuhöfundar á Norðurlöndum og sömdu tiltölulega fleiri og stærri rit á latínu en klerkar nágrannalandanna, þ.e. tvær sögur um Ólaf Trggvason Noregskonung, eina um Yngvar víðförla, aðra um Þorvald víðförla, ævir biskupanna Þorláks helga og Jóns Ögmundssonar, auk tíða fyrir báða þessa biskupa, og tíða fyrir messudag heilags Ambrosius, svo ekki sé minnst á einn leiðarvísi fyrir pílagríma. Sé tekið tillit til mannfjölda á Íslandi og smæðar íslensku biskupsstólanna hlýtur þetta að teljast metframleiðsla á svæðinu. Öll voru þessi íslensku latínurit skrifuð á einum til tveimur áratugum í lok 12. aldar. Fyrir þennan tíma og eftir hann er latínukunnátta sannanlega mikil á Íslandi og síst minni en í nágrannalöndunum en ef frá eru talin tvö líkleg ritverk á latínu eru nánast allir frumsamdir íslenskir textar skrifaðir á „voru máli“. Í erindinu verður leitast við að svara því hvers vegna íslenskir klerkar skrifuðu á latínu í lok 12. aldar og fyrir hvern þeir skrifuðu? Hvaða sögulegu aðstæður voru þá uppi sem skýrt gætu þessa miklu ritvirkni Íslendinga á hinni helgu og lærðu tungu kristninnar?

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, doktorsnemi í heimspeki

Að finna til smæðar sinnar: Fagurfræðilegt gildi jöklasvæða

Jöklar eru fágætir á heimsvísu og jafnframt ein þeirra landslagsgerða sem einkenna Ísland hvað mest. Ásamt eldvirka beltinu eru jöklar líklega eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna sem hingað koma. Í doktorsverkefni mínu, Íslenskt landslag: fagurfræði og verndargildi, hef ég þess vegna valið að rannsaka sérstaklega fagurfræðilegar upplifanir af jöklum annars vegar og háhitasvæðum hins vegar. Í þessum fyrirlestri mun ég kynna niðurstöður eigindlegrar rannsóknar á fagurfræðilegri upplifun ferðamanna af jöklasvæðum. Rannsóknin fólst í þátttökuathugunum í jöklaferðum með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og Glacier guides, og viðtölum við þátttakendur í ferðunum. Helstu einkenni upplifunar þátttakenda voru undrun og sú tilfinning að finna til smæðar sinnar, í fyrirlestrinum mun ég fjalla um þessi einkenni og þau viðhorf til náttúrunnar sem upplifunin leiðir til.

Guðmundur Erlingsson, kvikmyndagerðarmaður og þýðandi

Að ófrægja þjóð: Þjóðerni í spænskum kvikmyndum

Þegar rætt er um kvikmyndagerð þjóða (e. national cinema) nær skilgreiningin oft ekki lengra en svo að miðað er við þá kvikmyndagerð sem fram fer innan landamæra ríkis. En hvað felst í kvikmyndagerð þjóðar og hvað öfl takast þar á? Í erindinu verður spænsk kvikmyndagerð skoðuð í þessu ljósi og stiklað á stóru um sögu hennar. Reynt verður að gera grein fyrir því hvernig öfl eins og einstaklingsbundin sýn listamanna, alþjóðlegir straumar og stofnanabundin þjóðernisvitund takast á og birtast -á mismunandi hátt á mismunandi tímum – í kvikmyndum í stormasamri sögu landsins.

Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði

Efnahagslegir hagsmunir eða einangrunarhyggja? Skýringar á Evrópustefnu Íslendinga

Íslendingar voru tregir til að taka þátt í efnahagssamvinnu Evrópuríkja á áratugunum eftir síðari heimsstyrjöldina og voru reyndar síðastir OEEC-ríkja fyrir utan Tyrki til að ganga í viðskiptabandalög sem stofnuð voru á sjötta áratug aldarinnar. Fyrst með inngöngunni í EFTA 1970 gengu þeir í svæðisbundið bandalag sem takmarkaði fullveldi þeirra á afmörkuðum sviðum. Í erindinu verður lagt mat á tvær meginskýringar sem settar hafa verið fram á Evrópustefnu stjórnvalda og verður einkum tekið mið af samskiptum Íslands og Evrópu varðandi Viðreisnaráætlun Evrópu og inngönguna í EFTA. Á undanförnum árum hefur borið á þeirri skýringu að það hafi fyrst og fremst verið sterk þjóðernisstefna sem hafi mótað afstöðu íslenskra stjórnvalda til Evrópusamvinnu og leitt til ákveðinnar einangrunarhyggju á Íslandi. Henni verður teflt gegn þeirri skýringu að knýjandi efnahagslegir hagsmunir hafi ráðið mestu um opinbera stefnu í Evrópumálum.

Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur), prófessor við Listaháskóla Íslands Upphaf og þróun Jesúmynda í myndlistarsögunni

Fjallað verður um fyrstu myndirnar af Jesú Kristi og gerð grein fyrir því táknmáli og samhengi sem þær eru teknar úr. Þá verða helstu þemu í kristsmyndum kirkjunnar greind og reynt að ráða í þau tímanna tákn sem þar birtast um leið og spáð verður í það hvað myndirnar segja um trúar- og sjálfsskilning þeirra sem myndirnar voru gerðar fyrir.

Guðni Elísson, dósent í bókmenntafræði

Af æði sem rennur á hópa

Var samfélagssáttin í þjóðfélagi „góðærisáranna“ hugsanlega svo almenn að útilokað hafi verið að gagnrýna það sem betur mætti fara og var þessi sátt hugsanlega megin ástæðan fyrir því að svo fór sem fór? Slíkum skoðunum hefur verið haldið fram, en í erindinu verður leitast við að varpa ljósi á fáein einkenni sáttarinnar.

Guðni Elísson, dósent í bókmenntafræði

Undir hnífnum

Fyrstu íslensku slægjunni, Reykjavík Whale Watching Massacre (2009), var illa tekið af íslenskum gagnrýnendum. Í dómi sínum um myndina í DV sagði Þórarinn Þórarinsson hryllingsmyndir vera þeirri „náttúru gæddar að þær þurfa ekkert endilega að styðja sig við almennilegt handrit né heldur góðan leik til þess að geta talist fínar fyrir sinn hatt“. Þrátt fyrir þetta gagnrýnir Þórarinn myndina harðlega og segir hana ekki ná að lyfta sér upp úr „klisjuhjakkinu“. Dómar annarra gagnrýnenda voru á sömu lund. Í fyrirlestrinum verður leitast við að skoða hvernig RWWM vinnur úr klisjum kvikmyndagreinarinnar, með því að taka undir þær og víkja frá þeim.

Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, dósent í ensku

The Trickster in Thomas King’s Green Grass, Running Water (1993)

It is rather hard to keep track of the shifting identities and time planes of the various divinities that appear in King’s novel, either forwarding or hindering the unfolding of the story and endlessly attempting to establish the true genesis of the world. I will focus my presentation on the metamorphosis of the different divinities in King’s deconstructive reconstruction of indigenous values.

Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, dósent í ensku

Gátt í nýja heima: Útflutningur Íslendinga til Brasilíu

Á sjötta hundrað Íslendingar bjuggu sig til að flytjast til Brasilíu árið 1873, í kjölfar þeirra fimm sem fóru þangað 10 árum áður til að kanna landkosti, sem þóttu frá upphafi fýsilegri en í Norður-Ameríku. Aðeins komust þó um 30 á leiðarenda. Samt sem áður var þetta vendipunktur í sögu þjóðarinnar: Veigamikið innslag í baráttuna fyrir auknu sjálfræði en um leið upphaf þjóðflutninga tugþúsunda Íslendinga til Vesturheims. Ég mun athuga annars vegar hvaða sýn af Brasilíu var til grundvallar fyrirhuguðum landflutningum en hins vegar þá mynd sem Brasilíufararnir sjálfir drógu upp að fenginni reynslu.

Guðrún Ingólfsdóttir, doktorsnemi í bókmenntum

Höfundurinn og textinn á 18. öld. Hver er hurs og hvurs er hvað?

Viðhorf til höfundarins og texta hans hafa verið ólík á mismunandi tímum. Afstaða til sköpunargáfunnar og afurða hennar tók gagngerum breytingum með hugmyndum upplýsingarmanna eins og Diderots. Í Vestur- og Norður-Evrópu var höfundarréttur þó ekki tryggður fyrr en á 18. og 19. öld með lagasetningum um prentverk. Í fyrirlestrinum verður stuttlega gerð grein fyrir viðhorfi 18. aldar manna til höfundarins og texta hans, bæði í prent- og handritamenningu.

Guðrún Kvaran, prófessor, stofustjóri orðfræðisviðs, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum Hugleiðingar um íslenska tökuorðabók

Fram til þessa hafa Íslendingar ekki átt tökuorðabók eins og t.d. Norðurlandaþjóðir og Þjóðverjar. Fyrirlesari hefur um nokkurt skeið safnað til slíkrar orðabókar og er henni ætlað að ná frá um 1800/1850 og fram undir daginn í dag.

Í fyrirlestrinum verður fyrst fjallað um erlendar bækur og þau viðmið sem þar hafa verið sett fram um val orða. Þá verður rætt um heitin aðkomuorð (framandorð) og tökuorð og spurt hvort ástæða sé að draga mörk milli þessara tveggja flokka og hvar þau mörk eigi þá að liggja. Að lokum verða sýnd dæmi um flettur eins og þær koma fram í gagnagrunni þeim sem nýttur er til verksins.

Guðrún Þórhallsdóttir, dósent í málfræði

Hefðbundið, rökrétt og réttlátt

Í fyrirlestrinum verður fjallað um þrenns konar dóma um málfar. Í fyrsta lagi verður rætt um dóma sem hafa tryggð við hefð að leiðarljósi, í öðru lagi um dóma sem byggjast á kröfu um að orðalag sé rökrétt og í þriðja lagi um þá sem dæma málfar réttlátt eða ranglátt. Ýmis dæmi, íslensk og erlend, verða sýnd til að varpa ljósi á þessar tegundir málfarsdóma, meðal annars úr umræðu um notkun málfræðilegra kynja og baráttu femínista fyrir málfarsbreytingum af jafnréttisástæðum.

Gunnar J. Gunnarsson, dósent, Menntavísindasviði

Jesúgervingar og Kristsvísanir í kvikmyndum

Fjallað verður almennt um Jesúgervinga og Kristsvísanir í kvikmyndum. Auk þess verður athyglinni beint að því hve ólíkir Jesúgervingarnir geta verið og hvaða áherslur eða hugmyndir liggja þar að baki. Tekin verða nokkur dæmi úr kvikmyndum þessu til stuðnings.

Gunnar Harðarsson, dósent í heimspeki

Málsvörn Sókratesar: Svar Platons við Aristófanesi?

Halda mætti að Málsvörn Sókratesar hafi verið færð í letur af Platoni skömmu eftir að hún var mælt af munni fram. Hún sé því trúverðug heimild um óbreytta ræðu Sókratesar. Sé Málsvörnin skoðuð frá bókmenntafræðilegu sjónarmiði kemur í ljós að hún fylgir nákvæmlega uppbyggingu dómsmálaræða sem þekktar eru úr öðrum heimildum. Því hafa sumir talið að hún sé skrifuð löngu síðar og sé í raun skáldskapur. Jafnvel ákæruatriðin í Málsvörninni virðast koma betur heim við ádeilu Aristófanesar, Skýin, en frásögn málsvarnarinnar sjálfrar. Í Skýjunum er Sókrates sýndur sem náttúruspekingur og sófisti, sem spillir æskulýðnum og trúir ekki á hina grísku guði heldur á ný goðmögn, Skýin. Væri það þá hugsanlegt að Málsvörn Sókratesar sé svar Platons við Skýjunum eftir Aristófanes?

Gunnar Harðarson, dósent í heimspeki

Petrarca og tilurð húmanískra fræða

Á endurreisnartímanum kom fram samstætt nám á sviði húmanískra fræða en sjálft heitið sem notað er yfir það, studia humanitatis, kom fyrst fram hjá Petrarca sem sótti það til Ciceros. Hinn síðarnefndi varð Petrarca fyrirmynd að ýmsu öðru leyti, m.a. höfðu bréf Ciceros þau áhrif á Petrarca að hann tók að líta á sín eigin bréf sem sérstakt bókmenntaform og bjó þau til útgáfu. Gangan á Vindafjall er eitt þessara bréfa en hún er merkileg fyrir lýsingu sína á fjallgöngu, upplifun á náttúrunni, svo og hvernig hún samtvinnar stef úr hugmyndaheimi miðalda og persónulega tjáningu einstaklings að hætti endurreisnarmanna.

Gunnar Harðarson, dósent í heimspeki

Sókrates, mælskulistin og áhrif samræðunnar

Í samræðunni Gorgías eftir Platon er mælskulistin kölluð listin að sannfæra og er samkvæmt því listgrein sem hefur það að markmiði að framleiða eða skapa sannfæringu í huga áheyrenda. En hvað er þá samræðulist Sókratesar? Hvað skapar hún eða framleiðir? Oft er litið svo á að hún sé umfram allt leit að sannleikanum í tveggja manna tali, en upphaflegur tilgangur hennar og áhrif eru samt önnur. Í Menóni er Sókratesi lýst sem eins konar rafmögnuðu kvikindi sem menn fá þvílíkt stuð af að þeir vita ekki sitt rjúkandi ráð eftir að hafa komist í tæri við hann. Þannig er samræðulistin sett til höfuðs mælskulistinni sem eins konar móteitur sem skapar undrun og efa – andstæðuna við sannfæringu.

Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í guðfræði

Þórir Kr. Þórðarson og brúarsmíðin í guðfræði Gamla testamentisins

Þórir Kr. Þórðarson prófessor (1924–1995) hafði jafnan þá afstöðu til gamlatestamentis- fræðanna að þau ættu að vera annað og meira en hrein fornfræði. Heimfærslan til samtímans væri hluti af verkefninu. Alveg sérstaklega ætti það við um fræðigreinina guðfræði Gamla testamentisins. Á hinum Norðurlöndunum var sú fræðigrein yfirleitt ekki á dagskrá í samtíð Þóris og í þess stað var kennd trúarsaga Ísraels. Í þessu erindi verður lýst afstöðu Þóris til guðfræði Gamla testamentisins út frá ýmsum greinum hans og óbirtum heimildum og afstaða hans sett í samhengi við nýrri umræðu um stöðu fræðigreinarinnar. Meðal nýrri bóka sem dregnar verða inn í umræðuna eru bækur Bandaríkjamannsins W. Brueggemann (1997) og Þjóðverjans E. Gerstenberger (2001).

Gunnvör S. Karlsdóttir, doktorsnemi í bókmenntum

Fyrnska eða nýbreytni? Um trúarviðhorf Guðmundar Arasonar í ólíkum heimildum

Guðmundur góði Arason Hólabiskup (1161-1237) var umdeildur af samtíðarmönnum og enn er leitað skýringa á að sumu leyti illskiljanlegum háttum hans. Rýnt hefur verið í áhrifamikil erlend fræðirit um hans daga og nýjar trúarhreyfingar á meginlandinu án þess að skýr tengsl hafi komið í ljós. Sýnt hefur verið fram á að Guðmundur fylgdi kirkjuvaldsstefnu í þeim anda sem kennd er við klaustur heilags Viktors í París en það virðist þó ekki geta skýrt trúarafstöðu hans til hlítar. Var hún heimafengin eða borin af samtímastraumum sunnan úr álfu? Traustasta heimildin og sú sem helst hefur verið horft til er svonefnd Prestsaga frá 13. öld, varðveitt í Sturlungu. Tímabært er að leita einnig eftir frekari vísbendingum um trúarviðhorf Guðmundar í sögum hans frá 14. öld þó túlkun þeirra horfi að flestu leyti á annan hátt við en Prestsögunnar.

Hafdís Ingvarsdóttir, dósent í kennslufræði/menntunarfræði, Félagsvísindasviði Teaching English in Grade Ten

Increasingly, English is being used as a lingua franca all over the world. Recent directives from the Icelandic Ministry of Education reflect this trend and call for a restructuring of education and instruction at primary and secondary school levels. The question arises how teachers view this change. The research reported here is a part of an ongoing larger study of English in Iceland pertaining to all school levels. This paper focuses on the teaching of English in grade ten. A questionnaire was administered to teachers in eighteen schools, followed up by in-depth interviews with nine teachers. I will discuss how the teachers view the change in the role and status of English and how they are making sense of their role as teachers of English.

Haukur Þorgeirsson, doktorsnemi í málfræði

Guð og son í rími

Orðin guð og son voru trúarskáldum fyrri alda töm á tungu en vandasamt gat reynst að finna rímorð við þau. Fyrir hljóðdvalarbreytingu gátu reglur um atkvæðaþyngd einnig takmarkað hvar hægt var að finna þessum orðum stað. Hér verður sjónum beint að hljóðbreytingunum sem orðin og hugsanleg rímorð við þau hafa gengið í gegnum. Einkum verður tekist á við athuganir Hreins Benediktssonar á hljóðbreytingunni > vo og rannsókn Jóns Helgasonar á orðinu guð.

Heiða Jóhannsdóttir, kvikmyndafræðingur

Kvikmyndaaðlaganir og kynjuð rými nútímans

Í fyrirlestrinum verður fjallað um kvikmyndaaðlaganir á leikriti breska leikskáldsins Stanley Houghton, Hindle Wakes (1912), en verkið ögraði m.a. viðteknum hugmyndum um kyn- og athafnafrelsi kvenna. Þrjár kvikmyndir byggðar á leikverkinu komu fram á sjónarsviðið á árunum 1918–1931 og héldu kynjapólitískri orðræðu leikverksins þannig á lofti á umrótartímum millistríðsáranna í Bretlandi. Miðlæg í aðlögunarmengi leikverksins er kvikmynd Maurice Elvey (Hindle Wakes, 1927) en hana má telja til merkari framlaga breskrar kvikmyndagerðar á þögla tímanum. Aðlögunin felur í sér áhugaverða sjónræna úrvinnslu á samfélagslegri gagnrýni verksins þar sem ólík rými nútímans (s.s. rými vinnunnar, rými afþreyingar og rými heimilisins) verða miðlæg í framsetningu hugmyndafræðilegra átaka og breytinga á kynbundinni aðgreiningu/skipan opinbers rýmis og einkarýmis.

Helga Birgisdóttir, doktorsnemi í bókmenntum

Röskir strákar og ráðsnjallir eða ragir og ráðalausir? Strákaímyndin í íslenskum bernskuminningum

Í kjölfarið á útgáfu Nonna eftir Jón Sveinsson og Bernskunnar eftir Sigurbjörn Sveinsson kom út fjöldi bernskuminninga sem eiga það flestar sameiginlegt að vera eftir karlmenn og fjalla um röska og ráðsnjalla stráka sem staðfesta karlmennsku sína með því að sigrast á ytri ógnum á borð við veiðiþjófa, frekar stelpur eða óvinaklíkur. Í fyrirlestrinum verður fjallað um bernskuminningar í þessum anda sem og þá strákaímynd sem birst hefur í nýrri bókum, t.d. verkum Einars Kárasonar og Mikaels Torfasonar og verður unnið út frá kenningum í karlafræðum og sjálfsævisagnafræðum.

Helga Kress, prófessor emeritus í bókmenntum

Er hægt að paródera paródíu? Um sjálfspeglanir og spéspeglanir í Fóstbræðrasögu og Gerplu

Það er viðtekin bókmenntasöguleg skoðun að Íslendingasögur séu hetjubókmenntir, bornar uppi af karlmennsku og hetjuhugsjón. Það er einnig viðtekin skoðun að Gerpla (1952) eftir Halldór Laxness sé paródía á þessar bókmenntir með Fóstbræðrasögu sem fyrirmynd en báðar fjalla sögurnar um þá fóstbræður kvenhatarann Þorgeir Hávarsson og kvennabósann Þormóð kolbrúnarskáld. Í viðtali við Matthías Johannessen frá 1972 segir Halldór að með Gerplu hafi hann viljað semja „fornlegt listaverk handa nútímafólki“ og því skrifað söguna á fornmáli. Aðspurður um Fóstbræðrasögu telur hann hana misjafna í stíl og samsetningu en þó séu í henni „ekta kvenlýsingar“.

Gerpla er vissulega paródía á þá hetjuhugsjón sem lýst er í Íslendingasögum en það er Fóstbræðrasaga einnig sem speglar hetjurnar í grótesku myndmáli og karnivölskum sviðsetningum. Í fyrirlestrinum verður fjallað um sjálfspeglanir og spéspeglanir Fóstbræðrasögu frá kynjafræðilegu sjónarhorni og hvernig þær endurspeglast í frásagnarhætti Gerplu sem hvort tveggja í senn hneigist til að ofspegla eða afspegla paródískar speglanir frumtextans.

Helgi Guðnason, MA-nemi í guðfræði

Lagahefðir gyðingdóms í ljósi hellenískrar mælskufræði

Áhrifa menntastefnu Alexanders mikla (356–323 f.Kr.) átti eftir að gæta lengur en flestra annarra sigra hans og eftirmanna hans á valdastóli. Mælskufræði hófst (að nýju) til vegs og virðingar og frá öldunum í kringum Kristsburð eru varðveittar kennslubækur (Progymnasmata) þar sem m.a. er að finna nákvæmar aðferðir við röklega útfærslu á textaforsendum. Rannsóknir í mælskufræði hafa á undanförnum árum varpað nýju ljósi á kristnar bókmenntir innan og utan Nýja testamentisins. Minna hefur farið fyrir rannsóknum á áhrifum hellenískrar mælskufræði á rabbínska texta, sem flestir eru varðveittir í yngri ritum en Nýja testamentinu, t.d. Talmúd. Í þessum fyrirlestri verður gerð grein fyrir rannsóknum á svokölluðum kreijum í rabbínskum lagatextum og hvernig þær eru útfærðar. Jafnframt verður fjallað um samband þeirra við rabbínskt bókmenntaform frá áttundu öld þessa tímatals, þ.e. responsuna, og fjallað um samhengið á milli kreijunnar og responsunnar.

Helgi Þorláksson, prófessor í sagnfræði

Baráttan fyrir kjöri sóknara á 14. öld

Á 14. öld var merkileg togstreita milli konungs og ráðamanna á Íslandi. Ein helsta krafa þeirra sem í forystu voru innan lands var að lögmenn og sýslumenn væru íslenskir. Virðist sem tekist hafi að fá því framgengt þótt í annað stefndi í upphafi aldarinnar. Jafnframt kröfðust foringjar landsmanna að lögmaður væri kjörinn í lögréttu og telja sumir fræðimenn að þeir hafi fengið þessu framgengt frá 1390. Hér verður fjallað um það að Íslendingar gerðu líka kröfu um að fá að velja aðstoðarmenn sýslumanna, svonefnda sóknarmenn eða sóknara, og færð rök fyrir að þeir hafi fengið þessu framgengt. En skertu þeir ekki með því vald konungs? Hvað vakti fyrir landsmönnum með þessari baráttu?

Henry Alexander Henrysson, nýdoktor hjá Heimspekistofnun

Tilraun um verundina: Er ein stök verund einföld?

Flestar þær verur og hlutir í kringum okkur sem heimspekingar nefndu öldum saman verundir eru samsett fyrirbæri. Sú spurning hefur aftur á móti fylgt heimspekinni lengi hvort þessi staðreynd passi við verundarhugtakið ef það á við veru sem er fullkomlega skiljanleg og útskýranleg án þess að vísað sé í hluta hennar eða aðra hluti sem hafa áhrif á samsetningu hennar. Á sautjándu öld töldu flestir heimspekingar að 32

verundarhugtakinu yrði ekki bjargað nema með róttækri endurskilgreiningu, t.d. með hugmyndinni um hina einföldu verund. Markmið þessarar tilraunar eru tvenns konar: Annars vegar verður leitast við að meta kunn rök fyrir einföldum verundum frá sautjándu og átjándu öld með það fyrir augum að svara því hvort ein stök verund þurfi að vera einföld. Hins vegar verður frumspekilegt eðli verundarhugtaksins áréttað og rök færð fyrir takmörkunum á því að láta skilning á hugtakinu fylgja þróun náttúruvísinda.

Hjalti Hugason, prófessor í guðfræði

Kristsgerfingur eða spémynd? — Þverstæðan Guðmundur góði

Guðmundur biskup Arason er einn umdeildasti einstaklingurinn í sögu okkar. Í byrjun 20. aldar lýsti einn af „eftirmönnum“ hans, Þórhallur Bjarnarson, afstöðu sinni til hans svo: „ Sá þeirra biskupanna allra er mestan hafði hitann í sálunni að vinna fyrir guðsríki hér á jörðu, og að mínum skilningi hafði þeirra mest af Jesú Kristi í sér ... hann varð í straumbrotum aldarfarsins spémynd síns tíma, og kom óviljandi og óvitandi svo miklu illu til leiðar, að eigi gat eg haft verulegan samhug með honum.“

Glímt verður við þverstæðuna sem felst í lífi og starfi Guðmundar og kannað hvort skýra megi hana með hjálp greiningarhugtaka sem sótt eru til nútíma geðlæknis- og meðferðarfræða.

Hólmfríður Garðarsdóttir, dósent í spænsku

Í kjölfar kollsteypu: Nýbylgja í argentínskri kvikmyndagerð

Í kjölfar efnahagsþrenginga Argentínu árið 2001 breyttist allt en samt svo fátt. Átök hagsmunaaðila snerust áfram um ítök og völd. Stjórnvöld voru jafn sjálfhverf og alltaf. Yfirstéttin átti ennþá fátt sameiginlegt með lýðnum. En miðstéttin missti efnahagslega fótfestu og fagurfræðin varð önnur. Í kvikmyndagerð beindust kastljósin að því smáa, því staðbundna og einfalda en um leið því sem öllu máli skiptir fyrir einstaklinginn hverju sinni. Eilífðarspurninguna um tilgang og tilvist og hrópandi óréttlætið hvarvetna. Kvikmyndagerðarmennirnir Gaetano, Stagnaro, Gugliotta, Durman, Martel, Rosell og margir fleiri urðu málsvarar nýrra daga og í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir áherslum þeirra og nýmælum.

Hulda Kristín Jónsdóttir, doktorsnemi í ensku

Communication or Conundrum? ELF in the Business Environment

Various experts have concluded that despite everything English is, de facto, becoming the Lingua Franca of the modern world (Seidlhofer, Breiteneder, and Pitzl 2006; Jenkins, 2003). The international business and political sector could therefore serve as an appropriate microcosm for research on the nature and use of English as a Lingua Franca, as businesses and governments are not only required to be culturally and socially aware, but they are also expected to maintain a degree of fluency in the ‘language currency’ of their environment.

Research on ELF is just beginning. The linguistic and pragmatic characteristics of the use of English as a Lingua Franca in communication amongst non native users is not well understood, nor is the effect of the use of ELF on the outcomes of the speech acts in which it is employed. In light of these developments, this study will focus on describing the nature of ELF in the international business world. It will describe communication between native speakers, between native speakers and non native speakers and between non native speakers.

Höskuldur Þráinsson, prófessor í málfræði

Innri og ytri breytileiki í fallmörkun

Í umræðum um tilbrigði og breytileika í máli er oft gerður greinarmunur á því sem mætti kalla ytri breytileika (e. inter-speaker variation) og innri breytileika (e. intra-speaker variation). Með ytri breytileika er í sem stystu máli átt við að einstakir málnotendur tali á ólíkan hátt en með innri breytileika er átt við tilbrigði í máli sama málnotandans.

Þeir sem hafa rannsakað tilbrigði í máli hafa yfirleitt gefið meiri gaum að ytri en innri breytileika. Í þessum fyrirlestri verður litið á innri og ytri breytileika í íslenskri og færeyskri fallmörkun (fallstjórn) og m.a. sýnt fram á að innri breytileiki er algengari þegar um er að ræða frumlagsfall en andlagsfall í þessum málum. Sýnt verður hvernig hægt er að nota tölfræðilega úrvinnslu til að meta innri og ytri breytileika og varpað fram spurningum um hvaða ályktanir má draga af þessu um eðli tilbrigða í máli og málkunnáttunnar almennt.

Irma Erlingsdóttir, lektor í frönsku

Það hangir á spýtunni – Um bókmenntakenningar Jacques Derrida

Jacques Derrida telur ómögulegt að greina sögu bókmenntanna frá sögu lýðræðis: Bókmenntastofnunin er ekki möguleg nema í samhengi við lýðræði. Bókmenntir hafa rétt til að segja allt og jafnframt til að segja ekki allt – þær hafa rétt til leyndarmáls, og til að þegja yfir því. Þeim er ekki gert, eða þeim á ekki að gera, að svara valdinu, beygja sig undir það, hvort sem það er ríkisvald, trúarbrögð eða stjórnmálaflokkur. Skrif Derrida um bókmenntirnar tengjast kenningum hans um verðandi lýðræði. Lýðræðið þarf að vera skilyrðislaust; það sama gegnir um bókmenntir. Þær er ekki hægt að skrifa eftir forskrift. Bókmenntir verða í skrifunum sjálfum og þær bera vott um mátt samlíkingarinnar: „Líkt og ...,“ segir Derrida, og þar með opnar skáldskapurinn fyrir möguleikann á því að hugsa lýðræðið sem eitthvað óorðið.

Joel C. Wallenberg, nýdoktor hjá Málvísindastofnun

The Rise of Positional Licensing, Revisited

In his seminal paper on the relationship between word order and case-licensing, Kiparsky (1997) firmly establishes that while rich case morphology and word order freedom do have a typological relationship, rich case morphology does not imply free word order. Instead, Kiparsky proposes that the implication is only unidirectional: the lack of a rich case system implies fixed word order, but not the other way around. He proposes that this unidirectional generalization stems from the fact that languages can license abstract Case either by position or by morphology directly, and it is only rich case-marking languages that have a choice between the two.

This paper is an attempt to see how far we can get without even this unidirectional generalization. In this talk, I will show that most of the facts on which Kiparsky bases his analysis are due to an independent constraint on scrambling (Wallenberg 2009), coupled with structural differences between OV and VO languages which are naturally explained under an antisymmetric phrase structure (Kayne 1994).

Jóhanna Barðdal, rannsóknardósent við Björgvinjarháskóla

Formgerðarfall og orðasafnsfall: Kynning

Kynnt verða hugtökin formgerðarfall og orðasafnsfall, reglufall og furðufall, sem og grundvallarhugtök konstrúksjónsmálfræði sem máli skipta fyrir kenningar fyrirlesarans um íslenska fallakerfið.

Jóhanna Barðdal, rannsóknardósent við Björgvinjarháskóla

Formgerðarfall og orðasafnsfall: Stenst sú tvískipting?

Tvískiptingin í formgerðarfall og orðasafnsfall og aftur undirtvískiptingin í reglufall og furðufall spáir ákveðnum hlutum um a) samtímalega virkni, b) málbreytingar og c) máltöku. Ég mun sýna fram á það hér að þessar spár standast ekki fyrir íslensku. Þvert á móti benda gögn um samtímalega virkni til þess að þolfallsandlögum sé deilt út til tökusagna í íslensku á grundvelli orðasafnsmyndar og ekki á grundvelli formgerðar. Að auki eru tvær breytingar á fallamynstrum í sögu germanskra mála sem aðeins er hægt að skýra með tveimur mismunandi fallalíkönum, sem aftur merkir það að fallalíkönin tvö eru hvort um sig nauðsynleg til þess að skýra áðurnefndar málbreytingar. Það í sjálfu sér dregur úr skýringargildi tvískiptingarinnar. Leidd verða rök að því hér að sá eiginleiki orðasafnsfalls að halda sér í þolmynd og lyftingarsetningum sé fyrst og fremst bundinn við ákveðnar konstrúksjónir og gildi ekki „almennt“ fyrir íslenskar setningagerðir. Í stað greiningar sem byggir á tvískiptingu generatífrar málfræði í formgerðarlegt fall og orðasafnsfall mun ég stinga upp á konstrúksjónsmálfræðilegri greiningu sem byggir á tíðni og notkun. Sú greining felur í sér að litið er á föll beinna rökliða í íslensku sem „orðasafnsföll“, þ.e.a.s. orðbundna fallmörkun sem geymd er í orðasafninu. Hægt er að ná utan um greiningu af þessu tagi með stigveldi sem spannar dreifisvið frá orðasafnseiginleikum til formlegra eiginleika. Stigveldi af þessu tagi ná utan um séreinkenni sagnbundinna konstrúksjóna, breiðari alhæfingar og geta einnig útskýrt þau sjálfgefnu einkenni sem eru til staðar í nf–þf-fallamynstrinu í íslensku.

Jóhannes Gísli Jónsson, aðjunkt í málfræði

Formgerðarfall og orðasafnsfall: Hver er munurinn?

Sú hugmynd er vel þekkt að fall á rökliðum skiptist í formgerðarfall (e. structural case) og orðasafnsfall (e. lexical case) og fyrir henni hafa verið færð ýmis rök, bæði í íslensku og öðrum málum sem hafa ríkulegt fallakerfi. (Í tungumálum með tvö föll, eins og t.d. ensku, er ekki ástæða til að gera ráð fyrir neinu öðru falli en formgerðarfalli.) Samt sem áður virðist þessi skipting hafa takmarkað skýringargildi þegar kemur að ýmsum setningafræðilegum fyrirbærum, t.d. breytileika í fallstjórn og sögulegri þróun fallstjórnunar. Í þessum fyrirlestri verður rætt hvað skiptingin í formgerðarfall og orðasafnsfall ætti hugsanlega að geta útskýrt og hvort ekki megi finna ný rök fyrir þessari skiptingu. Niðurstaðan er í stuttu máli sú að ekki sé ráðlegt að hafna þessari skiptingu fyrir íslensku með því að gera ráð fyrir að allir rökliðir í málinu fái eins konar orðasafnsfall.

Jón Ma. Ásgeirsson, prófessor í guðfræði

Jóreykur í Anatólíu: Efesus á milli Rómar og Konstantínópel

Borgin Efesus á sér fjarska fornar rætur en búseta á svæðinu hefir verið rakin átta þúsund ár aftur í tímann. Breytingar á landslagi og jarðskjálftar ásamt baráttu um yfirráð urðu til þess að búsetusvæði og síðar borgarstæði fluttust nokkuð til en þó aldrei fjarri eldra skipulagi. Borgin komst í hendur Rómverja árið 133 fyrir Krists burð og var gerð að höfuðborg rómverska heimsveldisins í austri af Ágústusi keisara frá upphafi keisaratímans. Efesus skipaði þannig stóran sess í heimi Rómverja eins og líka Antíokkía á landamærum Frýgíu og Pisidíu en hún varð miðstöð rómverska hersins um baráttuna austur á bóginn. Í frumkristni er Efesus jafnt vettvangur atburða í Nýja testamentinu og átaka um kristnar kenningar á fimmtu öld. Í þessu erindi verður fjallað um sögu og fornleifafræði borgarinnar Efesus frá keisaratímanum og til upphafs býsantínska tímans frá sjónarhóli klassískra og kristinna menningarstrauma.

Jón Ma. Ásgeirsson, prófessor í guðfræði

Frá Esra til Mishna: Munnlegar og ritaðar lagahefðir gyðingdómsins og Nýja testamentið

Frá elsta skeiði endurreisnar Esra og Nehemía (538–300 f.Kr.) eru varðveittar fáar lagaheimildir aðrar en þær sem er að finna í Mósebókum eða hlutum þeirra. Síðgyðing- dómur spannar nokkurn veginn tímabilið frá 300 f.Kr. til 70 e.Kr. (fall musterisins í Jerúsalem) en frá því tímabili er m.a. grísk þýðing Gamla testamentisins (Septúaginta) sem varðveitir mikilvægar lagahefðir í apókrýfum bókum Septúagintu. Rabbínskt lagaefni frá mótum núverandi tímatals er þó einkum varðveitt í Mishna (lögbók Gyðinga) frá því um aldamótin 200 e.Kr. Í þessu erindi verður fjallað um elstu lagahefðir gyðingdómsins í samhengi Nýja testamentisins og rabbínsk gyðingdóms sem tekur að mótast um svipað leyti og kristindómurinn eða eftir fall musterisins í Jerúsalem árið 70 e.Kr. Sérstaklega verður fjallað um vandamál sem lúta að meintri munnlegri varðveislu lagahefða áður en þær voru skráðar á blað og hvernig lagahefðir eru flokkaðar á milli Júdeu og Gyðinga í dreifingunni.

Jón Gíslason, aðjunkt í íslensku fyrir erlenda stúdenta

Orðaforði málnema í íslensku sem öðru máli

Í fyrirlestrinum verður fjallað um evrópska tungumálarammann og þann hluta Dialang- prófsins sem mælir orðaforða málnema í ýmsum málum, þar á meðal í íslensku. Þá verða kynntar niðurstöður úr orðaforðakönnun þar sem orðaforði málnema á öðru ári í íslensku er metinn, annars vegar með því að leggja fyrir orðaforðapróf og hins vegar með ritunarverkefnum.

Jón Axel Harðarson, prófessor í málfræði

Málsögulegt gildi handritsins AM 237 a fol.

Handritið AM 237 a fol., sem er frá því um 1150 eða skömmu síðar og varðveitir tvö hómilíubrot, er mjög mikilvægt fyrir íslenzka málsögu, þrátt fyrir að það sé aðeins fjórar blaðsíður að lengd. Þar er t.d. öllum munnkveðnum sérhljóðum sem lýst er í Fyrstu málfræðiritgerðinni haldið aðgreindum en það er ekki gert í öðrum handritum. Enn fremur virðist tvívaramælt [β] vera varðveitt í innstöðu á milli sérhljóða og er öðrum forníslenzkum heimildum ekki til að dreifa um það. Þá er hljóðasamböndunum ds og ts haldið aðgreindum eins og í Fyrstu málfræðiritgerðinni en á seinni hluta 12. aldar féllu þau saman. Málið á handritinu er almennt mjög fornlegt og á það jafnt við um hljóðkerfis-, beygingar- og setningarfræði. Í erindinu verður fjallað um þau málvísinda- legu atriði sem markverðust mega teljast.

Jón Hilmar Jónsson, rannsóknarprófessor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum Alls konar orðskrípi – Hvað er fordæmt og með hvaða orðum?

Fordæming á orðum og orðafari á sér fjölbreytileg tjáningarform í íslensku og því sem amast er við eru valin ýmis nöfn. Sum þeirra fela í sér afdráttarlausan dóm um rétt og rangt (málvilla), önnur endurspegla afstöðu til hreinleika málsins (sletta), enn önnur eru umfram allt þrungin hneykslun og fordæmingu (orðskrípi). Í erindinu verður svipast um í þessu orðafari með hliðsjón af því um hvað það er haft og að hverju fordæmingin beinist.

Jón Ólafsson, prófessor á Bifröst

Lifi byltingin!

Í janúar árið 2009 skapaðist byltingarástand í Reykjavík. Götuvígi voru reist, varðeldar kveiktir á einu aðaltorgi borgarinnar og fyrir framan þjóðleikhús landsins. Múgur og margmenni skálmaði um göturnar, hrópaði vígorð, barði bumbur og málmhluti. Lögreglan þurfti að margefla alla gæslu, verja opinberar byggingar, veita stjórnmálamönnum og embættismönnum skjól og hafa hemil á mótmælendum sem höfðu sig mest í frammi. Þegar þetta ástand hafði varað í nokkra daga hrikti í stjórnkerfi landsins, ríkisstjórnin sagði af sér og á fáeinum dögum fékk fólkið öllum helstu kröfum sínum framgengt.

Var þetta bylting? Í fyrirlestrinum verður gerð tilraun til að greina atburðarás og orðræðu „búsáhaldabyltingarinnar“ til að leggja drög að svari við þessari spurningu.

Jón Ásgeir Sigurvinsson, doktorsnemi í guðfræði

„Jahve einn er Guð!“ - en var það alltaf svo?

Viðtekið er að líta á trú hebrea á Jahve sem eingyðistrú, þ.e. að þeir hafi ávallt litið svo á að Jahve einn væri sannur guð og að þetta hafi umfram annað greint hebrea frá öðrum þjóðum frjósama hálfmánans til forna. Sú mynd sem nýjustu texta- og fornleifarannsóknir bregða upp af sögu konungdæmanna Ísraels og Júda og ritunarsögu Gamla testamentisins gefur hins vegar ekki aðeins tilefni til þess að efast um að „hebrear“ hafi nokkurn tíma verið til sem einsleitur þjóðflokkur heldur einnig um það að Jahve-trúin hafi frá upphafi verið sú hreina eingyðistrú sem hefðbundinn Biblíuskilningur gerir ráð fyrir. Í fyrirlestrinum verður litið á vísbendingar í textum G.t. um að litið hafi verið á Jahve sem einn guð af mörgum, guð einnar þjóðar við hlið guða annarra þjóða.

Juan Pablo Mora Gutiérrez, dósent við Sevillaháskóla, Spáni

El español entre el nuevo y el viejo mundo: contribución de la variedad lingüística andaluza en la formación del español de América

La cuestión sobre si las características lingüísticas que conforman el español de América provienen de la variedad lingüística andaluza ha sido una de las cuestiones más debatidas y controvertidas en la sociolingüística hispánica. En esta presentación se hará un repaso al estado de la cuestión y se propondrá que si bien es cierto que algunos de los rasgos comunes en toda América como la fusión de los fonemas s y þeta y el uso de ustedes probablemente provienen del andaluz, otros, como los debilitamientos consonánticos presentes en las variedades del litoral americano se deben a procesos fonológicos naturales que bien pudieran haberse producido en paralelo.

Kaoru Umezawa, lektor í japönsku

Transliterating Icelandic Names into Japanese

One of the first requirements for Icelandic students learning Japanese is to know how their names should be pronounced in the target language. Icelandic speakers must be able to recognize their own names, but at the same time, the names must be made to fit into the Japanese sound system. –It is difficult to find a compromise between these two requirements when the transliteration has to be done between the languages such as Icelandic and Japanese which have completely different sound system.

For this exploratory study, eight types of phonemes were chosen and several Japanese and Icelandic subjects were asked to choose the closest equivalent to the original language. Their response indicated certain general tendencies.

Katrín Axelsdóttir, aðjunkt í íslensku

Einhverjar breytingar

Fornafnið einhver hefur tekið allnokkrum breytingum í tímans rás. Það er orðið til úr töluorðinu/fornafninu einn og fornafninu hverr, og í öndverðu munu báðir liðir fornafnsins hafa beygst: einnhverr (nf.), einnhvern (þf.), einumhverjum (þgf.), o.s.frv. Í nútímamáli er fyrri liður fornafnsins hins vegar ævinlega óbeygður eða stirðnaður, ein-, nema í nf./þf.hk.et., eitthvert, eitthvað.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um hversu algengt það var í fornu máli að fyrri liður beygðist, hvað breytingin (stirðnun fyrri liðar) tók langan tíma og hvernig hún atvikaðist. Einnig verður litið á nokkrar beygingarlegar hliðstæður.

Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt í íslensku fyrir erlenda stúdenta

Vefurinn og gildi hans við kennslu íslensku sem annars máls: Icelandic Online og kennsla fallbeygingar

Í fyrirlestrinum verður fjallað um gildi vefjarins við kennslu tungumáls. Í þeim tilgangi verður skyggnst nánar inn í vefkennsluefnið Icelandic Online sem er ætlað íslenskunemum með annað móðurmál en íslensku. Sýnd verða afmörkuð dæmi um það hvernig vefurinn getur nýst til að miðla flóknum málfræðiþáttum á einfaldan og myndrænan hátt

Aðferðafræðin sem liggur til grundvallar Icelandic Online 1 og 2 hefur orðið forskrift að gerð frekara námsefnis á vefnum. Greint verður frá nýjum námskeiðum sem nú eru í burðarliðnum.

Kristinn Ólason, rektor Skálholtsskóla

„Jahve hefur sagt að hann vilji búa í myrkri“ (1Kon 8.12). Um sólardýrkun í musteri Salómons í Jerúsalem

Í erindi þessu verður fjallað um hebreska textann í Fyrstu Konungabók 8. kafla. Fjallað verður um nokkur textavandamál og túlkunarsögu þeirra. Gerð verður grein fyrir uppbyggingu kaflans, inntaki og markmiði. Þá verður meginefni hans skoðað í

trúarbragðasögulegu samhengi, einkum í ljósi sólardýrkunar í Mesópótamíu til forna. Loks verður gerð tilraun til að svara því hvort og þá að hve miklu leyti Jahveátrúnaðurinn mótaðist af sólardýrkun.

Kristín Bjarnadóttir, rannsóknarlektor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum Að bestu manna yfirsýn: Hvernig er ákveðið hvað er rétt mál og hvað er rangt?

Krafan um úrskurð um rétt mál og rangt er rík í hugum fólks og á það ekki síst við um beygingu orða. Í erindinu mun ég athuga hvernig beygingarreglur eru settar fram í málfræðibókum, á hverju þær byggjast og hvernig þær eru túlkaðar. Sterk tilhneiging virðist vera til að alhæfa út frá slíkum reglum, jafnvel þannig að þær séu látnar ná yfir meira efni en rannsóknir benda til að sé réttlætanlegt. Sem dæmi má nefna beygingu sterkra hvorugkynsnafnorða og -na í eignarfalli fleirtölu af veikum kvenkynsorðum. Við hvað eiga „bestu menn“ að styðjast í slíkum tilfellum?

Kristín Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt í spænsku

„Þar búa konur einar án karla.“ Um amasónur og landvinningamenn í Nýja heiminum

Allt frá því Evrópumenn stigu fyrst á land í Ameríku fylgdu þeim margar gamlar evrópskar goðsagnir sem höfðu ekki aðeins afgerandi áhrif á sýn þeirra á álfuna heldur einnig landvinninga. Ein þessara goðsagna var um amasónurnar eða skjaldmeyjarnar herskáu en margir leiðangrar voru gerðir út til að reyna að hafa uppi á þeim í Nýja heiminum. Í erindinu verður rakin leit Evrópumanna að skjaldmeyjunum í þessum heimshluta og birtingarmynd þeirra skoðuð. Einkum er stuðst við kronikur frá 16. og 17. öld sem margar segja frá leit Spánverja, Englendinga og Þjóðverja að skjaldmeyjunum goðsögulegu í þeim löndum sem nú tilheyra Rómönsku Ameríku.

Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði, Félagsvísindasviði

Þegar kallið kemur: Þjóðarímynd í útrás og kreppu

Í fyrirlestrinum er fjallað um íslenska þjóðarímynd í tengslum við hugmyndir um uppruna Íslendinga frá úrvalskyni sem birtist í námsefni í upphafi 19. aldar. Fjallað er um merkingu þrástefa sem sjá má í þessum námsbókum í nýju efnahagslegu og samfélagslegu samhengi útrásar og kreppu. Samhliða er lögð áhersla á notkun þjóðernislegra tákna í samhengi hnattræns heims nútímans.

Kristján Árnason, prófessor í málfræði

Alþýðumálvísindi og alvörumálvísindi

Ég mun ræða um muninn á alþýðlegri og fræðilegri umfjöllun um mál. Er grundvallarmunur á alþýðlegum hugtökum eins og slappmæli, flámæli, harðmæli, þágufallssýki og er-að-æði og hugtökum sem virðast hlutlausari og fræðilegri, svo sem raddaður framburður, þágufallshneigð, viðtengingarháttur og ný þolmynd. Hvað er sameiginlegt og ólíkt með þessum tveimur gerðum nafngifta á málfræðilegum fyrirbrigðum? Hvaða áhrif hafa alþýðumálvísindi á alvörumálvísindi, og hvaða áhrif hafa alvörumálvísindi, eða geta haft, á alþýðumálvísindi og málræktarumræðu?

Kristján Árnason, prófessor í málfræði

Gildi stuðlasetningar í íslenskri ljóðagerð

Það er ein stór spurning, hvers vegna íslenskur kveðskapur hélt í stuðlasetningar- hefðina meðan frændþjóðir gáfu hana upp á bátinn. Rannsóknir benda til þess að í sögu íslensks kveðskapar hafi menn verið mis-kröfuharðir á að fylgja þessum reglum, og að stundum séu seinni alda menn jafnvel „kaþólskari en hinir fornu páfar“. Og þrátt fyrir stílbyltingar, eins og þær sem fylgja atómskáldskap og textasmíð við dægurlög, virðast stuðlar haldast lengi vel. Þótt skáld eins og Jóhannes úr Kötlum eða Hannes Pétursson hætti að ríma, halda þeir áfram að stuðla. Hvers vegna er það? Og hvers vegna var Lóa litla á Brú lagleg en ekki sæt, og af hverju var Sveinn á litlum bíl? Í mörgum tilvikum hafa stuðlarnir táknrænt, aðgreinandi hlutverk frekar en fagurfræðilegt.

Maare Fjällström, sendilektor í finnsku

Compiling the International Corpus of Learner Finnish

University of Iceland has through its Finnish studies program participated since 2008 an ongoing project of compiling the International Corpus of Learner Finnish (ICLFI). Compiling the corpus is part of the project Corpus study on language-specific and universal features in learner language at the university of Oulu in Finland.

The aim of this presentation is to tell about the above mentioned corpus project and how the Finnish studies at the University of Iceland has participated in compiling the corpus. At the same I also want to present some possibilities this corpus and other similar corpuses can offer for research and teaching.

Magnús Sigurðsson, bókmenntafræðingur

Umfjöllun og dómamenning: um viðtökur verka Gyrðis Elíassonar

Í fyrirlestrinum munu tvær síðustu bækur Gyrðis Elíassonar, smásagnasafnið Milli trjánna (2009) og ljóðabókin Nokkur almenn orð um kulnun sólar (2009), teknar til athugunar, meðal annars út frá viðtökum þeirra sem og í ljósi viðtökusögu Gyrðis Elíassonar sem höfundar í gegnum árin. Þá munu helstu efnisþræðir bókanna tveggja raktir og fjallað um sameiginlega þætti þessara systrabóka sem og hvað greinir þær að.

Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum Hljómi raustin barna best: Uppruni, umsköpun og útbreiðsla gamals jólasálms í handritum fyrr á öldum

Erindið fjallar um jólasálm sem aldrei hefur verið prentaður í sálmabókum en er eignaður sr. Hallgrími Péturssyni og birtist fyrst á prenti í Hallgrímskveri árið 1773. Í þeim 26 handritum sem varðveita sálminn er hann ýmist 16 erindi eða aðeins þrjú. Skýringin er sú að sr. Bjarni Gissurarson, skáldprestur á Austfjörðum og samtímamaður Hallgríms, hefur þýtt fyrstu þrjú erindin úr latínu og er frumtextinn þekktur latneskur hymni, Personent hodie, sem talinn er vera frá 12. öld. Sálmurinn er varðveittur á latínu í litlu kveri sem talið er upprunnið í Skálholti. Í erindinu verður fjallað um uppruna handritanna sem varðveita sálminn, hvaðan af landinu þau eru, hvað vitað er um eigendur þeirra og hugsanlega notkun; athyglinni beint að því hvernig félagslegt samhengi getur mótað texta og valdið á þeim ýmiss konar breytingum.

Margrét Jónsdóttir, dósent í íslensku

Stigbreyting lýsingarorðanna djúpur, drjúgur, mjúkur í sögulegu ljósi

Í fyrirlestrinum verður rætt um miðstig lýsingarorða með stofngerðina –júC–. Þetta eru t.d. orðin djúpur, drjúgur og mjúkur. Hjá Noreen kemur fram að miðstigið af djúpur hafi verið djúpari en líka dýpri. Hann nefnir ekki mjúkur. Í Guðbrandsbiblíu mynda djúpur og mjúkur miðstig með –ar–. Í beygingarfræði Valtýs Guðmundssonar er mjúkur mjúkari en djúpur dýpri eða djúpari. Í ritmálsskrá Orðabókarinnar er elsta dæmið um hljóðverpt miðstig af djúpur frá lokum átjándu aldar. Það er þó ekki fyrr en á nítjándu öld að hljóðverptu myndirnar verða algengar við hlið hinna. Saga hljóðverpta miðstigsins af mjúkur er svipuð. Á drjúgur er hvergi minnst í áðurnefndum heimildum en í ritmálsskrá Orðabókarinnar eru elstu hljóðverptu myndir orðsins frá miðri nítjándu öld; jafnframt eru til óhljóðverptar myndir frá sama tíma.

Markmiðið er að skýra hvers vegna a.m.k. sum orð áðurnefndrar gerðar hafa breytt stigbreytingu sinni. Viðfangsefnið verður skoðað jafnt sögulega sem samtímalega.

María Garðarsdóttir, aðjunkt í íslensku fyrir erlenda stúdenta og Sigríður Þorvaldsdóttir, aðjunkt í íslensku fyrir erlenda stúdenta Orðaforði í íslensku millimáli

María og Sigríður vinna nú að rannsókn á íslensku millimáli og styðjast þar við talmálsgögn frá nemendum í íslensku fyrir erlenda stúdenta við HÍ. Í fyrirlestrinum verður fjallað um orðaforða málnemanna og þróun hans á nokkurra mánaða tímabili verður greind og metin út frá evrópska tungumálarammanum.

Már Jónsson, prófessor í sagnfræði

Lausafjáreign vinnukvenna um miðja 19. öld

Því fer fjarri að vinnukonur í svonefndu „gamla sveitasamfélagi“ hafi verið einsleitur hópur. Sumar konur voru aðeins í vist í fáein ár en giftust síðan; margar þjónuðu öðrum allt sitt líf; enn aðrar neyddust til þess eftir að þær urðu ekkjur. Innan hvers þessara hópa var efnaleg staða ólík og í fyrirlestrinum verður grein gerð fyrir og mat lagt á ógrynni upplýsinga þar að lútandi í uppskriftum dánarbúa og uppboðsbókum, sem mikið er til af.

Mikael M. Karlsson, prófessor í heimspeki

Rök Parmenídesar

Rætt verður um fræg rök Parmenídesar sem hann setti fram í „Vegi sannleikans“ fyrir nær 2500 árum síðan, en rök hans hafa haft gífurleg áhrif á verufræði-, rökfræði- og málspekikenningar í gegnum tíðina og fram á okkar daga. Þrátt fyrir aldur þeirra er deilt um túlkun þessara raka, jafnvel um hvað sé forsenda og hvað niðurstaða. Og skýringar nútíma spekinga eru oft afar flóknar og skrautlegar og þar með ekki trúverðugar. Mín túlkun á rökum Parmenídesar, sem ég hef kennt í u.þ.b. fjörtíu ár, er frekar einföld og að mínum dómi mun líklegri en margar aðrar. E.t.v. er tími kominn til að gera grein fyrir henni á málþingi og síðan á prenti.

Nikola Trbojevi, doktorsnemi í fornleifafræði Wood requirements of early Icelandic farmsteads

The academic research on the subject of loss of Icelandic woodlands during the Settlement period in the late 9th and early 10th centuries has produced a variety of descriptions of this environmental change but it has failed to offer a detailed account of different kinds of impacts on woodlands committed in order to fulfill the fundamental requirements of the Settlement population.

By examining the actual impact on woodlands made by the early farmsteads, as the epicenters of environmental change, caused by the needs for living space, hayfields, building material and fuel as the basic requisites for their subsistence, we can quantify the initial woodland clearance and determine the part played by these requirements in the overall process of deforestation.

Ninna Sif Svavarsdóttir, doktorsnemi í guðfræði

Um „guðleysi“ Esterarbókar og guðfræði Gamla testamentisins

Í þessu erindi verður fjallað um Esterarbók Gamla testamentisins sem hefur þá sérstöðu innan ritasafnsins, að þar er Guð hvergi nefndur. Það er því umhugsunarefni hvernig slík bók rataði í Gamla testamentið og ekki síður hvort hún eigi erindi í fræðigrein sem nefna má guðfræði Gamla testamentisins. Esterarbók segir frá atburðum sem er ætlað að eiga sér stað við persnesku hirðina og lýsir aðstæðum Ísraelsþjóðarinnar í útlegð. Í erindinu verður fjallað um það hvernig líta má á Esterarbók sem dæmi – eða hvatningarsögu – sem er ætlað að lýsa því hvernig mögulegt – og æskilegt – væri að lifa í útlegð. Þar er persóna Esterar, sem hefur fengið misjafnar viðtökur í túlkunarsögunni, í forgrunni.

Oddný G. Sverrisdóttir, dósent í þýsku

Lýsingar tveggja þýskumælandi kvenna á Íslendingum: „Die Männer sind meist häßlich, die Weiber weniger...“ (Ida Pfeiffer)

Fjallað verður um nokkur atriði sem fram komu í lýsingum Idu Pfeiffer og Inu von Grumbkow á Íslendingum og íslenskum aðstæðum. Mjög ólíkar ástæður liggja að baki ferðalögum þessara tveggja kvenna til Íslands. Ida Pfeiffer, sem var austurrísk, kom til Íslands árið 1845 og eru ferðalýsingar hennar oft mjög nákvæmar um það sem hún tók eftir og lýsti í fari Íslendinga. Slysið í Öskju árið 1907, þar sem Walter Knebel og Max Rudloff fórust, varð tilefni þess að Ina von Grumbkow frá Berlín kom til Íslands árið 1908 og skrifaði bók sína Ísafold –Ferðamyndir frá Íslandi.

Olga Holownia, doktor í bókmenntafræði

Öfugumeginframúrstefnuljóðlist bragara bjagara. Er bull bara bull? Um íslensk „bullljóð“ (none-sense) ljóð fyrir börn

Í The Poetry of Nonsense (1925) segir Émile Cammaerts að eingöngu enskir rithöfundar hafi yndi af bulli á meðan þetta sérkennilega fyrirbæri sé því sem næst vanrækt í öðrum löndum. Vísur Æra-Tobba og barnaljóð Þórarins Eldjárns eru meðal helstu dæma sem vísa staðhæfingu Cammaerts á bug. Í erindinu verður fjallað um íslensk „bullljóð“ (nonsense verse) fyrir börn með hliðsjón af fræðilegum kenningum um bókmenntalegt bull (m.a. Cammaerts, Elizabeth Sewell, Wim Tigges). Stefnt er að því að sýna fram á að bullkvæðin hvetji til heilbrigðs endurmats á því sem við höfum haft tilhneigingu til að vanmeta og taka sem gefnu.

Ólöf Garðarsdóttir, dósent í sagnfræði, Menntavísindasviði

Lífslíkur og heilsufar ungbarna á 19. öld eftir félagslegum uppruna

Á síðari hluta 19. aldar urðu miklar breytingar á lífslíkum ungra barna á Íslandi. Um miðbik 19. aldar dó hátt í þriðjungur íslenskra barna fyrir eins árs afmælisdaginn sinn en um aldamótin 1900 hafði þetta hlutfall lækkað í 10%. Ýmsir félagslegir þættir höfðu sitt að segja um lífslíkur barna. Dánartíðni meðal barna ógiftra mæðra var mun hærri en meðal þeirra sem fæddust í hjónabandi og þjóðfélagsuppruni foreldranna réð miklu um lífslíkur barna. Í erindinu verður fjallað um það hvernig lækkaður ungbarnadauði birtist í ólíkum þjóðfélagshópum.

Pétur Knútsson, dósent í ensku

Heimild og lögform: Sannleikshugtakið hjá Ara fróða sem þýðingarvandamál

Hugmyndir fræðimanna um áreiðanleika sögulegra heimilda frá miðöldum tóku róttækum breytingum á síðari hluta 20. aldar. Hin fleygu einkunnarorð Ara fróða um það er sannara reynist leika því lykilhlutverk í þessari umræðu. Annars vegar má telja þau ágæta lýsingu á fræðilegri aðferðafræði nútímans, jafnt í sagnfræði, lögfræði, raunvísindum og víðar; en hins vegar virðast þau bera vott um grófan hugmyndafræðilegan óheiðarleika. Ég mun reyna að bjarga heiðri Ara með því að höfða til þýðingarfræðinnar, og um leið gera tilraun til að staðsetja sjálfsímynd íslensks miðaldasamfélags í landfræðilegu rými sem helgast af tveimur höfuðáttum: heima og að heiman.

Pétur Knútsson, dósent í ensku

Ordination and sentence accent: some English and Icelandic differences

I shall discuss the subordinative tendency in English prose and the coordinative or appositive tendency in Icelandic prose, which is a well-documented syntactic/stylistic problem (for translators or example), and relate it to the little-discussed difference of “deaccenting” in spoken English as against “reaccenting” in spoken Icelandic. My rather speculative thesis will be that both effects are correlative, or at least have common denominators. This approach also entails a claim that the indexical functions of prose syntax, in particular the split between direct/indirect discourse and Bakhtinian dialogic discourse, can also be approached in terms of speakable and unspeakable intonation (or accentuation). I draw on the ideas of Alan Cruttenden (de- and re-accenting) and Charles Lock (unspeakable intonation).

Pétur Pétursson, prófessor í guðfræði

Jesúgervingurinn í Unuhúsi og lýsingarnar af honum

Húsið fræga við Garðastræti, sem kennt er við Unu, var samastaður fjölda skálda og listamanna á fyrri hluta 20. aldar. Erlendur, sonur Unu, hefur orðið goðsagnapersóna í frásögum gesta hússins. Þar ber fyrst að nefna Þórberg Þórðarson sem lýsir fyrstu kynnum sínum af Erlendi í bókinni Ofvitanum á þann hátt að líkast er því að hann hafi þar mætt Jesú Kristi sjálfum. Því hefur verið haldið fram að Erlendur sé á bak við ýmsar persónur í verkum Laxness og þar býr hann einnig yfir ýmsum eiginleikum sem prýddu meistarann frá Nasaret. Gerð verður grein fyrir ágreiningi þessara jöfra íslenskra bókmennta um velgerðamann sinn Erlend í Unuhúsi og fjallað um þá tilgátu að hann hafi verið fyrirmynd Nínu Tryggvadóttur að altaristöflunni í Skálholtskirkju. Nína var einn af fastagestunum í Unuhúsi.

Fjallað verður um mikilvægi Jesúgervinga í þessu samhengi og hvort fyrirmyndin hafi haft meiri þýðingu fyrir róttæka listamenn en almennt hefur verið haldið.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson, doktorsnemi í bragfræði

Jafngildisflokkar í íslenskum kveðskap

Jafngildisflokkur kallast sá hópur hljóða sem getur sameinast um stuðlun. Samkvæmt því mynda allir sérhljóðar einn jafngildisflokk. Aðalreglan er síðan sú að hver samhljóði myndar einn flokk. En málið er þó ekki svo einfalt. Til dæmis mynda orð sem byrja á /s/ marga jafngildisflokka. Framgómmælt og uppgómmælt /g/ stuðla hins vegar saman. Sömu sögu er að segja um framgómmælt og uppgómmælt /k/. Þá hefur ekki síður þótt undarlegt að öll orð sem hefjast á /h/ skuli mynda einn jafngildisflokk í yngri kveðskap. Þessir jafngildisflokkar verða skoðaðir og reynt að rýna í það sem að baki liggur.

Ragnheiður Kristjánsdóttir, aðjunkt í sagnfræði

Af umræðu um afnám þingræðis á Íslandi

Í umræðum um íslenska stjórnskipun á 20. öld kom nokkrum sinnum til tals að afnema þingræði (í þröngum lagalegum skilningi þess orðs). Á millistríðsárunum voru efasemdir um þingræði settar fram í bland við efasemdir um gildi fulltrúalýðræðis. Í tengslum við og í framhaldi af lýðveldisstofnun komu hins vegar fram tillögur um að fela forseta aukin völd. Hugmyndir um afnám þingræðis lágu í láginni frá 6. áratugnum og fram til þess að Bandalag jafnaðarmanna setti fram tillögur sem meðal annars fólu í sér breytingar á tengslum þings og stjórnar. Í fyrirlestrinum verður fjallað um framangreindar hugmyndir, sögulegt samhengi þeirra og sameiginlega þætti. Í lokin verður minnst á yfirstandandi stjórnkerfiskreppu sem hófst líklega upp úr síðustu aldamótum.

Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku

Hin nýja kona í rússneskum samtímabókmenntum

Stórskáld Rússa á 19. öld sköpuðu margar ódauðlegar kvenpersónur í verkum sínum – sem í fljótu bragði virðast annaðhvort dyggðum prýddar eða fallnar og þar með jafnvel glataðar. Þessar konur voru sprottnar úr hugarheimi karla, í samfélagi sem rekið var og stjórnað af körlum. Konur sem sinntu skriftum voru ekki margar, en þó nokkrar. Á undanförnum árum hefur mikill fjöldi kvenna í Rússlandi gert ritstörf að aðalstarfi sínu. Hvernig skyldi rússneskum kvenpersónum hafa reitt af í samtímabókmenntum kynsystra sinna – og hvaða augum líta ungar íslenskar konur þessar nýju kvenhetjur?

Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki

„Alltaf skal hann inna eftir rökum. Sá gleypir ekki við öllu, sem honum er sagt!“ Um Sókrates og rökræðuna

Nafn Sókratesar er tengt rökræðu órofa böndum. Í vestrænni heimspeki er Sókrates ímynd heimspekingsins sem samþykkir ekki neina skoðun nema hann hafi rök fyrir henni. Þessari viðteknu hugmynd um Sókrates er endrum og sinnum hafnað af nútíma gagnrýnendum Sókratesar sem telja hann mælskumann hinn mesta, engu skárri en Sófistarnir voru. Sókrates sé þá verður gagnrýni fyrir að standast ekki þær kröfur sem hann sjálfur (og nútíma heimspekingar) gera um rök (og ekkert nema rök) í málflutningi heimspekingsins. Í erindinu verða rök færð fyrir því að (i) Sókrates uppfylli ekki þær kröfur sem margir nútíma heimspekingar gera um rök (og ekkert nema rök) í málflutningi heimspekings, en (ii) hann sé ekki gagnrýnisverður af þeirri ástæðu, hann lendi að minnsta kosti ekki í neinni mótsögn við sjálfan sig. Í verkum Platons eru það stundum aðrir en Sókrates sem eru fulltrúar þess viðhorfs að við eigum ávallt að inna eftir rökum og að heimspeki sé greining rökfærslna.

Róbert Jack, doktorsnemi í heimspeki

Skyggnigáfa eða almenn sannindi: Platon um íslensku efnahagskreppuna

Í Ríkinu eftir Platon, sem ritað er á 4. öld f.Kr., er meðal annars fjallað um hvernig innri gerð fólks samræmist því samfélagi sem það byggir. Sálfræðin sem hér liggur að baki stendur vissulega langt að baki þeirri lýsingu sem fyrir liggur nú. Við að lesa 8. bók Ríkisins um hnignun samfélagsins getur Íslendingurinn þó vart annað en staldrað við og spurt sig hvort Platon hafi haft til að bera skyggnigáfu eða hvort hann hafi einfaldlega fundið almenn sannindi um dýrkun auðsins. Ástæðan er að afleiðingar auðveldisins sem Platon lýsir eru svo sláandi líkar því sem gerðist (og er að gerast) í tengslum við íslensku efnahagskreppuna.

Rúnar Helgi Vignisson, lektor í ritlist

Höfundurinn hefur orðið

Nýverið var farið að bjóða ritlist sem aðalgrein til BA-prófs. Þar eru orð til alls fyrst og mikil áhersla lögð á sköpun og hugmyndaauðgi. Í erindi sínu hyggst Rúnar Helgi fjalla um sköpun og sköpunarferli. Hann spyr sig m.a. hvað felist í ritlistarhugtakinu, hvaðan hugmyndirnar komi, hvað frumleiki sé, um þátt höfundar í sköpunarverki sínu, um vægi sögunnar og um mörk skáldskapar og veruleika. Síðast en ekki síst veltir hann fyrir sér hvort og þá að hve miklu leyti sé hægt að læra til rithöfundar.

Sif Ríkharðsdóttir, nýdoktor hjá Bókmenntafræðistofnun

Meykóngahefðin. Bókmenntaminni eða samfélagslegur veruleiki

Í fyrirlestrinum verður fjallað um meykóngahefðina sem bókmenntaminni og möguleg tengsl þess við ákveðin hugmyndafræðileg átök í samtíma verkanna. Með því að setja fram sögur um konur sem valdhafandi aðila innan þjóðfélagsins, sem neita að undirgangast hefðbundin kynhlutverk sín og sýna hvernig tekist er á við þá samfélagslegu áskorun sem felst í því, er hægt að vinna úr ákveðnum samfélagslegum hugmyndum um kynhlutverk og samfélagsstöðu á öruggan hátt. Leitast verður því við að sýna hvernig túlka má meykóngasögurnar sem ákveðna (meðvitaða eða ómeðvitaða) viðleitni til að staðsetja kyngervi innan samfélags með því að staðsetja það innan frásagnarheimsins.

Sigríður Þorvaldsdóttir, aðjunkt í íslensku fyrir erlenda stúdenta og María Garðarsdóttir, aðjunkt í íslensku fyrir erlenda stúdenta Tilgátusviðið

Manfred Pienemann (1998) tilheyrir þeim hópi fræðimanna sem líta á máltileinkun sem stigvaxandi ferli þar sem sjá megi algild tileinkunarstig, óháð móðurmáli málnema. Breytileika í millimáli útskýrir kenningin með hugtakinu tilgátusvið sem takmarkast af þeim aðgerðum sem málneminn ræður við hverju sinni. Tilgátusviðið víkkar út með hverju stigi og þar með fjölgar mögulegum tilgátum sem málneminn getur sett fram. Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að breytileika í millimáli íslenskumálnema og hann ræddur í samhengi við hugtakið tilgátusvið.

Sigurður Pétursson, lektor í latínu og grísku

Optata tandem lux venit (Loks rennur langþráður dagur upp)

Eins og margir vita ortu lærdómsmenn 17. og 18. aldar gjarnan tækifærisljóð á latínu á merkum tímamótum. Brúðkaupskvæði voru algeng og við fyrstu sýn virðast þau tíðum vera nokkuð keimlík. Í þeim er oft að finna blöndu af klassísku myndmáli, íslenskum veruleika og kristnum boðskap. Árið 1721 gekk biskupssonurinn Guðmundur Steinsson Bergmann að eiga Margréti Einarsdóttur, prestsdóttur frá Görðum á Álftanesi. Bæði áttu þau ættir að rekja til mikilla lærdómsmanna sem þekktu vel lærdómshefðir latnesks kveðskapar. Brúðkaupskvæði það sem presturinn Þorleifur Skaftason orti á latínu til brúðhjónanna og varðveitt er í handriti á handritadeild Landsbókasafnsins (Lbs 303 4to) er í senn hefðbundið og óhefðbundið. Ekki er minnst á Guð einu orði. Gleymdist það? Varla. Klassískt myndmál er svo vel úr garði gert og hugsun skáldsins svo mannleg og skilningsrík eins og upphaf ljóðsins, Optata tandem lux venit, gefur til kynna að erfitt er að ímynda sér að kvæðið sé ekki þaulhugsað. Þetta er eitt atriðið sem gerir ljóðið óvanalegt og vekur upp spurningar ekki aðeins um innihald þess heldur og þá breidd sem er að finna í latneskum kveðskap almennt. Höfundurinn svo og þær aðstæður sem mynda baksvið brúðkaupskvæðisins vekja einnig forvitni. Leitast verður við að svara eftir megni þeim spurningum sem tengjast kvæðinu og tilurð þess.

Sigurvin Jónsson, MA-nemi í guðfræði

Arftakar og örlög lagahefða í frumkristnum hreyfingum

Á undanförnum árum hafa sjónir fræðimanna beinst að ólíkum hópum eða hreyfingum þegar í bernsku kristindómsins. Rannsóknir á þessum hreyfingum sýna svo ekki verður um villst að frá upphafi þessara nýju trúarbragða brugðust einstaklingar og hópar við boðskap Jesú frá Nasaret með ólíkum hætti. Hópunum átti aðeins eftir að fjölga þegar fram liðu stundir eða þar til kirkja Konstantínusar mikla (280-337 e.Kr.) sneri þessari þróun við. Þær fjölmörgu hreyfingar sem urðu til á fyrstu öldum kristindómsins er gjarnan reynt að flokka saman eftir helstu hugmyndafræðilegum áherslum. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um hópa sem áttu þann samnefnara helstan að leggja lögmál Gyðinga áfram til grundvallar túlkun sinni á Jesú Kristi. Sérstaklega verður fjallað um þann hóp sem stendur að baki ritum sem kennd eru við Klemens Rómarbiskup en eru betur þekkt sem Rit Skugga-Klemensar (The Pseudo-Clementine Literature) og sérstöðu þeirra innan þessa flokks.

Simona Storchi, sendilektor í ítölsku

Using Corpora in Language Learning

Language corpora have been used by linguists to gather information about language for several decades. These huge databases of texts have also been employed in language teaching and textbook writing as a source for authentic material. However their use in practical language learning is not widespread yet, particularly among teachers of Italian as foreign language.

This presentation will introduce some background reasons for using online corpora in language learning (promoting student autonomy, access to real life texts, huge amount of available data) and will show a few examples in practical teaching: providing students with input to explore some Italian corpora that are easily accessible and with a friendly interface.

Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur, Háskólasetrinu í Hornafirði Menningarhrunið

Samfara hruninu mikla í íslensku efnahagslífi hefur átt sér stað annað hrun sem minna hefur borið á en getur engu að síður haft í för með sér alvarlegar afleiðingar. Hér á ég við hvernig vegið hefur verið að vitrænni umræðu um menningarmál – og kannski sérstaklega hvað varðar bókmenntir – í prentfjölmiðlum og sjónvarpi. Í erindinu mun ég tala út frá reynslu minni af því að starfa sem bókmenntafræðingur og gagnrýnandi í meira en aldarfjórðung og gera tilraun til að skoða þróunina í bókmenntaumfjöllun og gildismati eins og það hefur birst í prentmiðlum undanfarin ár. Auk þess mun ég hugleiða þátt annarra miðla, svo sem sjónvarps og útvarps.

Stefano Rosatti, aðjunkt í ítölsku

Orðaforði fyrsta árs ítölskunema í töluðu og rituðu máli

Hver er ítölskukunnátta nemenda sem koma beint úr menntaskóla og hefja nám í ítölsku við Háskóla Íslands? Eru þeir í stakk búnir til að takast á við þau verkefni sem lögð eru fyrir þá? Í fyrirlestrinum verður litið á orðaforða málnema sem kemur beint úr íslenskum menntaskóla. Orðaforði hans bæði í töluðu og í rituðu máli verður greindur og metinn út frá evrópska tungumálarammanum og niðurstöðurnar ræddar með ofangreindar spurningar í huga.

Steinunn Kristjánsdóttir, dósent í fornleifafræði

Skriðuklaustur – í afskekktum dal eða alfaraleið?

Staðsetning Skriðuklausturs kann að þykja einkennileg eins og hún blasir við í dag innst inn í afskekktum dal á Fljótsdalshéraði. Hvarvetna stóðu miðaldaklaustrin í alfaraleið vegna þess grundvallarhlutverks þeirra að taka á móti öllum þeim sem þurftu á andlegri eða líkamlegri aðstoð að halda. Greiningar á fiskbeinum úr uppgrefti á rústum klaustursins kom fornleifafræðingum á sporið við leit að skýringum á staðsetningu klaustursins en í ljós kom að þorskmeti það sem neytt var á staðnum var upprunnið frá sunnanverðu Íslandi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um niðurstöður þessara greininga og hvernig þær færðu Skriðuklaustur úr afskekktum dal í alfaraleið.

Sumarliði R. Ísleifsson, sagnfræðingur

Af hverju áhugi á Íslandi? Ferðabækur og ímyndir

Rætt verður um ferðabækur frá Íslandi, hvenær ferðabókaritun hefst og hvenær hún nær hámarki. Þá er fjallað um ferðabækur sem heimildir og hvernig megi nota þær á ýmsa vegu, til dæmis til rannsókna á þjóðarímyndum. Tekin verða nokkur dæmi um slíka heimildanotkun frá 16. til 20. aldar.

Svanhildur Óskarsdóttir, rannsóknardósent, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum Dýrlingar á 14. öld: Vinsældalistinn samkvæmt vitnisburði handrita

Það er vel kunnugt að 14. öldin var blómaskeið helgisagnaritunar í nýjum stíl sem einkennist af miklum útleggingum og flúruðu máli. Af ástsælum dýrlingum urðu til nýjar sögur sem féllu að breyttum smekk. En jafnframt bættust nýir dýrlingar í hóp þeirra sem áttu sér sögur á íslensku. Í erindinu verður hugað að þessum nýliðum, athugað hvaða upplýsingar handritavarðveisla getur veitt um vinsældir dýrlinga, bæði þeirra gamalgrónu og nýliðanna, og reynt að svara því hvað réð mestu um það hvaða dýrlingum var haldið á loft.

Svavar Hrafn Svavarsson, dósent í heimspeki

Sextos Empeirikos

Róttæk efahyggja fornaldar, eins og Sextos Empeirikos framreiðir hana, hefur að geyma dularfullar hugmyndir um skoðanir, réttmæti þeirra og afleiðingar. Frægasta hugmyndin er sú að ekki sé ástæða til að hafa skoðanir, þótt manni geti sýnst ýmislegt. Eins og gefur að skilja hefur hugmyndin verið túlkuð á ólíkan hátt, og því hefur róttæk efahyggja verið túlkuð á ólíkan hátt.

Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í bókmenntum

Göngur og ferðir í ljóðum Gyrðis Elíassonar

Ljóðmælendur Gyrðis Elíassonar eru oft á gangi eða ferð og lýsa umhverfinu eða þönkum sínum í ljósi þess. Í fyrirlestrinum verður fjallað um það hlutverk sem göngur og ferðir gegna í rómantískum og japönskum skáldskap, enda má líta á ljóðagerð Gyrðis sem eins konar framhald á slíkum yrkingum og afstöðu. Að mörgu er að hyggja í því sambandi, meðal annars afstöðunni til umhverfisins, hugmyndinni um lífið og skáldskapinn sem ferðalag, svokölluðu innra landslagi (fr. paysage intérieur), að ógleymdri ánægjunni af því að hreyfa sig og njóta umhverfisins. Í fyrirlestrinum verður því haldið fram að gangan eða ferðin sé ekki einfaldlega minni eða tilfallandi líking í skáldskap Gyrðis, heldur gegni hún víðtækara hlutverki og sé eins konar samnefnari fyrir afstöðu hans til lífs og ljóðs.

Sverrir Tómasson, rannsóknarprófessor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum Íslenskar hirðbókmenntir á 14. öld

Handrit það sem gengur undir nafninu Ormsbók er nú glatað. Það varð líklega eldi að bráð árið 1697 þegar Stokkhólmskastali brann. Það hafði að geyma allmargar riddarasögur sem sænskir orðabókarmenn á 17. öld vitnuðu mjög í. Með því að bera þessar tilvitnanir saman við uppskriftir þær sem Jón Vigfússon gerði milli 1690 og 1691 hefur textafræðingum tekist að gera sér nokkra grein fyrir efni þess. Það hefur verið talið að Ormur Snorrason, lögmaður og hirðstjóri (d. 1401), hafi átt þetta handrit.

Ætlunin með lesi mínu er að kanna inntak nokkurra þeirra sagna sem hafa verið í Ormsbók, gera grein fyrir því hvernig lýsingar þeirra á atferli og hegðan erlendra riddara gæti endurspeglað lífstíl og siðvenjur íslenskra riddara á 14. öld.

Tania E. Strahan, nýdoktor hjá Málvísindastofnun

Functional and anaphoric control in Icelandic

There are only a handful of true functional control verbs in Icelandic (eg 1), yet many verbs that subcategorise for an NP object (2) can also take a nonfinite complement clause whose subject must be the same as the subject of the matrix verb (3). These appear to be instances of anaphoric control.

1. 2. 3.

Jón bað hana [að leggja sig]. Hún sleppir [tækifærinu] / [því]. Hún sleppir [að leggja sig].

In this talk, I look at the evidence for anaphoric and functional control of nonfinite complement clauses in Icelandic and show that the distinction between the two is not always clearcut.

Torfi H. Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum

Spegillinn Egill. Íslendingasögur og kynslóðirnar

Þónokkrar Íslendingasögur segja sögu fleiri en einnar kynslóðar og er sambandið milli þeirra gjarnan spennuþrungið. Jafnframt fjalla Íslendingasögur í mörgum tilfellum um nána forfeður þeirra sem sögurnar voru ætlaðar í upphafi. Kynslóðir speglast því með ýmsum hætti í sögunum, bæði innan þeirra og hjá höfundum þeirra og viðtakendum. Fjallað verður um þessar speglanir í erindinu, m.a. með hliðsjón af kenningum um tengsl listaverka og sálarlífs.

Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki

Siðferðileg greining bankahrunsins

Í þessu erindi mun ég ræða um verkefni vinnuhóps um siðferði og starfshætti á vegum rannsóknarnefndar Alþingis í tengslum við bankahrunið. Ég mun velta fyrir mér þeim vanda sem vinnuhópurinn stóð frammi fyrir varðandi efnisafmörkun, efnistök og aðferðafræði. Ég mun leitast við að sýna hvernig siðferðileg hugtök skipta máli við greiningu á þessum atburðum og uppgjör þjóðarinnar við þá. Framsetning mun ráðast af því hvort skýrslan verður komin út eða ekki.

Þorgeir Sigurðsson, MA í íslenskum fræðum

Aldur dróttkvæða metinn út frá bragfræðilegum einkennum

Dróttkvæður háttur þróaðist í átt til sífellt meiri reglufestu. Þessu er lýst og útskýrt hvernig nota megi þetta einkenni til að aldursgreina kvæði og söfn lausavísna.

Þorvarður Árnason, umhverfisfræðingur og ljósmyndari, forstöðumaður Háskólasetursins í Hornafirði Seigfljótandi, formbrigðul fegurð – skriðjöklar í Austur-Skaftafellssýslu

Jöklar finnast – eðli málsins samkvæmt– alla jafnan á slóðum sem eru utan eða á mörkum hins byggilega heims. Jöklar setja hins vegar mikið mark á landslag á Íslandi og er því nánast ógerlegt að horfa til fagurfræði íslenskrar náttúru án þess að huga að jöklum. Jöklar eru jafnframt stór og sérkennileg fyrirbæri sem eru um margt framandi mönnum og eru því verðugt viðfangsefni fagurfræðilegrar umhugsunar.

Skriðjöklar eru afar kvik náttúrufyrirbæri sem geta tekið miklum útlitsbreytingum á tiltölulega skömmum tíma. Ásýnd þeirra breytist ekki aðeins vegna hopunar og framgangs, heldur tekur hún einnig reglulegum árstíðabundnum breytingum. Fegurð þeirra er því jafnvel enn erfiðara að höndla en annarra náttúrufyrirbæra. Í erindinu verður fjallað um forsendur fagurfræðilegs mats á skriðjöklum á suðaustur Íslandi, einkum í ljósi þeirra breytinga sem hafa átt sér stað á einum þeirra, Hoffellsjökli, yfir tveggja ára tímabil.

Þórhallur Eyþórsson, sérfræðingur hjá Málvísindastofnun

Fallmörkun í þolmynd í íslensku (og færeysku)

Í íslensku hefur fallmörkun rökliða í þolmynd verið tiltölulega stöðug í gegnum tíðina – með einni meginundantekningu: uppkomu nýju þolmyndarinnar svokölluðu (t.d. Það var barið mig). Nýja þolmyndin er óvenjuleg vegna þess að þar „varðveitist“ þolfall andlagsins með sögnum eins og berja en í hefðbundinni þolmynd kemur nefnifall í stað þolfalls (t.d. Það var barinn lítill strákur). Á undanförnum árum hafa ýmsar tilgátur verið settar fram um varðveislu þolfallsins í nýju þolmyndinni. Í fyrirlestrinum verða nokkrar slíkar tilgátur bornar saman með tilliti til þess hversu vel rökstuddar þær eru og hvort þær spá fyrir um svipaðar setningagerðir í íslensku og öðrum tungumálum. Í því sambandi verður einkum höfð hliðsjón af færeysku en þar kemur fyrir setningagerð sem sver sig í ætt við nýju þolmyndina í íslensku (t.d. Tað bleiv givið gentuni telduna).

Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku

40, 60 eða 80 den?

Rýnt verður í orðaforða 11 málnema á fyrsta misseri í dönskunámi við HÍ. Til skoðunar er eitt verkefni, sem allir skrifuðu samtímis eftir sömu fyrirmælum. Heildarorðaforði hópsins verður metinn sem og þéttleiki og tíðnidreifing. Þá verður hugað að notkun orðasambanda og þau flokkuð. Málnemarnir hafa ólíkan bakgrunn allt frá því að koma beint úr framhaldsskóla og til þess að hafa búið í dönsku málsamfélagi í lengri tíma. Því má búast við ýmsum áhugaverðum einkennum á orðaforða einstakra málnema.

Þröstur Helgason, doktorsnemi í bókmenntum

Er einhver á línunni?

Er eftirspurn eftir menningarlegri og fagurfræðilegri umræðu í samfélaginu? Hvar eru snertifletir menningarlegrar umræðu og pólitískrar eða efnahagslegrar? Hvað fer í raun fram á hinu opna torgi lýðræðislegrar umræðu? Hverjir tala (saman)? Eða finnum við kannski fyrst og fremst til einmanakenndar á berangrinum? Í erindinu verður leitað dæma og vitnisburða úr menningu og fræðum sem kunna að varpa ljósi á þessar spurningar.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is